Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

697/2013

Reglugerð um viðmiðunarmörk vegna niðurgreiðslna dreifingarkostnaðar rafmagns í dreifbýli. - Brottfallin

1. gr.

Viðmiðunarmörk og fjárhæð niðurgreiðslna dreifingarkostnaðar.

Viðmiðunarmörk vegna niðurgreiðslna dreifingarkostnaðar skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 98 9. júní 2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, skulu vera jöfn hæsta meðalkostnaði án fastra gjalda við dreifingu á forgangsorku í þéttbýli.

Meðalkostnaður við dreifingu raforku á svæðum þar sem heimiluð hefur verið dreifbýlisgjaldskrá skv. 5. mgr. 17. gr. raforkulaga, sem er umfram viðmiðunarmörk, skal greiddur niður allt að þeim mörkum. Til ráðstöfunar í þessu skyni eru þeir fjármunir sem ákveðnir hafa verið í fjárlögum til niðurgreiðslna, að teknu tilliti til ákvæða 2. mgr. 2. gr. þessarar reglugerðar. Jafnframt dregst frá ráðstöfunarfénu kostnaður við umsýslu Orkustofnunar samkvæmt áætlun sem iðnaðarráðherra hefur staðfest. Fé því sem þá er til ráðstöfunar til niðurgreiðslna skal skipt hlutfallslega þannig á milli veitusvæða að meðalkostnaður umfram viðmiðunarmörkin lækki í sama hlutfalli alls staðar.

2. gr.

Framkvæmd niðurgreiðslna.

Dreifiveitur, sem fengið hafa leyfi fyrir sérstakri dreifbýlisgjaldskrá skv. 5. mgr. 17. gr. raforkulaga nr. 65/2003, skulu fyrir 15. febrúar ár hvert senda Orkustofnun upplýsingar um fjölda kWst sem áætlað er að dreift verði á viðkomandi svæði á árinu, sundurliðað í orkugjöld, aflgjöld og föst gjöld. Orkustofnun reiknar út hlutdeild viðkomandi svæðis og greiðir helming niðurgreiðslufjárins fyrir 1. apríl. Fyrir 15. júlí skal viðkomandi dreifiveita senda Orkustofnun endurskoðaða ársáætlun. Orkustofnun skal fyrir 1. ágúst greiða síðari hluta framlags ársins skv. endurskoðaðri áætlun.

3. gr

Umsýsla niðurgreiðslufjár.

Framlag það sem dreifiveita fær til lækkunar dreifingarkostnaðar notenda er ekki eign viðkomandi dreifiveitu. Dreifiveita hefur umsýslu með fénu og ber að nota framlagið til þess að lækka dreifingarkostnað notenda á viðkomandi dreifiveitusvæði í hlutfalli við raforkunotkun hvers notanda. Notendur skulu fá upplýsingar um hve mikið framlagið lækkar gjaldið í kr./kWst að meðaltali.

4. gr.

Úrræði Orkustofnunar.

Fari dreifiveitur ekki að ákvæðum reglugerðar þessarar getur Orkustofnun krafist þess að úr verði bætt að viðlögðum dagsektum. Dagsektir geta numið 10-500 þús. kr. á dag. Við ákvörðun dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Fari leyfishafi ekki að tilmælum Orkustofnunar skal hún veita ráðherra upplýsingar um málið.

5. gr.

Gildistaka og reglugerðarheimild.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. gr. laga nr. 98 frá 9. júní 2004 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 773/2005, um viðmiðunarmörk vegna niðurgreiðslna dreifingarkostnaðar rafmagns í dreifbýli, með síðari breytingum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 2. júlí 2013.

Ragnheiður Elín Árnadóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Kristján Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica