Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Breytingareglugerð

964/2008

Reglugerð um breyting á reglugerð um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787/1998 með síðari breytingum.

1. gr.

27. gr. reglugerðarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn:

Framkvæmd námskeiða og prófa.

Ef lögreglustjóri telur, eftir að hafa kannað umsókn og fylgigögn og önnur þau atriði sem hann telur nauðsynleg, að til greina komi að veita umbeðið leyfi skal umsækjandi sækja námskeið í notkun og meðferð skotvopna og standast próf að námskeiði loknu.

Ríkislögreglustjóri annast framkvæmd námskeiða og prófa en er heimilt að fela það öðrum. Í framkvæmd felst skipulag, kennsla og almenn umsjón með námskeiðum og prófum á landsvísu.

Námskeið til undirbúnings fyrir þá, sem þreyta vilja prófraun til að öðlast skotvopnaleyfi, skulu haldin þegar ríkislögreglustjóri eða sá sem hann hefur falið framkvæmd þeirra ákveður.

Eigi er skylt, þrátt fyrir auglýsingu um námskeið, að efna til námskeiðshalds nema næg þátttaka fáist að mati þess er annast framkvæmd námskeiðs.

Öllum, sem þreyta vilja prófraun til þess að öðlast skotvopnaleyfi, er skylt að sitja námskeið.

2. gr.

Á undan 28. gr. koma fimm nýjar greinar er orðast svo ásamt fyrirsögnum:

a. (27. gr. a.)

Námskeið.

Námskeið skiptist í bóklegan og verklegan hluta. Ríkislögreglustjóri eða sá er hann hefur falið framkvæmd námskeiðs, í samráði við ríkislögreglustjóra, ákveður nánar kennslutíma, tímafjölda í einstökum kennslugreinum og námsefni.

Með samþykki ríkislögreglustjóra er þeim sem hann hefur falið framkvæmd námskeiða heimilt að fela viðurkenndum skotfélögum eða aðilum sem hafa aðgang að viðurkenndum skotsvæðum umsjón með verklegum hluta námskeiðsins.

Kennslugreinar á námskeiði skiptast þannig:

Bóklegur hluti:

  1. Skotvopn og skotfæri.
  2. Öryggi og meðhöndlun.
  3. Vopnalöggjöfin.
  4. Skotfimi og eiginleikar skotfæra.
  5. Landréttur.

Verklegur hluti:

Kennsla í undirstöðuatriðum þess að meðhöndla skotvopn og notkun þeirra fer fram á viðurkenndu skotsvæði og skiptist niður í eftirfarandi:

  1. Umgengnisreglur um skotsvæði.
  2. Örugg meðferð skotvopna á skotsvæði.
  3. Leiðbeiningar við að skjóta 25 skotum með haglabyssu á leirdúfuvelli.
  4. Leiðbeiningar við að skjóta a.m.k. 10 skotum af 22 LR kalibera riffli á riffilvelli.
  5. Leiðbeiningar við að skjóta a.m.k. 5 skotum af riffli sem er stærra kaliber en 22 LR.

b. (27. gr. b.)

Fjarnám.

Ríkislögreglustjóri eða sá sem hann hefur falið framkvæmd námskeiða getur ákveðið að þeir, sem eru búsettir í öðrum landshluta en námskeið er haldið í, geti tekið bóklegan hluta námskeiðsins í fjarnámi. Skal tryggt að þeir sem það gera hafi aðgang að öllu kennsluefni á námskeiðinu, eigi aðgang að öllum fyrirlestrum, hafi möguleika á að leysa öll verkefni og skila skjölum og öðrum úrlausnum. Þeir skulu einnig sýna fram á, að þeir hafi verið viðstaddir þegar fyrirlestrum og annarri kennslu er miðlað um útvarp eða vefmiðil að sama marki og þeir, sem sitja námskeið.

c. (27. gr. c.)

Próf.

Próf skulu að jafnaði haldin í lok bóklegs hluta námskeiðs en heimilt er að ákveða aðra skipan, ef sérstaklega stendur á.

Sá sem annast framkvæmd prófa sér einnig um yfirferð þeirra og gefur einkunn fyrir þau. Hann getur falið kennara sem kennt hefur á námskeiði skv. 27. gr. a. að fara yfir próf og gefa einkunn vegna prófverkefnis í viðkomandi grein. Sú einkunn skal staðfest af þeim sem annast framkvæmd prófs. Mat þess sem annast framkvæmd prófs eða staðfesting hans á einkunn kennara er endanlegt.

Hafi umsækjandi sótt verklegan hluta námskeiðs með fullnægjandi hætti staðfestir sá aðili sem hefur umsjón með þeim hluta að viðkomandi hafi lokið verklegri undirstöðuþjálfun í meðferð skotvopna.

d. (27. gr. d.)

Lágmarkseinkunn.

Einkunnir á prófum skulu gefnar í prósentum. Próftaki telst ekki hafa staðist próf hljóti hann lægri einkunn en 75%.

Standist próftaki ekki próf getur hann sótt um að endurtaka prófið einu sinni án greiðslu sérstaks prófgjalds. Óski hann eftir að endurtaka próf oftar skal hann greiða sérstakt prófgjald.

e. (27. gr. e.)

Námskeiðs- og prófgjald.

Til að standa straum af kostnaði við námskeið og próf skal þátttakandi greiða sérstakt námskeiðs- og prófgjald. Ráðherra ákveður gjaldið að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra og skal það greitt fyrir tímamark sem ríkislögreglustjóri eða sá er annast framkvæmd námskeiða og prófa ákveður.

3. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í vopnalögum nr. 16 25. mars 1998 með síðari breytingum öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 20. október 2008.

Björn Bjarnason.

Bryndís Helgadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.