Umhverfisráðuneyti

942/2002

Reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim. - Brottfallin

I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.
Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að öryggi barna og annarra með því að tryggja að leikvallatæki og leiksvæði séu hönnuð, frágengin og þeim viðhaldið á öruggan og viðurkenndan hátt.


2. gr.
Gildissvið.

Reglugerðin gildir um öryggi leiksvæða og leikvallatækja og eftirlit með þeim, hvort sem um er að ræða tímabundna starfsemi eða til frambúðar.

Um öryggi leiktækja sem ætluð eru til einkanota fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um öryggi leikfanga og hættulegra eftirlíkinga.


3. gr.
Skilgreiningar.
Aðalskoðun

er skoðun með að hámarki 12 mánaða millibili sem ætlað er að staðfesta öryggi tækisins, undirstöðu þess og umhverfis.

Fallflötur er sá flötur sem notandi getur lent á eftir að hafa fallið í fallrýminu.

Fallrými er rými frá þeim hluta tækisins þar sem notandi getur fallið. Fallrýmið hefst þar sem um frjálst fall getur verið að ræða.

Innra eftirlit er eftirlit rekstraraðila með eigin starfsemi, framkvæmt af honum, starfsmönnum hans eða þjónustuaðila, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í starfsleyfi, lögum og reglugerðum séu uppfylltar.

ÍST EN staðall er staðall sem er samþykktur af evrópskum staðlasamtökum (CEN, CENELEC eða ETSI) og staðfestur af Staðlaráði Íslands sem íslenskur staðall.

Leiksvæði er svæði, hvort sem er innan dyra eða utan, skipulagt fyrir leik barna svo sem í eða við leikskóla, skóla, gæsluvelli og opin leiksvæði. Einnig leiksvæði annarra aðila þar sem börn eiga greiðan aðgang að eða ætlað börnum svo sem í eða við fjöleignarhús, frístundahús, tjaldsvæði, verslunarhúsnæði og samkomustaði.

Leikvallatæki er þar til gert tæki eða mannvirki, þar með talið hlutar þess, sem börn leika sér í eða á utanhúss og innanhúss.

Reglubundin yfirlitsskoðun er skoðun sem ætlað er að greina augljósa hættu sem meðal annars má rekja til skemmda, notkunar eða veðurs.

Rekstraraðili er einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi rekstri.

Rekstrarskoðun er skoðun sem er ítarlegri en reglubundin yfirlitsskoðun og lýtur að virkni og stöðugleika leikvallatækisins og öryggi leiksvæðisins.

Yfirborðsefni eru þau efni sem notuð eru á yfirborði leiksvæða, svo sem gras, möl, sandur, hellur, malbik, timburpallar og samsvarandi. Einnig yfirborðsefni sem hafa eiginleika til dempunar falls eins og fín rúnuð möl, grófur sandur, trjákurl og öryggishellur, sbr. ÍST EN 1177.


4. gr.
Úttekt og starfsleyfi.

Áður en leiksvæði er tekið í notkun skal fara fram lokaúttekt byggingarfulltrúa skv. byggingarreglugerð.

Um starfsleyfi og starfsleyfisskyldu leiksvæða fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um hollustuhætti.


5. gr.
Ábyrgð.

Rekstraraðili ber ábyrgð á að leiksvæði og leikvallatæki þess sé í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.


II. KAFLI
Almenn ákvæði um leiksvæði.
6. gr.
Umhverfi.

Ekki má staðsetja leiksvæði þar sem ætla má að börnum geti stafað hætta eða ónæði af umhverfinu svo sem frá umferð, vegna fallhættu, hruns eða hættu á drukknun.

Aðkoma að svæðinu fyrir gangandi, hjólandi og eftir atvikum akandi vegfarendur skal vera þannig að ekki skapist óþarfa hætta á og við leiksvæðið.

Umferð vélknúinna farartækja er bönnuð á leiksvæðum utan þess sem nauðsyn krefur, svo sem vegna viðhalds eða endurnýjunar tækja og búnaðar.

Hindra skal að börn geti hlaupið beint út af leiksvæði þar sem umferð er.

Á leiksvæðum skal vera góð lýsing.

Þar sem grindverk og hlið eru á lóðum leiksvæða skal frágangi þeirra þannig hagað að börnum geti ekki stafað hætta af.

Við framkvæmdir og viðhald leiksvæða skal taka tillit til eðlis starfseminnar.


7. gr.
Hreinlæti.

Um frágang, viðhald og sandskipti í sandkössum skal fara eftir leiðbeiningum Umhverfisstofnunar.

Á leiksvæðum skal gert ráð fyrir ruslabiðum og losun sorps eftir því sem við á.

Rekstaraðili leiksvæðis skal sjá um að rusl sé fjarlægt reglulega, sbr. ákvæði reglugerðar um úrgang. Hættulegt rusl ber að fjarlægja jafnóðum.


III. KAFLI
Öryggi.
8. gr.
Öryggi leiksvæða.

Til að tryggja öryggi barna á leiksvæðum skal við hönnun og gerð leiksvæða fara eftir ákvæðum í viðauka II.


9. gr.
Öryggi leikvallatækja.

Þeir sem flytja inn, framleiða, markaðssetja, leigja eða dreifa leikvallatækjum hér á landi eða ætla að flytja þau út til annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu skulu geta sýnt fram á að viðkomandi tæki uppfylli kröfur sem fram koma í stöðlum um leikvallatæki og undirlag þeirra, ÍST EN 1176 ásamt ÍST EN 1177 sem taldir eru upp í viðauka I eða aðrar sambærilegar öryggiskröfur.

Með leikvallatækjum sem sett eru á markað skulu fylgja leiðbeiningar um uppsetningu og viðhald tækjanna svo og upplýsingar um þá staðla sem framleiðslan byggist á. Teikningar af tækinu fullbúnu skulu ennfremur fylgja með, upplýsingar um nauðsynleg verkfæri og önnur hjálpargögn við uppsetningu tækjanna.

Upplýsingar um ráðlagða notkun og fyrir hvaða aldurshópa tækið er skulu fylgja með leikvallatækjum. Ef tækið er eingöngu ætlað til notkunar innanhúss skal greint frá því sérstaklega með viðeigandi merkingum.

Leikvallatæki sem sett eru á markað hér á landi skulu merkt nafni framleiðanda, vörumerki hans eða öðru kennimerki. Ef um er að ræða erlenda framleiðslu skal nafn innflytjenda koma fram á leikvallatækinu.

Allar upplýsingar er varða rétta uppsetningu, viðhald og notkun leikvallatækja skulu fylgja með á íslensku.


10. gr.
Hönnun leikvallatækja.

Hönnun, framleiðsla, frágangur og viðhald leikvallatækis og fallflatar þess skal vera þannig að minnsta mögulega hætta sé á að börn verði fyrir slysi af leik í tækinu þegar það er notað eins og til er ætlast eða eins og búast má við að það sé notað.

Þar sem það á við skulu leikvallatæki sérstaklega merkt hvaða aldri barna þau eru ætluð.

Mörk, körfuboltaspjöld og samsvarandi búnað skal festa tryggilega niður. Að öðru leyti skal fara eftir stöðlum sem taldir eru upp í viðauka IV.


IV. KAFLI
Eftirlit með leikvallatækjum og leiksvæðum.
11. gr.
Eftirlit.

Eftirlit með leikvallatækjum og leiksvæðum skal vera í samræmi við kröfur samkvæmt staðlaröðinni ÍST EN 1176 ásamt ÍST EN 1177 sem taldir eru upp í viðauka I.

Löggildingarstofa hefur eftirlit með því að leikvallatæki á markaði uppfylli settar reglur um öryggi. Um málsmeðferð og réttarfarsúrræði fer eftir ákvæðum laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við á.

Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar varðandi leikvallatæki í notkun og öryggi leiksvæða. Tíðni þess eftirlits er háð mati eftirlitsaðila og við slíkt mat skal tekið tillit til umfangs og innra eftirlits þess leiksvæðis sem um ræðir.

Heilbrigðisfulltrúi skal hafa aðgang að öllu skráðu og skjalfestu efni er eftirlitið varðar.


12. gr.
Innra eftirlit.

Heilbrigðisnefnd skal gera kröfu í starfsleyfi um innra eftirlit á leiksvæðum og með leikvallatækjum. Rekstraraðili ber ábyrgð á innra eftirliti. Ábyrgðaraðili skal vera að hverjum eftirlitsþætti innra eftirlits og skal hann gera rekstraraðila viðvart um það sem aflaga fer og benda á nauðsynlegar úrbætur. Rekstraraðili skal gera nauðsynlegar úrbætur eða taka leikvallatæki úr notkun.

Innra eftirlitið skal vera samkvæmt ákvæðum staðalsins ÍST EN 1176. Innra eftirlit skal framkvæma samkvæmt gátlista og í því skal vera slysaskráning. Í innra eftirlitinu skal tilgreina til hvaða úrbóta skal grípa þegar frávik verða frá ákvæðum reglugerðarinnar og hvenær úrbótum var lokið. Mælt er með að innra eftirlit sé hluti af gæðahandbók.

Innra eftirlit greinist í reglubundna yfirlitsskoðun, rekstrarskoðun og aðalskoðun, sbr. ákvæði í viðauka III. Aðalskoðun skal framkvæmd af hæfum aðila samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda leikvallatækja.


V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
13. gr.
Valdsvið og þvingunarúrræði.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.


14. gr.
Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

Sektir má ákvarða lögaðila þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.


15. gr.
Lagastoð, gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, og lögum nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu að höfðu samráði við viðskiptaráðherra. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu og skal endurskoðuð fyrir 1. janúar 2008.

Ákvæði til bráðbirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 15. gr. er veittur frestur til 31. desember 2006 til að endurgera leiksvæði sem eru starfrækt við gildistöku reglugerðar þessarar þannig að þau uppfylli ákvæði reglugerðarinnar. Heilbrigðisnefnd skal þó heimilt að láta fjarlægja hættuleg leikvallatæki ef nauðsyn ber til. Ef ríkar ástæður mæla með er heilbrigðisnefnd heimilt að veita lengri frest en þó ekki lengur en til 31. desember 2010. Rekstraraðilar leiksvæða skulu setja fram tímasetta áætlun um endurgerð leiksvæða og senda heilbrigðisnefnd til umsagnar fyrir 1. janúar 2005.

Eftir 1. janúar 2005 mega þeir einir framkvæma aðalskoðun sem hlotið hafa faggildingu til þess.


Umhverfisráðuneytinu, 27. desember 2002.

Siv Friðleifsdóttir.
Ingimar Sigurðsson.VIÐAUKI I
Staðlar um leikvallatæki og undirlag þeirra.

Eftirfarandi eru staðar úr staðlaröðinni ÍST EN 1176 að viðbættum ÍST EN 1177.

1. ÍST EN 1176-1: 1998 Hluti 1: Almennar öryggiskröfur og prófunaraðferðir.
2. ÍST EN 1176-2: 1998 Hluti 2: Rólur, sérkröfur um öryggi og prófunaaðaferðir.
3. ÍST EN 1176-3: 1998 Hluti 3: Rennibrautir, sérkröfur um öryggi og prófunaraðferðir.
4. ÍST EN 1176-4: 1998 Hluti 4: Hlaupakettir, sérkröfur um öryggi og prófunaraðferðir.
5. ÍST EN 1176-5: 1998 Hluti 5: Hringekjur, sérkröfur um öryggi og prófunaraðferðir.
6. ÍST EN 1176-6: 1998 Hluti 6: Rugguhestar, sérkröfur um öryggi og prófunaraðferðir.
7. ÍST EN 1176-7: 1997 Hluti 7: Leikvallatæki, leiðbeiningar um uppsetningu, eftirlit, viðhald og rekstur.
8. ÍST EN 1176-8 Hluti 8: Leikvallatæki, uppsetning, eftirlit og viðhald.
9. ÍST EN 1176-9 Hluti 9: Leikvallatæki, rekstur.
10. ÍST EN 1177: 1997 Yfirborðsefni á leiksvæðum, öryggiskröfur og aðferðir við prófun.VIÐAUKI II
Öryggi leiksvæða.

Um öryggi leiksvæða gildir eftirfarandi:

1. Leiksvæði skulu vera þannig hönnuð og frágengin að minnsta mögulega hætta sé á að börn verði fyrir slysi á svæðinu.
2. Séu hlutir úr náttúrunni notaðir sem leikvallatæki eða sem hluti þeirra gilda sömu kröfur um þau og önnur leikvallatæki, eftir því sem við á.
3. Yfirborðsefni á leiksvæðum skulu valin með tilliti til hálku og falls og viðeigandi skil skulu vera á milli mismunandi yfirborðsefna.
4. Leiksvæði skulu hönnuð með vatnshalla, vera vel framræst og þess gætt að vatn safnist ekki fyrir þannig að hætta stafi af.
5. Gæta skal að því að á leiksvæðum sé ekki eitraður gróður.
Umhverfisstofnun gefur út lista yfir varasaman gróður.
6. Sé hluti leiksvæðis náttúrulegt svæði skal það yfirfarið og gengið þannig frá því að minnsta mögulega hætta sé á að börn verði fyrir slysi á svæðinu.
7. Á svæðum sem ætluð eru til vatnsleikja skal þess gætt við hönnun og frágang og rekstur að ekki skapist hætta af.
8. Við hönnun sleðabrekku skal miða við að rennslið niður sé óhindrað og án hættulegrar fyrirstöðu. Við hönnun skal miða við að rennslisflöturinn sé með setflöt efst, hæfilegum halla og bremsuflöt neðst. Þar sem þörf er á skal koma fyrir bólstruðum stöðvunarhindrunum.
9. Staðsetja skal hjólastíga á leiksvæðum þannig að þeir liggi ekki um lágmarksrými leikvallatækja. Þeir skulu vera minnst 120 cm breiðir, halli skal vera hæfilegur og hafa skal hindranir meðfram þar sem hætta er á falli. Lágmarksrýmierþað rými sem þörf er á umhverfis tækið svo hættulaust sé að nota það.
10. Um hönnun sandkassa gilda sömu kröfur og um önnur leikvallatæki.
11. Um stoðveggi, verkfærageymslur og önnur mannvirki á leiksvæðum gilda eftir því sem við á sömu kröfur og um leikvallatæki.
12. Á leiksvæðum er óheimilt að nota efnavörur eða hluti sem valdið geta heilsutjóni vegna geislunar, inntöku, innöndunar eða upptöku um húð. Val á efnum skal standast ákvæði laga um eiturefni og hættuleg efni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Um aðra notkun efna og efnavara vísast til staðalsins ÍST EN 71 um öryggi leikfanga.

Um gerð leiksvæða vísast að öðru leyti til RB-blaðs (V6). 003: Leiktæki og annar búnaður á útileiksvæði m.t.t. barna.VIÐAUKI III
Innra eftirlit.

Innra eftirlit greinist í reglubundna yfirlitsskoðun, rekstrarskoðun og aðalskoðun:

1. Reglubundna yfirlitsskoðun getur þurft að framkvæma daglega allt eftir notkun og álagi á leiksvæðinu. Tilgangur hennar er að greina strax hættur sem geta stafað af skemmdarverkum, notkun, sliti eða veðrun. Dæmi um þetta er hættulegt rusl, skemmd leikvallatæki, lausar festingar leikvallatækja og marka, slitnir hreyfihlutir, flísar, útistandandi naglar og skrúfur og óvarðar undirstöður. Reglubundin yfirlitsskoðun felst einnig í að jafna yfirborðsefni undir leikvallatækjum með því að raka til möl og sand og sópa lausu efni af stéttum eftir þörfum. Þá skal við reglubundna yfirlitsskoðun fjarlægja skemmd leikföng og gera viðeigandi ráðstafanir til að taka bilaðan búnað úr umferð.
2. Rekstrarskoðun felst í verklegri yfirferð, viðhaldi og viðgerðum og gæti þurft að framkvæma hana á 1-3 mánaða fresti eftir notkun og álagi. Skoðuninni er ætlað að ganga úr skugga um að leikvallatæki virki eins og til er ætlast, stöðugleiki og festingar þeirra séu tryggar, kanna slitfleti, gera við tæki og framkvæma nauðsynlegt viðhald, svo sem mála, skipta um slitfleti, festa tæki og jafna undirlag. Hér er bæði unnið eftir leiðbeiningum framleiðanda og ábendingum frá reglubundinni yfirlitsskoðun.
3. Aðalskoðun er ástandsskoðun sem ætlað er að gera heildarúttekt á öryggi leikvallatækja, yfirborðsefna, m.a. yfirborðsefna til dempunar falls, og undirstaða undir leikvallatækjum (stöðugleikapróf), til dæmis vegna áhrifa veðrunar eins og ryðs og rotnunar á leikvallatæki og á yfirborðsefni. Einnig allar breytingar er geta haft áhrif á öryggi leikvallatækja. Þar má nefna áhrif viðgerða eða ísetningu nýrra hluta og uppsetningu nýrra tækja á leiksvæðum. Staðallinn segir til um að aðalskoðun eigi að vera framkvæmd af hæfum aðila samkvæmt leiðbeiningum framleiðenda. Hæfni aðila fer eftir eðli verkefnis.VIÐAUKI IV
Staðlar um fótbolta-, handbolta- og hokkímörk og körfuboltaspjöld.

Eftirfarandi staðlar gilda um fótbolta-, handbolta- og hokkímörk og körfuboltaspjöld:

1. ÍST EN 748 Playing field equipment - Football goals - Functional and safety requirements, test methods.
2. ÍST EN 749 Playing field equipment - Handball goals - Functional and safety requirements, test methods.
3. ÍST EN 750 Playing field equipment - Hockey goals - Functional and safety requirements, test methods.
4. ÍST EN 1270 Playing field equipment - Basketball equipment- Functional and safety requirements, test methods.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica