Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

87/2013

Reglugerð um Skagafjarðarveitur - hitaveita.

I. KAFLI Rekstrarform, tilgangur o.fl.

1. gr. Eignarhald.

Skagafjarðarveitur - hitaveita er B-hluta stofnun innan Sveitarfélagsins Skagafjarðar, í reglugerð þessari nefnd SKV-hitaveita.

2. gr. Tilgangur.

Tilgangur SKV-hitaveitu er að meginstefnu rekstur hitaveitna og önnur sú starfsemi sem tengist vinnslu, dreifingu og sölu á heitu vatni.

3. gr. Veitusvæði.

Veitusvæði SKV-hitaveitu er lögsagnarumdæmi Sveitarfélagsins Skagafjarðar, en auk þess þau önnur sveitarfélög sem gera samkomulag við SKV-hitaveitu þar að lútandi. SKV-hitaveita hefur einkaleyfi til dreifingar og sölu á heitu vatni í lögsagnarumdæmi Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

II. KAFLI

4. gr. Stjórnskipulag.

Veitunefnd, sem heyrir beint undir sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar, fer með stjórnun SKV-hitaveitu.

Nefndin er ákvörðunarbær þegar meirihluti hennar sækir fund.

Rétt til setu á fundum veitunefndar, með málfrelsi og tillögurétt, hefur sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, sbr. 6. gr.

5. gr. Verksvið veitunefndar.

Helstu verkefni veitunefndar eru:

  1. Annast stefnumótun um uppbyggingu, rekstur og þjónustusvið hitaveitunnar.
  2. Gera áætlanir um öflun og dreifingu á heitu vatni og vinna að framkvæmd þeirra í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma.
  3. Gera gjaldskrá fyrir SKV-hitaveitu.
  4. Gera meiriháttar samninga um sölu á heitu vatni.
  5. Gera árlega fjárhagsáætlun og eftir atvikum langtíma áætlun, samkv. gildandi lögum og reglum.
  6. Gefa sveitarstjórn þær skýrslur sem óskað er eftir.

6. gr. Sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs.

Sveitarstjórn ræður sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs sem annast skal rekstur SKV-hitaveitu. Sviðsstjóri ræður starfsmenn til veitu- og framkvæmdasviðs í samráði við sveitarstjóra eftir þörfum. Sviðsstjóri situr fundi veitunefndar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

7. gr. Fjárhagur.

SKV-hitaveita skal hafa sjálfstæðan fjárhag og sjálfstætt reikningshald, sem B-hluta stofnun sveitarsjóðs. Reikningsár SKV-hitaveitu er almanaksárið.

Tekjum hitaveituhluta SKV-hitaveitu skal varið til að standa straum af nauðsynlegum rekstri og stofnkostnaði þannig að tryggður sé öruggur rekstur hitaveitunnar, svo og til greiðslu afborgana og vaxta af skuldum hitaveitu. Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skal ákveðin af framkvæmda- og veitunefnd.

III. KAFLI Almenn ákvæði.

8. gr. Húsveita, kaupandi o.fl.

Eigandi húseignar, eða annarra mannvirkja er hafa húsveitur tengdar SKV-hitaveitu, telst eigandi húsveitu. Kaupandi vatns er sá sem skráður er fyrir viðkomandi mæli eða hemli hjá SKV-hitaveitu hverju sinni.

9. gr. Afhending og meðferð vatns, eignarréttur o.fl.

SKV-hitaveita afhendir heitt vatn um veitukerfi sitt í samræmi við gildandi reglur og gjaldskrá á hverjum tíma.

Sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs er heimilt að semja sérstaklega um sölu á vatni utan almennra söluskilmála. Slíkir samningar skulu háðir samþykki veitunefndar.

SKV-hitaveitu er heimilt að nota aftur heitt vatn, sem runnið hefur gegnum hitakerfi hvers húseiganda (bakrennslisvatn), endurgjaldslaust. Heimilt er að leyfa frekari nýtingu þess, svo sem til upphitunar í gripahúsum, bílastæðum, gróðurhúsum o.s.frv.

SKV-hitaveita ber enga ábyrgð á tjóni er kann að leiða af notkun bakrennslisvatns, s.s. frostskemmdum o.þ.h. Óheimilt er að tengja vatnsdælur, varmadælur og annan slíkan búnað við framrás eða bakrás hitaveitu.

10. gr. Breytingar á þrýstingi, magni o.fl.

Óviðráðanlegar breytingar á þrýstingi eða magni á heitu vatni eru án ábyrgðar SKV-hitaveitu. Sama gildir um hitastig heita vatnsins. Um breytingar, er stafa af öðrum ástæðum, skal SKV-hitaveitu tilkynna notendum með hæfilegum fyrirvara sé þess nokkur kostur.

Þar sem svo hagar til að þrýstingsmunur er umtalsverður á kerfum hita- og vatnsveitu kann að vera nauðsynlegt að setja þrýstiminnkara á húskerfi til að jafna þrýsting. Húseiganda ber að setja slíkan búnað upp á sinn kostnað telji pípulagningameistari hússins, byggingarfulltrúi eða SKV-hitaveita það nauðsynlegt.

11. gr. Rekstrartruflanir o.fl.

Ef nauðsyn krefur, vegna viðgerða á dælustöðvum, vatnsgeymum, vatnsæðum og öðrum lögnum veitukerfa SKV-hitaveitu eða af öðrum ástæðum, getur SKV-hitaveita fyrirskipað takmörkun á vatnsnotkun, takmarkað vatnsrennsli eða lokað fyrir vatn, eftir því sem þörf krefur hverju sinni, enda tilkynni SKV-hitaveita fyrirfram um slíkar takmarkanir, ef unnt er.

SKV-hitaveita ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni sem leiða kann af rekstrartruflunum er kunna að verða á veitukerfunum svo sem vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir ef rennsli í vatnsæð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerða eða annarra nauðsynlegra framkvæmda veitunnar. Þurfi að takmarka notkun á heitu vatni ákveður SKV-hitaveita hvar og hvernig takmarkanir fara fram. Takmörkun um skamman tíma hefur ekki áhrif á skyldu til greiðslu mælaleigu eða fasta- og hemlagjalda.

Stöðvun á rekstri veitunnar eða hluta hennar vegna viðhalds eða tenginga skal tilkynna fyrirfram ef unnt er og SKV-hitaveita skal kappkosta að koma á eðlilegum rekstri svo fljótt sem verða má.

Full vatnsgjöld, svo og fastagjald hitaveitu eða mælaleigu ber að greiða, þótt lokun fari fram og SKV-hitaveita ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni, er leiða kann af rekstrartruflunum, er verða vegna vinnu við veitukerfi SKV-hitaveitu, rafmagnstruflana eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum.

SKV-hitaveitu er ekki skylt að greiða bætur vegna takmörkunar á vatnsafhendingu eða vegna tímabundinnar lækkunar á hitastigi heita vatnsins.

12. gr. Viðhald húsveitu.

Í samræmi við skyldur samkvæmt byggingarlögum og reglugerðum er húsráðendum skylt að halda vel við vatnslögnum og vatnstækjum innanhúss.

13. gr. Endursala.

Kaupendum er óheimil endursala á heitu vatni nema um það sé sérstaklega samið.

IV. KAFLI Gjaldskrár og söluskilmálar.

14. gr. Gild umsókn um tengingu húsveitu.

Skilyrði fyrir sölu á heitu vatni er að í gildi sé samþykkt umsókn um tengingu viðkomandi húsveitu við veitukerfi SKV-hitaveitu. Sækja skal um tengingu á þar til gerðu eyðublaði.

15. gr. Samningur um kaup á heitu vatni.

Upphaf og lok samnings um kaup á heitu vatni er við skráningu tilkynningar hjá SKV-hitaveitu þess efnis. Tilkynningin skal undirrituð af báðum aðilum, þ.e.a.s. þeim er hyggst hætta viðskiptum og þeim er tekur við.

16. gr. Mælar, hemlar, stærð, gerð, prófanir o.fl.

SKV-hitaveita ákveður stærð og gerð hemla og rennslismæla sem notaðir eru í mælagrindur. Miðað er við að fyrirtæki noti rennslismæla en veitunefnd ákveður hvort eigendur íbúðarhúsnæðis geti valið á milli rennslismælis eða hemils fyrir heitt vatn. SKV-hitaveita breytir stillingu hemils eftir óskum húseiganda fyrsta árið, sem hús hans er tengt við hitakerfið, en síðan verður hemilsstillingu að jafnaði breytt einu sinni á ári og skal skrifleg beiðni um breytingu koma fram við SKV-hitaveitu fyrir 1. september ár hvert. Hámarksstilling hemils gildir allt árið þótt heitavatnsnotkun verði minni hluta úr ári. Minnsta sala gegnum hemil skal vera 1 mínútulítri. Selt vatnsmagn standi ávallt á heilum eða hálfum mínútulítra.

Ef kaupandi óskar að hemill eða mælir sé prófaður skal hann senda skriflega beiðni þar um til hitaveitunnar. Komi í ljós við þá athugun að frávik sé 5% eða minna, er heimilt að gera kaupanda að greiða álestrargjald. Sé frávik meira skal SKV-hitaveita greiða kostnað við prófunina og leiðrétta reikning kaupanda í samræmi við niðurstöður hennar, þó ekki fyrir lengra tímabil en tvo mánuði nema kaupandi eða SKV-hitaveita, eftir því sem við á, geti sannað að um lengra tímabil hafi verið að ræða, þó lengst fjögur ár.

17. gr. Fastagjald og gjald fyrir mælda notkun.

Gjaldi vegna kaupa á heitu vatni er skipt í fast gjald, gjald eftir hemli (lítri á mínútu) og gjald fyrir hvern seldan rúmmetra vatns samkvæmt rennslismæli auk mælaleigu. Greiðsla fastagjalds eða mælaleigu hefst þegar uppsetningu mælagrindar er lokið, óháð því hvenær vatnskaup hefjast.

Kaupandi skal greiða fastagjaldið/mælaleigu þrátt fyrir stöðvun á vatnsafhendingu vegna vanskila eða annarra vanefnda kaupanda þar til samningur um kaup á heitu vatni er úr gildi fallinn vegna uppsagnar.

18. gr. Reikningar, uppgjör o.fl.

Kaupandi skal greiða SKV-hitaveitu fyrir heitt vatn samkvæmt gildandi gjaldskrá SKV-hitaveitu. Við breytingar á gjaldskrá skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar gjaldskrár á því tímabili sem reikningurinn tekur til. SKV-hitaveita má byggja reikninga á áætlun um vatnskaup og innheimta samkvæmt slíkri áætlun.

Þar til vatnsmælir hefur verið settur upp, eða ef vatnsmælir bilar áætlar SKV-hitaveita heitavatnsnotkun með hliðsjón af eðlilegri þörf viðkomandi húss/mannvirkis. Reikningar, sem byggjast á staðreyndri vatnsnotkun, nefnast álestrarreikningar, en reikningar sem byggjast á áætlaðri notkun, nefnast áætlunarreikningar.

Vatnsnotkun samkvæmt mælum skal staðreyna eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti. Þegar vatnsnotkun hefur verið staðreynd skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra og koma þá áætlunarreikningar til frádráttar.

Kaupandi getur þó jafnan, gegn greiðslu mælaálestrargjalds, krafist aukaálestrar og uppgjörs. Ennfremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um vatnskaupin vegna nýrra forsendna.

Reikninga skal senda kaupanda á notkunarstað eða annan stað sem hann tiltekur. Reikninga ber að greiða á tilgreindum gjalddaga og eigi síðar en á eindaga. Sé reikningur eigi greiddur innan tilgreinds frests (fyrir eindaga) er fram kemur á reikningi, reiknast dráttarvextir frá gjalddaga. Útsending reikninga fyrir vatnsnotkun skal fara fram eigi sjaldnar en mánaðarlega.

V. KAFLI Lagning veitukerfa, viðhald o.fl.

19. gr. Veitukerfið.

SKV-hitaveita lætur leggja og á allar lagnir veitukerfisins. Með veitukerfi er átt við aðveituæðar, stofnæðar, dreifiæðar, götuæðar svo og heimæðar og lagnir innanhúss til og með stofnkrana, vatnsmæli eða hemli enda er skylt að þeir séu á inntaki, sbr. 22. gr. um inntaksrými.

20. gr. Umsókn um heimæðar.

Umsókn um heimæð skal skilað til SKV-hitaveitu, á þar til gerðu eyðublaði sem hitaveitan leggur til. Umsókn skal fylgja hnitsett afstöðumynd í mkv. 1:500 og grunnmynd af húsinu þar sem staðsetning hitaveituinntaks kemur fram, upplýsingar um stærð húss í rúmmetrum (m³), fjölda og tegund hitakerfa, og til hvers húsið skal notað. Tilgreina skal pípulagningameistara og eigandi áritar umsóknina. Nánari upplýsingar um nýlagnir, tengingar og nauðsynleg fylgigögn fást á skrifstofu eða heimasíðu Skagafjarðarveitna.

SKV-hitaveitu er heimilt að leggja heimæð eða sameiginlega heimæð um lóð og húseigandi skal sjá fyrir inntaksstað fyrir heitt vatn við útvegg kjallara eða fyrstu hæðar ef húsið er kjallaralaust, ásamt nauðsynlegu rými fyrir mælagrind og annað tilheyrandi tengingu við veituna.

SKV-hitaveitu ber ekki skylda til að leggja heimæðar meðan frost er í jörðu eða á tímabilinu frá 1. október til 1. júní nema greiðsla á áföllnum aukakostnaði komi til.

21. gr. Um tengibúnað.

Sækja skal um uppsetningu tengibúnaðar og kaup á vatni á þar til gerðum eyðublöðum. Umsóknin skal undirrituð af eiganda hússins eða fullgildum umboðsmanni hans ásamt pípulagningameistara þeim sem verkið á að annast. Mælagrind hitaveitu er sett upp þegar heimæðargjald hefur verið greitt.

22. gr. Um lagningu heimæða og gerð inntaksrýmis.

Við hönnun húsa skal gera ráð fyrir og staðsetja á uppdrætti rými fyrir stofnloka heimæðar mæli eða hemil og annan búnað í eigu SKV-hitaveitu. Inntaksrými skal uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar. Tengja skal öryggisloka hitakerfis við frárennslislagnir. Inntaksrými skal vera aðgengilegt starfsmönnun veitu- og framkvæmdasviðs.

SKV-hitaveita annast lagningu eigin veitukerfis og tengingu við húsveitur. Þó skal húseigandi/ húsbyggjandi koma fyrir inntaksvinklum og/eða ídráttarinntaksbeygjum í samráði við SKV-hitaveitu.

SKV-heitaveita ákveður hvort lagt er einfalt eða tvöfalt (framrásar- og bakrásarkerfi) kerfi að húsi. Við framkvæmdir skal SKV-hitaveita halda raski í lágmarki og ganga þrifalega um. Jafnframt skal SKV-hitaveita færa allt til fyrra horfs, eftir því sem við verður komið.

Húseigandi á ekki kröfu til sérstakrar greiðslu vegna lagningar veitukerfa SKV-hitaveitu.

Frístundahús er samheiti yfir hús þar sem ekki er dagleg viðvera s.s. sumarbústaðir, hesthús, verbúðir o.fl. en þess er krafist að settur verði upp tengiskápur utanhúss sem greiðist af húseiganda. Tengikassinn skal rúma tengigrind hitaveitunnar og stjórnkerfi húseiganda, samkvæmt grein 4.1.7 í tæknilegum tengiskilmálum hitaveitna.

23. gr. Kostnaður við tengingu.

SKV-hitaveita kostar lagningu eigin veitukerfis, en húseigandi greiðir heimæðargjald samkvæmt gjaldskrá, fyrir hverja heimæð með mæli eða hemli.

24. gr. Kostnaður við breytingar.

Kostnað við breytingar á húsveitu eða hitunarkerfi húss vegna tengingar við hitaveituna skal húseigandi greiða.

Húseigandi greiðir breytingar á heimæðum sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmda hans.

Húseigandi skal fyrirfram sækja um leyfi til hverra þeirra framkvæmda, sem kunna að hafa í för með sér röskun á veitukerfi SKV-hitaveitu.

25. gr. Áhleypingar.

Engir aðrir en umboðsmenn SKV-hitaveitu mega hleypa vatni úr kerfi veitunnar á hitakerfi húsa í fyrsta sinn eftir tengingu. Pípulagningameistari skal annast prófun hitalagna í samráði við byggingarfulltrúa sem sér um úttekt kerfisins og vera viðstaddur þegar vatni er hleypt á hitakerfið.

26. gr. Aðgangur að veitukerfi, lögnum o.fl.

SKV-hitaveita hefur rétt til aðgangs að húsnæði því, sem tengt er veitukerfinu til viðhalds, eftirlits og breytinga.

Í þeim undantekningartilfellum, þar sem inntak hitaveitu og mælagrind eru ekki í sama herbergi, skal lögn þar á milli vera óhulin eða í stokk sem auðvelt er að opna, og ber húseigandi ábyrgð á tjóni er leki á slíkri millilögn kann að valda.

Óheimilt er að hylja mælagrind á þann hátt að það valdi erfiðleikum við viðhald og viðgerðir og eigi má setja hillur eða annað ofan við mæli þannig að það hindri eðlilegan aflestur, og getur SKV-hitaveita krafist úrbóta sé frágangur umhverfis mælagrind ekki í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. SKV-hitaveita getur lagfært slíka ágalla á kostnað húseiganda verði dráttur á úrbótum, sbr. 30. gr.

27. gr. Viðhald heimæða.

Við viðhald heimæðar skulu starfsmenn veitu- og framkvæmdasviðs halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um. Sé nauðsynlegt vegna bilunar eða endurnýjunar á heimæð að grafa upp heimæðina er starfsmönnum veitu- og framkvæmdasviðs það heimilt, en færa skulu þeir lóð til fyrra horfs eins og unnt er.

Starfsmönnum veitu- og framkvæmdasviðs er heimilt vegna endurnýjunar heimæðar að leggja hana á öðrum stað frá dreifiæð í hús, telji þeir það heppilegra til að forðast skemmdir. Enn fremur er starfsmönnum veitu- og framkvæmdasviðs heimilt að höfðu samráði við húseiganda, að fara með heimæð inn í hús á öðrum stað, ef ekki er unnt að nota þann stað sem fyrir er, nema valda miklu og/eða óbætanlegu tjóni. Hafi húseigandi gróðursett trjáplöntur, steypt veggi, stéttar, bifreiðastæði eða annað sambærilegt yfir heimæð, eða lagt yfir hana snjóbræðslukerfi, ber SKV-hitaveita ekki ábyrgð á því tjóni sem kann að verða vegna nauðsynlegra aðgerða veitunnar, nema tjónið verði rakið til gáleysis starfsmanna veitu- og framkvæmdasviðs.

Eigandi fasteignar á ekki kröfu á sérstakri greiðslu fyrir óþægindi vegna viðhalds eða endurnýjunar heimæðar.

VI. KAFLI Innheimta vanskila, viðurlög við brotum o.fl.

28. gr. Um stöðvun vatnsafhendingar vegna vanskila.

SKV-hitaveita hefur rétt til að stöðva afhendingu á heitu vatni til kaupanda sem greiðir ekki áætlunar- eða álestrarreikning eða vanrækir skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari.

Til slíkra aðgerða má þó fyrst grípa að undangenginni skriflegri aðvörun sem sendist kaupanda með fimm daga fyrirvara. SKV-hitaveita ber ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar lokunar.

SKV-hitaveita hefur rétt til að krefja kaupanda um greiðslu gjalds samkvæmt gjaldskrá hafi komið til stöðvunar vatnsafhendingar af ástæðum sem um getur í 1. mgr. Heimilt er SKV-hitaveitu að krefjast greiðslu þessarar áður en heitavatnsafhending er hafin á ný. Þó ekki komi til stöðvunar á afhendingu á heitu vatni er SKV-hitaveitu heimilt að krefja kaupanda um gjald vegna undirbúnings að stöðvun. Fastagjald/mælaleiga greiðist þó vatnsafhending hafi verið stöðvuð.

29. gr. Innsigli, ólögmæt notkun o.fl.

Starfsmenn veitu- og framkvæmdasviðs innsigla hemla og vatnsmæla, svo og annan þann inntaksbúnað í eigu SKV-hitaveitu, er þurfa þykir. Þessi innsigli mega engir aðrir en starfsmenn veitu- og framkvæmdasviðs rjúfa. Ef rofið er innsigli á búnaði SKV-hitaveitu varðar það refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum, sama á við um ólögmæta vatnsnotkun (vatnsstuld).

Ef skjótra aðgerða er þörf vegna hættuástands er heimilt að rjúfa innsigli en þá skal viðkomandi strax tilkynna SKV-hitaveitu um atvikið (neyðartilvik).

Húseigandi ber ábyrgð á meðferð búnaðar og lagna innanhúss sem eru í eigu SKV-hitaveitu og greiðir hann kostnað við viðgerð eða endurnýjun búnaðar sem verður fyrir skemmdum af hans völdum eða þeirra aðila sem hann ber ábyrgð á.

Húseiganda/kaupanda ber tafarlaust að tilkynna, til SKV-hitaveitu, ef vart verður bilunar á búnaði og tækjum veitunnar.

Enginn má af- eða endurtengja hitaveituna nema þeir sem SKV-hitaveita hefir veitt umboð til þess. Sé húsveita tengd heitavatnskerfi SKV-hitaveitu í heimildarleysi, getur SKV-hitaveita aftengt húsveituna fyrirvaralaust. Fara skal með slíkt brot sem ólögmæta vatnsnotkun.

Verði uppvíst að vatn hafi verið notað á annan hátt en um er samið, að raskað hafi verið mælitækjum eða tengingum breytt þannig að ekki komi fram öll notkun, skal SKV-hitaveita áætla það vatnsmagn sem notað hefur verið með ólögmætum hætti og innheimta sérstaklega.

30. gr. Vanræksla.

Vanræki húseigandi að vinna verk, sem honum ber samkvæmt reglugerð þessari að framkvæma, eða sé verk ekki unnið á viðunandi hátt, er SKV-hitaveitu heimilt að láta vinna það á hans kostnað, hafi hann ekki orðið við tilmælum um að vinna verkið innan tiltekins frests.

31. gr. Aðför - fjárnám.

Öll gjöld vegna heits vatns þ.m.t. heimæðargjald samkvæmt reglugerð þessari og gjaldskrá má innheimta með fjárnámi, skv. 10. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og 79. gr. orkulaga nr. 58/1967, með síðari breytingum.

32. gr. Setning og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli ákvörðunar byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem tekin var á 598. fundi sem haldinn var þann 19. júlí 2012. Reglugerð þessi tekur gildi frá og með 1. febrúar 2013 og hefst þá rekstur SKV-hitaveitu. Með gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð um Skagafjarðarveitur ehf. nr. 1047/2006, 7. desember 2006.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 24. janúar 2013.

F. h. r.

Kristján Skarphéðinsson.

Ólafur Egill Jónsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.