Brottfallnar reglugerðir

105/1993

Reglugerð um Verkfræðistofnun Háskóla Íslands. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Verkfræðistofnun Háskóla Íslands.

1. gr.

Heiti stofnunarinnar og tengsl hennar við Háskóla Íslands.

Stofnunin heitir Verkfræðistofnun Háskóla Íslands og heyrir undir verkfræðideild Háskóla Íslands. Fjallar deildarráð um málefni stofnunarinnar, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari, en sé um almenn háskólamál að ræða, fjallar háskólaráð um þau.

Háskóli Íslands veitir stofnuninni starfsaðstöðu eftir því sem kostur er hverju sinni.

2.gr.

Markmið og starfssvið.

Starfsmarkmið stofnunarinnar eru:

-Að stunda rannsóknir og þróunarstarfsemi á sviði tækni og verkvísinda og byggja upp þekkingu og færni til að beita nýjum aðferðum við að leysa viðfangsefni íslenskra atvinnuvega.

-Að byggja upp aðstöðu fyrir rannsóknir og verklegar æfingar til þess að styrkja kennslu í verkfræði.

-Að vera til ráðuneytis og vinna að lausn ýmissa vandamála, sem krefjast sérþekkingar og rannsóknaraðstöðu, sem eru til innan stofnunarinnar.

-Að gangast fyrir fyrirlestrum, námskeiðum og ráðstefnum, sem geta stuðlað að aukinni tækniþekkingu í landinu og þjálfun vísindalegra starfskrafta og rannsóknamanna.

Stofnunin er rannsóknarvettvangur þeirra fastráðnu kennara í verkfræðideild, sem kjósa að starfa innan hennar.

Sérfræðingar eru ráðnir til rannsóknarstarfa. Kennsla þeirra við háskólann skal háð samkomulagi milli deildarráðs og stjórnar stofnunarinnar, og skal þá m.a. ákveðið, hvort kennslan skuli teljast hluti af starfsskyldu viðkomandi sérfræðings.

3. gr.

Rekstrareiningar.

Stjórn stofnunarinnar er heimilt með samþykki deildarráðs að stofna rannsóknarstofur innan hennar eftir því sem nauðsyn krefur. Skal þá liggja fyrir skilgreining á rannsóknarsviði og rannsóknarmarkmiðum slíkrar stofu, sem samræmist ákvæðum 2. gr., svo og rannsóknaráætlun og fjárhagsáætlun. Jafnframt skal starfslið og starfsaðstaða vera fyrir hendi. Ekki skal setja á fót rannsóknarstofu nema sýnt þyki, að rannsóknarumsvif haldist. Stjórn stofnunarinnar getur með samþykki deildarráðs lagt rannsóknarstofu niður, ef hún telur ekki lengur vera grundvöll fyrir rekstri hennar.

Að tillögu forstöðumanns rannsóknarstofu er stjórn stofnunarinnar heimilt með samþykki deildarráðs að skipta stofnuninni í deildir. Skal þá liggja fyrir skilgreining á rannsóknarsviði og rannsóknarmarkmiðum hverrar deildar ásamt rannsóknar- og fjárhagsáætlun. Ekki skal setja á fót nýja deild nema sýnt þyki, að rannsóknarumsvif haldist.

Fastráðnir kennarar verkfræðideildar svo og fastráðnir sérfræðingar við stofnunina, sem eru með doktorspróf eða hliðstæða menntun og náð hafa góðum árangri í rannsóknum, geta óskað eftir að starfa sjálfstætt innan stofnunarinnar en utan rannsóknarstofa. Stjórn stofnunarinnar er heimilt með samþykki deildarráðs að ákveða, að slíkur starfsmaður starfi sjálfstætt. Afturkalli stjórnin þá ákvörðun skal það tilkynnt starfsmanninum með hæfilegum fyrirvara.

Hver rannsóknarstofa svo og hver sjálfstætt starfandi starfsmaður ber fjárhagslega og faglega ábyrgð á starfsemi sinni.

Stofnunin rekur sameiginlega skrifstofu fyrir rannsóknarstofurnar og þá starfsmenn, sem starfa sjálfstætt.

4. gr.

Starfslið.

A Forstöðumenn skulu vera úr hópi prófessora, dósenta, deildarstjóra eða fastráðinna sérfræðinga, sem náð hafa góðum árgangri í rannsóknum og sýnt forustu- og skipulagshæfileika. Forstöðumaður stofu skal þó að jafnaði vera valinn úr hópi prófessora.

B Deildarstjórar skulu að jafnaði hafa lokið doktorsprófi eða tilsvarandi háskólanámi og starfað minnst þrjú ár við rannsóknir og sýnt hæfileika til sjálfstæðra, vísindalegra rannsókna og náð þar góðum árangri og sýnt góða skipulagshæfileika.

C Skipaðir eða settir kennarar í verkfræðideild, sem starfa við stofnunina.

D Fastráðnir sérfræðingar skulu hafa lokið meistaraprófi eða tilsvarandi háskólanámi og starfað minnst þrjú ár við rannsóknir og sýnt hæfileika til sjálfstæðra, vísindalegra rannsókna.

E Sérfræðingar ráðnir til sjálfstæðra rannsókna til takmarkaðs tíma, allt að þremur árum skulu hafa lokið meistaraprófi eða tilsvarandi háskólanámi og starfað minnst eitt ár við rannsóknir.

F Háskólamenntaðir starfsmenn ráðnir til rannsókna og sérfræðiþjónustu undir handleiðslu deildarstjóra eða forstöðumanns. Þeir skulu hafa lokið háskólaprófi, er svari a.m.k. til B.S.-prófs.

G Gistiprófessorar, styrkþegar og aðrir einstaklingar, sem stofnunin veitir starfsaðstöðu um takmarkaðan tíma.

H Annað starfslið, þ. á m. tæknimenntaðir starfsmenn, aðstoðarmenn við rannsóknarstörf og starfslið á skrifstofu.

5. gr.

Forstöðumenn.

Fyrir hverri rannsóknarstofu skal vera forstöðumaður og skal fræðasvið hans vera á rannsóknarsviði stofunnar. Deildarráð skipar forstöðumanninn til þriggja ára í senn að fenginni tillögu stjórnar.

Forstöðumaður tilnefnir með samþykki stjórnar stofnunarinnar staðgengil sinn úr hópi starfsmanna stofunnar.

Forstöðumaður hefur á hendi stjórn vísindalegra rannsókna og annast daglegan rekstur stofunnar, þ. ám. eftirlit með starfsmönnum og fjármálum. Ef ágreiningur rís milli forstöðumanns og starfsmanns rannsóknarstofu, skal leita úrskurðar stjórnar. Forstöðumaður efnir til reglulegra funda með starfsmönnum stofunnar.

6. gr.

Stjórn.

Stjórn stofnunarinnar er skipuð forstöðumönnum rannsóknarstofa að viðbættum tveimur mönnum úr hópi starfsmanna stofnunarinnar, flokki B til D. Annar þeirra er kjörinn af deildarráði verkfræðideildar og hinn er kjörinn af sjálfstætt starfandi starfsmönnum, báðir til þriggja ára í senn. Starfstími stjórnar hefst 1. janúar.

Deidarráð setur formann stjórnar og varaformann til þriggja ára í senn að fenginni tillögu frá nýkjörinni stjórn á fyrsta fundi hennar.

Stjórnin fjallar um öll sameiginleg málefni, samþykkir rekstraráætlanir stofanna og sjálfstætt starfandi starfsmanna, gerir tillögur um fjárveitingar og skiptingu þeirra milli aðila og staðfestir reikningsyfirlit liðins árs. Stjórnin markar stofnuninni stefnu í rannsóknum. Hún skipuleggur samstarf stofanna og sjálfstætt starfandi starfsmanna eftir ástæðum og tekur ákvörðun um sameiginleg rannsóknarverkefni. Stjórnin sker úr vafaatriðum um skiptingu verkefna milli rannsóknarstofa og sjálfstætt starfandi starfsmanna.

Stjórnin efnir til sameiginlegra funda með starfsmönnum til kynningar og umræðna um nýjungar. Einu sinni á ári kallar hún saman fund með öllu starfsliði stofnunarinnar til að ræða starfsemina. Skal það að jafnaði vera í október.

Stjórnin fjallar um ráðningu starfsliðs að stofnuninni. Sé rannsóknarstofu skipt í deildir skal stjórnin tilnefna deildarstjóra, að fenginni tillögu forstöðumanns.

Stjórn stofnunarinnar er heimilt að fengnu samþykki deildarráðs, að gera samning við fyrirtæki, stofnanir og verkfræðistofur um formleg tengsl. Setja skal sérstakar reglur um þessi tengsl.

Nú verða atkvæði jöfn á stjórnarfundi og ræður þá atkvæði formanns.

Fundargerðir stjórnar skulu liggja frammi á skrifstofu stofnunarinnar og fundarsamþykktir kynntar starfsmönnum stofnunarinnar og deildarráði verkfræðideildar.

Formaður stjórnar kemur fram fyrir stofnunina í heild og er málsvari stjórnarinnar og fulltrúi hennar innan og utan stofnunarinnar. Hann hefur eftirlit með framkvæmd á ákvörðunum stjórnarinnar og boðar stjórnarfundi með dagskrá. Skylt er að hafa stjórnarfundi um tiltekin mál ef minnst tveir stjórnarmanna óska þess.

7. gr.

Framkvæmdastjóri.

Framkvæmdastjóri annast almennan rekstur stofnunarinnar. Hann skal hafa háskólapróf í verkfræði eða skyldum greinum. Framkvæmdastjóri sér um framkvæmd þeirra mála, sem stjórnin felur honum.

Stjórnin setur framkvæmdastjóra erindisbréf, sem deildarráð staðfestir, þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans.

Framkvæmdastjóri er ábyrgur gagnvart stjórn og stjórnarformanni í starfi sínu.

8. gr.

Fjármál.

Stofnunin hefur sjálfstætt fjárhald og ber sjálfstæða fjárábyrgð. Fjárlagatillögur stofnunarinnar skulu kynntar forseta verkfræðideildar og háskólarektor, bæði á undirbúningsstigi og í lokagerð. Framkvæmdastjóri gerir fjárhagsáætlun í janúarmánuði ár hvert og leggur hana fyrir stjórnina til samþykktar.

Rekstur stofnunarinnar er kostaður af ríkisfé, samkvæmt því sem veitt er í fjárlögum hverju sinni, og eigin tekjum hennar.

Ársreikningar stofnunarinnar skulu sendir ríkisendurskoðun til endurskoðunar ásamt fylgiskjölum. Samrit reikninganna sendist háskólarektor og menntamálaráðuneytinu. Endurskoðaðir reikningar skulu birtir í ársskýrslu stofnunarinnar.

9. gr.

Ráðningar.

Ráðherra ræður framkvæmdastjóra og starfslið í flokkum D og E að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Ráðherra getur þó falið stjórninni ráðstöfun þessara starfa til eins árs eða skemmri tíma, enda sé fjárveiting fyrir hendi.

Stjórn stofnunarinnar og framkvæmdastjóri ráða annað starfslið að stofnuninni.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 9. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, sbr. 66. gr. reglugerðar fyrir Háskóla Íslands nr. 78/1979.

Reglugerðin öðlast þegar gildi, þó þannig, að ákvæði 8. gr. um sjálfstætt fjárhald tekur gildi frá 1. janúar 1994 að telja. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 404/1977, um Verkfræðistofnun Háskóla Íslands.

Menntamálaráðuneytið, 26. febrúar 1993.

Ólafur G. Einarsson.

Árni Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica