Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

192/2014

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1066/2013 um dragnótaveiðar í Faxaflóa. - Brottfallin

1. gr.

1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Fiskistofu er eingöngu heimilt að veita þeim skipum dragnótaleyfi í Faxaflóa, sem slík leyfi fengu á árinu 1997 og skipum sem komið hafa í þeirra stað. Skip skulu vera að hámarki 22 metrar að mestu lengd. Þó er Fiskistofu heimilt að veita leyfi skipum, allt að 24 metrum að mestu lengd, enda hafi þau haft leyfi skv. þessari reglugerð og verið lengd vegna kröfu yfirvalda um stöðugleika skipsins eða annarra öryggissjónarmiða.

2. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Heimilt er Fiskistofu að samþykkja flutning dragnótaleyfis frá skipi, sem rétt hefur til slíks leyfis samkvæmt 2. gr., til nýs skips, enda sé skip það sem veiðileyfið er flutt til ekki lengra en 22 metrar að mestu lengd og hafi auk þess aflahlutdeildir í skarkola og sandkola. Þó er Fiskistofu heimilt að samþykkja flutning dragnótaleyfis á skip, sem er allt að 24 metrum að mestu lengd, enda hafi skipið verið lengt vegna kröfu yfirvalda um stöðugleika skipsins eða annarra öryggissjónarmiða. Þá skal það skip sem dragnótaleyfi er flutt til eiga heimahöfn við leyfissvæðið, vera skráð innan svæðisins og gert þaðan út.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 6. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 17. febrúar 2014.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Jóhann Guðmundsson.

Baldur P. Erlingsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica