Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

1066/2013

Reglugerð um dragnótaveiðar í Faxaflóa. - Brottfallin

1. gr.

Dragnótaveiðar í Faxaflóa eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu skv. 2. gr.

2. gr.

Fiskistofu er eingöngu heimilt að veita þeim skipum dragnótaleyfi í Faxaflóa, sem slík leyfi fengu á árinu 1997 og skipum sem komið hafa í þeirra stað.

Eingöngu er heimilt að veita skipi leyfi til dragnótaveiða í Faxaflóa enda eigi skipið heimahöfn við leyfissvæðið, sé skráð þar og gert þaðan út.

Leyfi til þessara veiða skulu bundin því skilyrði að fari hlutur þorsks yfir 30% af heildarafla og skal leggja gjald á viðkomandi útgerð vegna þess þorskafla sem er umfram það, skv. lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

Á þeim tíma sem veiðar eru stundaðar samkvæmt dragnótaleyfi í Faxaflóa falla úr gildi önnur sérveiðileyfi skipsins. Kjósi útgerð báts, sem hefur slíkt leyfi, að stunda veiðar utan leyfissvæðis, er það þó heimilt með þeim skilyrðum að útgerðin afsali leyfi bátsins það sem eftir er af vertíðinni og tilkynni Fiskistofu skriflega um þá ákvörðun.

3. gr.

Dragnótaleyfi í Faxaflóa skulu bundin við tímabilið frá og með 1. september til og með 20. desember og svæðið innan línu milli Garðskagavita (64°04,9′N - 22°41,4′V) og Malarrifsvita (64°43,7′N - 23°48,2′V) og utan línu milli Hólmbergsvita (64°01,8′N - 22°33,4′V) í bauju nr. 6 (64°10,5′N - 22°05,40′V), þaðan í punkt 64°22′N - 22°23′V og síðan um Þormóðssker (64°26,0′N - 22°18,6′V)í land.

4. gr.

Veiðar eru bannaðar frá kl. 19.00 að kvöldi til kl. 07.00 að morgni. Einnig eru veiðar bannaðar á laugardögum og sunnudögum.

Veiðar eru bannaðar í Hafursfirði norðan og austan línu sem dregin er um eftirfarandi punkta:

1. 64°39,60′N - 22°27,20′V
2. 64°40,00′N - 22°50,00′V
3. 64°48,00′N - 22°50,00′V


5. gr.

Heimilt er Fiskistofu að samþykkja flutning dragnótaleyfis frá skipi, sem rétt hefur til slíks leyfis samkvæmt 2. gr., til nýs skips, enda sé skip það sem veiðileyfið er flutt til ekki lengra en 22 metrar að mestu lengd og hafi auk þess aflahlutdeildir í skarkola og sandkola. Þá skal það skip er dragnótaleyfi er flutt til eiga heimahöfn við leyfissvæðið, vera skráð innan svæðisins og gert þaðan út.

6. gr.

Hverju skipi sem hefur dragnótaleyfi í Faxaflóa er heimilt að veiða allt að 70 lestir af skarkola, sem dregst frá aflamarki þess.

7. gr.

Lágmarksstærð möskva í dragnót við veiðar í Faxaflóa er 155 mm. Að öðru leyti gilda ákvæði gildandi reglugerðar um dragnótaveiðar, um útbúnaður og gerð dragnótar.

Við mælingar á möskvum dragnótar gilda ákvæði reglugerðar um möskvamæla og framkvæmd möskvamælinga.

Óheimilt er að nota steinastiklara (rockhoppara) á fótreipi dragnótarinnar.

Við veiðar samkvæmt reglugerð þessari er óheimilt að hafa um borð í skipinu önnur veiðarfæri en það sem tilgreint er í 1. mgr.

8. gr.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út samkvæmt henni varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum skal farið að hætti sakamála.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 6. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 15. nóvember 2013.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Baldur P. Erlingsson.

Hrefna Karlsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica