Brottfallnar reglugerðir

409/1998

Reglugerð um vinnu, nám og dagpeninga til afplánunarfanga. - Brottfallin

Reglugerð

um vinnu, nám og dagpeninga til afplánunarfanga.

I. KAFLI

Vinna.

1. gr.

Fanga ber að stunda vinnu.

Forstöðumaður fangelsis ákveður hvaða vinnu fanga er falið að sinna. Við komu í fangelsi skal kynna fanga hvaða vinna stendur til boða. Við ákvörðun um til hvaða starfa fangi er settur skal taka tillit til aðstæðna hans og óska, eftir því sem unnt er.

Þegar aðstæður í fangelsi leyfa og fangi óskar þess má heimila honum að sinna vinnu sem fangelsi útvegar í klefa sínum, enda sé unnt að hafa eftirlit með því að hann vinni þar.

2. gr.

Fangi skal vinna alla virka daga.

Vinna skal að jafnaði innt af hendi á tímabilinu 8 - 17 og skal daglegur vinnutími ekki vera lengri en 8 klst. nema sérstakar aðstæður krefji. Vinnu sem tengist rekstri fangelsisins má inna af hendi utan dagvinnutíma.

Matarhlé telst ekki til vinnutíma. Önnur hlé skulu ekki veitt nema vinnutími sé lengri en 6 klst. á dag.

Þegar fangi getur ekki af trúarástæðum unnið tilgreindan vikudag skal tekið tillit til þess, eftir því sem aðstæður leyfa. Í slíku tilviki getur forstöðumaður fangelsis ákveðið að fangi uppfylli vinnuskyldu með öðrum hætti.

3. gr.

Fangi sem óskar sjálfur að útvega sér vinnu skal sækja um það skriflega til forstöðumanns fangelsis. Forstöðumaður getur samþykkt slíka beiðni enda geti fangi sinnt slíkri vinnu þannig að það trufli ekki aðra starfsemi í fangelsi eða í klefa sínum. Forstöðumaður getur sett það sem skilyrði fyrir slíkri vinnu að fangi geti sinnt henni í klefa sínum. Þegar fangi útvegar sér sjálfur vinnu skal haft eftirlit með því að hann sinni vinnu í að minnsta kosti sambærilegan tímafjölda og aðrir fangar.

II. KAFLI

Nám.

4. gr.

Fangi skal eiga kost á því að stunda nám eða starfsþjálfun. Í upphafi fangelsisvistar skal kynna honum rétt hans til náms og námsmöguleika.

Reglubundið nám kemur í stað vinnuskyldu. Hver kennslustund jafngildir einni klukkustund í vinnu. Stundi fangi ekki nám með eðlilegum hætti getur forstöðumaður fangelsis ákveðið að víkja honum úr námi.

Í sérstökum tilvikum getur Fangelsismálastofnun ákveðið að ástundun náms sé metin með öðrum hætti en að hver kennslustund jafngildi einni klukkustund í vinnu.

5. gr.

Fangelsi útvegar og greiðir fyrir kennslubækur vegna náms í fangelsi og eru þær eign fangelsis. Fanga ber að halda bókum í góðu ástandi og skila þeim í lok námsannar.

III. KAFLI

Vinnu- og námslaun.

6. gr.

Fangi skal fá greidd laun fyrir hverja unna klukkustund.

Heimilt er að greiða laun samkvæmt ákvæðislaunakerfi eða bónuskerfi í sérstökum tilvikum eða vegna sérstakra verkefna enda hafi Fangelsismálastofnun samþykkt slíkt fyrirkomulag fyrirfram.

7. gr.

Fyrir hverja unna klukkustund skal greiða fanga 220, 250, 275 eða 290 krónur. Tímakaup fer eftir eðli starfs og ákveður Fangelsismálastofnun hvernig launa beri einstök störf. Hæsta tímakaup skal einungis greiða þeim er sinnir flokksstjórn.          Fangi í námi fær 220 krónur fyrir hverja kennslustund, en þó ekki fyrir fleiri kennslustundir en 5 á dag.

IV. KAFLI

Dagpeningar.

8. gr.

Þegar og þar sem ekki er unnt að útvega fanga vinnu, skal hann fá greidda dagpeninga svo að hann eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu svo sem hreinlætisvörum.

Fangi sem er í vinnu eða á kost á vinnu fær ekki dagpeninga. Nú er fanga vikið úr vinnu og fær hann þá ekki dagpeninga. Sama gildir um fanga sem útvegar sér sjálfur vinnu.

Fangi sem á kost á vinnu en getur ekki sinnt vinnuskyldu samkvæmt vottorði læknis fær greidda dagpeninga.

9. gr.

Fjárhæð dagpeninga er 460 krónur á dag. Dagpeningar eru einungis greiddir fyrir virka daga.

10. gr.

Dagpeningar eru ekki greiddir fanga sem sjálfur útvegar sér vinnu í fangelsi eða stundar vinnu utan fangelsis. Sama gildir um handtekinn mann sem vistaður er í fangelsi eða fangaklefa lögreglu.

Fangi sem vistaður er um stundarsakir utan fangelsis, svo sem í sjúkrahúsi eða annarri stofnun þar sem hann nýtur sérstakrar meðferðar eða forsjár, skal ekki fá greidda dagpeninga, nema að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar.

V. KAFLI

Önnur ákvæði.

11. gr.

Vinnulaun og dagpeninga má taka til greiðslu á skaðabótum eða öðrum útgjöldum sem fangi verður ábyrgur fyrir meðan hann er að afplána refsingu, þar á meðal fyrir skuldum sem hann hefur stofnað til við fangelsi. Við hverja útborgun skal ekki tekið meira en 70% af launum eða dagpeningum upp í skuldir. Þó er heimilt að taka síðustu greiðslu að öllu leyti upp í skuldir.

12. gr.

Laun og dagpeningar skulu greiddir eftir á og á tveggja vikna fresti að minnsta kosti.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 36. gr. laga um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988, sbr. lög nr. 123 15. desember 1997, öðlast gildi 1. september 1998.

Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um dagpeninga fanga, nr. 132 1. mars 1995, en þó fellur þegar úr gildi 4. gr. þeirrar reglugerðar.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 6. júlí 1998.

Þorsteinn Pálsson.

Hjalti Zóphóníasson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica