Brottfallnar reglugerðir

505/1997

Reglugerð um grunnpóstþjónustu. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um grunnpóstþjónustu.

 

I. KAFLI

Orðskýringar.

1. gr.

                Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

                Póstsending: Hvers konar bréf eða önnur sending sem flutt er með póstþjónustuaðila.

                Póstmeðferð: Viðtaka, flokkun, flutningur og skil á póstsendingum.

                Póstþjónusta: Póstmeðferð hvers konar bréfa og annarra sendinga, með eða án utanáskriftar.

                Grunnpóstþjónusta: Póstmeðferð bréfa og annarra sendinga með utanáskrift sem vega allt að 20 kg að þyngd.

                Póstþjónustuaðili: Aðili sem veitir hvers kyns póstþjónustu.

                Póstrekandi: Aðili sem annast einn eða fleiri þætti grunnpóstþjónustu.

                Rekstrarleyfishafi: Aðili sem hefur leyfi til grunnpóstþjónustu skv. 11. gr. laga um póstþjónustu.

                Einkaréttarhafi: Aðili sem samkvæmt sérstöku leyfi fer með einkarétt og skyldur ríkisins skv. IV. kafla laga um póstþjónustu.

                Póstkassi: Kassi sem ætlaður er fyrir viðtöku og uppsöfnun bréfapóstsendinga, til frekari póstmeðferðar.

                Frímerki: Gjaldmiðill, útgefinn af ríkinu, sem ætlaður er til greiðslu fyrir póstþjónustu. Frímerki skal bera áletrunina "ÍSLAND".

                Gjaldmerki: Merki, sem ætluð eru til álímingar á póstsendingar og notuð eru af póstþjónustuaðilum og með auðkenni þeirra, til staðfesingar því að greitt hafi verið fyrir póstþjónustu.

                Fjármunapóstsending: Greiðsluviðskipti með millifærslum (póstgíró), póstávísanir, póstkröfur og önnur fjármunaþjónusta.

 

II. KAFLI

Skyldur ríkisins og einkaréttur.

2. gr.

Skyldur ríkisins.

                Íslenska ríkið skal tryggja landsmönnum reglulega grunnpóstþjónustu vegna eftirfarandi sendingartegunda:

                a)             Bréfa, án tillits til innihalds, sem lögð eru í umslög eða sambærilegar umbúðir með utanáskrift allt að 2 kg að þyngd.

                b)            Skriflegra utanáritaðra orðsendinga með sérstöku innihaldi, þar með talinna póstkorta, allt að 2 kg að þyngd.

                c)             Annarra sendinga með utanáskrift og prentuðu innihaldi, sem er að öllu leyti eins, t.d. verðlistar og bæklingar með eða án ytri umbúða allt að 2 kg að þyngd.

                d)            Dagblaða, vikublaða og tímarita, með utanáskrift eða annarri sambærilegri tilgreiningu, allt að 500 g að þyngd.

                e)             Böggla með utanáskrift allt að 20 kg að þyngd.

                Jafnframt skal ríkið tryggja póstmeðferð vegna eftirfarandi þjónustuþátta:

                a)             Fjármunapóstsendinga.

                b)            Ábyrgðarsendinga.

                c)             Verðsendinga.

                d)            Sendinga með blindraletri allt að 7 kg að þyngd.

                Sendingar þær, sem tilgreindar eru í 1. mgr. og b) - d) lið 2. mgr. mega að umfangi vera sem hér segir:

                Lágmark: 90´140 mm; í ströngum: Lengd+tvöfalt þvermál 170 mm. Minnsta lengd 100 mm.

                Hámark: Lengd+breidd+þykkt 900 mm (bögglar þó 3 m). Mesta lengd 600 mm (bögglar þó 1,50 m). Í ströngum: Lengd+tvöfalt þvermál 1040 mm. Mesta lengd 900 mm.

                Tilgreina má verð á bréfum og bögglum (verðsendingar) og ábyrgð má kaupa á bréfasendingar (ábyrgðarsendingar).

 

3. gr.

Einkaréttur ríkisins til póstmeðferðar.

                Íslenska ríkið hefur einkarétt á póstmeðferð eftirfarandi póstsendinga sem eru allt að 2 kg að þyngd:

                a) Lokaðra bréfapóstsendinga hvert svo sem innihald þeirra kann að vera.

                b) Annarra lokaðra sendinga sem uppfylla skilyrði til þess að vera veitt viðtaka í   póst, að svo miklu leyti sem innihald þeirra er ritaðar orðsendingar eða prentaðar tilkynningar, útfylltar með skrift, að undanskildum vörureikningum, fylgiseðlum, farmskrám og svipuðum fylgiskjölum með sendingum.

                Með lokuðum póstsendingum og öðrum sendingum skv. 1. mgr. er átt við sendingar sem lokað er aftur, hvort sem þær eru límdar aftur eða þeim lokað með öðrum hætti, þannig að innihald þeirra er ekki greinilegt.

                Ríkið hefur einnig einkarétt til póstmeðferðar á póstsendingum skv. stafliðum a) og b), öðrum en hraðsendingum, sem koma erlendis frá og eiga að fara til viðtakenda hér á landi. Hefur ríkið enn fremur einkarétt til póstmeðferðar á slíkum póstsendingum sem ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum.

                Einkarétturinn nær ekki til póstmeðferðar með verðlista, bæklinga, blöð og tímarit með utanáskrift sé innihald allra sendinga eins og án umbúða eða um þær búið í gagnsæjum umbúðum.

                Sérhverjum er heimilt að sinna póstþjónustu innan eigin starfsemi.

 

4. gr.

Flutningur fyrir einkaréttarhafa.

                Aðilum sem annast flutning á póstsendingum fyrir einkaréttarhafa er óheimilt, án samþykkis einkaréttarhafans, að hafa meðferðis aðrar sendingar við slíkan flutning. Aðilum sem halda uppi reglubundnum farþegaflutningum er þó heimilt að flytja slíkar sendingar með flutningatækjum sínum.

 

5. gr.

Skylda til að flytja póstsendingar í grunnpóstþjónustu.

                Hver sá sem heldur uppi reglubundnum flutningum innanlands eða til útlanda er skyldugur til, sé þess óskað, að flytja póstsendingar í grunnpóstþjónustu milli endastöðva og póststöðva á leiðinni, enda komi eðlileg greiðsla fyrir. Slíkar póstsendingar njóta forgangs fram yfir annan vöruflutning.

 

6. gr.

Uppsetning póstkassa.

                Íslenska ríkið hefur einkarétt á uppsetningu póstkassa á almannafæri og á stöðum sem almenningur hefur aðgang að, svo sem við verslanir eða verslunarmiðstöðvar, opinberar byggingar o.s.frv.

 

III. KAFLI

Póstleynd.

7. gr.

Þagnarskylda.

                Einungis má veita upplýsingar um póstsendingar og notkun póstþjónustu að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt heimild í öðrum lögum.

                Öllum sem starfa við póstþjónustu, hvort sem er samkvæmt ráðningarsamningi eða verksamningi, er óheimilt að gefa óviðkomandi aðilum upplýsingar um póstsendingar eða gefa öðrum tækifæri til þess að verða sér úti um slíka vitneskju. Enn fremur er þeim óheimilt að opna eða lesa það sem afhent er til póstsendingar. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

 

8. gr.

Undanþágur.

                Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. er heimilt að opna án dómsúrskurðar þær póstsendingar sem ekki er unnt að koma til skila til þess að freista þess að komast að því hverjir sendendur eru svo að unnt sé að endursenda þær. Slíkar sendingar skulu opnaðar í samræmi við ákvæði 18. gr.

                Hafi sendinga þeirra, sem getið er um í 1. mgr. og hafa verið teknar í geymslu, ekki verið vitjað innan eins árs að telja frá þeim degi er þær voru póstlagðar skal senda þær Póst- og fjarskiptastofnun, sem auglýsir þær í Lögbirtingablaði. Vitji þeirra enginn innan þriggja mánaða skal selja þær og rennur andvirði þeirra til stofnunarinnar.

                 Enn fremur er heimilt að leyfa að sendingar séu opnaðar þegar það er óhjákvæmilegt vegna flutnings þeirra eða til að kanna hugsanlegar skemmdir á innihaldi. Hið sama á við þegar rökstuddur grunur leikur á um að ekki hafi verið forsvaranlega búið um sendingu vegna innihalds hennar eða að sending innihaldi hluti sem hættulegt getur verið að flytja. Að athugun lokinni skal ganga frá sendingunni á ný og á hana rituð athugasemd um að hún hafi verið opnuð af viðkomandi póstrekanda, ásamt dagsetningu og undirskrift yfirmanns og eins votts.

                Böggla sem fluttir eru til landsins frá útlöndum má opna ef nauðsynlegt er vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Aðrar lokaðar póstsendingar má ekki opna vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda nema í viðurvist viðtakanda.

                Póstsendingar til einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota má afhenda skiptastjórum eftir beiðni þeirra, enda beri þær með sér að varða fjárhagsmálefni þrotamanns, svo sem bréf frá lánastofnunum og sambærilegum aðilum. Sendingar til látinna manna skal á sama hátt afhenda skiptastjóra þegar um opinber skipti er að ræða. Þegar um einkaskipti er að ræða skulu allar póstsendingar sendar forráðamanni dánarbús nema þær beri með sér að vera einkabréf. Skal sending þá endursend með viðeigandi skýringu áritaðri á sendinguna sjálfa.

                Þegar félag, t.d. hlutafélag, er úrskurðað gjaldþrota er heimilt að afhenda skiptastjóra, eftir beiðni hans, allar póstsendingar sem berast hinu gjaldþrota félagi.

 

IV. KAFLI

Almennar reglur um póstþjónustu.

9. gr.

Ábyrgðarsendingar.

                Sendandi bréfapóstsendingar getur gegn sérstöku gjaldi, auk hins almenna burðargjalds, fengið tekna ábyrgð á sendingunni. Ábyrgðin takmarkast við ákveðna upphæð, skv. gjaldskrá hverju sinni. Ábyrgðarsendingar skulu bera áritunina "Ábyrgð" eða "Recommandé" á vinstri hlið utanáskriftarmegin.

                Að því undanteknu, sem hér fer á eftir, skulu ekki sett sérstök skilyrði um lögun, lokun eða utanáskrift ábyrgðarsendinga.

                Utanáskrift skal tilgreind með haldgóðum og öruggum hætti.

                Ábyrgðarsendingar skulu búnar tölusetningarmiða, sem festa verður tryggilega við sendinguna.

                Miðann sem og áletrunina "Ábyrgð" eða "Recommandé" skal setja utanáskriftarmegin, eftir því sem unnt er í efra vinstra horn eða fyrir neðan nafn og póstfang sendanda, ef svo ber undir eða, ef um er að ræða sendingar í spjaldformi, fyrir ofan utanáskriftina á þann hátt að hún verði ekki ógreinileg.

                Með leyfi póstrekanda má nota fyrir ábyrgðarsendingar umslög með forprentaðri eftirmynd miðans á stað þeim, sem ætlaður er honum. Raðnúmerið má tilgreina þar á hvaða hátt sem vill, svo fremi það sé gert á skýran og óafmáanlegan hátt. Einnig má prenta eftirmynd miðans á utanáskriftarmerkimiða eða beint á innihald sendinga, sem sendar eru í umslagi með gagnsærri rúðu, enda sé eftirmynd þessari undir öllum kringumstæðum fundinn staður yst til vinstri í glugganum.

                Skylda er að kaupa ábyrgð á bréf, sem innihalda peninga, handhafaskuldabréf eða aðrar skuldaviðurkenningar, sem eru nýtar handhafa, eða yfirleitt hvers konar skjöl, er vísa til verðs, ferðatékka, dýra málma, skartgripi eða hliðstæð verðmæti. Einnig er skylda að kaupa ábyrgð á sendingar með lífræn auðskemmd, smitandi efni og sendingar viðurkenndra rannsóknaraðila með hættuleg efni sem heimilt er að taka við til póstsendingar.

                Allar slíkar sendingar skulu frágengnar með tryggum hætti. Sé ábyrgðarsendingu lokað með límbandi án merkis má póstrekandi setja merki eða dagstimpil bæði á límbandið og umbúðirnar.

                Sendandi ábyrgðarsendingar á rétt á að fá kvittun fyrir viðtöku hennar í póst.

                Beri ábyrgðarsending merki þess að hafa verið opnuð og síðan lokað á ný, áður en hún er látin í póst, verður sendandi eða sendimaður hans að staðfesta þetta með undirskrift sinni.

 

10. gr.

Verðsendingar.

                Á verðsendingar skal tilgreina verðmæti innihaldsins utan á sendingunni. Fyrir slíkar sendingar má áskilja sérstakt tryggingargjald, t.d. í hlutfalli við hið tilgreinda verð. Póst- og fjarskiptastofnun getur mælt fyrir um hámark upphæðar í verðsendingu til útlanda í samræmi við milliríkjasamninga.

                Til þess að verðsending verði tekin til flutnings, skal hún vera innsigluð og frá umbúðum gengið með tryggilegum hætti. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um frágang og umbúnað verðsendinga.

 

11. gr.

Afhending póstsendinga.

                Póstsendingu skal dreift til eða afhent þeim sem hún er stíluð á eða hefur umboð til móttöku hennar. Sendingu má afhenda viðtakanda með eftirfarandi hætti:

                a) Með því að hún er sótt á afgreiðslustað póstrekanda;

                b) Með útburði af hálfu póstrekanda til viðtakanda eftir því sem póstfang segir til um;

                c) Með því að láta þær í pósthólf, sem viðtakendur taka á leigu á afgreiðslustöðum.

                Sending sem á er ritað "Sækist", "Poste restante", afhendist aðeins á ákvörðunarpóststöð eða afgreiðslustað póstrekanda.

                Póstsendingar skulu afhentar viðtakendum svo fljótt sem auðið er.

                Almennar bréfapóstsendingar teljast réttilega afhentar, er bréfberi hefur fengið þær í hendur viðtakanda sjálfum, látið þær í gegnum bréfarifu á hurð viðtakanda eða í bréfakassa.

                Sendingar til manna sem sitja í fangelsi skal afhenda eftir því sem reglur um slíkt mæla fyrir um.

                Sendingar til ólögráða má afhenda þeim sjálfum eða þeim sem að lögum hafa forsjá þeirra.

 

12. gr.

Bréfakassar og bréfarifur.

                Bréfakassi er kassi í eða við aðsetur viðtakanda ætlaður fyrir móttöku bréfapóstsendinga. Í þéttbýli og annars staðar þar sem póstútburður fer fram er sett það skilyrði fyrir útburði að kassar eða bréfarifur séu á eða við útihurðir ein-, tví- og þríbýlishúsa, en þar sem fleiri en þrjár íbúðir hafa sameiginlegan inngang skulu húseigendur setja upp bréfakassasamstæður. Sama á við í atvinnuhúsnæði þar sem fleiri en einn aðili hefur starfstöð.

                Bréfarifur skulu vera minnst 25´260 mm að stærð og staðsettar þannig að fjarlægð frá gólfi (jörðu) að neðri jaðri bréfarifu sé ekki minni en 1000 mm og ekki meiri en 1200 mm.

                Bréfakassasamstæður skulu staðsettar á neðstu hæð sem næst aðalanddyri svo bréfberi geti óhindrað komist að og athafnað sig við skil bréfapóstsendinga. Lýsing við kassasamstæðu skal vera fullnægjandi og eigi lakari en almennt er krafist í göngum og stigahúsum fjölbýlishúsa.

                Við hverja bréfarifu og/eða á hverjum kassa skal vera skilti eða gluggi, minnst 26´100 mm að stærð, þar sem tilgreint er með stóru og skýru letri fullt nafn húsráðanda og annarra sem hjá honum búa. Ennfremur skal í fjöleignarhúsum tilgreina númer og auðkenni hæðar. Eigendur (íbúar) fjöleignarhúsa skulu sjá um, að kassarnir séu rétt merktir á hverjum tíma og ber þeim einnig að útvega íbúaskrá fyrir viðkomandi hús. Innbyrðis staðsetning kassanna skal vera sem eðlilegust t.d. kassi fyrir íbúð á fyrstu hæð neðstur til vinstri í samstæðunni o.s.frv. Kassarnir skulu vera læstir og samstæðan vel fest við vegg, svo að útilokað sé að bréf falli aftur fyrir hana.

                Staðsetning kassasamstæðu á vegg skal vera þannig, að hæð frá gólfi að neðri jaðri neðstu bréfarifu sé ekki minni en 700 mm og hæð frá gólfi að efri jaðri efstu bréfarifu sé ekki meiri en 1750 mm. Staðsetning einstakra kassa skal vera þannig að hæð frá gólfi að neðra jaðri bréfarifu sé ekki minni en 1000 mm og að efri jaðri bréfarifu ekki meiri en 1200 mm.

                Þar sem bifreiðar eru notaðar við útburð pósts skal setja upp kassa við vegamót eða girðingarhlið og skulu slíkir kassar staðsettir þannig að auðvelt sé að láta í þá póstsendingar án þess að stíga þurfi út úr bifreiðinni. Þar sem heimreið er sameiginleg fyrir fleiri en eitt heimili (margbýli) skulu kassarnir settir upp hlið við hlið. Um þá gilda að öðru leyti sömu reglur og um aðra bréfakassa.

                Láti húseigandi undir höfuð leggjast að koma fyrir bréfarifu eða setja upp bréfakassa, skal honum með ábyrgðarbréfi gefinn tiltekinn frestur til uppsetningar.

                Hlýði húseigandi ekki fyrirmælum þessum innan hins tiltekna frests er heimilt að hætta að bera út póstsendingar til íbúa hússins.

                Ef hundur er á heimili viðtakanda getur póstþjónustuaðili krafist þess að bréfakassi sé staðsettur gangstéttarmegin við lóðarmörk.

 

13. gr.

Afhending sendinga í pósthólf.

                Póstrekandi getur boðið fram til leigu pósthólf á póststöð, þar sem því verður við komið. Bréfapóstsendingum til þess sem tekur pósthólfið á leigu er raðað í pósthólf viðkomandi og teljast sendingarnar þar með réttilega afhentar.

                Í pósthólf eru aðeins látnar þær sendingar, sem pósthólfsnúmer er tilgreint á. Heimilt er þó að víkja frá þessari reglu þegar um viðskiptavini er að ræða sem fá að jafnaði mikinn fjölda póstsendinga.

                Leigutaki pósthólfs getur ekki krafist þess, að sendingar til annarra en hans sjálfs séu látnar í pósthólf hans.

 

14. gr.

Afhending gegn kvittun.

                Verðsendingar, ábyrgðarsendingar, bögglar og póstávísanir fást aðeins afhentar eða útborgaðar gegn kvittun viðtakanda eða umboðsmanns hans. Hafi sendandi með áletrun á sendingunni tilkynnt að hún skuli einvörðungu afhendast viðtakanda sjálfum ber honum að kvitta fyrir sendingunni og er þá kvittun umboðsmanns ekki tekin gild.

                Fyrir sendingar til opinberra stofnana skal kvitta samkvæmt reglum hlutaðeigandi stofnunar.

                Fyrir sendingu eða fjármuni til hlutafélaga og annarra félaga og stofnana skal kvittað fyrir af þeim sem hverju sinni er veitt skrifleg heimild til þess af fyrirsvarsmönnum þeirra.

                Sendingar þær sem nefndar eru í 1. mgr. og fara eiga til manns eða félags sem er gjaldþrota eða manns sem er látinn, afhendast samkvæmt ákvæðum í 8. gr.

                Sendingar þær sem greinir í 1. mgr. og fara eiga til manna sem dvelja á sjúkrastofnunum og geta ekki sjálfir kvittað fyrir sendingunum, skulu afhentar forstöðumönnum sjúkrastofnana sem þá kvittar fyrir þeim í umboði sjúklingsins enda hafi hann ekki gert sérstakar ráðstafanir um afhendingu sendinga til sín.

                Um afhendingu sendinga með áfengi fer samkvæmt áfengislögum.

 

15. gr.

Geymslutími sendinga.

                Sé ekki unnt að afhenda sendingu vegna rangrar eða ófullnægjandi utanáskriftar eða af öðrum ástæðum, t.d. vegna þess að viðtakandi neitar að taka við henni, er látinn eða fluttur burt án þess að vitað sé hvar hann er niður kominn, skal ekki geyma sendinguna lengur en með þarf til þess að ganga úr skugga um að henni verði ekki komið til skila. Sé ekki annað tekið fram í þessari grein skal sending sem þannig er ástatt um að jafnaði ekki geymd lengur en einn mánuð að telja frá næsta degi eftir komu hennar til póstrekanda, áður en hún er endursend.

                Sending sem á er ritað að skuli geymast þar til hennar verði vitjað (poste restante) skal geymd fyrir viðtakanda í allt að tvo mánuði að telja frá næsta degi eftir komu til póstrekanda.

                Sendandi getur ákveðið styttri geymslutíma fyrir sendinguna en að framan greinir og ber honum þá að rita um það athugasemd á sendinguna og sömuleiðis á fylgibréfið þegar um böggla er að ræða.

                Sending sem ekki er hægt að afhenda viðtakanda innan geymslufrests telst óskilasending.

 

16. gr.

Meðferð óskilasendinga.

                Póstsendingu telst ekki hafa verið skilað:

                a)             Þegar viðtakandi skorast undan að taka við henni;

                b)            þegar viðtakandi finnst ekki;

                c)             þegar sending hefur ekki verið sótt innan reglulegs geymslutíma þrátt fyrir að tilkynning hafi verið send út um komu hennar.

                Sending endursendist sendanda, ef nafn hans og póstfang er tilgreint á sendingunni. Að öðrum kosti er farið með hana sem óskilasendingu.

                Á sendingar sem ekki verður komið til skila skal að jafnaði rita ástæðuna fyrir því. Í því skyni má nota sérstaka miða eða stimpla.

                Hafi óskilasending eitthvert það innihald sem liggur undir skemmdum skal innihaldi komið í verð á sem hagkvæmastan hátt. Sé af einhverjum ástæðum ekki hægt að selja innihaldið skal það eyðilagt. Frá andvirði hins selda má draga gjöld þau sem kunna að hafa hvílt á sendingunni svo og kostnað við að koma henni í verð. Afgangurinn sendist sendanda að frádregnu burðargjaldi.

 

17. gr.

Endursending óskilasendinga til sendanda.

                Óskilasending sem endursend hefur verið til þess að afhendast sendanda skal afhent eftir sömu reglum og gilda um venjulega afhendingu til viðtakanda.

                Þegar póststöð sem óskilasending hefur verið endursend til hefur gengið úr skugga um að sendingunni verði ekki komið til sendanda skal farið með hana í samræmi við ákvæði í 18. gr.

 

18. gr.

Lokameðferð óskilasendinga.

                Sendingu sem hvorki hefur verið hægt að afhenda viðtakanda né endursenda sendanda skal opnuð í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun samkvæmt reglum sem stofnunin setur.

                Verði hægt að komast að því hver sendandi sé með því að opna sendinguna skal viðkomandi póstrekanda falin endursending hennar. Fáist engar upplýsingar á þennan hátt um sendanda eða reynist ógerlegt að ná til hans eru sendingar sem hafa að geyma reiðufé eða aðra muni er meta má til verðs teknar í geymslu, en aðrar sendingar eyðilagðar í umsjá Póst- og fjarskiptastofnunar.

 

19. gr.

Meðferð póstsendinga frá öðrum póstrekanda.

                Póstsending sem fyrir mistök kemst í vörslu póstrekanda sem ekki var ætlað að annast póstmeðferð hennar, skal afhent þeim póstrekanda sem ætluð var meðferð sendingarinnar, viðtakanda hennar eða sendanda, gegn greiðslu samkvæmt gjaldskrá eða samningi.

 

V. KAFLI

Gjaldskrár, viðskiptaskilmálar og frímerki.

20. gr.

Gjaldskrá.

                Gjöld fyrir grunnpóstþjónustu skulu birt í gjaldskrá póstrekanda. Gjaldskrár fyrir þessa þjónustu skulu taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þær skulu vera gagnsæjar og í samræmi við jafnræðisreglu.

                Gefa skal út sérstaka gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem lýtur einkarétti og skal hún staðfest af Póst- og fjarskiptastofnun.

                Gjaldskrár skulu vera aðgengilegar almenningi á afgreiðslustöðum póstrekenda.

 

21. gr.

Viðskiptaskilmálar.

                Póstrekendur skulu semja og birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sína sem um grunnpóstþjónustu gilda og senda til Póst- og fjarskiptastofnunar svo fljótt sem auðið er, þó eigi síðar en 6 mánuðum eftir að þeim hefur verið úthlutað leyfi til starfseminnar. Allar breytingar á skilmálum skulu tilkynntar Póst- og fjarskiptastofnun innan mánaðar frá því að þær taka gildi.

                Viðskiptaskilmálar skulu vera aðgengilegir almenningi á afgreiðslustöðum póstrekenda.

 

22. gr.

Gjaldfrjálsar póstsendingar.

                Póstsending sem ekki ber gjald samkvæmt alþjóðasamningum skal einnig vera gjaldfrjáls innanlands.

 

23. gr.

Frímerki.

                Ríkið hefur einkarétt á útgáfu frímerkja. Með frímerki er átt við gjaldmiðil sem ætlaður er til greiðslu fyrir póstmeðferð sem innt er af hendi í umboði ríkisins. Þau skulu bera nafn landsins.

 

VI. KAFLI

Skaðabætur.

24. gr.

Skilyrði fyrir greiðslu skaðabóta.

                Fyrir glataðar almennar bréfapóstsendingar greiðast ekki skaðabætur, nema póstrekandi hafi tekið á sig slíka ábyrgð sérstaklega, sbr. þó 3.- 6. mgr. Sama gildir þótt innihaldið glatist að nokkru eða öllu leyti.

                Póstrekanda er óskylt að greiða skaðabætur þegar póstsendingum seinkar.

                Fyrir bréfapóstsendingar í ábyrgð sem glatast eða eyðileggjast að einhverju eða öllu leyti á sendandi rétt á skaðabótum er svari til hins raunverulega verðs. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um hámark ábyrgðar sem póstrekendur skulu taka á sig samkvæmt ákvæði þessu.

                Fyrir verðbréf og verðböggla sem glatast eða eyðileggjast að nokkru eða öllu leyti greiðast skaðabætur er svara til hins raunverulega tjóns, þó aldrei hærri en hið tilgreinda verð. Komist upp að verðið hafi í sviksamlegum tilgangi verið tilgreint hærra en það raunverulega var, skal engar bætur greiða.

                Póstrekandi ber fulla ábyrgð á fé, sem hann hefur tekið við sem fjármunasendingu.

                Skaðabætur fyrir almenna böggla sem glatast eða eyðileggjast að nokkru eða öllu leyti eru greiddar sendendum eða viðtakendum að því marki er svari til hins raunverulega tjóns. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um hámark ábyrgðar sem póstrekendur skulu taka á sig samkvæmt ákvæði þessu.

                Skaðabætur ná aðeins til verðs þess hlutar sem glatast hefur eða þeirrar rýrnunar sem hinir skemmdu hlutir hafa orðið fyrir.

                Eigi er skylt að bæta ábata- eða afnotamissi, tjón vegna rýrnunar á verðgildi peninga eða aðrar óbeinar afleiðingar skaðans.

                Skylda til greiðslu skaðabóta fellur niður sé þeirra ekki krafist innan árs frá því viðkomandi póstsending var afhent til flutnings.

                Um skaðabætur fyrir póstsendingar milli landa skal farið samkvæmt gildandi milliríkjasamningum. Verði tjón á sendingu meðan hún er á íslensku póstsvæði greiðast þó skaðabætur eins og um innlenda sendingu sé að ræða, enda sé það hagstæðara fyrir hlutaðeigandi tjónþola.

 

25. gr.

Sérstök tilvik.

                Póst- og fjarskiptastofnun getur í sérstökum undantekningartilvikum mælt fyrir um það með úrskurði að póstrekandi skuli þrátt fyrir ábyrgðartakmarkanir greiða skaðabætur fyrir póstsendingar, ef tjónið er slíkt og aðstæður allar þess eðlis að ákvæði þessa kafla um takmarkaðar skaðabætur þykja ekki eiga við, t.d. þar sem tjóni er valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi póstrekanda eða starfsmanna hans.

 

VII. KAFLI.

Viðurlög.

26. gr.

Brot á reglugerðinni.

                Brot á reglugerð þessari varða sektum, en varðhaldi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar. Gáleysisbrot skulu varða sektum.

                Brot gegn III. kafla reglugerðarinnar, um póstleynd, varða sektum eða varðhaldi eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. Sé brotið framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum.

 

VIII. KAFLI.

Ýmis ákvæði.

27.gr.

Póstþjónusta við önnur lönd.

                Ákvæði reglugerðarinnar gilda einnig um póstþjónustu við önnur lönd að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við milliríkjasamninga um póstþjónustu.

 

28.gr.

Framkvæmd reglugerðarinnar.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt 46. gr. laga um póstþjónustu nr. 142/1996 til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

                Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um póstþjónustu nr. 161 frá 30. mars 1990. Ákvæði kafla 1.5 um fjármunapóstsendingar skulu þó halda gildi sínu.

 

Samgönguráðuneytinu, 31. júlí 1997.

 

Halldór Blöndal.

Halldór S. Kristjánsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica