Leita
Hreinsa Um leit

Brottfallnar reglugerðir

81/1990

Reglugerð um takmörkun umferðar og dvalar á svæði Keflavíkurflugvallar - Brottfallin

R E G L U G E R Ð

um takmörkun umferðar og dvalar á svæði Keflavíkurflugvallar.

 

 

1. gr.

Engum er heimil umferð um eða dvöl á svæði Keflavíkurflugvallar nema hann hafi til þess sérstakt leyfi samkvæmt skírteini útgefnu af lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli.

 

 

2. gr.

Ákvæði 1. gr. taka ekki til eftirtalinna í þar greindum tilvikum:

1.  Erlendra sendierindreka sem hafa fengið heimild utanríkisráðuneytisins til að annast opinber starfserindi á transit-svæði í flugstöð Leifs Eiríkssonar, enda beri þeir á sér skilríki þar að lútandi sem utanríkisráðuneytið hefur gefið út þeim til handa.

2.  Varnarliðsmanna og skylduliðs þeirra sem hafa heimild varnarliðsins til umferðar eða dvalar á svæði flotastöðvarinnar, enda beri þeir á sér skilríki þar að lútandi sem varnarliðið hefur gefið út þeim til handa.

3.  Flugliða og flugfarþega á eðlilegri leið þeirra til og frá loftfari, enda beri þeir á sér gildar ferðaheimildir útgefnar af umráðamanni loftfars eða umboðsmanni hans.

 

 

3. gr.

Leyfi hvers einstaklings skal bundið við ákveðinn hluta svæðisins eða taka til þess alls.

 

 

4. gr.

Leyfi skal gefa út til ákveðins tíma. Takmarka má leyfið við ákveðna vikudaga og tilgreindan hluta sólarhringsins.

 

 

5. gr.

Leyfi má binda ákveðnum störfum eða starfsemi. Láti leyfishafi af því starfi eða starfsemi fellur leyfið úr gildi.

 

 

6. gr.

Lögreglustjóri getur afturkallað leyfi fyrirvaralaust hvenær sem er.

 

 

7. gr.

Lögreglustjóri gefur út skírteini til handa þeim sem leyfi fá samkvæmt 1. gr.

 

 

8. gr.

Leyfishafa er því aðeins heimil dvöl á eða umferð um svæði Keflavíkurflugvallar að hann beri á sér skírteini útgefið honum til handa samkvæmt 7. gr.  Skal hann framvísa skírteini sínu sé þess krafist af löggæslumönnum eða eftirlitsmönnum mannvirkja.

 

 

9. gr.

Skírteini samkvæmt 7. gr. skulu vera prentuð og frágengin í samanlímdum plasthlífum og auðkennd með orðunum: Keflavíkurflugvöllur - Keflavik Airport.

Á skírteininu skal vera nafn leyfishafa, ljósmynd af honum, kennitala hans, nafn vinnuveitanda og lok gildistíma leyfisins. Þá skal vera á skírteininu nafnáritun og stimpill útgefanda og útgáfudagur.

Gildissvið skírteinanna má tákna með mismunandi grunnlitum, litatáknum og öðrum auðkennum.

 

 

10. gr.

Lögreglustjóri getur sett reglur um sérstök skírteini fyrir starfsmenn í vinnuflokkum sem ætlað er að vinna aðeins takmarkaðan tíma á svæðinu. Mega slík skírteini vera án myndar af viðkomandi. Flokkstjóri fyrir slíkum vinnuflokki skal þó jafnan vera með skírteini í samræmi við 9. gr.

Lögreglustjóri getur sett reglur um bráðabirgðaskírteini fyrir einstaka menn eða hópa sem skammtímaerindi eiga á Keflavíkurflugvöll.

 

 

11. gr.

Þegar leyfi fellur úr gildi, hvort heldur vegna þess að gildistími þess er runnin út, lögreglustjóri hefur afturkallað það ellegar leyfishafi er hættur þeim störfum eða starfsemi sem leyfið tók til, skal leyfishafinn skila lögreglustjóra skírteininu.

 

 

12. gr.

Umsóknir um umferðar- eða dvalarleyfi samkvæmt 1. gr. skulu vera á þess til gerðum eyðublöðum.

 

 

13. gr.

Fyrir skírteini um umferðar- eða dvalarleyfi skal greiða gjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

 

 

14. gr.

Áður en leyfishafi fær afhent skírteinið ber honum að kynna sér reglur þær sem lögreglustjóri hefur sett um dvöl á og umferð um svæði Keflavíkurflugvallar og sérstaklega hver sá hluti svæðisins er sem leyfi hans nær til og hver takmörk og hvaða skyldur honum eru settar við leyfisveitinguna. Leyfishafi skal gefa um það yfirlýsingu að hann hafi kynnt sér þessar reglur.

 

 

15. gr.

Lögreglustjóri setur að höfðu samráði við flugvallarstjóra nánari reglur um leyfisveitinguna og meðferð og notkun skírteinanna.

 

 

16. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 77. gr. laga um loftferðir nr. 34/1964, samanber lög nr. 106/1954, og öðlast gildi 15. mars 1990.

Samtímis fellur úr gildi reglugerð nr. 76/1982 um vegabréf á Keflavíkurflugvelli. Vegabréf útgefin samkvæmt þeirri reglugerð halda þó gildi sínu til 1. júní 1990.

 

Utanríkisráðuneytið, 16. febrúar 1990.

 

Jón Baldvin Hannibalsson.

 

______________________

Þorsteinn Ingólfsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica