Brottfallnar reglugerðir

562/2000

Reglugerð um einkaheimili sem taka börn til dvalar í atvinnuskyni í allt að sex mánuði. - Brottfallin

562/2000

REGLUGERÐ
um einkaheimili sem taka börn til dvalar í atvinnuskyni í allt að sex mánuði.

I. KAFLI
Skilgreiningar.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til einkaheimila sem taka börn til dvalar í atvinnuskyni gegn gjaldi í allt að sex mánuði. Umer að ræða heimili sem taka börn í sveit á sumrin á eigin vegum og heimili sem taka að sér börn fyrir barnaverndarnefndir.

Reglugerðin gildir óháð því hvort foreldrar eða opinberir aðilar greiði fyrir þjónustuna.

Reglugerðin tekur ekki til heimila þar sem börn dvelja á grundvelli annarra laga, svo sem laga um málefni fatlaðra.


II. KAFLI
Afgreiðsla umsókna.
2. gr.
Umsóknir.

Umsókn um leyfi til að taka að sér börn til dvalar skal send barnaverndarnefnd í heimilisumdæmi umsækjanda. Í umsókninni skal koma fram:

- Nafn/nöfn umsækjanda og kennitala.
- Heimilisfang umsækjanda.
- Nöfn annarra heimilismanna og kennitölur.
- Önnur störf umsækjanda og heimilismanna.
- Aldur og fjöldi barna sem óskað er eftir að taka til dvalar.
- Tímabil það sem óskað er að börn dvelji á heimilinu.


3. gr.
Vottorð, umsagnir og önnur gögn.

Umsókn skal fylgja:

- Hjúskapar-/sambúðarvottorð ef við á.
- Heilbrigðisvottorð allra heimilismanna.
- Sakavottorð fullorðinna heimilismanna.
- Umsögn ættingja, vinnuveitanda eða annars sem þekkir vel til umsækjanda, um að umsækjandi teljist hæfur til að taka að sér börn.
- Stutt lýsing umsækjanda á markmiðum starfsins, hvernig umönnun barnanna verði háttað, aðstöðu til leikja, útiveru og annarra tómstundastarfa.
- Yfirlit um starfsferil umsækjanda, menntun og reynslu af starfi með börnum.


4. gr.
Skilyrði leyfisveitinga.
Umsækjandi skal ekki vera yngri en 23 ára. Hjón eða sambýlisfólk skal sækja um leyfi saman. Ekki er skilyrði að umsækjandi sé í sambúð eða hjónabandi.

Umsækjandi skal sækja námskeið í skyndihjálp/slysum á börnum á vegum Rauða kross Íslands. Slík fræðsla skal endurnýjuð þriðja hvert ár.

Standi námskeið umsækjanda ekki til boða er heimilt að veita bráðabirgðaleyfi þar til hann hefur átt þess kost að ljúka námskeiði.


5. gr.
Fjöldi barna.
Að jafnaði skal ekki veita leyfi til að taka fleiri en sex börn í einu til dvalar, þar með talin börn umsækjanda eða annarra heimilismanna.


6. gr.
Afgreiðsla umsókna.
Áður en barnaverndarnefnd afgreiðir umsókn skal skrifa greinargerð um málið. Meðan á vinnslumálsins stendur skal fulltrúi barnaverndarnefndar fara a.m.k. einu sinni á heimili umsækjenda. Barnaverndarstofa gefur út leiðbeiningar fyrir barnaverndarnefnd um þau atriði sem þarf að kanna og fram þurfa að koma í greinargerð.

Barnaverndarnefnd er heimilt að leita eftir upplýsingum um umsækjendur hjá öðrum aðilum, svo sem vinnuveitendum, öðrum barnaverndarnefndum, heilbrigðisnefnd og slökkviliðsstjóra, enda sé umsækjanda gert kunnugt um það.

Við afgreiðslu umsóknar er barnaverndarnefnd heimilt að leggja til grundvallar greinargerð sem hún kann að hafa gert vegna umsóknar viðkomandi um að taka barn í fóstur enda sé greinargerðin eigi eldri en sex mánaða.

Barnaverndarnefnd skal kynna umsækjendum greinargerð og gefa þeim kost á að koma á framfæri athugasemdum. Að því loknu skal nefndin afgreiða umsóknina.


7. gr.
Leyfisveiting.
Við fyrstu umsókn skal leyfi veitt til eins árs.

Óski viðkomandi eftir endurnýjuðu leyfi er heimilt að veita það til þriggja ára í senn. Við afgreiðslu á því leyfi getur nefndin metið hvaða gögn eru nauðsynleg. Þó skal ætíð vera fyrir hendi sakavottorð og skýrar upplýsingar um atriði sem kunna að hafa breyst frá því leyfi var síðast veitt. Auk þess skal fulltrúi barnaverndarnefndar fara á heimilið.

Heimilt er að veita leyfi til skemmri tíma en sex mánaða og/eða binda leyfið við tiltekinn árstíma.

Barnaverndarnefnd skal tilkynna Barnaverndarstofu um öll heimili sem fá leyfi til að taka að sér börn samkvæmt reglugerð þessari.


III. KAFLI
Sérstakar skyldur leyfishafa.
8. gr.
Skyldur leyfishafa.
Leyfishafar bera ábyrgð á andlegri og líkamlegri velferð barns meðan á dvöl stendur. Þeir skulu haga störfum sínum í fyllsta samræmi við líkamlegar og andlegar þarfir barns og stuðla að alhliða þroska og heilbrigði í uppeldi hvers og eins barns. Barnaverndarnefnd í umdæminu skal sjá svo um að unnt sé að veita upplýsingar og leiðbeiningar um þessi efni ef nauðsyn krefur.

Aldrei má beita börn líkamlegum eða andlegum refsingum eða þvingunum.

Með allar upplýsingar sem leyfishafar fá um hagi barna og fjölskyldur þeirra skal farið sem trúnaðarmál, þó með þeirri undantekningu sem fram kemur í 9. gr.


9. gr.
Tilkynningarskylda til barnaverndarnefnda.
Verði leyfishafi þess áskynja að barn sé vanrækt eða að uppeldi þess, atlæti eða aðbúnaði sé ábótavant ber honum að tilkynna það til barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi barnsins.


IV. KAFLI
Eftirlitsskyldur barnaverndarnefndar.
10. gr.
Eftirlitsskylda barnaverndarnefndar.
Barnaverndarnefnd þar sem leyfishafi býr er skylt að fylgjast vandlega með högum og aðbúnaði barna sem dvelja á heimilum samkvæmt reglugerð þessari í umdæmi nefndarinnar og heimsækja þau eins oft og þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en einu sinni.

Telji barnaverndarnefnd að meðferð barns á heimili sé óviðunandi eða aðstæður á heimilinu hafi breyst þannig að ekki sé sýnt að aðbúnaður og öryggi þess sé tryggt skal nefndin leitast við að fá úr því bætt með leiðbeiningum og áminningum. Komi það ekki að haldi að mati nefndarinnar getur hún svipt leyfishafa leyfinu.

Barnaverndarnefnd skal jafnframt tilkynna ofangreint til barnaverndarnefndar sem ber ábyrgð á ráðstöfun barns.Hafi aðrir en barnaverndarnefnd ráðstafað barninu skal tilkynna um aðstæður barnsins til foreldra og til barnaverndarnefndar þar sem barnið býr.

Verði barnaverndarnefnd sem ráðstafað hefur barni til leyfishafa samkvæmt reglugerð þessari vör við að aðbúnaði og/eða öryggi barns á heimilinu sé ábótavant skal hún á sama hátt tilkynna það til nefndar í heimilisumdæmi leyfishafa.


11. gr.
Heimili án starfsleyfis.
Barnaverndarnefndir skulu gæta þess að önnur heimili en þau sem fengið hafa leyfi taki ekki að sér börn til dvalar.


V. KAFLI
Málskot.
12. gr.
Ákvörðunum barnaverndarnefnda um leyfisveitingu og leyfissviptingu er unnt að skjóta til Barnaverndarstofu.


VI. KAFLI
Gildistaka.
13. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 3. mgr. 52. gr. laga nr. 58/1992 öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
Þeir aðilar sem eru með börn á heimilum sínum gegn gjaldi við gildistöku reglugerðar þessarar þurfa ekki að sækja um sérstakt leyfi vegna þeirra barna.

Óski þeir eftir að taka að sér önnur börn skal sækja um leyfi í samræmi við reglugerð þessa.


Félagsmálaráðuneytinu, 26. júlí 2000.

Páll Pétursson.
Þorgerður Benediktsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica