Umhverfisráðuneyti

84/1982

Reglugerð um starfsmannabústaði og starfsmannabúðir - Brottfallin

REGLUGERÐ

um starfsmannabústaði og starfsmannabúðir.

I.KAFLI

Skilgreiningar.

1. gr.

1.1 Með starfsmannabústöðum er í reglugerð þessari átt við varanlegt íbúðarhúsnæði, sem ætlað er til svefns, matar og daglegrar dvalar starfsfólks í tengslum við atvinnustarfsemi.

1.2 Með starfsmannabúðum er í reglugerð þessari átt við færanlegt húsnæði til svefns, matar og daglegrar dvalar starfsfólks vegna atvinnustarfsemi utan þéttbýlis.

II. KAFLI

Leyfisveitingar.

2. gr.

2.1 Þeir sem starfrækja starfsmannabústaði og starfsmannabúðir skulu leita leyfis viðkomandi heilbrigðisnefndar. Verði því eigi komið við skal leita leyfis Hollustuverndar ríkisins.

2.2 Með umsókn til heilbrigðisnefndar skal fylgja afrit Hollustuverndar ríkisins, Brunamálastofnunar ríkisins og viðkomandi byggingarnefndar, sem sérstaklega skulu gefa álit um það hvort uppfyllt séu skilyrði heilbrigðisreglugerðar, brunamálareglugerðar og byggingarreglugerðar.

2.3 Um leyfi til reksturs starfsmannabúða skal hafa samráð við Vinnueftirlit ríkisins.

2.4 Í umsókn skal gera ítarlega grein fyrir stað, stærð húsnæðis, hreinlætisaðstöðu o.fl., sbr. nánar ákvæði reglugerðar þessarar. Með umsókn skulu fylgja teikningar af húsnæði svo og uppdráttur af næsta umhverfi.

2.5 Í leyfi skal tekinn fram hámarksfjöldi íbúa og notenda.

2.6 Heilbrigðisnefnd skal gæta þess að uppfyllt séu ákvæði laga nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, heilbrigðisreglugerðar og þessarar reglugerðar og getur krafist hverra þeirra upplýsinga og viðbótargagna frá umsækjanda, sem hún telur þörf.

2.7 Heilbrigðisnefnd tilkynnir Hollustuvernd ríkisins um öll veitt leyfi og Vinnueftirliti ríkisins um öll leyfi til reksturs starfsmannabúða.

III. KAFLI

Stjórnun og eftirlit.

3. gr.

3.1 Heilbrigðismálaráðherra fer með yfirstjórn mála skv. reglugerð þessari.

3.2 Heilbrigðisnefndir undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins hafa eftirlit með starfsmannabústöðum og starfsmannabúðum, skv. reglugerð þessari og skulu hafa sérstakt samráð við Vinnueftirlit ríkisins varðandi eftirlit með starfsmannabúðum.

3.3 Heilbrigðisnefnd er heimilt að semja við Vinnueftirlit ríkisins um að það taki að sér eftirlit með starfsmannabúðum, þar sem þær geta ekki annast það sjálfar.

IV. KAFLI

Starfsmannabústaðir.

4. gr.

4.1 Eigendum er skylt að halda starfsmannabústöðum vel við, enda skulu þeir fullnægja eftirtöldum lágmarkskröfum:

1. Hæfileg forstofa skal fylgja starfsmannabústöðum og skal vera þar rými fyrir geymslu hlífðarfata og skófatnaðar, sbr. 12. gr.

2. Greiður aðgangur skal vera að salerni og baðklefa með baðtækjum.

3. Gott neysluvatn skal vera tiltækt svo og frárennsli.

4. Aðgangur skal vera að þvottahúsi svo og aðstaða til minniháttar fataviðhalds.

5. Þar sem ekki er mötuneyti skal vera aðstaða til að geyma mat, sjóða mat og matreiða. Ávallt skal vera aðstaða til kaffihitunar.

5. gr.

5.1 Atvinnurekanda er skylt að sjá um:

1. Að haldið sé við skólpræsum, salernisskálum, handlaugum, baðtækjum og eldhúsvöskum þar sem slíkt á við.

2. Að allar innanhússlagnir frárennslis séu í góðu lagi.

3. Að hæfileg birta fáist um glugga, sem hægt sé að opna beint út, enda sé stærð rúðuflatar eigi minni en 1/10 af gólfflatarmáli þess, sem þeim er ætlað að lýsa.

4. Að herbergi séu vel rakavarin, hæfilega hlý og laus við hávaða og önnur óþægindi frá nærliggjandi húsnæði eða rekstri.

5.2 Að öðru leyti svo sem um loftræstingu, birtu og frágang á böðum, eldhúsi, stigum og göngum skal fara skv. ákvæðum byggingarreglugerðar, brunamálareglugerðar og heilbrigðisreglugerðar.

6. gr.

6.1 Starfsmannabústaðir, sem byggðir eru eftir gildistöku reglugerðar þessarar, skulu vera í hæfilegri fjarlægð frá starfsstöð og skal við ákvörðun fjarlægðar tekið tillit til eðli starfseminnar.

7. gr.

7.1 Eins manns herbergi í starfsmannabústöðum skulu vera ekki minni en 8 m2 að gólfflatarmáli og ekki mjórri en 2,5 m. Hæð undir loft skal talin næg ef hún er 2,4 m. Lágmarksherbergisrými fyrir hvern íbúa starfsmannabústaða skal vera 6 m2, þegar fleiri en einn eru í herbergi.

7.2 Við gerð starfsmannabústaða sem reistir eru eftir gildistöku reglugerðar þessarar skal gert ráð fyrir einsmannsherbergjum ekki minni en greinir í 7.1. Við sérstakar aðstæður skal heimilt að fengnu leyfi heilbrigðisnefndar að vista tvo einstaklinga í slíkum herbergjum um skeið.

8. gr.

8.1 Þar sem mötuneyti eða aðstaða til matargerðar er í tengslum við starfsmannabústaði skal allur frágangur og skilyrði til matargerðar og framleiðslu svo og rýmis og búnaðar vera fullnægjandi að mati heilbrigðisnefndar. Rými og búnaður
matsalar skal ennfremur vera í samræmi við IX. kafla heilbrigðisreglugerðar nr. 45/1972.

9. gr.

9.1 Utan húss sem innan skal séð fyrir því að ekki safnist fyrir úrgangur eða annað sem til óþrifnaðar kann að verða. Úrgangi skal fargað skv. samþykkt viðkomandi sveitarfélags og að fyrirmælum viðkomandi heilbrigðisnefndar.

9.2 Lóðir í kringum starfsmannabústaði skulu vera frágengnar og þeim haldið hreinum, þannig að ekki berist óþrifnaður inn í starfsmannabústaði eða valdi óþægindum fyrir íbúa að öðru leyti.

10. gr.

10.1 Í hverju rúmi svefnherbergis skal vera dýna, a.m.k. 2 metrar á lengd og 80 cm breið. Bil milli rúma skal ekki vera minna en 1 m. Hverju rúmi skal fylgja borð með borðplötu, sem ekki er minni en 80 cm x 45 cm, skúffu og hillum, stóll með góðum bakstuðningi og læsanlegur klæðaskápur 40 x 60 cm hið minnsta í þverskurð með einni eða fleiri hillum eða skúffum. Spegill skal vera í hverju herbergi og skal stærð hans vera minnst 25 x 40 cm. Almenn lýsing skal vera hæfileg og leslampi við hvert rúm og borð.

11. gr.

11.1 Reykskynjari skal vera í hverju svefnherbergi. Á hverju svefnherbergi skal vera gluggi nægilega stór til þess að hægt sé að komast út um hann ef hættu ber að höndum. Hluti gluggans skal vera opnanlegur til loftræstingar.

11.2 Komið skal fyrir á aðgengilegum stað brunaslöngum, sem ávallt skulu tengdar vatnshana.

11.3 Að öðru leyti fer um eldvarnir í samræmi við kröfur Brunamálastofnunar ríkisins.

12. gr.

12.1 Í eða við forstofu skal vera aðstaða til þess að hengja upp og þurrka vinnufatnað og stæði fyrir skófatnað allra þeirra sem samtímis þurfa að vera inni. Fataherbergi þetta skal vera loftræst þannig að raki og óloft berist ekki þaðan um húsakynnin.

13. gr.

13.1 Vinnufatnað skal vera hægt að þurrka í sérstökum þurrkklefa sem er vel loftræstur svo að raki og óloft berist ekki þaðan um húsakynnin. Skal klefinn vera nægjanlega stór til þess að hengja megi þar allar vinnuflíkur, sem þurrka þarf samtímis.

13.2 Klefinn má ekki þrengja að eðlilegum umgangi til annarra staða skálans.

13.3 Sérstakur skápur skal vera fyrir öll hreinlætisáhöld er nota þarf við ræstingu.

13.4 Allt sameiginlegt starfsmannarými í starfsmannabústöðum skal ræst a.m.k. einu sinni á dag en annað rými a.m.k. tvisvar í viku. Óheimilt er að ganga um starfsmannabústaði í óhreinum vinnufatnaði eða skóm.

14. gr.

14.1 Eftir gildistöku reglugerðar þessarar skal hönnun starfsmannabúða vera með þeim hætti, að hvergi sé lengra til útgöngudyra en 15 m.

15. gr.

15.1 Í starfsmannabústöðum skal vera aðstaða til tómstunda- og félagsstarfa. Setustofur skulu rúma í sæti alla íbúa. Nota má matsal sem setustofu að hluta til eða að öllu leyti, þegar það hindrar ekki störf þar í sambandi við matarframleiðslu og ræstingar.

15.2 A.m.k. eitt sjónvarpstæki og eitt útvarpstæki skal vera í setustofu til afnota fyrir starfsfólk.

15.3 Eigendur starfsmannabúða setja umgengnisreglur í samráði við trúnaðarmann starfsfólks.

V. KAFLI

Starfsmannabúðir.

16. gr.

16.1 Um starfsmannabúðir gilda ákvæði reglugerðar þessarar um starfsmannabústaði að svo miklu leyti sem við á.

17. gr.

17.1 Starfsmannabúðir má ekki setja niður svo nærri ám og vötnum og sjávarströndu að flæðihætta stafi af eða svo nærri klettum og skriðum, að grjóthrun eða snjóflóðshætta sé augljós.

18. gr.

18.1 Þar sem holræsi er ekki fyrir hendi, sem hægt er að leiða í fljótandi úrgang frá húsi, skal gera rotþró og ganga þannig frá henni að hún valdi ekki óþrifnaði eða óhollustu.

19. gr.

19.1 Eldsneytisgeymar fyrir starfsmannabúðir skulu gerðir úr varanlegu efni og þannig fyrir komið, að ekki valdi hættu eða óþrifnaði og að ekki geti runnið úr þeim í vatnsból fjær og nær. Starfsmannabúðir skulu staðsettar fjarri öðrum eldsneytisgeymum, þannig að hætta stafi ekki af eða hættuleg mengun.

20. gr.

20.1 Í starfsmannabúðum skal hæð undir loft teljast nægjanleg 2.2 m og gólfflötur svefnherbergis telst nægjanlegur sé hann 4 m2 á íbúa.

21. gr.

21.1 Starfsmannabúðum skal komið tryggilega fyrir. Þær skulu vera traustar, vind- og vatnsþéttar og einangraðar gegn kulda svo sem gerist um íbúðarhús. Að öðru leyti fer um starfsmannabúðir skv. brunamálareglugerð, byggingarreglugerð, heilbrigðisreglugerð og reglum rafmagnseftirlits.

VI. KAFLI

Lokun.

22. gr.

22.1 Heilbrigðisnefnd er heimilt að banna afnot starfsmannabústaða og starfsmannabúða, ef skilyrðum, laga, heilbrigðisreglugerðar, reglugerðar þessarar eða fyrirmælum heilbrigðisnefndar skv. heimildum í þeim ákvæðum, er ekki fullnægt um starfræksluna, enda hafi áður verið fullreynt, án árangurs, að leita samkomulags um úrbætur.

VII. KAFLI

Undanþágur.

23. gr.

23.1 Heilbrigðisnefnd getur í skamman tíma veitt undanþágu frá ákvæðum reglugerðar þessarar, enda sé undanþágan eingöngu miðuð við það að tími gefist til nauðsynlegra lagfæringa í samræmi við önnur ákvæði reglugerðar þessarar.

VIII. KAFLI

Málsmeðferð og viðurlög.

24. gr.

24.1 Um brot gegn reglugerð þessari, fyrirmælum eftirlitsaðila, dagsektir, þvingunarúrræði og því um líkt fer skv. ákvæðum laga nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

IX. KAFLI

Gildistaka

25. gr.

25.1 Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lögum nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit öðlast gildi 1. janúar 1983.

Ákvæði til bráðabirgða.

1. Þeir aðilar, sem reka starfsmannabústaði og starfsmannabúðir, sem ekki uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar skulu í samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd, fulltrúa starfsfólks og verkalýðsfélaga gera áætlun um nauðsynlegar breytingar og skal þeim lokið innan tveggja ára frá gildistöku. Skulu þeir á þessum tíma hafa skilyrt leyfi til reksturs starfsmannabúða.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 8. mars 1982.

Svavar Gestsson.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica