Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Breytingareglugerð

955/2011

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

1. gr.

Í stað orðanna "Hollustuverndar ríkisins" í 4. mgr. 3. gr. og sömu orða hvarvetna annars staðar í reglugerðinni kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

2. gr.

1. gr. orðast svo:

Markmið reglugerðar þessarar er:

- að koma í veg fyrir og draga úr mengun vatns og umhverfis þess af mannavöldum,
- takmarka afleiðingar mengunar sem þegar hefur orðið á vatni og að flokkun vatns lúti tilteknum reglum, sbr. ákvæði reglugerðarinnar,
- tryggja að losun forgangsefna í vatn verði hætt og að styrkur þeirra í vatni hækki ekki frá því sem verið hefur og
- að stuðla að almennri verndun vatns.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:

a. 7. mgr. 3. gr. orðast svo:

Grunnvatn er vatn, kalt eða heitt, sem er neðan jarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi.

b. 14. mgr. 3. gr. orðast svo:

Strandsjór er yfirborðsvatn landmegin við línu sem dregin er einni sjómílu utan grunnlínu landhelginnar og nær inn að ytri mörkum árósavatns.

c. 22. mgr. 3. gr. orðast svo:

Yfirborðsvatn er kyrrstætt eða rennandi vatn, straumvötn, stöðuvötn, lón, árósavatn og strandsjór, auk jökla.

d. Við 3. gr. bætast eftirfarandi skilgreiningar:

  1. Árósavatn er vatn í nágrenni ármynnis, ísalt vegna nálægðar við strandsjó en undir verulegum áhrifum af aðstreymi ferskvatns.
  2. Forgangsefni eru hættuleg og þrávirk efni sem valda alvarlegri mengun eða eitrun í vatni eða út frá því og raðað er í forgangsröð eftir hættu sem af þeim stafar.
  3. Vatnasvæði er landsvæði með einu eða fleiri vatnasviðum.
  4. Vatnaumdæmi er stjórnsýslueining sem nær til íslenskra vatnasvæða ásamt árósavatni og strandsjó sem þeim tengjast.
  5. Yfirlitsvöktun er vöktun kerfisbundinna og síendurtekinna breytilegra þátta í umhverfinu og skráning þeirra.

4. gr.

5. gr. orðast svo:

5.1 Mengun vatns er óheimil. Losun efna og úrgangs í vatn, þ.m.t. efni á listum I, II og III og IV í viðauka með reglugerðinni, er óheimil nema í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, viðaukum með henni og starfsleyfa.

5.2 Aðilum í atvinnurekstri sem hafa undir höndum, meðhöndla eða nota efni sem getið er á lista I, II eða III og IV í viðauka með reglugerð þessari eða eru á lista I eða II í viðauka með reglugerð um grunnvatn, ber einnig að fara eftir skilyrðum sem Umhverfisstofnun setur um rannsóknir og mat á áhrifum losunar og miða að því að draga úr mengun af völdum þessara efna í vatni.

5.3 Sérstakar reglur gilda um losun í grunnvatn, sbr. reglugerð þar að lútandi.

5.4 Miða skal við umhverfismörk sem sett eru í lista III í viðauka með reglugerðinni við mat á ástandi yfirborðsvatns og strandsjávar með tilliti til styrks mengunarefna.

5.5 Miða skal við umhverfismörk sem sett eru í lista IV í viðauka með reglugerðinni við mat á ástandi sets og lífríkis í vatni með tilliti til styrks mengunarefna.

5. gr.

Við 17. gr. bætist ný málsgrein sem orðast svo:

Fyrirtækjum sem fengið hafa starfsleyfi á grundvelli reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, hvort sem starfsleyfi er gefið út af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd, ber að skila til Umhverfisstofnunar yfirliti um losun efna af lista III og IV í viðauka með reglugerðinni í viðkomandi vatnaumdæmi. Fyrirtæki mega skila þessum upplýsingum sem hluta af upplýsingagjöf sem fellur undir reglugerð um útstreymisbókhald ef við á.

6. gr.

Við 20. gr. bætist ný málsgrein sem orðast svo:

Umhverfisstofnun skal sjá til þess að yfirlitsvöktun fari fram á eftirfarandi efnum í samræmi við ákvæði reglugerðar um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun:

  1. Á styrk þeirra efna í vatni sem losuð eru í yfirborðsvatn eða strandsjó og talin eru upp í lista III í viðauka með reglugerðinni og hafa verið losuð út í vatn á síðustu þremur árum.
  2. Á styrk þeirra efna í lífríki eða seti sem losuð eru í yfirborðsvatn eða strandsjó og talin eru upp í lista IV í viðauka með reglugerðinni og hafa verið losuð út í vatn á síðustu þremur árum og krafist hefur verið vöktunar á vegna losunar í vatn. Önnur efni í viðaukanum skal vakta á sama hátt á a.m.k. þriggja ára fresti.

7. gr.

Við VII. kafla bætist ný grein nr. 22 sem ber titilinn "Söfnun upplýsinga og skrá yfir losun efna í vatn" og orðast svo:

22.1 Umhverfisstofnun skal safna upplýsingum um starfsleyfi þar sem fram koma losunarmörk fyrir efni sem talin eru upp í reglugerð þessari.

22.2 Umhverfisstofnun skal halda skrá um losun þeirra efna sem talin eru upp í reglugerð þessari svo og niðurstöður mælinga sem gerðar hafa verið af eftirlitsaðilum til ákvörðunar á magni viðkomandi efna.

22.3 Taka skal mið af skráðri losun sbr. 2. mgr. við ákvörðun á efnum sem vakta skal samkvæmt reglugerð um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun.

22.4 Við mat á losun efna skal miða við eins árs tímabil milli áranna 2011 og 2013. Ef um er að ræða efni sem fellur undir reglugerð um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra má miða við þriggja ára tímabil frá árinu 2011 til ársins 2013.

22.5 Umhverfisstofnun skal með reglubundnum hætti leggja fram og birta endurskoðaðan lista yfir efni á vöktunaráætlun skv. reglugerð um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Endurskoðunin skal taka mið af listum yfir forgangsefni.

8. gr.

Við viðauka bætast nýir listar nr. III og IV sbr. viðauka I og II við reglugerð þessa.

9. gr.

B-liður I. viðauka og B-liður í hverju sérákvæði fyrir sig í II. viðauka falla úr gildi.

I. og II. viðauki falla úr gildi 22. desember 2012.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í b-lið 29. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og n-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/105/EB frá 16. desember 2008 um umhverfisgæðastaðla á sviði vatnastjórnunar, sem breytir og fellir úr gildi tilskipanir ráðsins 82/176/EBE, 83/513/EBE, 84/156/EBE, 84/491/EBE, 86/280/EBE og breytir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB, sem vísað er til í tölulið 13cad, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 57/2011, frá 21. maí 2011.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 17. október 2011.

Svandís Svavarsdóttir.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

VIÐAUKI (sjá PDF-skjal)

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.