Leita
Hreinsa Um leit

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

520/2014

Reglugerð um úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna átaks til uppbyggingar á ferðamannastöðum sumarið 2014.

1. gr.

Tilgangur og markmið.

Reglugerð þessi setur ramma um sérstaka úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferða­mannastaða, sbr. lög nr. 75/2011 um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, vegna ákvörð­unar ríkisstjórnar Íslands um að veita auknum fjármunum til Framkvæmdasjóðs ferða­manna­staða sumarið 2014. Markmið með fjárveitingunni er að tryggja fjármuni til brýnna verkefna á ferðamannastöðum er lúta að verndun náttúru og öryggi ferðamanna.

2. gr.

Styrkhæf verkefni.

Í samræmi við 2. gr. laga nr. 75/2011 hefur stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða haft frumkvæði að því að afla upplýsinga um framkvæmdir á ferðamannastöðum sem eru brýnar vegna verndunar náttúru eða öryggis ferðamanna. Aflað var upplýsinga frá öllum sveitarfélögum landsins með milligöngu Sambands íslenskra sveitarfélaga, Umhverfis­stofnun, Vatnajökulsþjóðgarði, Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins með milli­göngu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Þingvallaþjóðgarði með milligöngu forsætis­ráðuneytisins. Í kjölfarið var settur saman listi yfir brýn verkefni sem sjá má í við­auka 1 við reglugerð þessa. Verkefni er skilgreint brýnt ef slit og álag á náttúru af völdum ferðamanna er mikið og fyrirsjáanlegur skaði ill- eða óbætanlegur. Sérstaklega er tekið tillit til skemmda á gróðri og öryggis ferðamanna. Kostnaðaráætlun skal liggja fyrir með öllum styrkhæfum verkefnum.

3. gr.

Framkvæmd og eftirlit.

Ferðamálastofa annast umsýslu með úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferða­manna­staða, þ.m.t. miðlun upplýsinga um úthlutun og samningsgerð við styrkþega.

Ferðamálastofa fylgist með framvindu verkefna sem hljóta styrki úr sjóðnum og kallar eftir framvindu- og lokaskýrslum og öðrum upplýsingum sem krafist er frá styrkþegum.

Ferðamálastofa annast eftirlit með verkefnum og reikningum frá samningsaðilum og yfirferð á því að staða verkefna sé í samræmi við framvindu- og lokaskýrslu. Ferða­mála­stofa upplýsir stjórn sjóðsins og eftir atvikum ráðuneytið ef veruleg frávik verða frá verk- eða framkvæmdaáætlun einstakra verkefna.

4. gr.

Greiðsla styrks og mat á framvindu verkefna.

Styrkur greiðist út í þrennu lagi; þ.e. 40% greiðist út eftir undirskrift samnings, 40% eftir samþykkta framvinduskýrslu og 20% eftir að fullnægjandi lokaskýrsla og reikningar hafa borist styrkveitanda.

Ef verkefnið er lítið eða vinnst mjög hratt er heimilt að skila einungis lokaskýrslu ásamt reikningum og fylgigögnum en þá gildir lokaskýrsla einnig sem framvinduskýrsla og greiðast þá eftirstöðvar styrksins í einu lagi.

Samningum um styrki skal lokið og þeir undirritaðir innan þriggja vikna frá því að ákvörðun um styrkveitingu er tilkynnt styrkþega. Styrkþega ber að skila inn fram­vindu­skýrslu og lokaskýrslu, ásamt ljósritum af öllum reikningum verkefnisins og greinar­gerð um eigið framlag sem telst hluti af heildarkostnaði, innan þess frests sem til­greindur er í samningi. Hafi samningur, framvindu- eða lokaskýrsla ekki borist fyrir til­settan tíma, fellur styrkurinn niður og verður afturkræfur, hafi ekki komið fram sér­stakar skýringar eða samið um annað.

Styrkur er einungis greiddur til samningsaðila vegna kostnaðar samningsaðila og reikn­inga sem útgefnir eru til samningsaðila, sem er ábyrgur fyrir verkinu og greiðslu til ann­arra samstarfsaðila og undirverktaka.

5. gr.

Skilyrði fyrir styrkveitingu og ábyrgð styrkhafa.

Styrkur er veittur til tilgreindra verkefna, sbr. 2. gr. Styrkþega er óheimilt að framselja styrkinn eða ráðstafa til annarra aðila eða til annarra verkefna. Reikningar vegna verk­efnisins skulu vera skýrt aðgreindir í bókhaldi frá annarri starfsemi.

Styrkþegi skal tilkynna Framkvæmdasjóði ferðamannastaða án tafar ef breytingar verða á högum hans sem geta haft áhrif á framkvæmd verkefnisins. Ef aðilaskipti eða breyt­ingar á högum skerða fyrirsjáanlega möguleika styrkþega á að ljúka verkefni á tilsettum tíma fellur réttur styrkþega til styrkveitingar niður.

Styrkþegi skal vinna verkið í samræmi við vinnuáætlun sem samþykkt er af Fram­kvæmda­sjóði ferðamannastaða. Styrkþegi skal leita fyrirfram samþykkis sjóðsins fyrir frávikum. Styrkur greiðist aðeins út ef gæði vinnu eru í samræmi við kröfur sjóðs­ins. Allur frágangur við verkefnið verður að vera til fyrirmyndar og í samræmi við lög, reglugerðir og samþykkt viðmið.

Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkjum (stórum sem smáum) er tengjast viðkomandi framkvæmd. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða tekur ekki á sig skuldbindingar við uppfærslu, viðhald eða viðgerðir á mannvirkjum sem tengjast styrk­veitingu.

Styrkþegi ábyrgist með undirritun á samningi að öll lögbundin leyfi og samþykktir vegna framkvæmdarinnar liggi fyrir.

Myndir sem teknar eru af svæði sem styrkurinn nær til skulu staðsettar þannig að auð­velt verði að taka samanburðarmyndir á sama stað síðar.

6. gr.

Vanefndir.

Brot styrkþega á gerðum samningum, eða öðrum skilmálum um úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, veitir sjóðnum heimild til að stöðva greiðslur til styrkþega. Brot á samningi getur einnig haft áhrif á möguleika styrkhafa til frekari styrkveitinga. Hafi styrkþegi þegar fengið hluta styrksins greiddan fyrirfram, veitir brot á samningi sjóðnum heimild til að krefjast fullrar endurgreiðslu.

7. gr.

Upplýsingagjöf til ráðherra.

Ferðamálastofa skal í samvinnu við stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða senda ráðherra yfirlit yfir stöðu verkefna þann 1. september. Þá getur ráðherra kallað eftir yfirliti um stöðu verkefna frá Ferðamálastofu eftir því sem þörf er á.

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 6. gr. laga nr. 75/2011 og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. maí 2014.

Ragnheiður Elín Árnadóttir

Kristján Skarphéðinsson.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)
Þetta vefsvæði byggir á Eplica