Leita
Hreinsa Um leit

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

406/2020

Reglugerð um bakvaktir dýralækna.

1. gr.

Bakvaktir.

Til að tryggja velferð dýra og almenna þjónustu við dýraeigendur skal dýralæknir jafnan vera á bakvakt utan venjulegs dagvinnutíma á hverju vaktsvæði, sbr. lög um dýralækna og heilbrigðis­þjónustu við dýr. Héraðsdýralæknar, hver í sínu umdæmi, skipuleggja bakvaktir í samráði við sjálf­stætt starfandi dýralækna sem þar starfa og er heimilt að skipta bakvakt innan sama vakt­svæðis milli fleiri dýralækna samtímis. Þá er Matvælastofnun heimilt að fela dýralæknum á einu vakt­svæði að sinna samhliða vakt að hluta eða öllu leyti á öðru vaktsvæði. Við skipulagningu bak­vakta er ætlast til að tekið sé mið af vegalengdum og umfangi þjónustu innan viðkomandi vakt­svæða. Komi upp ágreiningur um skiptingu bakvakta innan vaktsvæða skal Matvælastofnun skera úr ágreiningi.

Fyrir bakvaktaþjónustu er greitt samkvæmt samningi Dýralæknafélags Íslands við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þóknun samkvæmt samningnum er tímagjald fyrir veitta þjónustu á hverju vaktsvæði fyrir sig, sbr. 3. gr. Matvælastofnun annast mán­aðar­lega útborgun þóknunar á grundvelli staðfestrar tímaskráningar héraðsdýralækna sem skipu­leggja bakvaktirnar, sbr. 1. mgr.

Í samráði við sjálfstætt starfandi dýralækna á vaktsvæði 6, og á grundvelli skiptingar bakvakta innan sama svæðis er Matvælastofnun heimilt að skipta svæðinu í tvennt og greiða tveimur dýra­læknum samtímis fyrir bakvaktaþjónustu á vaktsvæði 6.

 

2. gr.

Vaktskylda.

Dýralæknar, sem stunda almennar dýralækningar, eiga rétt á og þeim ber skylda til að taka þátt í vaktafyrirkomulagi sem skipulagt er á viðkomandi vaktsvæði, sbr. 1. gr., nema þeir séu sjálfir sjúkir eða hindraðir af öðrum meira aðkallandi embættisstörfum.

Dýralæknir sem sinnir almennum dýralækningum í fullu starfi telst hafa uppfyllt vaktskyldu sína taki hann þátt í vaktafyrirkomulagi í 960 klst. á ári skv. 1. mgr. Að öðrum kosti tekur vaktskylda dýra­læknis mið af 960 klst. í réttu hlutfalli við starfshlutfall hans.

Dýralækni er heimilt að taka að sér bakvaktaþjónustu umfram vaktskyldu, svo og að semja við annan dýralækni um að taka við vaktskyldunni að hluta eða öllu leyti. Vaktafyrirkomulag sem héraðsdýralæknar skipuleggja skv. 1. gr. skal taka mið af ósk og ráðstöfun dýralæknis hvað þetta varðar.

 

3. gr.

Aðgengi.

Á vakttíma skal vera hægt að ná sambandi við dýralækni sem sinnir bakvakt með því að hringja í tiltekið símanúmer. Svartími skal vera eins skammur og kostur er. Dýralækni er ekki heimilt að taka gjald hjá aðila sem leitar til hans á bakvakt, nema í þeim tilvikum þar sem dýralæknirinn veitir viðkomandi tiltekna dýralæknaþjónustu, sbr. 6. gr., þ.m.t. greining og/eða meðhöndlun, ráðgjöf og tilsögn. Upplýsingar um símanúmer vakthafandi dýralækna á vaktsvæðum landsins skulu aðgengi­legar á vefsvæði Matvælastofnunar.

 

4. gr.

Gjaldtaka.

Eftir atvikum ber umráðamaður dýrs, hlutaðeigandi sveitarfélag, þegar um er að ræða hálfvillt og villt dýr, og ráðuneyti, sem fer með vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra af stofni í útrým­ingarhættu, kostnað af veittri dýralæknaþjónustu, sbr. 7. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra.

Gjaldskrá dýralækna sem sinna bakvakt skv. reglugerð þessari skal vera umráðamönnum dýra og öðrum aðgengileg. Áður en dýralæknir á bakvakt veitir dýrlæknaþjónustu skal hann vekja athygli þess sem til hans leitar á gjaldskrá sinni og hvar hana er að finna.

 

5. gr.

Þjónustustig,

Vakthafandi dýralæknir skal upplýsa þann sem til hans leitar um þá þjónustu sem er í boði hverju sinni af hans hálfu og annarra dýralækna á því vaktsvæði sem um ræðir. Hann skal einnig leggja mat á viðeigandi úrræði og staðfesta, ef eftir því er leitað, tíma fyrir frekari þjónustu hvort sem í boði er að veita hana með fjarþjónustubúnaði, móttöku á starfsstöð dýralæknis eða vitjun.

 

6. gr.

Samstarf vakthafandi dýralækna,

Tveimur eða fleirum dýralæknum sem samtímis taka þátt í vaktafyrirkomulagi á vaktsvæðum er heimilt að taka við erindum í sama símanúmeri. Jafnframt getur sami dýralæknirinn með sam­komu­­lagi við hlutaðeigandi dýralækna annast vaktþjónustu samtímis á tveimur eða fleiri vakt­svæðum.

 

7. gr.

Fyrstu viðbrögð og tilkynningarskylda til Matvælastofnunar.

Fái vakthafandi dýralæknar upplýsingar eða vitneskju um alvarlega smitsjúkdóma í dýrum, alvarleg dýravelferðarmál, niðurstöður rannsókna á alvarlegum sjúkdómum eða ólöglegan innflutn­ing sem getur valdið hættu á útbreiðslu smitsjúkdóma skulu þeir tilkynna það til Matvælastofnunar eins fljótt og auðið er þannig að hægt verði að virkja viðeigandi viðbragðsáætlun til mótvægis. Jafn­framt er þeim skylt að grípa til fyrstu varúðarráðstafana til að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma, sbr. 5. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og koma dýrum í neyð til hjálpar, sbr. 7. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra.

 

8. gr.

Undanþágur.

Ef héraðsdýralækni tekst ekki að manna öll vakttímabil á tilteknu vaktsvæði, er Matvælastofnun heimilt að semja við dýralækni eða dýralækna á öðrum vaktsvæðum um að þeir bæti við sig bakvaktaþjónustu fyrir umrætt svæði. Sinni dýralæknir þannig fleiri en einu vaktsvæði samtímis er Matvælastofnun heimilt að hækka þóknun hans í réttu hlutfalli við fjölda vaktsvæða sem hann sinnir.

 

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 12. og 17. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðis­þjónustu við dýr og tekur gildi 1. maí 2020.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 29. apríl 2020.

 

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Elísabet Anna Jónsdóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica