Brottfallnar reglugerðir

22/1995

Reglugerð um brennisteinsmagn í gasolíu. - Brottfallin

Reglugerð

um brennisteinsmagn í gasolíu.1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr rýrnun á loftgæðum af völdum brennisteinsdíoxíðs, sem myndast við bruna brennisteinssambanda í gasolíum.

2. gr. 

 Gildissvið og skilgreiningar.

Reglugerð þessi gildir um gasolíur sem notaðar eru beint sem eldsneyti.

Gasolíur eru skilgreindar sem allar jarðolíuafurðir sem vegna eimingarmarka sinna flokkast undir meðalléttar olíur sem ætlaðar eru til notkunar sem eldsneyti og að minnsta kosti 85% af rúmmáli þeirra eimast við 350°, að meðtöldu tapi við eimingu.

Reglugerðin gildir ekki um steinolíu fyrir flugvélar.

Brennisteinsmagn í gasolíu er magn brennisteinssambanda, gefið upp sem brennisteinn, sem mælt er í gasolíu með ISO-aðferðinni 8754 og metið tölfræðilega samkvæmt ISO-staðli 259 (útgefnum 1979), eða önnur sambærileg mæliaðferð.

3. gr. 

 Takmarkanir.

Innflutningur og sala á gasolíum er bönnuð ef brennisteinsmagn fer yfir 0,2%.

4. gr.

Innra eftirlit.

Innflytjendur á gasolíum bera ábyrgð á því að ákvæði reglugerðarinnar séu uppfyllt. Þeir skulu árlega taka saman yfirlit um brennisteinsmagn í gasolíum sem þeir flytja inn og senda eftirlitsaðila yfirlit fyrra árs fyrir 15. mars ár hvert.

5. gr. 

 Eftirlit.

Hollustuvernd ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

6. gr. 

 Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, sbr. 1. gr. laga nr. 51/1993, og samkvæmt 3. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit ásamt síðari breytingum. Reglugerðin er enn fremur sett með hliðsjón af 1. viðbótarpakka EES-samningsins, II. viðauka, XVII. kafla 6. tl. (tilskipun 93/12/EBE).

Reglugerð þessi tekur gildi við birtingu.

Umhverfisráðuneytið, 9. janúar 1995.

Össur Skarphéðinsson.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica