Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

849/2012

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs. - Brottfallin

1. gr.

1. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Gildissvið.

Reglugerðin gildir um merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs eins og þau eru skilgreind í 3. gr. þessarar reglugerðar.

Reglugerðin gildir þannig um matvæli og fóður sem:

  1. samanstanda af eða innihalda erfðabreyttar lífverur eða
  2. eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum eða innihalda efni framleidd úr erfða­breyttum lífverum, enda þótt erfðabreytta efnið greinist ekki í lokaafurðinni.

Reglugerðin gildir ekki um matvæli og fóður sem innihalda efni sem inniheldur, saman­stendur af eða er framleitt úr erfðabreyttum lífverum í hlutfalli sem er ekki hærra en 0,9% af hverju innihaldsefni fyrir sig í þessum vörum eða vörum sem samanstanda af einu innihaldsefni; að því tilskildu að tilvist þess sé utanaðkomandi eða tæknilega óhjá­kvæmi­leg.

Reglugerð þessi gildir um matvæli og fóður sem framleidd eru "úr" erfðabreyttri lífveru en gildir ekki um matvæli og fóður sem framleidd eru "með" erfðabreyttri lífveru. Þetta ræðst af því hvort efni sem á uppruna sinn úr erfðabreyttu lífverunni sjálfri er til staðar í matvælum eða fóðri eða ekki.

Hjálparefni við vinnslu sem eru eingöngu notuð í framleiðsluferli matvæla eða fóðurs falla ekki undir skilgreiningu á matvælum eða fóðri og falla því ekki undir gildissvið þessarar reglugerðar. Sama á við um matvæli og fóður sem framleidd eru með hjálp erfðabreyttra hjálparefna.

Fóðrun dýra á erfðabreyttu fóðri eða meðhöndlun dýra með erfðabreyttum lyfjum veldur því ekki að afurðir dýranna teljist erfðabreyttar.

2. gr.

Eftirfarandi breyting verður á 3. gr. reglugerðarinnar:

Skilgreining "rekjanleika" orðast svo:

Rekjanleiki er sá möguleiki að rekja erfðabreyttar lífverur og vörur sem eru framleiddar úr erfðabreyttum lífverum á öllum stigum setningar þeirra á markað í gegnum fram­leiðslu- og dreifingarferlið.

3. gr.

a. liður 4. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. reglugerðarinnar:

  1. Orðin "eða innihalda erfðabreyttar lífverur" í 1. mgr. falla brott.
  2. Orðin "við flutninga" í 4. mgr. falla brott.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 31. gr. a laga um matvæli, nr. 93/1995 og 7. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 17. október 2012.

Steingrímur J. Sigfússon.

Sigurgeir Þorgeirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica