Brottfallnar reglugerðir

586/1993

Reglugerð um merkingu næringargildis matvæla. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um merkingu næringargildis matvæla.

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til merkingar næringargildis matvæla sem dreift er til neytenda og stóreldhúsa. Ákvæðin gilda einnig um auglýsingu og kynningu matvæla og um sérfæði, sem jafnframt skal merkt samkvæmt sérákvæðum um merkingar í reglugerðum um þann vöruflokk.

Reglugerðin gildir ekki um ölkelduvatn eða annað neysluvatn, né bæliefni sem seld eru sem slík og skyldar vörur svo sem náttúruvörur og hollefni. Það sama á við um matvæli sem ætluð eru til útflutnings til ríkja utan Evrópsks efnahagssvæðis.

2. gr.

Þegar ákvæði eru um merkingu næringargildis matvæla í sérreglugerðum, skal merkingin vera í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og þau ákvæði sem sett eru í sérreglugerð.

3. gr.

1. Stóreldhús eru veitingastaðir, sjúkrahús, mötuneyti og önnur sambærileg starfsemi.

2. Merking næringargildis eru allar upplýsingar sem koma fram í merkingum og fjalla um:

a) Orkugildi.

b) Eftirtalin næringarefni;

prótein, kolvetni, fitu, trefjar, natríum, vítamín og steinefni sem fram koma í viðauka með reglugerð þessari.

3. Fullyrðing um næringargildi er öll merking, kynning og auglýsing þar sem fullyrt er eða gefið í skyn að tiltekin matvæli hafi sérstaka næringarfræðilega eiginleika vegna orku (fjölda hitaeininga) sem þau gefa, gefa minna eða meira af eða gefa ekki, og/eða vegna næringarefna sem þau innihalda, innihalda í minna eða meira magni eða innihalda ekki.

Merking eða önnur kynning varðandi eiginleika næringarefna eða magn felur ekki í sér fullyrðingu um næringargildi þegar ákvæði sérreglugerða mæla fyrir um slíkt.

4. a) Prótein er próteininnihald, reiknað út með formúlunni:

prótein = köfnunarefni greint með Kjeldahl aðferðinni x 6,25.

b) Kolvetni eru öll kolvetni sem brotna niður í efnaskiptum mannslíkamans, þar með taldir pólýólar (sykuralkóhólar).

c) Sykur er ein- og tvísykrur sem fyrirfinnast í matvælum, að undanskildum pólýólum.

d) Fita eru öll fituefni, þar á meðal fosfólípíðar.

e) Mettaðar fitusýrur eru fitusýrur án tvíbindinga.

f) Einómettaðar fitusýrur eru fitusýrur með einni cis-tvíbindingu.

g) Fjölómettaðar fitusýrur eru fitusýrur með cis,cis-metýlentvíbindingum.

h) Trefjar eru hópur efna (aðallega kolvetna) sem eiga það sameiginlegt að efnahvatar mannslíkamans vinna ekki á þeim. Magn trefja skal ákvarðað samkvæmt ráðleggingum fæðudeildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

5. Meðalgildi merkir það gildi sem sýnir best magn þess næringarefnis sem tiltekin matvæli innihalda. Meðalgildið gerir ráð fyrir breytileika eftir árstíðum og öðrum þáttum sem kunna að valda breytingum á hinu raunverulega magni efnisins.

6. Skammtur er tilgreint magn fæðunnar, t.d. innihald í einni umbúðareiningu eða áætlað magn sem ætla má að neytt sé í einni máltíð.

7. Bætiefni eru vítamín, steinefni og lífsnauðsynlegar fitu- og amínósýrur.

8. Náttúruvörur eru vörur sem innihalda eða eru unnar úr örverum, plöntu- eða dýrahlutum og sem auglýstar eru eða kynntar þannig að þær fullnægi tilteknum hollustuþörfum manna. Náttúruvörur eru ýmist einar sér eða blandaðar öðrum efnum, þar á meðal bætiefnum.

9. Hollefni eru efni og efnablöndur sem auglýstar eru eða kynntar þannig að þær bæti heilbrigði manna.

10. Sérfæði er matvæli sem uppfylla tiltekin næringarfræðileg skilyrði og eru markaðssett sem slík.

II. KAFLI

Merking næringargildis.

4. gr.

Næringargildi er skylt að merkja þegar fullyrðing um næringarfræðilega eiginleika tiltekinnar vöru kemur fram í merkingu, kynningu eða auglýsingu. Að öðru leyti er merkingin valfrjáls.

Einungis er heimilt að fullyrða um orkugildi og þau næringarefni sem skilgreind eru í b) lið 2. tl. 3. greinar. Einnig er heimilt að fullyrða um efni sem tilheyra eða eru efnisþættir í flokki þessara næringarefna og skulu þau þá koma fram í merkingu næringargildis.

5. gr.

Merkja skal umbúðir á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku. Þetta ákvæði kemur ekki í veg fyrir að slíkar upplýsingar séu tilgreindar á fleiri er, einu tungumáli.

6. gr.

Næringargildi skal gefa upp í 100 g eða 100 ml. Þar að auki er heimilt að gefa það upp í skömmtum í því magni sem tilgreint er í merkingunni eða í einingum að því tilskildu að getið sé um fjölda eininga í umbúðum.

7. gr.

Uppgefið næringargildi skal miða við matvæli eins og þau eru boðin til sölu. Þar sem það á við geta þessar upplýsingar átt við um matvælin tilreidd, að því tilskildu að tilreiðslunni sé lýst nákvæmlega og tilgreint sé að upplýsingarnar eigi við um matvæli sem eru tilbúin til neyslu.

Uppgefin gildi skulu vera meðalgildi og ýmist vera byggð á efnagreiningu á matvælunum eða útreikningum á meðalgildum fyrir innihaldsefni matvælanna eða útreikningum á öðrum staðfestum og viðurkenndum gögnum.

8. gr.

Upplýsingar um næringargildi skulu koma fram á umbúðunum sjálfum eða merkimiða sem er tryggilega festur við þær. Skulu þær staðsettar á einum stað og í töfluformi þar sem því verður við komið.

Merkingin skal vera auðskiljanleg og letruð á áberandi stað þannig að hún sé greinileg, læsileg og óafmáanleg. Hana má ekki á nokkurn hátt dylja, hylja eða slíta úr samhengi með öðru les- eða myndmáli.

9. gr.

Næringargildi matvæla skal gefa upp á eftirfarandi hátt:

1. Næringargildi:

Orka

kJ og kkal

Prótein

g

Kolvetni

g

Fita

g

2. Skylt er að merkja á eftirfarandi hátt þegar fullyrt er um sykur, mettaðar fitusýrur, trefjar eða natríum:

Næringargildi:

 

Orka

kJ og kkal

Prótein

g

Kolvetni

g

þar af:

 

sykur

g

Fita

g

þar af:

 

mettaðar fitusýrur

g

Trefjar

g

Natríum

g

3. Orkugildi sem gefið er upp skal reiknað út með eftirfarandi breytistuðlum:

Kolvetni (nema pólýólar)

4

kkal/g og 17 kJ/g

Pólýólar

2,4

kkal/g og 10 kJ/g

Prótein

4

kkal/g og 17 kJ/g

Fita

9

kkal/g og 37 kJ/g

Alkóhól (etanól)

7

kkal/g og 29 kJ/g

Lífræn sýra

3

kkal/g og 13 kJ/g

4. Í merkingu næringargildis er einnig heimilt að geta um magn eins eða fleiri eftirtalinna efna:

Sterkja

g

Pólýólar

g

Einómettaður fitusýrur

g

Fjölómettaðar fitusýrur

g

Kólesteról

mg

Vítamín og steinefni, sem skráð eru í viðauka og eru í marktæku magni í vörunni. Þau skulu merkt í þeim einingum sem fram koma í viðaukanum og einnig sem hundraðshluti af ráðlögðum dagskammti (RDS), sem þar er tilgreindur. Almennt skal miðað við 15% af RDS sem marktækt magn vítamína og steinefna í 100 g eða 100 ml vörunnar eða í umbúðareiningu ef hún inniheldur einungis einn skammt.

5. Þegar magn af sykri og/eða pólýólum og/eða sterkju er tilgreint skal það gert strax á eftir merkingu kolvetna á eftirfarandi hátt:

Kolvetni

g

þar af:

 

sykur

g

pólýólar

g

sterkja

g

6. Þegar magn og/eða gerð af fitusýrum og/eða magn af kólesteróli er tilgreint skal það gert strax á eftir merkingu á fituinnihaldi á eftirfarandi hátt:

Fita

g

þar af:

 

mettaðar fitusýrur

g

einómettaðar fitusýrur

g

fjölómettaðar fitusýrur

g

kólesteról

mg

7. Þegar tilgreint er magn af fjölómettuðum og/eða einómettuðum fitusýrum og/eða kólesteróli, verður einnig að koma fram magn af mettuðum fitusýrum í vörunni. Í þessum tilvikum skoðast merking mettaðra fitusýra ekki sem fullyrðing samkvæmt 2. tl. 9. greinar.

III. KAFLI

Gildistaka.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum og lögum nr. 81 / 1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XII. kafla, 53. tölul., tilskipun 90/496/EBE um merkingu næringarinnihalds matvæla og 18. tölul., tilskipun 79/112/EBE um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla til sölu til neytenda, með síðari breytingum. Einnig með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af II. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Með reglugerð þessari falla úr gildi ákvæði IV. kafla reglugerðar nr. 408/1988 um merkingu neytendaumbúða fyrir matvæli og aðrar neysluvörur.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

1. Fyrir matvæli sem eru hér á markaði við gildistöku þessarar reglugerðar og sem ekki eru í samræmi við ákvæði hennar, er veittur eins árs frestur til að koma á nauðsynlegum breytingum. Hafi breytingar til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar ekki verið gerðar að þeim tíma liðnum er dreifing vörunnar óheimil.

2. Þrátt fyrir að sykur, mettaðar fitusýrur, trefjar eða natríum komi fram sem hluti af merkingu næringargildis, er veittur frestur til 25. september 1995 til að merkja vöruna samkvæmt 2. tl. 9. greinar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 30. desember 1993.

Guðmundur Árni Stefánsson.

Páll Sigurðsson.

 

 

Viðauki

Vítamín og steinefni sem heimilt er að tilgreina og ráðlagður

dagskammtur þeirra (RDS)*

Vítamín:

RDS:

 

Steinefni:

RDS:

A-vítamín

800

µg

Kalsíum

800

mg

D-vítamín

5

µg

Fosfór

800

mg

E-vítamín

10

mg

Járn

14

mg

Askorbínsýra (C)

60

mg

Magníum

300

mg

Þíamín (B1 )

1,4

mg

Sink

15

mg

Ríbóflavín (B2)

1,6

mg

Joð

150

µg

Níasín

18

mg

 

 

 

Pyridoxín (B6)

2

mg

 

 

 

Fólasín

200

µg

 

 

 

Cýankóbalamín (B12 )

1

µg

 

 

 

Bíótín

0,15

mg

 

 

 

Pantóþensýra

6

mg

 

 

 

A-vítamín er gefið upp sem retinól jafngildi. 1 R.J. = 1 µg retinól eða 6 µg ß-karótín =3,33 alþjóðaeiningar (ae).

D-vítamín er gefið upp sem kólekalsíferól. 10 µg kólekalsíferól = 400 alþjóðaeiningar (ae).

E-vítamín er gefið upp sem a-tókóferól jafngildi. 1 a-T.J. = 1 mg d-a-tókóferól.

Níasín er gefið upp sem níasín jafngildi. 1 N.J. = 1 mg níasín eða 60 mg tryptofan.

Fólasín miðast við heildarmagn efnisins í fæðunni, þar sem fólasín er mælt með Lactobacillus casei eftir meðhöndlun með hvata.

* RDS- gildi sem hér koma fram eru viðmiðunargildi til notkunar við umbúðamerkingar og geta sem slík verið frábrugðin ráðlögðum dagskömmtum gefnum út af Manneldisráði Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica