Síðasti málsliður 1. gr. falli brott.
Við 3. gr. bætist ný málsgrein, er verður 2. mgr., svohljóðandi:
Á fyrstu árum skólagöngu skulu skólar kanna hvaða nemendur eiga í erfiðleikum með lestrarnám eða lestur, bregðast við því með kerfisbundnum hætti og sjá til þess að öll börn fái nauðsynlega aðstoð til að ná viðunandi lestrarfærni. Fylgst skal reglulega með framförum í lestri og brugðist við vanda sem upp kemur jafnóðum allt til loka grunnskólans. Sérfræðiþjónustan skal aðstoða skóla við greiningu lestrarerfiðleika og veita kennurum ráðgjöf um hvernig brugðist skuli við. Hún skal sjá skólum fyrir viðeigandi skimunar- og greiningarprófum.
Í stað síðasta málsliðar 4. gr. komi nýr málsliður svohljóðandi:
Að athugun lokinni gera starfsmenn sérfræðiþjónustu tillögur um viðeigandi meðferð eða úrbætur.
Á undan fyrsta málslið 7. gr. komi nýr málsliður svohljóðandi:
Sveitarstjórn skipuleggur sérfræðiþjónustu skóla og ræður starfsmenn til að sinna henni.
9. gr. orðist svo:
Sveitarfélögum er skylt að gera menntamálaráðuneytinu grein fyrir starfsemi sérfræðiþjónustu skóla í sveitarfélaginu þegar eftir því er leitað. Menntamálaráðuneytið skal á tveggja ára fresti kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélögum um lestrarfærni nemenda í einstökum skólum og hvernig brugðist er við vanda þeirra nemenda sem ekki hafa náð viðunandi lestrarfærni.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 42. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 og öðlast þegar gildi.