Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð Reglugerð án breytinga, sjá breytingasögu.

200/2020

Reglugerð um innflutning hunda og katta.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Tilgangur.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja heilbrigði dýra og manna með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins við innflutning á hundum og köttum. Auk þess er markmið reglugerðar þessarar að koma í veg fyrir að til landsins séu fluttir hundar sem talið er að hætta geti stafað af.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð og orðasambönd merkingu sem hér segir:

  1. Einangrunarstöð er aðstaða þar sem hundar og kettir eru vistaðir meðan fylgst er með hvort dýrin sýni merki um smitsjúkdóm. Sjá skilyrði í reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr.
  2. Gild bólusetning er bólusetning þar sem hundar og kettir hafa hlotið viðeigandi grunnbólusetningu og henni viðhaldið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda bóluefnisins.
  3. Innflutningsleyfi er leyfi til innflutnings á hundi eða ketti útgefið af Matvælastofnun.
  4. Heilbrigðis- og upprunavottorð er vottorð sem staðfestir heilbrigði og uppruna viðkomandi hunds eða kattar. Einungis skal nota gilt eyðublað útgefið af Matvælastofnun.
  5. Heimaeinangrun fyrir hjálparhunda er aðstaða sem Matvælastofnun samþykkir að undangenginni umsókn og úttekt, til einangrunar hjálparhunda. Sjá skilyrði í reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr.
  6. Hjálparhundur er leiðsöguhundur fyrir blinda, merkjahundur fyrir heyrnarskerta eða hjálparhundur fyrir hreyfihamlaða, flogaveika og sykursjúka, sem aðstoðar einstaklinga með ofangreindar greiningar við að takast á við umhverfi sitt og hefur vottaða þjálfun sem samþykkt er af Matvælastofnun.
  7. Innflutningsstaður er flugvöllur sem hefur á að skipa aðstöðu sem uppfyllir skilyrði III. kafla þessarar reglugerðar og samþykktur hefur verið af Matvælastofnun.
  8. Lönd án hundaæðis eru viðurkennd útflutningslönd sem eru á lista sem Matvælastofnun gefur út, sem byggir á skilgreiningu Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) hvað varðar hundaæði á hverjum tíma.
  9. Lönd þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum eru viðurkennd útflutningslönd sem eru á lista sem Matvælastofnun gefur út, sem byggir á skilgreiningu Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) hvað varðar hundaæði á hverjum tíma.
  10. Móttökustöð hunda og katta er aðstaða á innflutningsstað á vegum Matvælastofnunar fyrir hunda og ketti þar sem innflutningseftirlit fer fram.
  11. Opinber dýralæknir er dýralæknir sem er starfsmaður dýralæknayfirvalda í hverju landi eða starfar með fulltingi dýralæknayfirvalda.
  12. Upprunaland er fæðingarland dýrs.
  13. Viðurkennd útflutningslönd eru lönd sem að mati Matvælastofnunar hafa sýnt fram á viðunandi dýrasjúkdómastöðu og dýraheilbrigðisþjónustu.

3. gr. Innflutningsleyfi.

Innflutningur á hundum og köttum er óheimill nema að fengnu leyfi Matvælastofnunar og uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar.

Með umsókn um innflutningsleyfi staðfestir umsækjandi að hlíta í hvívetna því regluverki sem gildir um innflutning og einangrun auk fyrirmæla sem Matvælastofnun setur sem skilyrði til innflutnings og einangrunar.

Innflutningsleyfi gildir í allt að eitt ár frá útgáfudegi.

4. gr. Viðurkennd útflutningslönd.

Eingöngu má flytja hunda og ketti til Íslands frá viðurkenndu útflutningslandi.

Viðurkennd útflutningslönd eru flokkuð í tvo flokka m.t.t. hundaæðis, sbr. viðauka I. Í fyrsta flokki eru lönd án hundaæðis. Í öðrum flokki eru lönd þar sem hundaæði finnst ekki eða er haldið vel í skefjum. Ef land sem innflytjandi hyggst flytja inn hund eða kött frá er ekki á listanum, getur hann sótt um sérstakt mat Matvælastofnunar á því hvort landið geti talist viðurkennt útflutningsland. Við mat á því hvort land geti talist viðurkennt útflutningsland skal Matvælastofnun miða við sjúkdómastöðu hundaæðis og hvort staða sé sambærileg við lönd sem tilgreind eru í viðauka I.

Hundar og kettir sem fyrirhugað er að flytja til landsins skulu hafa dvalið í viðurkenndu útflutningslandi síðustu sex mánuði fyrir innflutning eða frá fæðingu, eða öðru útflutningslandi sem er í sama flokki m.t.t. hundaæðis.

Matvælastofnun getur þó heimilað innflutning á hundi eða ketti frá landi sem ekki telst til viðurkennds útflutningslands, sbr. viðauka I, ef um er að ræða búferlaflutninga og dýrið hefur verið í eigu og umsjá innflytjanda í a.m.k. sex mánuði fyrir innflutning. Þessu til staðfestingar skal innflytjandi leggja fram gögn sem Matvælastofnun metur gild. Hundur eða köttur sem fluttur er til Íslands á þessum forsendum skal uppfylla heilbrigðisskilyrði samkvæmt flokki 2, sbr. viðauka I.

5. gr. Vottorð.

Öllum hundum og köttum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal fylgja frumrit heilbrigðis- og upprunavottorðs.

Matvælastofnun gefur út eyðublöð fyrir heilbrigðis- og upprunavottorð sem nota skal við innflutninginn.

Vottorðið skal vera rétt útfyllt og gefið út af dýralækni með starfsleyfi í útflutningslandinu. Vottorðið gildir í tíu sólarhringa frá útgáfudegi. Vottorðinu skulu fylgja rannsóknarniðurstöður sýna sem krafist er í hverju tilfelli.

6. gr. Kostnaður.

Innflytjandi skal sjá til þess að þau vottorð sem krafist er, fylgi dýrinu við innflutning. Hann ber allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum og öflun vottorða, þ.m.t. nauðsynlegum sýnatökum, meðhöndlun, eftirliti og rannsóknum sem Matvælastofnun telur nauðsynlegar.

7. gr. Umsögn Matvælastofnunar.

Fimm til tíu sólarhringum fyrir áætlaðan komudag hunda eða katta til landsins skal innflytjandi senda Matvælastofnun öll tilskilin vottorð til umsagnar og samþykktar með rafrænum hætti. Berist tilskilin gögn Matvælastofnun síðar en 5 sólarhringum fyrir áætlaðan komudag er stofnuninni heimilt að synja innflutningi dýrs.

8. gr. Innflutningsstaður.

Einungis er heimilt að flytja inn hunda og ketti til Íslands um innflutningsstað eins og hann er skilgreindur í reglugerð þessari.

Innflutningur á hundum og köttum með skipum er óheimill.

Um aðbúnað dýranna í flutningi gilda ákvæði 7. liðar í viðauka II, reglugerðar nr. 80/2016, um velferð gæludýra.

9. gr. Eftirlit á innflutningsstað.

Opinber dýralæknir skoðar alla hunda og ketti við komu til landsins í móttökustöð hunda og katta og sannreynir að þeir sýni ekki einkenni smitsjúkdóms, hafi innflutningsleyfi og að öll tilskilin vottorð fylgi.

10. gr. Brottfall innflutningsleyfis.

Komi í ljós að skilyrðum reglugerðar þessarar sé ekki framfylgt í hvívetna fellur innflutningsleyfið samstundis úr gildi. Skal dýrið aflífað og hræinu fargað bótalaust og á kostnað innflytjanda.

II. KAFLI Innflutningur hunda og katta.

11. gr. Einangrun.

Hunda og ketti sem heimilað hefur verið að flytja til landsins og uppfylla skilyrði reglugerðar þessarar, skal við komuna til landsins flytja rakleiðis úr móttökustöð hunda og katta í einangrunarstöð þar sem dýrin skulu dvelja að lágmarki í 14 sólarhringa. Innflytjandi skal sjálfur útvega rými fyrir dýrið í einangrunarstöð.

Innflytjendur vottaðra hjálparhunda geta sótt um leyfi til þess að einangrun þeirra fari fram í heimaeinangrun fyrir hjálparhunda undir eftirliti Matvælastofnunar og skv. skilyrðum þar að lútandi, sbr. reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr. Eingöngu hjálparhundar sem uppfylla öll skilyrði innflutnings geta fengið slíka heimild. Umsókn um einangrun í heimaeinangrun fyrir hjálparhunda skal berast Matvælastofnun að minnsta kosti einum mánuði fyrir innflutning.

12. gr. Heilbrigðisskilyrði vegna innflutnings hunda og katta.

Eftirfarandi heilbrigðisskilyrði skulu öll uppfyllt og staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði vegna innflutnings hunda og katta, sbr. 5. gr., ásamt neðangreindum grunnupplýsingum:

  1. Útflutningsland.
  2. Upprunaland.
  3. Hunda- eða kattategund.
  4. Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
  5. Númer innflutningsleyfis útgefið af Matvælastofnun.
  6. Örmerking: Hundar og kettir skulu örmerktir með örmerki sem uppfyllir ISO-staðla áður en meðhöndlun eða sýnataka með tilliti til innflutnings er hafin. Örmerkisnúmer skal staðfest af dýralækni í hvert sinn sem meðhöndlun eða sýnataka vegna innflutnings fer fram.
  7. Nafn dýrs og fæðingardagur þess.
  8. Fyrirbyggjandi aðgerðir vegna smitsjúkdóma:

    1. Bólusetningar:

      1. Bólusetning og mótefnamæling gegn hundaæði (rabies) - hundar og kettir:

        1. Hundar og kettir frá löndum án hundaæðis (sjá viðauka I): Hundar og kettir skulu hafa gilda bólusetningu gegn hundaæði. Mótefnamæling skal fara fram í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og framkvæmd af rannsóknarstofu sem viðurkennd er af Evrópusambandinu í þessum tilgangi. Mælist mótefni jafnt og/eða hærra en 0,5 a.e./ml er heimilt að flytja dýrið til landsins. Niðurstaða mótefnamælingar gildir svo lengi sem bólusetningu er viðhaldið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda bóluefnisins.
        2. Hundar og kettir frá löndum þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum (sjá viðauka I): Hundar og kettir skulu hafa gilda bólusetningu gegn hundaæði. Mótefnamæling skal fara fram í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og framkvæmd af rannsóknarstofu sem viðurkennd er af Evrópusambandinu í þessum tilgangi. Mælist mótefni jafnt og/eða hærra en 0,5 a.e./ml er heimilt að flytja dýrið til landsins 90 dögum eftir sýnatöku vegna mótefnamælingar. Niðurstaða mótefnamælingar gildir svo lengi sem bólusetningu er viðhaldið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda bóluefnisins.
      2. Bólusetning gegn hundainflúensu (e. canine influenza virus) - hundar:
        Hundar frá áhættusvæðum (sjá viðauka I) skulu hafa gilda bólusetningu gegn viðeigandi stofnum hundainflúensu. Síðasta bólusetning skal hafa farið fram að minnsta kosti 14 sólarhringum fyrir innflutning.
      3. Aðrar bólusetningar - hundar:
        Hundar skulu hafa gilda bólusetningu gegn sjúkdómum samkvæmt neðangreindum lista. Síðasta bólusetning skal hafa farið fram að minnsta kosti 14 sólarhringum fyrir innflutning:

        1. Leptóspírusýking (e. leptospirosis).
        2. Hundafár (e. canine distemper).
        3. Smáveirusótt (e. canine parvovirus).
        4. Smitandi lifrarbólga (e. infectious canine hepatitis).
        5. Parainflúensa (e. canine parainfluenza).
      4. Aðrar bólusetningar - kettir:
        Kettir skulu hafa gilda bólusetningu gegn sjúkdómum skv. neðangreindum lista. Síðasta bólusetning skal hafa farið fram að minnsta kosti 14 sólarhringum fyrir innflutning:

        1. Kattafár (e. feline panleukopenia).
        2. Kattaflensa (e. rhinotracheitis).
        3. Kattakvef (e. feline calicivirus).
    2. Rannsóknir:

      1. Blóðrannsókn vegna brúsellósu (Brucella canis) - hundar:
        Í fyrsta lagi 30 sólarhringum fyrir innflutning skal taka blóðsýni og það rannsakað m.t.t. Brucella canis með aðferð sem samþykkt er af Matvælastofnun. Niðurstaða skal vera neikvæð.
        Umráðamaður hunds í útflutningslandi skal lýsa því yfir skriflega að hundurinn hafi ekki parast síðustu tvo mánuði fyrir innflutning.
      2. Rannsókn vegna Leishmaniosis (Leishmania spp.) - ógeldir hundar af báðum kynjum:
        Í fyrsta lagi 30 sólarhringum fyrir innflutning skal taka sýni (blóð- eða vefjasýni) og það rannsakað m.t.t. Leishmania spp. með aðferð sem samþykkt er af Matvælastofnun. Niðurstaða skal vera neikvæð. Sé niðurstaða jákvæð getur Matvælastofnun heimilað innflutning að uppfylltum skilyrðum þar að lútandi.
      3. Blóðrannsókn eða meðhöndlun vegna hjarta/lungnaormasýkingar af völdum Angiostrongylus vasorum - hundar:

        1. taka blóðsýni í fyrsta lagi 30 sólarhringum fyrir innflutning og það rannsakað m.t.t. hjarta/lungnaormasýkingar af völdum A. vasorum með aðferð sem samþykkt er af Matvælastofnun. Niðurstaða skal vera neikvæð.
        2. meðhöndla hunda með sníkjudýralyfjum sem eru skráð til meðferðar gegn A. vasorum 5-10 sólarhringum fyrir innflutning.
      4. Blóðrannsókn vegna kattahvítblæðis (e. feline leukemia virus) - kettir:
        Í fyrsta lagi 30 sólarhringum fyrir innflutning skal taka blóðsýni og það rannsakað m.t.t. kattahvítblæðis með aðferð sem samþykkt er af Matvælastofnun. Niðurstaða skal vera neikvæð.
      5. Blóðrannsókn vegna kattaeyðniveiru (e. feline immunodeficiancy virus) - kettir:
        Í fyrsta lagi 30 sólarhringum fyrir innflutning skal taka blóðsýni og það rannsakað m.t.t. kattaeyðniveiru með aðferð sem samþykkt er af Matvælastofnun. Niðurstaða skal vera neikvæð.
    3. Meðhöndlun:

      1. Meðhöndlun gegn útvortis sníkjudýrum - hundar og kettir:
        Meðhöndla skal hunda og ketti tvisvar sinnum gegn útvortis sníkjudýrum með sníkjudýralyfjum sem ná til lúsa (e. lice), flóa (e. fleas) og stórmítla (e. ticks) með a.m.k. 14 sólarhringa millibili. Fyrri meðhöndlun skal fara fram 21-28 sólarhringum fyrir innflutning. Seinni meðhöndlun skal fara fram 5-10 sólarhringum fyrir innflutning.
      2. Meðhöndlun gegn þráðormum - hundar og kettir:
        Meðhöndla skal hunda og ketti tvisvar sinnum gegn þráðormum með a.m.k. 14 sólarhringa millibili. Fyrri meðhöndlun skal fara fram 21-28 sólarhringum fyrir innflutning. Seinni meðhöndlun skal fara fram 5-10 sólarhringum fyrir innflutning.
      3. Meðhöndlun gegn bandormum - hundar og kettir:
        Meðhöndla skal hunda og ketti tvisvar sinnum gegn bandormum með a.m.k. 14 sólarhringa millibili. Fyrri meðhöndlun skal fara fram 21-28 sólarhringum fyrir innflutning. Seinni meðhöndlun skal fara fram 5-10 sólarhringum fyrir innflutning.
    4. Heilbrigðisskoðun: Hundar og kettir skulu heilbrigðisskoðaðir 5-10 sólarhringum fyrir innflutning. Dýrin skulu vera laus við ytri sníkjudýr og klínísk einkenni smitsjúkdóma. Dýrin skulu skoðuð sérstaklega með tilliti til tunguorma (Linguata serrata), kláðamítla (Sarcoptes scabiei spp.) og húðsveppa (Microsporum canis, M. gypseum, Trychophyton mentagrophytes og Trichophyton verrucosum). Hundar skulu auk þess skoðaðir sérstaklega með tilliti til smitandi kynfæraæxla og kettir m.t.t. kattabólusmits.

13. gr. Skapgerðarmat.

Matvælastofnun er heimilt að krefjast sérstaks skapgerðarmats á hundi sem sótt er um leyfi til að flytja inn. Matvælastofnun skal taka mið af því sem vitað er um eðli viðkomandi hundategundar og leita álits sérfræðinga eftir þörfum.

Matvælastofnun setur nánari reglur um framkvæmd skapgerðarmats og lágmarksaldur hunda við matið.

14. gr. Óheimill innflutningur.

Óheimilt er að flytja til landsins:

  1. Hvolpafullar tíkur.
  2. Kettlingafullar læður.
  3. Tíkur með hvolpa á spena.
  4. Læður með kettlinga á spena.
  5. Dýr sem hafa slasast eða undirgengist aðgerðir fyrir innflutning, allt fram að innflutningsdegi, og/eða þarfnast aukins eftirlits eða eftirmeðferðar af nokkru tagi, nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar.
  6. Hunda af eftirfarandi tegundum, svo og blendinga af þeim í a.m.k. fimm ættliði:

    1. Pit Bull Terrier/American Staffordshire Terrier/Staffordshire Bull Terrier/American Bulldog.
    2. Fila Brasileiro.
    3. Toso Inu.
    4. Dogo Argentino.
    5. Cane Corso.
    6. Presa Canario.
    7. Boerboel.
    8. Hunda sem hafa sambærilegan uppruna, líkamsbyggingu og/eða geðslag og tegundir í 1.-7. tl. samkvæmt rökstuddri ákvörðun Matvælastofnunar hverju sinni.
    9. Hunda sem eru taldir hættulegir að mati Matvælastofnunar hverju sinni. Stofnunin skal rökstyðja ákvörðun sína og taka mið af fyrirliggjandi upplýsingum um viðkomandi hundategund, uppruna hennar og ræktunarmarkið, líkamsbyggingu og geðslag.
  7. Blendinga af úlfum og hundum í a.m.k. 10 ættliði.

Komi í ljós við komu dýrs til landsins að ákvæði a-g-lið eigi við um dýr sem komið er á innflutningsstað skal fara eftir ákvæðum 10. gr. þessarar reglugerðar um brottfall leyfis.

Ef ástæða er til að ætla að hundur tilheyri tegund eða blendingi, sbr. liði f eða g, getur Matvælastofnun farið fram á DNA-greiningu, ættbók eða önnur gögn til staðfestingar á hundategund.

III. KAFLI Móttökustöð hunda og katta á innflutningsstað.

15. gr. Aðbúnaður og verklag.

Á innflutningsstað skal vera móttökustöð hunda og katta á vegum Matvælastofnunar þar sem innflutningseftirlit fer fram. Þar skal vera aðstaða til tímabundinnar vistunar dýra sem hafa innflutningsleyfi. Aðstaðan skal vera fullnægjandi hvað varðar smitvarnir og dýravelferð, sbr. reglugerð um velferð gæludýra. Þess skal sérstaklega gætt að dýr sleppi ekki út úr aðstöðunni.

Við komu til landsins skal flutningsaðili flytja hunda og ketti rakleiðis í móttökustöð hunda og katta og tryggja að dýrin dvelji þar þangað til þau eru sótt af fulltrúa viðkomandi einangrunarstöðvar að undangengnu innflutningseftirliti.

Matvælastofnun skal tryggja að starfsmenn flutningsaðila hljóti fræðslu um smitvarnir og umgengni við dýr í móttökustöðinni.

Óviðkomandi skulu ekki hafa aðgang að móttökustöð hunda og katta á innflutningsstað.

Matvælastofnun setur nánari verklagsreglur um umgengni og umönnun dýra í móttökustöð hunda og katta.

IV. KAFLI Ýmis ákvæði.

16. gr. Framlenging einangrunar.

Ef upp koma grunsemdir um að dýr sem dvelur í einangrun sé haldið smitsjúkdómi, er Matvælastofnun heimilt að ákveða að dýr verði vistað lengur en 14 sólarhringa í einangrunarstöð, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar þessarar, uns fullljóst er hvort dýrið sé hæft til innflutnings eður ei. Innflytjandi dýrsins ber allan kostnað sem af áframhaldandi einangrun og meðhöndlun kann að hljótast.

17. gr. Frávik.

Matvælastofnun er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 12. gr. reglugerðar þessarar undir sérstökum kringumstæðum, ef fagleg rök mæla með því. Ákvarðanir um slíkar undanþágur skulu tilkynntar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

18. gr. Gjaldtaka.

Matvælastofnun innheimtir gjald vegna útgáfu leyfa og eftirlits á innflutningsstað og í einangrunarstöð. Gjaldtaka fer eftir gjaldskrá Matvælastofnunar hverju sinni.

19. gr. Málsmeðferðarreglur.

Matvælastofnun ber að setja sér málsmeðferðarreglur við mat samkvæmt 4. og 13. gr. reglugerðarinnar auk annarra ákvæða hennar sem varða töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana.

20. gr. Refsingar.

Brot á ákvæðum reglugerðarinnar varða sektum nema þyngri refsing liggi við eftir ákvæðum laga. Hinn brotlegi ber allan kostnað vegna brots og honum gert að þola bótalaust að dýri sé fargað á hans kostnað.

Með mál sem rísa út af brotum á reglugerðinni skal farið að hætti laga um meðferð sakamála.

21. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, ásamt síðari breytingum, lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, ásamt síðari breytingum og lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Innflutningsleyfi hunda og katta sem veitt hafa verið samkvæmt reglugerð nr. 935/2004, um innflutning gæludýra og hundasæðis, halda gildi sínu til 31. desember 2020. Innflutningur dýra sem á sér stað eftir gildistöku reglugerðar þessarar skal uppfylla skilyrði reglugerðarinnar en þó með þeirri undanþágu að hundar sem fluttir verða inn í mars 2020 þurfa auk skilyrða skv. reglugerð nr. 935/2004, að uppfylla skilyrði varðandi rannsóknir vegna Leishmaniosis og blóðrannsókn eða meðhöndlun vegna hjarta/lungnaormasýkingar af völdum Angiostrongylus vasorum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ef fyrirspurn um innflutningsleyfi barst áður en reglugerð nr. 590/2022 féll úr gildi skal ríkið bera kostnað af einangrun dýranna enda séu dýrin í eigu umsækjanda um alþjóðlega vernd eða flóttamanna frá Úkraínu, skv. lögum nr. 80/2016 um útlendinga, að uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.