Leita
Hreinsa Um leit

Brottfallnar reglugerðir

422/1996

Reglugerð um útflutning á kindakjöti. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um útflutning á kindakjöti.

 

I. KAFLI

Útflutningskylda framleiðenda og sláturleyfishafa.

1. gr.

                Reglugerð þessi tekur til útflutnings á kindakjöti sem framleitt er á árinu 1996 að meðtalinni framleiðslu dilkakjöts í desembermánuði 1995, sem ekki var talin með í greiðslumarksuppgjöri verðlagsársins 1995/96.

                Eigendum sláturfjár, hvort sem þeir eru beingreiðsluhafar eða ekki, er skylt að taka þátt í útflutningi og sæta útflutningsuppgjöri fyrir framleiðslu sína árið 1996 í því hlutfalli sem landbúnaðarráðherra auglýsir fyrir 1. september 1996. Heimilt er að ákveða mismunandi hlutfall útflutnings fyrir dilkakjöt og fyrir kjöt af fullorðnu fé. Útflutningshlutfall skal reikna af allri framleiðslu viðkomandi aðila eftir gæðaflokkum, með þeim undantekningum sem reglugerð þessi kveður á um.

                Sláturleyfishafi, sem tekur á móti sauðfé til slátrunar, er ábyrgur fyrir því að útflutningsskil eigenda sláturfjár fari fram eftir ákvörðun ráðherra um útflutningshlutfall. Annist sláturleyfishafi slátrun án þess að sjá um sölu afurðanna, skal hann krefja eiganda sláturfjár um tryggingu fyrir útflutningsgjaldi sem eigandanum ber að greiða samkvæmt 7. gr., ella skal hann afhenda sláturleyfishafa það magn kjöts sem nemur útflutningsskyldu hans.

                Sláturleyfishafa er skylt að tilkynna Framleiðsluráði landbúnaðarins um slátrun hvers mánaðar eigi síðar en 10. næsta mánaðar. Í tilkynningunni skal koma fram hver sé eigandi sláturfjár, fjöldi þess, magn í kg og skipting í gæðaflokka ásamt upplýsingum um hvort sláturleyfishafi annist sölu afurða eða ekki, skv. nánari reglum sem Framleiðsluráð setur.

                Lokauppgjör á beingreiðslum almanaksárið 1996 fer ekki fram fyrr en útflutningsuppgjöri er lokið.

 

2. gr.

                Undanþegin útflutningsskyldu og/eða útflutningsgjaldi er:

                a. Framleiðsla til heimanota allt að 60 kg á hvern heimilismann á viðkomandi lögbýli skv. þjóðskrá í ágúst 1996 eða 180 kg á búfjáreiganda í þéttbýli sem á sauðfé skv. forðagæsluskýrslu.

                b. Framleiðsla á lögbýlum, sem hafa staðfestingu búfjáreftirlitsmanns á að framleiðendur hafi ekki fleiri en 0,7 vetrarfóðaðar kindur á hvert ærgildi greiðslumarks skv. talningu í apríl 1996 enda hafi framleiðandi skuldbundið sig skriflega til að leggja aðeins inn afurðir þess fjár.

                c. Framleiðsla dilkakjöts sem á sér stað fyrir 1. september 1996 eða eftir 31. október 1996, enda sé framleiðslan sett fersk á markað innanlands eða flutt á erlendan markað.

 

3. gr.

                Hafi framleiðandi fjölgað sauðfé frá haustinu 1994 skal útflutningsskylda hans aukin sem nemur fjölguninni. Framleiðsluráð landbúnaðarins ber saman fjölda sauðfjár skv. forðagæsluskýrslu 1994/95 við fjölda sauðfjár skv. talningu í apríl 1996. Aukin útflutningskylda skal vera það hlutfall af framleiðslu haustið 1996 sem nemur hlutfallslegri fjölgun sauðfjár og kemur til viðbótar hinni almennu útflutningsskyldu, sem er reiknuð á framleiðslu haustið 1996 að frádreginni aukningu vegna fjölgunar. Framleiðsluráð landbúnaðarins tilkynnir hverjum framleiðanda sérstaklega um aukna útflutningsskyldu.

                Undanþegnir ákvæðum 1. mgr. eru þeir aðilar sem skorið hafa niður sauðfé að opinberum fyrirmælum að því marki að þeir fjölgi ekki fé umfram þann fjölda fjár, sem þeir höfðu við niðurskurð eða umfram eina kind fyrir hvert ærgildi greiðslumarks, hvor talan sem hærri er. Fjölgun þar umfram fer eftir ákvæðum 1. mgr. Einnig þeir bændur, sem flytja bústofn ásamt greiðslumarki milli jarða, og þeir sem hafa látið greiðslumark í mjólk og fengið greiðslumark í sauðfé í staðinn. Þeim aðilum er heimilt að fjölga fé milli ára sem svarar einni kind fyrir hvert ærgildi greiðslumarks, sem bætist við, án þess að útflutningskylda þeirra aukist. Þá eru undanþegnir aukinni útflutningsskyldu þeir aðilar sem hafa ekki fleiri en 0,7 vetrarfóðaðar kindur á hvert ærgildi greiðslumarks sbr. b-lið 2. gr.

 

4. gr.

                Útreikningur á skiptingu magns hvers eiganda sláturfjár til sölu innanlands, til heimanota eða til útflutnings skal fara fram í lok sláturtíðar, þó eigi síðar en 1. desember 1996.

                Sláturleyfishöfum er skylt að flytja út kindakjöt að jafnvirði þess kjöts sem þeir hafa tekið til útflutnings af eigendum sláturfjár, metið eftir verði til framleiðenda, sbr. þó ákvæði 8. gr. Skal það annarsvegar reiknað fyrir dilkakjöt og hinsvegar fyrir kjöt af fullorðnu. Við kjötskipti skal útflutningsskyldan reiknuð á sama hátt.

                Framleiðsluráð landbúnaðarins reiknar út og skráir útflutningskyldu eða greiðsluskyldu afurðastöðva og eigenda sláturfjár og annast uppgjör við þá og hefur jafnframt eftirlit með framkvæmd útflutningsins.

 

II. KAFLI

Gjöld og nýting markaða.

5. gr.

                Greiða skal sérstakt gjald, sem nemur kr. 30 á kg af magni kjöts sem hverjum framleiðanda er skylt að taka þátt í útflutningi með, sbr. ákvæði 1.-3. gr. þessarar reglugerðar. Hver afurðastöð er ábyrg fyrir greiðslu gjaldsins, sem dregst frá því verði sem afurðastöð greiðir til framleiðenda en skal innheimt með sláturkostnaði sé um verktakaslátrun að ræða. Framleiðsluráð landbúnaðarins annast innheimtu og vörslu gjaldsins. Gjalddagi er 25. dag næsta mánaðar eftir útflutningsmánuð fyrir það kjöt sem er innlagt, en 25. dag næsta mánaðar eftir slátrun þegar um verktakaslátrun er að ræða.

 

6. gr.

                Uppgjör á endurgreiðslu gjalds sem innheimt er samkvæmt 5. gr. fer fram þegar lokið er útflutningi/sölu á því magni kindakjöts sem er útflutningsskylt. Framleiðsluráð landbúnaðarins endurgreiðir gjaldið eftir þessum reglum:

a.             Á kjöt sem hefur lífræna eða vistræna vottun, ferskt kjöt og unnið kjöt ferskt eða frosið endurgreiðist gjaldið að öllu leyti án tafar. Sama á við um kjöt sem er undanþegið útflutningsskyldu skv. 7. gr. Skal miðað við hlutfall verðmæta og magns af heilum skrokki skv. meðalverði á unnum kjöthlutum og áætlunum sem Framleiðsluráð landbúnaðarins gerir. Til að kjöt, sem fellur undir 2. kafla tollskrár teljist unnið, skal það vera úrbeinað eða meira unnið. Kjöt, sem unnið hefur verið í neytendaumbúðir telst hér með svo og kjötvörur í 16. kafla tollskrár. Framleiðsluráð landbúnaðarins staðfestir verðmætamat og hvort vinnsla kjötsins gerir það endurgreiðsluhæft skv. þessum ákvæðum.

b.             Á kjöt sem flutt er út óunnið skal greiða uppbót á skilaverð þannig að jafnaður verði með sama hlutfalli, sá munur sem er milli meðalverðs fyrir útflutning og verðs þess útflutnings sem nær ekki meðalverði.

c.             Sé um útflutning á sundurhlutuðu kjöti að ræða skal miða við hlutfall verðmæta og magns af heilum skrokki skv. meðalheildsöluverði kjöthlutanna skv. verðtöku Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

d.                             Í stað jöfnunar milli sláturhúsa eftir markaðsmöguleikum við útflutning, getur landbúnaðarráðherra ákveðið, að fegnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, að greiða framlag til jöfnunar á flutningskostnaði sláturfjár, sem nemur allt að kr. 0,80 á kind á km sem flutt er umfram 100 km vegalengd, sé flutt í næsta sláturhús með ESB eða USA leyfi. Ákvörðun þessi getur gilt fyrir ákveðin sláturhús eða landsvæði.

 

7. gr.

                Landbúnaðarráðherra auglýsir fyrir 1. september 1996 að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga, útflutningsgjald sem sláturleyfishöfum eða eigendum sláturfjár ber að greiða af því magni sem þeir flytja ekki út en ber að flytja út skv. 1. gr. Gjaldið skal svara til mismunar á heildsöluverði og viðmiðunarverði sem miðast við meðalverð f.o.b. við útflutning á undangegnum tólf mánuðum.

                Framleiðsluráð landbúnaðarins ráðstafar þeim fjármunum sem innheimtir eru skv. þessari gr. til kaupa á kindakjöti til úflutnings. Sérstakt gjald sem innheimt er skv. 5. gr. endurgreiðist á þennan útflutning að fullu.

 

III. KAFLI

Skipulag útflutnings.

8. gr.

                Þegar ákvörðun landbúnaðarráðherra um útflutningsskyldu skv. 1. gr. liggur fyrir skal Framleiðsluráð landbúnaðarins birta sláturleyfishöfum áætlun um útflutningsþörf kindakjöts hjá hverjum þeirra, eigi síðar en 14 dögum eftir að ákvörðun ráðherra liggur fyrir.

 

9. gr.

                Sláturleyfishafar skulu innan 14 daga frá því að þeim berst tilkynning skv. 8. gr. gera Framleiðsluráði landbúnaðarins grein fyrir því hvernig þeir ætla að afsetja það kjöt sem er skylt að flytja út. Þær tilkynningar skulu bera með sér hvort:

a.             sláturleyfishafi ætli að útflutningsverka það magn sem honum ber að flytja út og annast útflutning þess. Gera skal grein fyrir þeim mörkuðum sem ætlað er að flytja á; á hvaða markaði, í hvaða formi og á hvaða verð.

b.             sláturleyfishafi hafi samið við annan sláturleyfishafa um að hann uppfylli útflutningsskyldu skv. a-lið að meira eða minna leyti. Koma skulu fram sömu atriði og undir a-lið.

c.             sláturleyfishafinn eigi þess ekki kost að verka kjöt til útflutnings eða semja við annan sláturleyfishafa um að uppfylla útflutningsskyldu sína og óski eftir því að greiða gjald vegna útflutningskvaðar skv. 7. gr. að hluta eða öllu leyti.

                Framleiðsluráð landbúnaðarins fer yfir tilkynningar sláturleyfishafa og gerir tillögur til landbúnaðarráðherra um útflutning. Telji Framleiðsluráð nauðsynlegt að skipta útflutningi milli sláturleyfishafa eftir mörkuðum skal það tilkynna landbúnaðarráðherra um þá skiptingu og gera tillögu um leyfisveitingar. Óheimilt er að flytja til þeirra markaða, sem um ræðir, nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra. Á sama hátt er þeim aðilum skylt að leita leyfis, sem ætla að njóta verðjöfnunar við útflutning skv. 6. gr.

 

10. gr.

                Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 70. gr. laga nr. 99 8. september 1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 99 8. september 1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

 

Landbúnaðarráðuneytinu, 24. júlí 1996.

 

F. h. r.

Guðmundur Sigþórsson.

Jón Höskuldsson.

 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica