Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 6. des. 2022

500/2021

Reglugerð um slátrun í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að mæla fyrir um sérstakar undanþágur vegna slátrunar og stykkjunar í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum, í samræmi við kröfur eftirfarandi reglugerða: Reglugerðar nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, reglugerðar nr. 104/2010 um gildistöku reglugerðar (EB) nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, reglugerðar nr. 234/2020 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 625/2017 um sértækar reglur um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu sem eru ætlaðar til manneldis, allar með síðari breytingum ásamt afleiddum gerðum.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um slátrun í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum. Reglugerðin afmarkast við slátrun og stykkjun en gildir ekki um frekari vinnslu afurða.

3. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:

Ábyrgðaraðili slátrunar: Aðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um starfsemina.

Biðsvæði: Aðstaða fjár eða biðsvæði fyrir aflífun.

Biðsvæði aðkomufjár: Aðstaða fjár eða biðsvæði fyrir aflífun sem fé á jörð hins litla sauðfjár- og geitasláturhúss hefur aldrei aðgang að.

Framleiðsla afurða í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum: Slátrun og stykkjun sláturafurða.

Frábrigðavörur: Skrokkar sem ekki hafa verið heilbrigðisskoðaðir og aðrar vörur sem hafa verið innkallaðar.

Hreint svæði: Svæði í sláturferli þar sem gæra, haus og lappir hafa þegar verið fjarlægð af skrokknum og er þannig útbúið að hægt er að stýra áhættu sem getur falið í sér mengun afurða auk þess sem unnt er að stýra hættum sem mögulega geta mengað hráefni.

Lítið sauðfjár- og geitasláturhús: Sláturhús sem uppfyllir skilyrði reglugerðar þessarar og heimilt er að slátra að hámarki 30 gripum á dag.

Opinber dýralæknir: Dýralæknir sem Matvælastofnun tilnefnir, annað hvort sem starfsmann eða á annan hátt, sem er með viðeigandi menntun og hæfi til að sinna opinberu eftirliti og annarri opinberri starfsemi í samræmi við reglugerð nr. 234/2020 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 625/2017, um sértækar reglur um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu sem eru ætlaðar til manneldis.

Óhreint svæði: Svæði frá því að sláturfé kemur inn á biðsvæði þar til gæra, haus og lappir hafa verið fjarlægð af skrokknum og önnur svæði þar sem hætta er á mengun afurða frá umhverfi.

Sérstakt áhættuefni: Hauskúpa, þ.m.t. heili og augu, og mæna úr dýrum, sem eru eldri en 12 mánaða eða eru komin með fullorðins framtönn sem er komin upp úr gómnum, eða eldri en 12 mánaða samkvæmt mati með aðferð sem Matvælastofnun samþykkir.

Stykkjun: Niðurhlutun og úrbeining kjöts.

4. gr. Kröfur sem gerðar eru til lítilla sauðfjár- og geitasláturhúsa og framleiðslu sem þar fer fram.

Lítil sauðfjár- og geitasláturhús og framleiðsla sem þar fer fram skulu uppfylla lágmarkskröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004, um hollustuhætti sem varða matvæli, reglugerð nr. 104/2010 um gildistöku reglugerðar (EB) nr. 853/2004, um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu og reglugerð nr. 234/2020, um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 625/2017 um sértækar reglur um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu sem eru ætlaðar til manneldis, allar með síðari breytingum ásamt afleiddum gerðum.

Með samþykki Matvælastofnunar er ábyrgðaraðila slátrunar heimilt að móttaka fé frá öðrum jörðum til framleiðslu í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum. Matvælastofnun leggur mat á sjúkdómastöðu hverju sinni og er heimilt að afturkalla heimildina ef breyting verður á sjúkdómastöðu eða brotið er gegn smitvörnum að mati stofnunarinnar. Óheimilt er að slátra fé úr öðru varnarhólfi eða frá jörðum með hærri sjúkdómastöðu en sú jörð sem hið litla sauðfjár- og geitasláturhús er staðsett á.

5. gr. Kröfur til slátrunar.

Við slátrun sauðfjár og geita skal gæta þess að uppfyllt séu skilyrði reglugerðar nr. 911/2012, um vernd dýra við aflífun. Þeir sem vinna við slátrun á grundvelli ákvæða þessarar reglugerðar skulu hafa lokið námskeiði Matvælastofnunar um vernd dýra við aflífun, sbr. reglugerð nr. 911/2012, um vernd dýra við aflífun, eða sambærilegu námskeiði í öðru aðildarríki innan EES.

6. gr. Húsnæði og aðstaða.

Eftirfarandi kröfur eru gerðar til húsnæðis og aðstöðu lítilla sauðfjár- og geitasláturhúsa þar sem framleiðsla afurða fer fram:

  1. Starfsfólk skal klæðast hreinum hlífðarfatnaði.
  2. Framleiðsla matvæla skal vera aðskilin frá einkaheimili og annarri óskyldri starfsemi. Þó er heimilt að nota salernis- og búningsaðstöðu á einkaheimili ef vinnsluhúsnæði er á sömu lóð eða á sama lögbýli þó að hámarki í 100 m fjarlægð.
  3. Fé sem móttekið er frá öðrum jörðum til framleiðslu í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum, sbr. 2. mgr. 4. gr., er skylt að koma fyrir á biðsvæði aðkomufjár.
  4. Óheimilt er að færa fé sem hefur verið fært á biðsvæði eða biðsvæði aðkomufjár annað en til slátrunar.
  5. Aðskilja skal hreint og óhreint svæði. Rými þurfa að vera nægjanlega mörg miðað við aðgerðirnar sem þar fara fram, þannig að vinnsluferlið sé rökrétt og komið sé í veg fyrir kross- eða víxlmengun afurða:

    1. Hafa má vinnslu á mismunandi stigum samkvæmt þessari reglugerð í sama vinnslurými ef aðskilnaður milli framleiðslustiga er tryggður með aðskilnaði í tíma og að vinnslurýmið sé vel þrifið og sótthreinsað með viðeigandi hætti milli mismunandi vinnslustiga.
    2. Geyma má hráefni, lokaafurð og frábrigðavörur í sama rýminu ef viðeigandi aðskilnaður er tryggður þannig að komið sé í veg fyrir mengun og með því skilyrði að frábrigðavörur séu í lokuðum umbúðum og greinilega merktar.
    3. Nota má sama inngang/útgang fyrir hráefni, lokaafurð og vörur sem ekki uppfylla kröfur ef viðeigandi aðskilnaður í tíma er tryggður.
    4. Tryggja skal að afurðir séu kældar á réttan hátt og geymdar við rétt geymsluhitastig, sbr. viðauka III, þátt I, VII. kafla í reglugerð nr. 104/2010, um gildistöku reglugerðar (EB) nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu.
  6. Innréttingar skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir að bert kjöt snerti gólf, veggi eða annan fastan búnað.
  7. Húsnæðið skal þannig útbúið að hægt sé að þrífa það og vatnshalli sé að niðurföllum.
  8. Þar skal vera kalt og heitt vatn af neysluvatnsgæðum.
  9. Í rýminu skal vera hægt að sótthreinsa áhöld og hnífa með að a.m.k. 82°C heitu vatni eða með öðru kerfi sem hefur sambærileg áhrif og samþykkt er af Matvælastofnun.
  10. Dýralæknir skal hafa viðunandi vinnuaðstöðu á starfsstöðinni. Ef aðskilið herbergi er ekki til staðar fyrir hann þá skal útvega honum sér hirslur sem dýralæknirinn hefur einn aðgang að og unnt er að læsa.

7. gr. Hollustuhættir við slátrun.

Um hollustuhætti við slátrun skal fara eftir ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, nánar tiltekið viðauka III, þátt I, kafla IV.

8. gr. Innra eftirlit.

Ábyrgðaraðili lítils sauðfjár- og geitasláturhúss skal innleiða, beita og viðhalda aðferðum sem byggjast á meginreglunum um greiningu á hættu, mikilvæga stýristaði og um forvarnir gegn hættum og taka mið af hollustuháttum samkvæmt reglugerð nr. 103/2010, um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004, um hollustuhætti sem varða matvæli og 104/2010, um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004, um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, með síðari breytingum.

9. gr. Heilbrigðisskoðun.

Opinbert eftirlit með framleiðslu í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 234/2020, um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 625/2017, um sértækar reglur um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu sem eru ætlaðar til manneldis, með síðari breytingum og reglugerð nr. 483/2020, um gildistöku framkvæmdarreglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/627 um samræmt, hagnýtt fyrirkomulag við framkvæmd opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu, sem eru ætlaðar til manneldis, í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/625 ásamt afleiddum gerðum. Opinberir dýrlæknar skulu sinna heilbrigðisskoðunum með framleiðslu sauðfjár- og geitaafurða í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum, bæði fyrir og eftir slátrun.

Ábyrgðaraðila slátrunar ber að skipuleggja tímasetningu slátrunar á dagvinnutíma í samráði við Matvælastofnun.

Kostnaður við eftirlit opinbers dýralæknis samkvæmt þessari grein greiðist úr ríkissjóði.

10. gr. Förgun aukaafurða dýra.

Aukaafurðum úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis skal safna, geyma og farga í samræmi við ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1069/2009 sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 674/2017, um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis.

Undir stjórn opinbers dýralæknis skal fjarlægja sérstakt áhættuefni úr sauðfé og geitum og geyma í læsanlegu íláti þar til það er flutt til förgunar í viðurkenndri brennslustöð, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 41/2012, um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB), nr. 999/2001 um setningu reglna um forvarnir gegn, eftirlit með og útrýmingu tiltekinna tegunda smitandi heilahrörnunar. Öðrum aukaafurðum skal fargað samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags.

11. gr. Vinnsla kjötafurða.

Um frekari vinnslu afurða en stykkjun gilda ákvæði reglugerðar nr. 856/2016, um lítil matvælafyrirtæki og hefðbundin matvæli.

12. gr. Leiðbeiningabæklingur.

Matvælastofnun skal gefa út leiðbeiningabækling á grundvelli reglugerðarinnar þar sem skýrð eru út helstu skilyrði sem gerð eru til slátrunar og stykkjunar í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum.

13. gr. Eftirlit.

Eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar er í höndum Matvælastofnunar en þó er eftirlit með dreifingu afurða og vörum á markaði í höndum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga í samræmi við ákvæði laga nr. 93/1995, um matvæli. Matvælastofnun annast opinbert eftirlit samkvæmt lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum nr. 55/2013, um velferð dýra.

14. gr. Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt XII. kafla laga nr. 93/1995, um matvæli.

15. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, 29. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og 21. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Athugasemdir ritstjóra

Í 1. gr. breytingar regluerðar 923/2021 er kveðið á um breytingar á 2. gr. um orðskýringar en metið sem svo að það eigi við 3. gr. sem fjallar um orðskýringar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.