Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

804/2021

Reglugerð um innflutning á sáðvöru iðnaðarhamps.

1. gr.

Í reglugerð þessari er mælt fyrir um skilyrði fyrir innflutningi fræja af tegundinni Cannabis sativa, í þeim tilgangi að rækta iðnaðarhamp.

2. gr.

Heimilt er að flytja inn fræ af tegundinni Cannabis sativa í þeim tilgangi að rækta iðnaðarhamp, að upfylltum eftirtöldum skilyrðum:

  1. Magn tetrahydrocannabinol (THC) í fræinu og þeim afurðum sem fræið kann að gefa af sér er að hámarki 0,20%.
  2. Um er að ræða yrki tegundarinnar Cannabis sativa sem tilgreint er í sameiginlegri EES-skrá yfir yrki nytjaplantna í landbúnaði sem birt er samkvæmt tilskipun 2002/53/EB, sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 301/1995, um eftirlit með sáðvöru.
  3. Viðkomandi fræjum fylgja gögn sem sýna fram á að um sé að ræða yrki tilgreint í sameiginlegri EES-skrá og sem uppfylla skilyrði tilskipunar ráðsins 2002/57/EB, um markaðssetningu olíu- og trefjaplöntufræs, sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 301/1995, um eftirlit með sáðvöru.

3. gr.

Matvælastofnun hefur eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við lög nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

4. gr.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 9. gr., 9. gr. a - 9. gr. e laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. gr. b laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni og lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, með síðari breytingum.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 2. júlí 2021.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Kolbeinn Árnason.

Iðunn Guðjónsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.