Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

102/2010

Reglugerð um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla auk áorðinna breytinga.

1. gr.

Innleiðing.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í I. og II. kafla, I. viðauka og XII. kafla, II. viðauka, skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af I. og II. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 134/2007, frá 27. október 2007, öðlast eftirfarandi EB-gerðir gildi hér á landi:

 

a)

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.

 

b)

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1642/2003 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.

 

c)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 575/2006 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 að því er varðar fjölda og heiti fastra sérfræðinganefnda á vegum Matvælaöryggisstofnunar Evrópu.2. gr.

Fylgiskjöl.

Ofangreindar reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins annars vegar og framkvæmda­stjórnarinnar hins vegar, skv. 1. gr. eru birtar sem fylgiskjöl I, II og III við reglugerð þessa.

3. gr.

Hugtakið "aðildarríki".

Þrátt fyrir ákvæði bókunar 1 við EES-samninginn skal túlka hugtakið "aðildarríki" í reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar, skv. 1. gr., þannig að það taki til EFTA-ríkjanna auk ríkja sem það tekur til samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, enda sé ekki kveðið á um annað í öðrum ákvæðum þessarar reglugerðar. Beita skal ákvæðum 11. mgr. bókunar 1 við EES-samninginn við túlkun þessa ákvæðis.

4. gr.

Samþykki opinbers eftirlitsaðila.

Þegar ofangreindar reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar, skv. 1. gr., kveða á um tiltekið "samþykki" opinbers eftirlitsaðila uppfylla slíkir aðilar lagaskyldu sína með útgáfu starfsleyfis nema annað sé sérstaklega tekið fram.

5. gr.

Orðalag 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002.

Í stað texta 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 komi eftirfarandi:

Löggjöf EFTA-ríkjanna um framleiðslu, innflutning og sölu matvæla og fóðurs skal fullnægja öllum viðeigandi kröfum laga Evrópusambandsins um matvæli, og skal þannig meðal annars hafa að geyma virk úrræði til að koma í veg fyrir að vörur, sem teknar eru af markaði í einu ESB-ríki, séu fluttar út (aftur) til ríkis utan ESB um EFTA-ríki.

6. gr.

Breytingar á 53. og 54. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002.

Eftirfarandi breyting eða aðlögun verður á 53. og 54. gr. reglugerðar Evrópu­þingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002:

 

1.

Þegar um er að ræða matvæli eða fóður sem er upprunnið í Evrópubandalaginu eða EFTA-ríki gilda eftirtalin ákvæði:

   

a)

Hyggist Evrópubandalagið eða EFTA-ríki gera neyðarráðstafanir gagnvart öðrum samningsaðilum skal þeim gert viðvart um það án tafar.

     

Fyrirhugaðar ráðstafanir skulu tilkynntar án tafar öllum samningsaðilum og bæði framkvæmdastjórn EB og Eftirlitsstofnun EFTA.

     

Heimilt skal að láta ráðstafanirnar öðlast gildi tafarlaust, en viðræður milli framkvæmdastjórnar EB og hlutaðeigandi samningsaðila um heppilegar lausnir skulu eiga sér stað svo skjótt sem við verður komið, að ósk einhvers þessara aðila.

     

Komi upp ágreiningur er sérhverjum hlutaðeigandi aðila heimilt að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Náist ekki samkomulag í nefndinni er samningsaðila heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir. Slíkar ráðstafanir skulu bundnar við það sem er strangt til tekið nauðsynlegt til að ráða bót á aðstæðum. Leitast skal við að velja ráðstafanir sem hafa sem minnst áhrif á framkvæmd samningsins.

   

b)

Hyggist framkvæmdastjórn EB taka ákvörðun um neyðarráðstafanir sem varða einhvern hluta af yfirráðasvæði Evrópubandalagsins skal hún gera Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-ríkjunum viðvart um það án tafar.

     

Taki framkvæmdastjórn EB ákvörðun um neyðarráðstafanir sem varða einhvern hluta af yfirráðasvæði Evrópubandalagsins skal hlutaðeigandi EFTA-ríki gera samsvarandi ráðstafanir, að höfðu samráði og eftir rannsókn á málsatriðum, nema því aðeins að sérstakar aðstæður í því ríki valdi því að ekki sé réttlætanlegt að gera slíkar ráðstafanir. Viðkomandi ríki skal þá gera Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB viðvart tafarlaust.

     

Viðræður um heppilegar lausnir skulu eiga sér stað svo skjótt sem við verður komið. Náist ekki samkomulag skal beitt ákvæðum fjórðu málsgreinar a-liðar.

 

2.

Þegar um er að ræða matvæli eða fóður frá landi utan EES gilda eftirtalin ákvæði:

   

a)

Þegar aðildarríki EB gera neyðarráðstafanir að því er varðar innflutning frá ríkjum utan EES skulu EFTA-ríki gera samsvarandi ráðstafanir á sama tíma.

   

b)

Komi upp erfiðleikar í tengslum við beitingu tiltekinnar gerðar Evrópu­bandalagsins skal hlutaðeigandi EFTA-ríki tilkynna það sameiginlegu EES-nefndinni án tafar.

   

c)

Ákvæði þessarar málsgreinar skerða ekki heimildir hlutaðeigandi EFTA-ríkis til að gera neyðarráðstafanir einhliða meðan beðið er ákvarðana af því tagi sem um getur í a-lið.

   

d)

Sameiginlega EES-nefndin getur tekið mið af ákvörðunum Evrópu­bandalagsins.7. gr.

Breytingar á 60. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002.

Eftirfarandi breyting eða aðlögun verður á 60. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002:

 

1.

Eftirfarandi bætist við í 1. mgr.:

   

"Telji stjórnvöld í EFTA-ríki að ráðstöfun aðildarríkis ESB sé annaðhvort ósamrýmanleg ákvæðum þessarar reglugerðar eða geti haft áhrif á framkvæmd samningsins skulu þau vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hið sama á við telji stjórnvöld í aðildarríki ESB að ráðstöfun hlutaðeigandi EFTA-ríkis sé annaðhvort ósamrýmanleg ákvæðum þessarar reglugerðar eða geti haft áhrif á framkvæmd samningsins."

 

2.

Í stað orðanna "aðildarríkin tvö" í fyrsta og síðasta málslið 2. mgr. komi orðin "EFTA-ríkið og aðildarríki ESB" og í stað orðsins "framkvæmdastjórnin" komi orðin "sameiginlega EES-nefndin". Í stað orðanna "getur framkvæmda­stjórninni" í öðrum málslið komi orðin "getur sameiginlega EES-nefndin, að beiðni annars hvors samningsaðila".8. gr.

Eftirlit.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt vegna matvæla í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

Matvælastofnun fer með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt vegna fóðurs í samræmi við lög nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

9. gr.

Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a - 30. gr. e og 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli eða 9. gr. og 9. gr. a - 9. gr. e laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

10. gr.

Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum og 7. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, með síðari breytingum.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerðin öðlast gildi 1. mars 2010.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 22. janúar 2010.

Jón Bjarnason.

Baldur P. Erlingsson.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica