Fara beint í efnið

Prentað þann 20. apríl 2024

Breytingareglugerð

983/2008

Reglugerð um breytingu á reglugerð um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 120/2000, með síðari breytingum.

1. gr.

4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Komi til útgreiðslu úr sjóðnum skal stjórn sjóðsins ákveða hvernig útgreiðslu verði háttað og hvort gerð skuli krafa um að viðskiptavinir aðildarfyrirtækis sendi sjóðnum kröfur sínar skriflega. Sjóðurinn skal veita viðskiptamönnum aðildarfyrirtækja upplýsingar um útgreiðsluferlið.

Sjóðnum er heimilt að gera samninga við þriðja aðila um umsjón útgreiðslu úr sjóðnum, ráðstöfun fjármuna við útgreiðslu og tilkynningu til viðskiptamanna aðildarfyrirtækja.

Sjóðurinn tekur ákvörðun, í samráði við Fjármálaeftirlitið, um lengd þess frests sem viðskiptavinir aðildarfyrirtækis hafa til að gera kröfu á sjóðinn. Fresturinn má þó ekki vera styttri en fimm mánuðir í því tilviki þegar viðskiptavinir aðildarfyrirtækis eiga kröfu á sjóðinn í tengslum við viðskipti með verðbréf en eigi lengri en tveir mánuðir þegar innstæðueigendur eiga kröfu á sjóðinn. Sjóðurinn getur þó ekki hafnað kröfu um greiðslu úr sjóðnum með tilvísun til nefnds frests hafi viðskiptavinur aðildarfyrirtækis með sannanlegum hætti ekki haft möguleika á að setja fram kröfu á hendur sjóðnum í tæka tíð.

Sjóðnum er heimilt að fá upplýsingar frá viðkomandi aðildarfyrirtæki, eða þrotabúi þess, um eignir viðskiptamanna hjá aðildarfyrirtæki á þeim degi sem Fjármálaeftirlitið gefur út álit skv. 2. gr. eða þegar úrskurður er kveðinn upp um töku bús aðildarfyrirtækis til gjaldþrotaskipta.

Ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta skulu viðskiptavinir þess lýsa kröfum í búið áður en þeir gera kröfu á sjóðinn skv. 1. mgr.

2. gr.

Við 5. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:

Sjóðnum er heimilt að nýta sér kröfur viðkomandi aðildarfyrirtækis á hendur viðskiptamanni til skuldajafnaðar gegn kröfu viðskiptamanns á greiðslu andvirðis innstæðu.

3. gr.

Við 5. mgr. 7. gr. bætist nýr málsliður, er orðast svo: Tilkynning þriðja aðila skv. 2. mgr. 4. gr. jafngildir tilkynningu sjóðsins.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 18. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999 og öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytinu, 24. október 2008.

F. h. r.
Jónína S. Lárusdóttir.

Sigríður Rafnar Pétursdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.