Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

907/2000

Reglugerð um breytingu á reglugerð um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 348 8. október 1976, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

10. gr. orðist svo:
Hver hlutamiði ber áprentað númer, frá 1 til 60.000, auk auðkenna raðarinnar, svo og verð miðans og dráttardag. Á hvern miða skal prenta nafn og merki happdrættisins, svo og nöfn stjórnarformanns og framkvæmdastjóra. Hver hlutamiði skal einnig vera merktur því umboði, ásamt heimilisfangi, þar sem hann hefur verið seldur. Ef menn kaupa hlutamiða, sem gildir fyrir alla drætti á sama ári (ársmiða), skal það koma fram á miðanum.


2. gr.

1. málsgr. 11. gr., sbr. reglugerð nr. 688/1998, orðist svo:
Verð hlutamiða er 800 kr. í hverjum flokki. Fyrir ársmiða skal greiða 9.600 kr. Ef eigandi miða vill gera hann að ársmiða, eftir að drættir, einn eða fleiri, hafa farið fram, skal hann greiða fyrirfram fyrir þá drætti, sem eftir eru. Ef menn vilja kaupa hlutamiða eftir að drættir eru byrjaðir á árinu, skal greiða fyrir hann, auk verðs hans í flokki þeim, sem næst á að draga í, samanlagt verðmæti 1/8 hluta miðaverðsins í öllum þeim flokkum, sem dregið hefur verið í á árinu. Ef menn hafa ekki greitt fyrir hlutamiða í einum eða fleiri flokkum sem liðnir eru innan happdrættisárs en vilja gera hlutamiðann gildan í næsta útdrætti skal greiða fyrir hann, auk verðs hans í þeim flokki sem næst á að draga í, samanlagt verðmæti 1/8 hluta miðaverðsins í þeim flokkum sem liðnir eru frá því hann var síðast gildur.


3. gr.

13. gr. orðist svo:
Í upphafi hvers árs eiga menn kost á því að kaupa hlutamiða með sama númeri, sem þeir hafa haft næsta ár á undan, ef þeir greiða fyrir miðann fyrir fyrsta útdrátt á nýju ári.


4. gr.

15. gr., sbr. reglugerð nr. 638/1995, orðist svo:
Dráttur í hverjum flokki er þrískiptur. Fyrsti hluti dráttar í 1. flokki skal fara fram 17. janúar ár hvert, en í öðrum mánuðum 10. hvers mánaðar. Ekki skal þó dregið á laugardögum, helgidögum eða öðrum almennum frídögum, né heldur fyrsta virkan dag eftir almennan frídag. Fer dráttur þá fram næsta virkan dag þar á eftir. Annar hluti útdráttar hvers mánaðar skal fara fram viku síðar en fyrsti útdráttur. Þriðji hluti útdráttar hvers mánaðar skal fara fram tveimur vikum síðar en fyrsti hluti. Ekki skal þó dregið á laugardögum, helgidögum eða öðrum almennum frídögum. Að jafnaði skal því dregið 10., 17. og 24. hvers mánaðar. Happdrættisráð getur veitt undanþágu frá þessari grein, ef því þykir ástæða til.


5. gr.

19. gr., sbr. reglugerð nr. 688/1998, orðist svo:
Útdráttur vinninga fer fram sem hér segir:

I. Fyrsti hluti útdráttar vinninga í hverjum flokki happdrættisins fer fram með eftirfarandi hætti:
A. Útdráttur hæstu vinninga í almenna hlutanum:
Vinningsnúmer vegna hæstu vinninga í 1.-12. flokki eru dregin út með notkun fimm hólfa stokksins. Númerin skulu vera á bilinu 1 – 60.000. Tölur sem koma fram í hólfum stokksins mynda miðanúmerið. Lesið skal frá vinstri til hægri þegar horft er framan á stokkinn. Ef ekki reynist unnt að nýta fimm hólfa stokkinn við útdrátt hæstu vinninga er heimilt að nýta átta hólfa stokkinn í hans stað. Tölur sem koma fram í þeim fimm hólfum stokksins sem eru fjærst snúningshnúð mynda miðanúmerið. Lesið skal frá þeim enda stokksins sem fjær er snúningshnúð. Útdregið vinningsnúmer er því aðeins gilt að það sé á bilinu 1-60.000.
B. Útdráttur annarra vinninga en hinna hæstu og næst hæstu í almenna hlutanum fer fram með tvennum hætti:
1. Með notkun tölvu:
a. Valin er 48 stafa lykiltala. Fer valið fram með notkun átta hólfa stokksins og er sú átta stafa tala sem fram kemur skráð. Lesið skal frá þeim enda stokksins sem fjær er snúningshnúð. Aðgerðin er endurtekin þar til fyrir liggur 48 stafa tala.
b. Tölvan er hreinsuð og færð í upphafsstöðu.
c. Valið er dráttarforrit og annar hugbúnaður sem tekinn er undan innsigli og búnaðurinn settur í tölvuna. Dráttarforritið skal hannað til að draga út önnur miðanúmer en þau sem hlotið hafa hæsta vinning.
d. Lykiltalan og upplýsingar varðandi útdráttinn, svo sem fjöldi númera og vinningsfjárhæðir, eru settar inn frá lyklaborði tengdu tölvunni og prentast jafnframt út.
e. Tölvan dregur og prentar út skrá sem verður hluti af vinningaskrá.
2. Með notkun stokks:
Valdar eru tveggja stafa tölur. Valið fer fram með notkun fimm eða átta hólfa stokks og er sú tala, sem fram kemur og síðustu tveir stafir mynda, skráð. Þegar fimm hólfa stokkur er notaður skal lesið frá vinstri til hægri þegar horft er framan á stokkinn. Lesið skal frá þeim enda átta hólfa stokksins sem fjær er snúningshnúð. Val er endurtekið þar til tilskilinn fjöldi talna hefur fengist. Tölurnar verða hluti af vinningaskrá, en þær vísa til síðustu tveggja tölustafa í hverju miðanúmeri. Þau miðanúmer sem þannig er vísað til eru vinningsnúmer.
C. Að þessum útdrætti loknum er prentuð út heildarvinningaskrá sem happdrættisráð staðfestir með undirskrift sinni.
Sé óskað eftir afriti skrárinnar á disklingi eða segulbandi skal það nú gert.
Dráttarforrit og annar hugbúnaður er tekinn til varðveislu af happdrættisráði.
Happdrættisráðið færir í gerðabók skýrslu um framkvæmd útdráttarins.
II. Annar hluti útdráttar vinninga í hverjum flokki happdrættisins fer fram með eftirfarandi hætti:
A. Útdráttur næst hæstu vinninga í almenna hlutanum.
Vinningsnúmer vegna næst hæstu vinninga almenna hlutans í 1. - 12. flokki eru dregin út með notkun tölvu:
a. Valin er 48 stafa lykiltala. Fer valið fram með notkun átta hólfa stokksins og er sú átta stafa tala sem fram kemur skráð. Lesið skal frá þeim enda stokksins sem fjær er snúningshnúð. Aðgerðin er endurtekin þar til fyrir liggur 48 stafa tala.
b. Tölvan er hreinsuð og færð í upphafsstöðu.
c. Valið er dráttarforrit og annar hugbúnaður sem tekinn er undan innsigli og búnaðurinn settur í tölvuna. Dráttarforritið skal hannað til að draga út miðanúmer úr skrá seldra miðanúmera (tölunúmer ásamt bókstöfunum B,E,F,G eða H).
d. Skrá seldra miðanúmera er flutt í tölvuna. Hvert selt trompmiðanúmer skal hafa verið skráð fimm sinnum í skrána þar eð trompmiði hefur sama gildi og fimm einfaldir miðar.
e. Lykiltalan og upplýsingar varðandi útdráttinn, svo sem fjöldi númera og vinningsfjárhæðir, eru settar inn frá lyklaborði tengdu tölvunni og prentast jafnframt út.
f. Tölvan dregur og prentar út skrá sem verður hluti af vinningaskrá. Í hvert sinn sem trompmiðanúmer er dregið út úr skránni hlýtur eigandi þess sömu fjárhæð og eigendur útdreginna einfaldra miðanúmera. Í útdrætti er mögulegt að fimm vinningar falli á sama trompmiðann.
B. Að þessum útdrætti loknum er prentuð út heildarvinningaskrá sem happdrættisráð staðfestir með undirskrift sinni.
Sé óskað eftir afriti skrárinnar á disklingi eða segulbandi skal það nú gert.
Dráttarforrit og annar hugbúnaður er tekinn til varðveislu af happdrættisráði.
Happdrættisráð færir í gerðabók skýrslu um framkvæmd útdráttarins.
III. Þriðji hluti útdráttar vinninga í hverjum flokki happdrættisins fer fram með eftirfarandi hætti:
A. Í 1. - 11. flokki fer útdráttur vinninga í sjóðshluta þannig fram:
Vinningsnúmer vegna hæstu vinninga eru dregin út með notkun fimm hólfa stokksins. Númerin skulu vera á bilinu 1-60.000. Tölur sem koma fram í hólfum stokksins mynda miðanúmerið. Lesið skal frá vinstri til hægri þegar horft er framan á stokkinn. Ef ekki reynist unnt að nýta fimm hólfa stokkinn við útdrátt hæstu vinninga er heimilt að nýta átta hólfa stokkinn í hans stað. Tölur sem fram koma í þeim fimm hólfum stokksins sem eru fjærst snúningshnúð mynda miðanúmerið. Útdregið vinningsnúmer er því aðeins gilt að það sé á bilinu 1-60.000.
B. Í 12. flokki eru vinningsnúmer í sjóðshluta dregin út með notkun tölvu:
a. Valin er 48 stafa lykiltala. Fer valið fram með notkun átta hólfa stokksins og er sú átta stafa tala sem fram kemur skráð. Lesið skal frá þeim enda stokksins sem fjær er snúningshnúð. Aðgerðin er endurtekin þar til fyrir liggur 48 stafa tala.
b. Tölvan er hreinsuð og færð í upphafsstöðu.
c. Valið er dráttarforrit og annar hugbúnaður sem tekinn er undan innsigli og búnaðurinn settur í tölvuna. Dráttarforritið skal hannað til að draga út miðanúmer úr skrá seldra miðanúmera (tölunúmer ásamt bókstöfunum B, E,F,G og H), þó þannig að aðeins dragist út eitt vinningsnúmer í hverri bókstafsröð.
d. Skrá seldra miðanúmera er flutt í tölvuna.
e. Lykiltalan og upplýsingar varðandi útdráttinn, svo sem fjöldi númera og vinningsfjárhæðir, eru settar inn frá lyklaborði tengdu tölvunni og prentast jafnframt út.
f. Tölvan dregur og prentar út vinningaskrá.
C. Að þessum útdrætti loknum er prentuð út heildarvinningaskrá sem happdrættisráð staðfestir með undirskrift sinni.
Sé óskað eftir afriti skrárinnar á disklingi eða segulbandi skal það nú gert.
Dráttarforrit og annar hugbúnaður er tekinn til varðveislu af happdrættisráði. Happdrættisráðið færir í gerðabók skýrslu um framkvæmd útdráttarins.

6. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13 13. apríl 1973, öðlast gildi 1. janúar 2001.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 5. desember 2000.

Sólveig Pétursdóttir.
Fanney Óskarsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica