Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

940/2015

Reglugerð um beitingu og hámark dagsekta í opinberu eftirliti með velferð dýra.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um beitingu og hámark dagsekta Matvælastofnunar gagnvart umráðamanni dýra ef aðstæður og aðbúnaður dýra er ófullnægjandi og ekki í samræmi við reglur um dýravelferð að mati Matvælastofnunar.

2. gr. Ákvörðun um dagsektir.

Matvælastofnun er heimilt að leggja á dagsektir að hámarki kr. 100.000 á dag og gilda þær frá þeim degi sem þær eru ákvarðaðar og fram að þeim degi sem skyldu er fullnægt að mati Matvælastofnunar.

Aðila sem ákvörðun um dagsektir beinist að skal veittur sjö daga frestur til að koma að skriflegum andmælum áður en dagsektir eru ákvarðaðar.

Ákvörðun Matvælastofnunar um dagsektir skal kynnt aðila með sannanlegum hætti án ástæðulausra tafa.

3. gr. Fullnusta dagsekta.

Dagsektir eru aðfararhæfar og má innheimta með fjárnámi án undangengis dóms eða sáttar. Dagsektirnar renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Útistandandi dagsektir falla niður ef umráðumaður dýra hefur bætt á fullnægjandi hátt úr aðstæðum og aðbúnaði dýra, að mati Matvælastofnunar, innan fimm virkra daga frá ákvörðun Matvælastofnunar um dagsektir.

4. gr. Réttaráhrif kærðrar ákvörðunar.

Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar um dagsektir.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 23. október 2015.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Baldur Sigmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.