Umhverfisráðuneyti

610/1996

Reglugerð um löggildingu rafiðnfræðinga, rafvirkjameistra og rafvirkja sem raflagnahönnuða. - Brottfallin

1. gr.

Rafiðnfræðingar, rafvirkjameistarar og rafvirkjar, sem höfðu á tímabilinu 1. janúar 1992 til 1. janúar 1996 fengið samþykki opinberra aðila fyrir raflagnauppdráttum, eiga rétt á að starfa sem raflagnahönnuðir, með þeim takmörkunum, sem greinir í reglugerð þessari, enda sæki þeir um slíkt leyfi til umhverfisráðuneytisins fyrir 1. janúar 1997.

Sama rétt eiga þeir rafiðnfræðingar, rafvirkjameistarar og rafvirkjar, sem störfuðu þann 1. janúar 1996 við raflagnahönnun undir umsjón og eftirliti aðila með löggildingu skv. 12. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, án þess að hafa í eigin nafni fengið samþykki opinberra aðila fyrir raflagnauppdráttum.

 

2. gr.

Í umsókn um starfsleyfi og meðfylgjandi gögnum skal eftirfarandi koma fram:

  1. Nafn umsækjanda og kennitala.
  2. Heimilisfang umsækjanda.
  3. Vottorð um að umsækjandi hafi lokið sveinsprófi eða meistaraprófi í rafvirkjun eða rafiðnfræðingsprófi frá Tækniskóla Íslands.
  4. Skrá yfir raflagnauppdrætti sem umsækjandi hefur hannað ásamt upplýsingum um stærð heimtauga viðkomandi veitna í amperum.
  5. Vottorð frá byggingarfulltrúa eða rafveitum, sem starfað hafa í umboði byggingarfulltrúa, um móttöku og viðurkenningu á verkum þeim sem um getur í 4. tölulið.
  6. Þeir sem starfað hafa við raflagnahönnun, en ekki fengið í eigin nafni samþykki opinberra aðila fyrir raflagnauppdráttum skulu, auk þeirra gagna sem um getur í 1.- 4. tölulið, leggja fram vottorð frá vinnuveitanda um að þeir hafi starfað við hönnun raflagnauppdrátta. Í vottorði vinnuveitanda skal koma fram hvaða raflagnauppdrætti umsækjandi hefur hannað ásamt upplýsingum um stærð heimtauga viðkomandi veitna í amperum.

Ef gögn þau sem talin eru upp í 1.-6. tölulið 2. mgr. eru ófullnægjandi, skal umsækjanda gefinn kostur á að bæta úr því.

 

3. gr.

Umhverfisráðherra veitir takmarkað starfsleyfi að fenginni umsögn nefndar sem í eiga sæti fulltrúi umhverfisráðherra, Félags byggingarfulltrúa, Iðnfræðingafélagsins, Rafiðnaðarsambands Íslands, Skipulags ríkisins, Tæknifræðingafélags Íslands og Verkfræðingafélags Íslands. Skal nefndin hafa lokið störfum fyrir 1. mars 1997 og ráðherra gefið út leyfin fyrir 1. apríl 1997.

 

4. gr.

Starfsleyfi rafiðnfræðinga, rafvirkjameistara og rafvirkja til hönnunar raflagna er takmarkað samkvæmt því sem hér segir:

  1. Þeir sem ekki hafa starfað við hönnun að staðaldri, en fengið teikningar samþykktar hjá opinberum aðilum, eiga rétt á leyfi til að hanna raflagnir til og með 63 A (230/400 V).   
  2. Þeir sem störfuðu við hönnun að staðaldri þann 1. janúar 1996, eiga rétt á leyfi til að hanna raflagnir í hús með heimtaugar til og með 315 A (230/400 V).
  3. Þeir sem starfað hafa að staðaldri við raflagnahönnun, eiga rétt á takmörkuðu starfsleyfi til að hanna raflagnauppdrætti í samræmi við stærð þeirra uppdrátta sem þeir hafa hannað undir umsjón og eftirliti löggildra aðila eða fengið samþykki opinberra aðila fyrir.

 

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 92/1996 um breyting á byggingarlögum, nr. 54/1978, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

 

Umhverfisráðuneytinu, 26. nóvember 1996.

 

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica