Efnahags- og viðskiptaráðuneyti

925/2009

Reglugerð um heimildir rekstrarfélaga verðbréfasjóða með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins til að stunda starfsemi hér á landi. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um rekstrarfélög verðbréfasjóða með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hyggjast stunda starfsemi hér á landi. Ákvæði reglu­gerðar þessarar ná einnig til svissneskra og færeyskra fjármálafyrirtækja, skv. 1. mgr. 31. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

2. gr.

Stofnun útibús.

Rekstrarfélagi með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, Sviss eða Færeyjum er heimilt að stofnsetja útibú hér á landi í samræmi við 3. mgr., eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða starfsemi frá lögbæru yfirvaldi í heimaríki félagsins. Tilkynningu skal fylgja lýsing á starfsemi útibúsins og þjónustu, skipulagi þess og upplýsingar um heimilisfang útibúsins og nöfn stjórnenda þess, auk stað­festingar lögbærra yfirvalda heimaríkisins um að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við starfsleyfi fyrirtækisins.

Áður en útibú rekstrarfélags hefur starfsemi og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að tilkynning um fyrirhugaða starfsemi ásamt þeim upplýsingum sem getur í 1. mgr., berst Fjármálaeftirlitinu skal það undirbúa eftirlit með rekstrarfélaginu.

Fjármálaeftirlitið skal tilkynna rekstrarfélagi um þau skilyrði, þ.m.t. siðareglur viðvíkjandi stjórnun fjárfestingarsamvals, ásamt fjárfestingarþjónustu og vörslu sem rekstrarfélaginu ber að hlíta svo að almennra hagsmuna sé gætt.

Ef breytingar verða á atriðum sem tilkynnt höfðu verið skv. 1. mgr. skal rekstrarfélagið tilkynna Fjármálaeftirlitinu og yfirvöldum heimaríkis skriflega um fyrirhugaðar breytingar a.m.k. einum mánuði áður en þær koma til framkvæmda svo Fjármálaeftirlitið geti, ef þörf krefur, tilkynnt rekstrarfélaginu um allar breytingar og viðbætur við þau skilyrði sem komið er á framfæri skv. 3. mgr.

Hefja má starfsemi útibús að fenginni tilkynningu Fjármálaeftirlitsins skv. 3. mgr. eða þegar frestur skv. 2. mgr. er liðinn. Fjármálaeftirlitið getur hafnað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að ráðstafanir viðvíkjandi markaðs­setningu hlutdeildarskírteina samræmist ekki ákvæðum laga um verðbréfa- og fjár­festingar­sjóði. Slík ákvörðun skal liggja fyrir fyrir lok tveggja mánaða frestsins, vera rök­studd og tilkynnt lögbærum yfirvöldum heimaríkisins.

3. gr.

Þjónusta án stofnunar útibús.

Rekstrarfélagi með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, Sviss eða Færeyjum, er heimilt að veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús mánuði eftir að Fjármálaeftirlitið hefur móttekið tilkynningu þess efnis frá lögbæru yfirvaldi í heimaríki félagsins. Tilkynningu skulu fylgja upplýsingar um í hverju fyrirhuguð starfsemi og þjónusta sé fólgin.

Fjármálaeftirlitið skal tilkynna rekstrarfélagi um þau skilyrði, þ.m.t. siðareglur viðvíkjandi stjórnun fjárfestingarsamvals, ásamt fjárfestingarþjónustu og vörslu, sem rekstrar­félaginu ber að hlíta svo að almennra hagsmuna sé gætt.

Ef breytingar eru gerðar á atriðum sem tilkynnt höfðu verið skv. 1. mgr. skal rekstrar­félagið tilkynna Fjármálaeftirlitinu og yfirvöldum heimaríkis skriflega um fyrir­hugaðar breytingar a.m.k. einum mánuði áður en þær koma til framkvæmda svo Fjármála­eftirlitið geti, ef þörf krefur, tilkynnt rekstrarfélaginu um allar breytingar og viðbætur við þau skilyrði sem komið er á framfæri skv. 2. mgr.

Sömu reglur gilda um tilkynningar sem mælt er fyrir um í þessar grein ef rekstrarfélag hefur falið þriðja aðila markaðssetningu hlutdeildarskírteina hér á landi.

4. gr.

Upplýsingagjöf.

Útibú sem starfa hér á landi og rekstarfélög sem veita þjónustu án þess að hafa stofnað útibú skulu samkvæmt reglugerð þessari hlíta sömu lögum og reglum og rekstrarfélög með höfuðstöðvar á Íslandi svo sem varðandi afhendingu tölfræðilegra upplýsinga, skýrsluskil, eftirlit og annað sem Fjármálaeftirlitið getur ákveðið.

5. gr.

Úrræði vegna starfsemi rekstrarfélaga
með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Fari rekstrarfélag með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, Sviss eða Færeyjum, sem starfar hérlendis, hvort sem um er að ræða útibú eða þjónustu án útibús, ekki að ákvæðum þeirra laga og reglna sem gilda hér á landi skal Fjármálaeftirlitið krefjast úrbóta.

Geri rekstrarfélag ekki viðeigandi ráðstafanir skal Fjármálaeftirlitið tilkynna það lög­bærum yfirvöldum í heimaríkinu.

Sé ítrekað brotið gegn ákvæðum laga og reglna sem gilda hér á landi er Fjár­mála­eftirlitinu heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir eða refsa fyrir frekari brot á reglum og hindra frekari starfsemi rekstrarfélags. Fjár­mála­eftirlitið skal tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaríkis um þær ráðstafanir.

Allar ráðstafanir samkvæmt þessari grein skulu rökstuddar og tilkynntar viðkomandi rekstrar­félagi og má skjóta þeim til dómstóla. Reynist ráðstafanir lögbærra yfirvalda í heima­ríkinu ófullnægjandi til að stöðva ólögmæta háttsemi fyrirtækisins getur Fjár­mála­eftirlitið, eftir að hafa upplýst lögbært yfirvald heimaríkisins, gert nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda hagsmuni fjárfesta og annarra sem veitt er þjónusta. Í þessu felst m.a. heimild til að koma í veg fyrir að hið brotlega fyrirtæki stundi frekari viðskipti hérlendis. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skal tilkynnt um slíkar ráðstafanir án tafar.

Staðreyni Fjármálaeftirlitið að leyfi rekstrarfélags hafi verið afturkallað í heimaríki þess skal það gera viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að hlutaðeigandi rekstrarfélag hefji frekari viðskipti hér á landi og til að tryggja hagsmuni fjárfesta.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 35. gr. laga nr. 161/2002, um fjár­mála­fyrirtæki og 19. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, öðlast þegar gildi.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, 3. nóvember 2009.

Gylfi Magnússon.

Jónína S. Lárusdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica