Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

33/2017

Reglugerð um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað fyrir nýtt, kælt og fryst kjöt af svínum, sauðfé, geitum og alifuglum. - Brottfallin

1. gr.

Efni og gildissvið.

Í þessari reglugerð er mælt fyrir um reglur um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað á merki­miðum á nýju, kældu og frystu kjöti af svínum, sauðfé eða geitum og alifuglum. Þessar kjöt­tegundir skulu falla undir eftirfarandi vöruliði sameiginlegu nafnaskrárinnar:

0203: Svínakjöt, nýtt, kælt eða fryst.
0204: Kinda- eða geitakjöt, nýtt, kælt eða fryst.
úr 0207: Kjöt af alifuglum í nr. 0105, nýtt, kælt eða fryst.

2. gr.

Skilgreiningar.

1. Eftirfarandi skilgreiningar skulu gilda:

a) "afskurður": litlir bitar af kjöti sem falla undir vöruliði úr sameinuðu nafnaskránni sem eru til­greindir í 1. gr., viðurkenndir sem hæfir til manneldis og eingöngu framleiddir við afskurð þegar skrokkar eru úrbeinaðir eða kjöt skorið,
b) "lota": kjöt, sem fellur undir vöruliði úr sameinuðu nafnaskránni sem eru tilgreindir í 1. gr., af einni tegund, með eða án beina, einnig skorið eða hakkað, sem hefur verið skorið, hakkað eða pakkað við nánast sömu skilyrði.

2. Auk skilgreininga í 1. mgr. gilda, eftir því sem við á, skilgreiningar í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 102/2010, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 103/2010, og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 104/2010.

3. gr.

Rekjanleiki.

1. Stjórnendur matvælafyrirtækja skulu, á hverju stigi framleiðslu og dreifingar á kjötinu sem um getur í 1. gr., hafa yfir að ráða og nota auðkenningar- og skráningarkerfi.

2. Kerfið skal notað til að tryggja:

a) tengslin milli kjöts og dýrs eða hóps dýra sem það er fengið úr; á stigi slátrunar er það slátur­húsið sem ber ábyrgð á þessum tengslum, og
b) sendingu upplýsinga varðandi tilgreiningarnar, sem um getur í 5., 6. eða 7. gr., eins og við á, ásamt kjötinu, til stjórnenda á síðari stigum framleiðslu og dreifingar.

Hver stjórnandi matvælafyrirtækis skal bera ábyrgð á notkun auðkenningar- og skráningarkerfisins, eins og mælt er fyrir um í fyrstu undirgrein, á hverju stigi framleiðslu og dreifingar þar sem það er notað.

Stjórnandi matvælafyrirtækis, sem pakkar eða merkir kjötið í samræmi við 5., 6. eða 7. gr., skal tryggja samsvörun milli lotunúmers, sem auðkennir kjötið sem afhent er til neytenda eða stór­eldhúsa, og viðkomandi lotu eða lota af kjöti sem pakkningin eða merkta lotan samanstendur af. Allar pakkningar með sama lotunúmer skulu svara til sömu tilgreininga í samræmi við 5., 6. eða 7. gr.

3. Kerfið, sem um getur í 1. mgr., skal einkum skrá sendingar á dýrum, skrokkum eða kjöt­stykkjum, eins og við á, til og frá starfsstöð stjórnanda matvælafyrirtækisins og tryggja sam­svörun milli komu og brottfarar.

4. gr.

Hópur dýra.

1. Stærð dýrahópsins, sem um getur í 3. gr., skal ákvörðuð með:

a) fjölda skrokka sem eru stykkjaðir saman og mynda eina lotu fyrir viðkomandi stykkjunar­stöð ef um er að ræða stykkjun skrokka,
b) fjölda skrokka þar sem kjötið af þeim myndar eina lotu fyrir viðkomandi stykkjunar- eða hökkunarstöð ef um er að ræða frekari skurð eða hökkun.

2. Stærð lotunnar skal ekki fara yfir framleiðslu einnar starfsstöðvar á einum degi.

3. Þegar loturnar eru settar saman, nema þegar 7. gr. er beitt, skal starfsstöðin, þar sem kjötið er stykkjað eða hakkað, tryggja að allir skrokkar í lotu séu af dýrum sem sama tilgreining á merk­ingum gildir um kjötið af í samræmi við 1. mgr. 5. gr. eða 2. mgr. 5. gr.

5. gr.

Merking kjöts.

1. Merkimiðinn á kjötinu, sem um getur í 1. gr., sem ætlað er til afhendingar til lokaneytenda eða stór­eldhúsa, skal innihalda eftirfarandi tilgreiningar:

a) aðildarríkið eða þriðja landið þar sem eldið fór fram, tilgreint sem "Alið í: (heiti aðildarríkis eða þriðja lands)" í samræmi við eftirfarandi viðmiðanir:
  i. að því er varðar svín:
    - ef um er að ræða að dýrinu sé slátrað eldra en 6 mánaða: aðildarríkið eða þriðja landið þar sem síðasta eldistímabilið, a.m.k. 4 mánuðir, stóð yfir,
    - ef um er að ræða að dýrinu sé slátrað yngra en 6 mánaða og lífþyngd þess er a.m.k. 80 kíló: aðildarríkið eða þriðja landið þar sem eldistímabilið, eftir að dýrið hafði náð 30 kílóa þyngd, stóð yfir,
    - ef um er að ræða að dýrinu sé slátrað yngra en 6 mánaða og lífþyngd þess er undir 80 kílóum: aðildarríkið eða þriðja landið þar sem allt eldistímabilið stóð yfir,
  ii. að því er varðar sauðfé og geitur: aðildarríkið eða þriðja landið þar sem síðasta eldis­tímabilið, a.m.k. 6 mánuðir, stóð yfir eða, ef um er að ræða að dýrinu sé slátrað yngra en 6 mánaða: aðildarríkið eða þriðja landið þar sem allt eldistímabilið stóð yfir,
  iii. að því er varðar alifugla: aðildarríkið eða þriðja landið þar sem síðasta eldistímabilið, a.m.k. einn mánuður, stóð yfir eða, ef um er að ræða að dýrinu sé slátrað yngra en mán­aðar­gömlu: aðildarríkið eða þriðja landið þar sem allt eldistímabilið, eftir að dýrið var sett í eldi, stóð yfir,
b) aðildarríkið eða þriðja landið þar sem slátrunin fór fram, tilgreint sem "Slátrað í: (heiti aðildar­ríkis eða þriðja lands)" og
c) lotunúmer sem auðkennir kjötið sem afhent er til neytenda eða stóreldhúsa.

Ef eldistímabilið, sem um getur í a-lið, næst ekki í neinu aðildarríkjanna eða þriðju landanna þar sem dýrið var alið komi í stað tilgreiningarinnar sem um getur í a-lið: "Alið í: nokkrum aðildarríkjum EES" eða, ef kjötið eða dýrin voru flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið, "Alið í: nokkrum löndum utan EES" eða "Alið í: nokkrum EES-löndum og löndum utan EES".

Ef eldistímabilið, sem um getur í a-lið, næst ekki í neinu aðildarríkjanna eða þriðju landanna þar sem dýrið var alið er þó heimilt, í stað tilgreiningarinnar sem um getur í a-lið, að setja "Alið í (skrá yfir aðildarríki eða þriðju lönd þar sem dýrið var alið)" ef stjórnandi matvælafyrirtækisins sýnir lög­bæra yfirvaldinu fram á það á fullnægjandi hátt að dýrið var alið í þessum aðildarríkjum eða þriðju löndum.

2. Í stað tilgreininganna, sem um getur í a- og b-lið 1. mgr., er heimilt að setja tilgreininguna "Uppruni: (heiti aðildarríkis eða þriðja lands)" ef stjórnandi matvælafyrirtækisins sýnir lögbæra yfir­valdinu fram á það á fullnægjandi hátt að kjötið, sem um getur í 1. gr., sé af dýrum sem voru fædd, alin og slátrað í einu aðildarríki eða þriðja landi.

3. Ef nokkur stykki af kjöti af sömu tegund eða mismunandi tegundum svara til mismunandi til­greininga á merkimiðum í samræmi við 1. og 2. mgr. og eru afgreidd í sömu pakkningu til neyt­enda eða stóreldhúss, skal koma fram á merkimiðanum:

a) skrá yfir viðkomandi aðildarríki eða þriðju lönd í samræmi við 1. eða 2. mgr. fyrir hverja tegund,
b) lotunúmer sem auðkennir kjötið sem afhent er til neytenda eða stóreldhúsa.

6. gr.

Undanþágur fyrir kjöt frá þriðju löndum.

Þrátt fyrir a-lið 1. mgr. 5. gr. skal merkimiði á kjöti, sem um getur í 1. gr., sem er flutt inn til setningar á markað Evrópska efnahagssvæðisins og sem upplýsingarnar, sem kveðið er á um í a-lið 1. mgr. 5. gr., liggja ekki fyrir um, innihalda tilgreininguna "Alið: utan EES" og "Slátrað í: (heiti þriðja lands þar sem dýrinu var slátrað)".

7. gr.

Undanþágur fyrir hakkað kjöt og afskurð.

Þrátt fyrir a- og b-lið 1. mgr. 5. gr., 2. mgr. 5. gr. og 6. gr., að því er varðar hakkað kjöt og afskurð, er heimilt að nota eftirfarandi tilgreiningar:

a) "Uppruni: EES" ef hakkað kjöt eða afskurður er eingöngu framleiddur úr kjöti af dýrum sem eru fædd, alin og slátrað í mismunandi aðildarríkjum.
b) "Alið og slátrað í: EES" ef hakkað kjöt eða afskurður er eingöngu framleiddur úr kjöti af dýrum sem eru alin og slátrað í mismunandi aðildarríkjum.
c) "Alið og slátrað: utan EES" ef hakkað kjöt eða afskurður er eingöngu framleiddur úr kjöti sem er flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið.
d) "Alið: utan EES" og "Slátrað í: EES" ef hakkað kjöt eða afskurður er eingöngu framleiddur úr kjöti af dýrum sem eru flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið sem dýr til slátrunar og slátrað í einu aðildarríki eða mismunandi aðildarríkjum.
e) "Alið og slátrað í: EES og utan EES" ef hakkað kjöt eða afskurður er framleiddur úr:
  i. kjöti af dýrum sem eru alin og slátrað í einu aðildarríki eða mismunandi aðildarríkjum og úr kjöti sem er flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið, eða
  ii. kjöti af dýrum sem eru flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið og slátrað í einu aðildarríki eða mismunandi aðildarríkjum.

8. gr.

Valfrjálsar viðbótarupplýsingar á merkimiðanum.

Stjórnendur matvælafyrirtækja geta bætt viðbótarupplýsingum, sem varða uppruna kjötsins, við tilgreiningarnar sem um getur í 5., 6. eða 7. gr.

Viðbótarupplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., skulu ekki vera í mótsögn við tilgreiningarnar sem um getur í 5., 6. eða 7. gr. og skulu vera í samræmi við reglurnar í V. kafla reglugerðar (ESB) nr. 1169/2011.

9. gr.

Eftirlit.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftir­lit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995.

Matvælastofnun er heimilt að annast rannsóknir vegna opinbers eftirlits varðandi samsetningu mat­væla með tilliti til merkingar, auglýsingar og kynningar þeirra.

10. gr.

Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a - 30. gr. e og 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

11. gr.

Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. og 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.

12. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Matvæli sem sett eru á markað eða merkt fyrir gildistöku reglugerðar þessarar og eru merkt í sam­ræmi við reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, með síðari breyt­ingum, má setja á markað á meðan birgðir endast.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 9. janúar 2017.

Gunnar Bragi Sveinsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Eggert Ólafsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica