I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Nefndin heitir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og hefur hún aðsetur hjá Neytendastofu, Borgartúni 21, Reykjavík.
2. gr.
Ráðherra skipar nefndarmenn til þriggja ára í senn skv. 1. mgr. 15. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
Ráðherra skipar formann og varaformann nefndarinnar án tilnefningar. Skulu þeir fullnægja skilyrðum til að vera héraðsdómari.
Ráðherra skipar aðra nefndarmenn. Skal einn skipaður eftir tilnefningu Neytendasamtakanna en annar eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu búa yfir nauðsynlegri þekkingu og færni á sviði lausnar deilumála neytenda, innan eða utan dómstóla, sem og almennri þekkingu á lögum.
3. gr.
Nefndin skal hafa ritara sér til aðstoðar. Hlutverk ritara er að taka við kvörtunum, leiðbeina og sinna samskiptum við málsaðila, undirbúa mál til meðferðar og útbúa skýrslur um starfsemina.
Formaður boðar fundi eftir þörfum. Fundir nefndarinnar eru því aðeins lögmætir að nefndin sé fullskipuð.
Kostnaður vegna starfa nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
II. KAFLI
Málsmeðferð.
Móttaka kvartana.
4. gr.
Nefndin tekur við kvörtunum neytenda sem undir hana heyra skv. lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála. Kvörtunum er ekki veitt viðtaka nema jafnframt sé greitt málskotsgjald.
Kvörtun skal vera skrifleg og beint til nefndarinnar. Nefndin tekur við kvörtunum og fylgiskjölum með rafrænum hætti eða á pappír. Nefndin tekur við kvörtunum sem berast í gegnum rafræna vettvanginn og hagar málsmeðferð í samræmi við þær kröfur sem leiðir af 2. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
Nefndin getur ákveðið að kvörtun skuli skilað á sérstöku formi sem hún lætur útbúa.
5. gr.
Nefndinni er heimilt að vísa frá kvörtun ef virði vöru eða þjónustu sem kvörtunin varðar er hærra en 5.000.000 kr.
Nefndinni er heimilt að vísa frá kvörtun þegar svo er ástatt sem segir í 1. mgr. 14. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
Nefndin skal vísa frá kvörtun sem heyrir undir eða er til meðferðar hjá lögbundnum eða viðurkenndum úrskurðaraðila sem hefur verið skráður og tilkynntur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
Nefndin skal vísa frá kvörtun sem heyrir undir eða er til meðferðar hjá erlendum úrskurðaraðila sem er á skrá yfir tilkynnta úrskurðaraðila í deilumálum utan dómstóla á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
Nefndin getur á öllum stigum málsmeðferðar ákveðið að vísa máli frá skv. 3. og 4. mgr. þessarar greinar.
Þegar augljóst er að mál heyrir ekki undir lögsögu nefndarinnar getur ritari tekið ákvörðun um að vísa máli frá. Að beiðni neytanda skal nefndin taka ákvörðun ritara til endurskoðunar.
Frávísun skal rökstudd og send aðilum máls eigi síðar en þremur vikum frá móttöku kvörtunar eða móttöku upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að ákveða hvort vísa megi máli frá. Málsaðilum skal leiðbeint um möguleika til að leita réttar síns fyrir dómi og um fyrningarfresti krafna, ef við á.
Meðferð kvartana.
6. gr.
Málsmeðferð skal standa málsaðilum til boða án tillits til þess hvort þeir njóta aðstoðar lögmanns eða annarrar sérfræðiráðgjafar þriðja aðila.
Áður en málsmeðferð hefst skal málsaðilum leiðbeint um að þeim beri ekki skylda til að ráða sér lögmann eða lagaráðgjafa en að þeim sé heimilt að leita sér óháðrar ráðgjafar, láta fulltrúa koma fram fyrir sína hönd eða fá aðstoð þriðja aðila á hvaða stigi málsmeðferðar sem er.
Áður en málsmeðferð hefst skal neytandi upplýstur um áætlaðan málsmeðferðartíma og honum leiðbeint um rétt sinn til að draga sig úr málsmeðferðinni á öllum stigum máls og að málskotsgjald fáist þá ekki endurgreitt.
Málsaðilum skal leiðbeint um fyrningarfresti krafna, ef við á.
7. gr.
Nefndarmenn skulu sýna óhlutdrægni við meðferð og afgreiðslu mála.
Ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda eftir því sem við á um hæfi nefndarmanna við meðferð máls.
Nefndarmanni ber að tilkynna samnefndarmönnum sínum telji hann sig vanhæfan. Komi til þess að nefndin verði ekki fullskipuð vegna vanhæfis skal ráðherra skipa sérstaka nefndarmenn vegna meðferðar viðkomandi máls. Um tilnefningu og skipun þeirra fer eftir 2. gr. reglna þessara.
8. gr.
Nefndarmenn, ritari nefndarinnar og kunnáttumenn eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki, að viðlagðri ábyrgð, skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara vegna lögmætra almanna- og einkahagsmuna. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.
9. gr.
Málsmeðferð fyrir nefndinni er skrifleg og skal standa málsaðilum til boða með rafrænum aðferðum eða pósti.
Málsaðilum skal veittur réttur til umsagnar um rökstuðning, sönnunargögn, skjöl og staðreyndir, sem gagnaðili leggur fram, ásamt yfirlýsingum og álitum kunnáttumanna ef við á. Nefndin skal veita hæfilega fresti til umsagna og gagnaframlagningar og ákveða hvenær mál telst nægilega upplýst svo unnt sé að taka það til úrlausnar.
Ef við á getur nefndin beint skriflega til málsaðila spurningum og beiðnum um framlagningu tiltekinna gagna. Telji nefndin að erindi málsaðila sé á einhvern hátt áfátt getur hún veitt honum stuttan frest til úrbóta.
Sé kvörtun metin ótæk til meðferðar, skv. e-lið 1. mgr. 14. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála getur nefndin veitt neytanda stuttan frest til úrbóta.
Málsaðilum skal tilkynnt um lok gagnaöflunar.
10. gr.
Nefndarmenn leggja sjálfir mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Í öðrum tilvikum getur formaður kvatt til mann eða menn sem hafa nauðsynlega kunnáttu eða annars þá kunnáttu sem bestrar er kostur.
Kunnáttumaður skal semja rökstutt álit þar sem þau sjónarmið eru greind sem álit hans er reist á. Kostnaður vegna starfa kunnáttumanns greiðist úr ríkissjóði.
Nefndin kallar ekki fyrir vitni eða málsaðila. Nefndin kallar ekki fyrir kunnáttumenn nema 1. mgr. eigi við í málinu.
Úrskurðir.
11. gr.
Nefndin byggir úrskurð sinn á grundvelli gagna sem fyrir hana eru lögð eða hún aflar sér. Afl atkvæða ræður niðurstöðu máls. Úrskurðir nefndarinnar skulu færðir til bókar og greint stuttlega frá kröfum og málsástæðum málsaðila. Niðurstaða skal rökstudd og dregin saman í úrskurðarorði. Sératkvæði skulu birt með niðurstöðu meirihluta.
Í úrskurði skal eftir því sem við á kveðið á um endurgreiðslu málskotsgjalds til neytanda og skyldu seljanda til að greiða gjald vegna kostnaðar nefndarinnar af meðferð málsins skv. 13. gr.
Málsaðilar bera hver sinn kostnað.
12. gr.
Úrskurðir skulu kynntir málsaðilum skriflega í ábyrgðarpósti, með öðrum jafn öruggum hætti eða á varanlegum miðli innan 90 daga frá þeim degi er öll gögn máls hafa borist. Nú er mál mjög flókið og er þá unnt að framlengja frestinn um 90 daga með tilkynningu til málsaðila sé ástæða til. Í tilkynningu skal greint frá því hve langan tíma áætlað er að taki að ljúka meðferð máls.
Málsaðilum skal leiðbeint um möguleika til að leita réttar síns fyrir dómi og um fyrningarfresti krafna, ef við á.
Málskotsgjald neytanda og gjald seljanda.
13. gr.
Neytandi sem óskar eftir úrskurði nefndarinnar skal greiða nefndinni málskotsgjald að fjárhæð kr. 5.000 fyrir meðferð málsins.
Endurgreiða skal neytanda málskotsgjald:
Falli mál að öllu leyti neytanda í vil skal seljandi greiða gjald vegna kostnaðar nefndarinnar af meðferð málsins að fjárhæð kr. 35.000.
Falli mál að hluta neytanda í vil skal seljandi greiða gjald vegna kostnaðar nefndarinnar af meðferð málsins að fjárhæð kr. 15.000.
Málskotsgjald og gjald vegna kostnaðar nefndarinnar af meðferð málsins renna í ríkissjóð.
III. KAFLI
Birting upplýsinga o.fl.
14. gr.
Nefndin skal birta úrskurði sína jafnóðum á vefsetri sínu.
Nefndinni er heimilt að ákveða að nöfn og heimilisföng seljenda komi fram við birtingu úrskurða. Nöfn og heimilisföng neytenda skulu ekki koma fram við birtingu úrskurða. Um meðferð nefndarinnar á persónuupplýsingum fer eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
15. gr.
Nefndin heldur og birtir skrá yfir seljendur sem tilkynnt hafa að þeir uni ekki úrskurðum nefndarinnar.
Seljandi skal skráður þegar:
Hafi seljandi einnig óskað eftir endurupptöku úrskurðar skal seljandi ekki skráður fyrr en ósk um endurupptöku hefur verið hafnað.
16. gr.
Skráin skal birt á vefsetri nefndarinnar og skal innihalda eftirfarandi upplýsingar:
17. gr.
Nefndin skal afmá upplýsingar um seljanda úr skránni þegar:
Nefndinni er óskylt að afmá upplýsingar hafi henni ekki sannanlega borist upplýsingar frá seljanda um að skilyrði b-d liðar 1. mgr. séu uppfyllt.
18. gr.
Nefndin skal hafa vefsetur og skulu þar birtar eftirfarandi upplýsingar á skýran og auðskiljanlegan hátt:
Sé þess óskað er nefndinni skylt að afhenda almenningi upplýsingar skv. 1. mgr. á varanlegum miðli.
19. gr.
Nefndin skal útbúa ársskýrslu um starfsemi sína á liðnu starfsári. Ársskýrslan skal innihalda upplýsingar um:
Ársskýrslu skal skilað til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.
20. gr.
Nefndin skal útbúa skýrslu á tveggja ára fresti. Skýrslan skal innihalda upplýsingar um:
21. gr.
Ráðherra getur krafist þess að nefndin hafi samvinnu við lögbundna og viðurkennda úrskurðaraðila og skiptist á upplýsingum og bestu starfsvenjum um lausn mála.
IV. KAFLI
Lagastoð og gildistaka.
22. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 15. gr., 5. mgr. 17. gr. og 1. mgr. 20. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála nr. 81/2019, öðlast gildi þann 1. janúar 2020.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 16. desember 2019.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Ingvi Már Pálsson.