Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 3. feb. 2021

205/2020

Reglugerð um línuveiðar norskra skipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi árið 2020.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til framkvæmdar samnings milli Íslands, Noregs og Rússlands frá 15. maí 1999 um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs ásamt tvíhliða bókun við hann frá sama degi milli Íslands og Noregs.

2. gr.

Veiðar norskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands skulu háðar leyfum Fiskistofu. Ekki skulu fleiri en þrjú norsk skip hafa leyfi til línuveiða samtímis.

Norsk stjórnvöld skulu sækja um leyfi fyrir skip til línuveiða til Fiskistofu. Í umsókn skal tilgreina nafn skips, skrásetningarnúmer, stærð, tegund fjarskiptabúnaðar og kallmerki.

3. gr.

Norskum skipum sem hafa leyfi til línuveiða í íslenskri fiskveiðilandhelgi, samkvæmt þessari reglugerð, er heimilt að veiða samtals 500 tonn af keilu, löngu og blálöngu miðað við afla upp úr sjó. Auk þess er þeim heimilt að veiða alls 125 tonn af öðrum tegundum, þó ekki meira en 50 tonn af grálúðu og 50 tonn af karfa miðað við afla upp úr sjó. Allar beinar veiðar á lúðu (hvítlúðu) í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar. Við línuveiðar skal sleppa allri lúðu (hvítlúðu) með því að skera á taum línunnar.

Í hverri veiðiferð skal afli í öðrum tegundum en keilu, löngu og blálöngu ekki vera meiri, en sem nemur 25% af samtals afla skipsins í keilu, löngu og blálöngu. Grálúðu- og karfaafli skal ekki vera meiri en sem nemur 10% í hvorri tegund.

Fari afli í einhverri einstakri tegund, annarri en keilu, löngu eða blálöngu, yfir 50% af heildarafla þegar lína er dregin, er óheimilt að leggja línuna aftur nær þeim stað en 5 sjómílur.

Afla skal haldið aðgreindum eftir tegundum um borð í skipinu.

Leyfi norskra skipa til línuveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands falla úr gildi þegar sameiginlegur afli skipanna hefur náð þeim leyfilega heildarafla sem ákveðinn er í þessari grein.

4. gr.

Norskum skipum sem leyfi hafa fengið til línuveiða er einungis heimilt að stunda veiðar sunnan 64°00´N og utan 12 sjómílna frá grunnlínu, sbr. reglugerð nr. 299/1975.

Óheimilt er, í sömu veiðiferð, að stunda jafnframt veiðar utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

5. gr.

Norsk skip sem leyfi hafa fengið til línuveiða skulu búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 1170/2013 um rafrænar skeytasendingar, upplýsingagjöf og rafræn afladagbókaskil erlendra fiskiskipa í efnahagslögsögu Íslands.

6. gr.

Um siglingu skips, á leið til veiðisvæðis áður en veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands hefjast og á leið út úr fiskveiðilandhelgi Íslands, gilda ákvæði reglugerðar um eftirlitsstaði erlendra skipa vegna veiða og siglinga í íslenskri fiskveiðilögsögu nr. 1133/2013, þar sem fram kemur staðsetning athugunarstaðanna. Tímafrestir tilkynninga koma fram í reglugerð um rafrænar skeytasendingar, upplýsingagjöf og rafræn afladagbókaskil erlendra fiskiskipa í efnahagslögsögu Íslands nr. 1170/2013.

7. gr.

Norsk skip sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt reglugerð þessari skulu hlíta ákvæðum laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nema annað sé sérstaklega ákveðið í reglugerð þessari og sömu reglum og eiga við um íslensk skip við sams konar veiðar, m.a. um veiðibann, friðunarsvæði og aðra lokun svæða.

Veiðarfæri, sem ætluð eru til annarra veiða en leyfi miðast við, skulu geymd í sérstakri veiðarfærageymslu.

8. gr.

Skipstjórum norskra skipa sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, ber að auðvelda eins og unnt er eftirlit Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu með veiðum, veiðarfærum og afla um borð í skipunum. Telji eftirlitsaðilar að fullnægjandi athugun geti ekki farið fram á sjó er hlutaðeigandi skipstjórum skylt að hlíta fyrirmælum um að halda til nálægrar hafnar þar sem athugun geti farið fram.

Leyfisbréf og reglur um veiðar skulu geymdar um borð í skipinu.

9. gr.

Heimilt er að frysta hausaðan og slægðan afla um borð. Frekari vinnsla á afla um borð er óheimil. Aflatölur skal miða við fisk upp úr sjó.

Við útreikning á "afla um borð" í "afla upp úr sjó" skal margfalda með eftirtöldum umreiknistuðlum:

Úr hausuðum og slægðum
í fisk upp úr sjó
Úr slægðum
í fisk upp úr sjó
Tegund með
klumbubeini
án
klumbubeins
Keila 1,39 1,47 1,11
Langa 1,47 1,62 1,25
Blálanga 1,47 1,62 1,25
Steinbítur 1,59 1,66 1,11
Grálúða 1,46 1,46 1,09
Lúða 1,36 1,36 1,09
Karfi 1,64 1,82 1,06
Þorskur 1,59 1,83 1,19
Ýsa 1,53 1,78 1,19
Ufsi 1,43 1,68 1,19
Hlýri 1,59 1,66 1,11

10. gr.

Fiskistofa getur svipt skip leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands brjóti útgerð eða áhöfn skipsins eða aðrir þeir er í þágu útgerðar starfa gegn lögum sem um veiðarnar gilda, reglugerð þessari eða ákvæðum í samningi ríkjanna, sbr. 1. gr.

11. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 1130/2018, um línuveiðar norskra skipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi árið 2019.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 11. mars 2020.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Jóhann Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.