Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

1133/2021

Reglugerð um skráningarskylda aðila í fiskeldi.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi nær til rekstraraðila eldisstöðva á landi þar sem hámarkslífmassi í matfiska- og rannsóknareldi fer ekki yfir 20 tonn á hverjum tíma, hámarkslífmassi í seiðaeldi fer ekki yfir 1.000 kg eða 10.000 seiði á hverjum tíma. Reglugerðin gildir aðeins um starfsemi sem ekki er háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Reglugerðin nær ekki yfir geymslu á villtum lagardýrum sem eru án fóðrunar, m.a. kræklingarækt.

2. gr. Skilgreiningar.

Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.

Eldisker: Ker með rennandi sjó, ferskvatni eða ísöltu vatni þar sem aldar eru lagarlífverur.

Eldisstofn: Hópur dýra alinn í eldisstöð undan dýri sem alið hefur allan sinn aldur í eldisstöð.

Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska, annarra vatnadýra og nytjastofna sjávar, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.

Fiskeldisstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki eru nýtt í þágu fiskeldis.

Innra eftirlit: Eigið eftirlit rekstrarleyfishafa framkvæmt af starfsmönnum hans eða aðkeyptum þjónustuaðila sem hefur til þess tilskilin réttindi, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í rekstrarleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.

Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni, s.s. fiskar, lindýr, krabbadýr og skrápdýr.

Lagarlífverur: Allar lífverur í ferskvatni og sjó, s.s. lagardýr, gróður og örverur.

Landeldi: Eldi á fiski í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi. Eldið fer fram í fersku vatni, ísöltu eða sjó.

Lax: Fiskur af tegundinni Salmo salar.

Laxfiskar: Fiskar af tegundunum lax (Salmo salar), urriði (Salmo trutta), bleikja (Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss).

Lífmassi: Lífmassi er margfeldi af fjölda og meðalþyngd eldisdýra á tilteknu eldissvæði í sjó eða landeldi.

Matfiskeldi: Eldi á lagarlífverum til manneldis.

Rannsóknareldi: Eldi á lagarlífverum í rannsóknarskyni.

Seiðaeldi: Klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils fiska.

Skráningarskyldur aðili: Rekstraraðili skráningarskyldrar fiskeldisstöðvar.

Starfsstöð: Svæði þar sem fiskeldismannvirki er staðsett.

Villtur laxastofn: Laxastofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum.

3. gr. Skráningarskylda.

Starfræksla fiskeldisstöðvar á landi er háð skráningu sé hámarkslífmassi í matfiskeldi og rannsóknareldi allt að 20 tonn á hverjum tíma og hámarkslífmassi í seiðaeldi allt að 1.000 kg eða 10.000 seiði á hverjum tíma. Jafnframt skal starfsemin ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Þeir flokkar sem tilgreindir eru í reglugerð þessari eru háðir staðfestingu skráningar hjá Matvælastofnun í stað rekstrarleyfis.

Skráningarskyldar fiskeldisstöðvar eru jafnframt háðar starfsleyfi Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Matvælastofnun skal framsenda umsóknir um starfsleyfi fyrir eldi ferskvatns- og sjávarlífvera til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

4. gr. Skráningarskyldir flokkar.

Þeir flokkar fiskeldisstöðva sem háðir eru skráningarskyldu eru eftirfarandi:

  1. Seiðaeldi < 1.000 kg hámarkslífmassi eða að hámarki 10.000 seiði á hverjum tíma.
  2. Rannsóknareldi.
  3. Matfiskeldi.

5. gr. Skráning á starfsemi.

Skráningarskyldur aðili skal skrá starfsemi sína hjá Matvælastofnun áður en starfsemi hefst og skal stofnunin staðfesta skráningu fiskeldisstöðvar að öllum skilyrðum uppfylltum. Óheimilt er að hefja starfsemi áður en staðfesting Matvælastofnunar liggur fyrir.

Matvælastofnun skal veita skráningarskyldum aðilum leiðbeiningar um hvaða reglur gilda um starfsemina.

Aðeins er heimilt að skrá eina fiskeldisstöð á hvert fastanúmer.

6. gr. Upplýsingar um starfsemi.

Skráningarskyldur aðili skal skrá upplýsingar um ábyrgðaraðila eða fyrirtæki, lýsingu á starfseminni, umfangi hennar og umfangi einstakra rekstrarþátta, staðsetningu eldiseiningarinnar, svo sem fastanúmer fasteignar þar sem starfsemi fer fram. Skráningarskyldur aðili skal skrá upplýsingar um hámarkslífmassa, uppruna og tegund eldisfisks, fjölda kerja og rúmmál og leggja fram yfirlitsmynd sem sýnir varnir gegn stroki.

Skráningarskyldur aðili skal tryggja og skrá upplýsingar um að fiskeldisstöðin sé útbúin búnaði sem kemur í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskari og búnaði staðsettum í frárennsli stöðvar sem fangar fisk sem sleppur.

Ef framkvæmd er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skal fylgja málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

7. gr. Birting skráningar.

Matvælastofnun skal birta staðfestingu á skráningu á heimasíðu sinni.

8. gr. Yfirlýsing skráningarskylds aðila og staðfesting á skráningu.

Skráningarskyldur aðili skal við skráningu lýsa því yfir að hann uppfylli þær almennu kröfur sem gilda um atvinnureksturinn.

Skráningarskyldur aðili ber ábyrgð á því að starfsemin sé í samræmi við gildandi löggjöf, sé skráð og að skráðar upplýsingar um starfsemina séu réttar.

Matvælastofnun er heimilt að óska eftir frekari gögnum sem stofnunin telur nauðsynleg.

Þegar fullnægjandi upplýsingar, yfirlýsing skráningarskylds aðila og úttekt Matvælastofnunar skv. 10. gr. ef við á liggur fyrir staðfestir Matvælastofnun skráninguna og tilkynnir skráningarskyldum aðila rafrænt að starfsemin sé skráð.

Matvælastofnun afhendir umsækjanda útgefið starfsleyfi og staðfestir skráningu samtímis.

9. gr. Breyting á gildandi skráningu.

Skráningarskyldur aðili skal tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaðar breytingar á skráningarskyldri fiskeldisstöð með að minnsta kosti þriggja mánaða fyrirvara. Breytingar eru háðar staðfestingu Matvælastofnunar.

10. gr. Úttekt Matvælastofnunar á eldisstöðvum þar sem alinn er frjór lax eða frjó laxaseiði.

Matvælastofnun skal framkvæma úttekt á eldisstöðvum þar sem alinn er frjór lax eða frjó laxaseiði áður en stofnunin staðfestir skráningu.

Óheimilt er að hefja starfsemi áður en úttekt á sér stað og Matvælastofnun staðfestir skráningu.

11. gr. Innflutningur á notuðum eldisbúnaði.

Innflutningur á notuðum eldisbúnaði er óheimill. Til slíks búnaðar teljast m.a. eldisker, fóðrarar og fiskidælur. Þó er heimilt að flytja inn notuð vísindatæki og tæknibúnað, m.a. tæki til flutnings sem sannanlega er hægt að sótthreinsa að mati Matvælastofnunar. Einnig getur Matvælastofnun með sömu skilyrðum heimilað innflutning á öðrum eldisbúnaði enda þyki sannað að ekki berist smitefni með honum sem valda dýrasjúkdómum. Sækja skal um leyfi fyrir innflutningi á notuðum vísindatækjum, tæknibúnaði og eldisbúnaði til Matvælastofnunar sem getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar.

12. gr. Eldisfiskur.

Eingöngu er heimilt að hafa í fiskeldisstöð þær tegundir eldisfisks sem tilgreindar eru í skráningu.

Óheimilt er að vera með villtan fisk og eldisfisk í sömu fiskeldisstöð án heimildar fisksjúkdómanefndar.

13. gr. Skilyrði flutnings.

Óheimilt er að flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldisstöð áður en Matvælastofnun hefur staðfest skráningu.

14. gr. Takmörkun á flutningi á milli fiskeldisstöðva.

Óheimilt er að flytja eldistegundir, sem ekki eru tilgreindar í skráningu milli fiskeldisstöðva, og lifandi fisk og hrogn milli ótengdra vatnasvæða.

Matvælastofnun getur bannað flutning á fiski milli tiltekinna fiskeldisstöðva eða um tiltekin svæði nema að uppfylltum vissum skilyrðum sem lúta að því að draga úr hættu á að sjúkdómar dreifist.

15. gr. Framkvæmd flutnings.

Flutning á lifandi eldisfiski skal tilkynna Matvælastofnun. Matvælastofnun er heimilt að hafa eftirlit með flutningnum. Matvælastofnun setur nánari reglur um tilkynningaskyldu og flutning á lifandi eldisfiski.

Við flutning á laxfiskum skal flutningsaðili útbúa verklagsreglur, að höfðu samráði við Matvælastofnun, þar sem fram kemur lýsing á búnaði sem notaður er til flutnings og hver ber ábyrgð á einstökum verkþáttum og réttum viðbrögðum ef fiskur strýkur.

16. gr. Sótthreinsun búnaðar.

Tæki, sem notuð eru til flutnings á lifandi eldisfiskum, skulu vera þannig gerð að auðvelt sé, að mati Matvælastofnunar, að þrífa þau og sótthreinsa. Ávallt skal þrífa þau að flutningi loknum. Sótthreinsa skal tækin ef hefja á flutning frá nýjum aðila.

17. gr. Bólusetning og lyfjagjöf.

Notkun bóluefna og sýklalyfja í fiskeldi er óheimil nema með samþykki Matvælastofnunar. Óheimilt er að meðhöndla eldisdýr með sýklalyfjum nema að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis eða viðurkenndrar rannsóknastofu.

Varúðar skal gætt við notkun lyfja og annarra efna í fiskeldisstöð til að koma í veg fyrir að efnin berist út í umhverfið.

18. gr. Umhirða eldisfiska.

Huga skal að velferð eldisfiska í öllu eldi.

Sýktur fiskur skal fjarlægður og honum eytt svo fljótt sem verða má samkvæmt nánari ákvörðun dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun. Gripið skal til þeirra ráðstafana sem ástæða þykir til svo að koma megi í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Matvælastofnun er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði.

Þegar því verður við komið skal daglega fjarlægja dauð lagardýr úr eldiseiningu og skrá fjölda og þyngd fiska. Upplýsingar um afföll skulu vera aðgengilegar eftirlitsmönnum Matvælastofnunar í fiskeldisstöð.

19. gr. Strok.

Skráningarskyldur aðili, sem hefur ástæðu til að ætla að hann hafi misst eldisfisk úr fiskeldisstöð, skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Fiskistofu, Matvælastofnunar, sveitarfélaga og næstu veiðifélaga.

Staðfesti Fiskistofa strok eldisfisks skal stofnunin tryggja að brugðist sé við í samræmi við 13. gr. laga um fiskeldi. Við slíkan atburð skal skráningarskyldur aðili fylgja leiðbeiningum sem fram koma í viðauka III og á heimasíðu Fiskistofu (www.fiskistofa.is).

Skráningarskyldum aðila er skylt að grípa til allra þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegar eru til þess að varna því að slíkur atburður sem greinir í 1. mgr. valdi vistfræðilegu tjóni.

Skráningarskyldur aðili skal sjá til þess að viðbragðsáætlun vegna stroks sé staðsett á starfsstöð og kynna starfsmönnum hana. Viðbragðsáætlun vegna stroks skal innihalda leiðbeiningar um:

  1. Hvernig hindra skal áframhaldandi strok.
  2. Hvernig tilkynna skal um strok.
  3. Hvernig endurheimta skal fisk sem sleppur.

Fiskistofa getur veitt undanþágu frá banni á veiðum á villtum lagardýrum og eldisdýrum sem sleppa úr fiskeldisstöð.

20. gr. Innra eftirlit fiskeldisstöðva.

Skráningarskyldur aðili skal bera ábyrgð á því að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með starfseminni, þ.m.t. eldisdýrum og heilbrigði þeirra, mannvirkjum og búnaði. Innra eftirlit skal tryggja að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sem og skilyrði skráningar. Skráningarskyldur aðili skal í innra eftirliti tryggja að haft sé daglegt eftirlit með eldisfiski svo framarlega að aðstæður leyfi.

Skráningarskyldir aðilar skulu hafa viðbragðsáætlun vegna stroks.

Skráningarskyldur aðili skal sannprófa að eftirlit og úrbætur séu í samræmi við reglur um innra eftirlit.

Matvælastofnun skal sannreyna með reglulegum hætti að framkvæmd innra eftirlits með starfseminni sé í samræmi við lög og reglur.

21. gr. Eftirlit Matvælastofnunar.

Matvælastofnun skal hafa eftirlit með fiskeldisstöðvum í samræmi við fyrirmæli laga um fiskeldi og reglugerða. Eftirlitið skal ná til rekstrar- og fiskeldisþátta í starfsemi stöðvanna og þess að skilyrði skráningar sé uppfyllt. Í þessu felst m.a. reglubundið eftirlit með að framkvæmd innra eftirlits sé í samræmi við lög og reglur.

Matvælastofnun skal skilgreina umfang og lágmarkstíðni eftirlits.

Matvælastofnun skal notast við skjalfestar verklagsreglur í eftirliti. Með verklagsreglum skal sannreyna hvort eftirlitskerfi skráningarskylds aðila uppfylli kröfur, sannprófa skilvirkni eftirlitsins og tryggja að úrbætur séu gerðar þegar um frávik er að ræða.

Matvælastofnun skal hafa eftirlit með heilbrigði fiska og heilnæmi eldisafurða í samræmi við lög þar að lútandi.

22. gr. Áhættumiðað eftirlit.

Eftirlit Matvælastofnunar skal vera áhættumiðað þar sem tíðni eftirlits er ákveðin með hliðsjón af skilgreindum áhættuþáttum. Matvælastofnun er heimilt er að draga úr tíðni og umfangi eftirlits með hliðsjón af skilgreindum áhættuþáttum hjá einstaka skráningarskyldum aðila og viðmiðum Matvælastofnunar um frávik í starfsemi. Matvælastofnun er einnig heimilt að draga úr tíðni og umfangi eftirlits hjá skráningarskyldum aðila sem hefur vottun frá faggiltum aðila eða frá alþjóðlega viðurkenndum aðila um að innra eftirlit fyrirtækisins uppfylli kröfur laga og reglna.

23. gr. Eftirlit falið öðrum.

Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum, sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl., að annast framkvæmd eftirlits samkvæmt sérstökum samningi. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara.

24. gr. Framkvæmd eftirlits.

Matvælastofnun skal heimill óheftur aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar með talið til töku sýna og myndatöku, aðgangur að dagbók skráningarskylds aðila og að öllum þeim stöðum sem lög um fiskeldi og stjórnvaldsreglur ná yfir og er stofnuninni heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.

Skráningarskyldum aðila eða starfsmönnum hans er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laga og ber skráningarskyldum aðila endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits.

Þá getur Matvælastofnun ákveðið að skráningarskyldur aðili skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum og má innheimta slíkan kostnað með fjárnámi án dóms eða sáttar.

25. gr. Dagbókarskylda og skýrsluskil skráningarskyldra aðila.

Skráningarskyldur aðili skal halda dagbók um starfsemina í fiskeldisstöð sinni þar sem fram koma upplýsingar sem kveðið er á um í viðauka I.

Skráningarskyldur aðili skal skila framleiðsluskýrslu til Matvælastofnunar fyrir 15. mars og 15. september ár hvert.

Matvælastofnun er heimilt að framkvæma upplýsingaöflun með rafrænum hætti og skylda skráningarskylda aðila til að skrá upplýsingarnar í gagnagrunn sem stofnunin leggur til.

Matvælastofnun er heimilt að kalla eftir frekari skýrslum og gögnum en greint er frá í reglugerð þessari ef tilefni er til.

26. gr. Birting upplýsinga.

Matvælastofnun skal eftir hverja eftirlitsheimsókn til skráningarskylds aðila birta opinberlega á vefsíðu sinni skýrslu með lýsingu á því sem fram kom og hvort starfsemin sé í samræmi við skilyrði skráningar. Skýrslan skal gerð opinber eftir að skráningarskyldur aðili hefur fengið tækifæri til þess að koma að athugasemdum. Athugasemdir skulu eftir atvikum birtar með skýrslunni. Matvælastofnun skal leitast við að birta ofangreint innan tveggja mánaða frá eftirlitsheimsókn.

Matvælastofnum skal birta opinberlega á vefsíðu sinni innan tveggja vikna ákvarðanir sem fela í sér:

  1. ákvörðun Matvælastofnunar um afskráningu,
  2. ákvörðun um úrbætur sem unnar eru á kostnað skráningarskylds aðila,
  3. álagningu dagsekta,
  4. ákvörðun um álagningu stjórnvaldssekta.

Matvælastofnun skal birta opinberlega á vefsíðu sinni samantekt upplýsinga úr framleiðsluskýrslum skráningarskyldra aðila í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar. Þessa samantekt skal birta eigi síðar en 20 dögum eftir að upplýsingar berast frá skráningarskyldum aðilum.

Matvælastofnun skal birta opinberlega á vefsíðu sinni upplýsingar um eftirfarandi þegar slíks verður vart:

  1. strok,
  2. tilkynningarskylda sjúkdóma,
  3. óeðlileg afföll eldisdýra,
  4. slæma meðferð á eldisdýri.

Matvælastofnun skal við birtingu upplýsinga gæta þess að ákvæðum upplýsingalaga sé fylgt.

27. gr. Þjónustu- og eftirlitsgjald.

Við skráningu fiskeldisstöðvar skal aðili greiða þjónustugjald samkvæmt gjaldskrá Matvælastofnunar vegna þess kostnaðar sem fellur til við afgreiðslu skráningar.

Fyrir úttekt Matvælastofnunar á starfseminni skal greitt þjónustugjald samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar.

Fyrir eftirlit Matvælastofnunar eða faggiltra eftirlitsaðila á hennar vegum skulu fiskeldisstöðvar greiða eftirlitsgjald samkvæmt gjaldskrá Matvælastofnunar. Eftirlitsgjald skal greitt samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar. Ef eftirlitsgjald er ekki greitt á eindaga reiknast hæstu lögleyfðu dráttarvextir af fjárhæð þess frá gjalddaga til greiðsludags. Eftirlitsgjald má innheimta með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Eftirlitsgjaldið skal ekki vera hærra en raunkostnaður sem hlýst af eftirlitinu og er ætlað að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum:

  1. Launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits.
  2. Öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar.
  3. Kostnaði við sýnatöku og greiningar á rannsóknastofum.

28. gr. Afskráning fiskeldisstöðvar.

Matvælastofnun er heimilt að afskrá skráða starfsemi og synja um endurskráningu verði aðili uppvís að því að vanrækja þær kröfur sem gilda um skráningu eða brjóta að öðru leyti gegn skilyrðum og skilmálum skráningarinnar. Matvælastofnun ber að senda skráningaraðila tilkynningu um tilefni afskráningar og skal skráningaraðila veittur frestur til andmæla.

Skráningarskyldur aðili getur afskráð starfsemi hjá Matvælastofnun.

29. gr. Kæruheimild.

Ákvarðanir Matvælastofnunar er lúta að skráningarskyldu sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina.

Kærufrestur er einn mánuður.

30. gr. Þvingunarúrræði.

Matvælastofnun beitir ákvæðum laga um fiskeldi vegna brota á reglugerð þessari.

31. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um fiskeldi.

32. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, ásamt síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 23. september 2021.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kolbeinn Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.