Brottfallnar reglugerðir

219/1994

Reglugerð um breytingu á reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., nr. 787 13.desember 1983. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um breytingu á reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl.,

nr. 787 13. desember 1983.

1. gr.

17. gr. orðist svo:

Nemanda er heimilt að æfa akstur bifreiðar eða bifhjóls með leiðbeinanda í stað ökukennara, enda hafi leiðbeinandinn fengið til þess leyfi lögreglustjóra í heimasveit sinni.

Engum má veita leyfi sem leiðbeinandi nema hann:

a) hafi náð 24 ára aldri,

b) hafi gild ökuréttindi til að stjórna þeim flokki ökutækja sem æfa á akstur með og hafi a.m.k. fimm ára reynslu af að aka þannig ökutæki,

c) hafi ekki á undangengnum 12 mánuðum verið án ökuskírteinis vegna ökuleyfissviptingar eða verið refsað fyrir vítaverða aksturshætti.

Leyfi skal gefið út á nafn nemanda og leiðbeinanda og til tiltekins tíma, að jafnaði til níu mánaða. Leiðbeinandi skal hafa leyfið meðferðis við æfingaakstur og sýna það þegar lögreglan krefst þess. Heimilt er að afturkalla leyfi ef sérstaklega stendur á. Á leyfið skal prenta leiðbeiningar um æfingaakstur með leiðbeinanda.

Umsókn um heimild til að æfa akstur með leiðbeinanda skal rituð á eyðublað sem gert er eftir fyrirmælum Umferðarráðs. Á eyðublaðinu skal vera vottorð ökukennara er staðfesti að nemandinn hafi öðlast næga þekkingu á umferðarreglum og þjálfun í meðferð og stjórnun ökutækis til að æfa akstur með leiðbeinanda. Slíkt vottorð þarf ekki ef leitað er heimildar fyrir nýjum leiðbeiðanda fyrir nemandann.

Leiðbeinanda er óheimilt að taka endurgjald fyrir starf sitt. Æfingaakstur skal fara fram með hliðsjón af þjálfun nemanda og leiðbeiningum sem Umferðarráð gefur út að höfðu samráði við Ökukennarafélag Íslands. Óheimilt er að æfa með leiðbeinandi akstur bifreiðar sem krafist er aukinna ökuréttinda til að stjórna.

Bifreið eða bifhjól sem notað er til æfingaaksturs með leiðbeinanda skal auðkennt að aftan með spjaldi sem á er letrað "Æfingaakstur". Umferðarráð ræður gerð spjaldanna. Óheimilt er að nota spjöldin við annan akstur.

2. gr.

Fyrirsögn á undan 17. gr. orðist svo: E. Æfingaakstur með leiðbeinanda.

"E" í fyrirsögn á undan 18. gr. verði: F. "F" í fyrirsögn á undan 19. gr. verði: G.

3. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 6. mgr. 57. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 44 7. maí 1993, öðlast gildi 6. maí 1994.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 27. apríl 1994.

Þorsteinn Pálsson.

Ólafur W Stefánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica