Brottfallnar reglugerðir

159/1995

Reglugerð um öryrkjavinnu.

1. gr.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að semja við atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði um að ráða til starfa einstaklinga sem njóta örorkulífeyris, örorkustyrks, endurhæfingarlífeyris eða slysaörorkubóta undir 50%. Miðað er við að einstaklingar hafi vinnugetu sem ekki hafi nýst á almennum vinnumarkaði og að hann hafi ekki verulegar aðrar tekjur en bætur almannatrygginga.

Sérstakur vinnusamningur skal gerður m.a. í samráði við samtök öryrkja, stofnanir er sinna atvinnumiðlun eða endurhæfingu fatlaðra.

Skerðing bóta á starfstímabilinu fer eftir almennum ákvæðum um skerðingu bótagreiðslna á hverjum tíma.

Mat á vinnugetu.

2. gr.

Áður en vinnusamningur er gerður skal Tryggingastofnun ríkisins meta hvort heilsufar og vinnugeta hins fatlaða sé með þeim hætti að hann geti gegnt starfinu um nokkra framtíð. Sama gildir ef vinnusamningur er endurnýjaður og skal þá sú endurnýjun vera í samræmi við matið.

Til þess að meta vinnugetu hins fatlaða í upphafi getur Tryggingastofnun ríkisins leitað til þeirra sem hafa slíkt mat með höndum. Endurmat á vinnugetu verði framkvæmt með jöfnu millibili og ekki sjaldnar en árlega.

Vinnusamningur.

3. gr.

Vinnusamning skal gera til ákveðins tíma en heimilt er að endurnýja samninginn. Vinnusamningur er trúnaðarmál aðila málsins.

Vinnusamningur skal undirritaður af vinnuveitanda, fulltrúa lífeyrisdeildar og hinum fatlaða.

Í vinnusamningi skal kveðið á um 3ja mánaða reynslutíma og hlutfall endurgreiðslu launa og launatengdra gjalda hins fatlaða, sem skal aldrei vera hærra en 75% og aldrei lægra en 25%.

Með launagreiðslur í sjúkdóms- og slysaforföllum hins fatlaða skal fara skv. 5. gr. laga nr. 19/1979. Verði um frekari fjarvistir að ræða, skal Tryggingastofnun ríkisins greiða viðkomandi bætur í samræmi við örorkumat hans.

Heimilt er að gera vinnusamning til skemmri tíma en til þriggja mánaða þegar um er að ræða fatlaða námsmenn.

4. gr.

Í vinnusamningi skal greindur vinnustaður og þau störf sem hinum fatlaða er ætlað að leysa af hendi. Ennfremur skal í vinnusamningi greindur kjarasamningur og launataxti, sem skal vera sá sami og gildandi er á hverjum tíma milli launþegasamtaka og atvinnurekanda.

5. gr.

Vinnusamning skv. framansögðu má gera um hluta úr heilsdags starfi. Ekki má gera vinnusamninga við fleiri en einn atvinnurekanda í senn um hluta úr starfi fyrir sama einstakling.

6. gr.

Vinnusamningur er uppsegjanlegur af beggja hálfu og skulu ákvæði uppsagnar vera í samræmi við almenna kjarasamninga í þeirri starfsgrein. Uppsögn skal vera skrifleg og miðast við mánaðamót. Uppsögn skal jafnframt tilkynnt til lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins og umsjónaraðila, sbr. 10. gr.

7. gr.

Komi upp ágreiningur á milli atvinnurekanda og hins fatlaða um framkvæmd vinnusamnings, skal lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins kynna sér málavöxtu. Heimilt er þá að rifta samningnum, ef sýnt þykir, að ósamkomulag sé á milli áðurnefndra aðila í þeim mæli, að ólíklegt sé, að hinn fatlaði muni haldast við störf hjá fyrirtæki því, er hann réðst til.

Komi til riftunar samnings á atvinnurekandi ekki rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins nema allt að því hlutfalli launa, sem hann hefur greitt launþega.

Greiðsluhlutfall.

8. gr.

Tryggingastofnun ríkisins endurgreiðir atvinnurekanda mánaðarlega hlutfall af launum hins fatlaða, sbr. 3. gr., gegn framvísun kvittana þar að lútandi og afriti af launaseðlum og tilskyldum gögnum sendum skattayfirvöldum. Jafnframt gefur Tryggingastofnun ríkisins skattayfirvöldum upplýsingar um endurgreidd vinnulaun til atvinnurekanda eftir hvert ár.

9. gr.

Auk fastra launa skal Tryggingastofnun ríkisins greiða atvinnurekanda sama hlutfall og að ofan greinir af öllum launatengdum gjöldum, sem atvinnurekandi greiðir vegna starfsmannsins. Verði um vaktaálag að ræða, bónusgreiðslur eða yfirvinnu, kemur það ekki til greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins nema í sérstökum undantekningatilvikum, sem metin eru af fulltrúa lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins.

Umsjónaraðili.

10. gr.

Tryggingastofnun ríkisins tilnefnir umsjónaraðila, t.d. úr röðum samráðsaðila, sbr. 1. gr., sveitarstjórna eða stéttarfélaga, og gerir við hann samning. Umsjónaraðili getur jafnframt verið sá sami og hafði milligöngu um gerð vinnusamningsins.

Hlutverk umsjónaraðila felst fyrst og fremst í því að fylgjast með hvernig hinum fatlaða vegnar í starfinu, koma til aðstoðar ef eitthvað bjátar á og vera tengiliður hans gagnvart öðrum samningsaðilum.

Tryggingastofnun ríkisins skal hafa samráð við umsjónaraðila varðandi eftirlit og endurnýjun vinnusamnings. Heimilt er að greiða þóknun fyrir starf umsjónaraðila.

Eftirlit og heimildir.

11. gr.

Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins skal hafa eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar.

12. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. tl. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar öðlast þegar gildi. Reglugerð þessa skal endurskoða einu ári eftir gildistöku hennar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 16. febrúar 1995.
Sighvatur Björgvinsson.
Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica