Fjármálaráðuneyti

9/1976

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 245 31. desember 1963 um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum.

1. gr.

       C-liður 32. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

       Gjaldendum, sem stunda atvinnu í a. m. k. 25 kílómetra fjarlægð frá heimili sínu og þurfa dag hvern að fara milli heimilis og vinnustaðar, skal heimilt að draga frá tekjum greidd fargjöld með áætlunarbifreiðum, eða samsvarandi fjárhæð sé notað annað flutningstæki, enda sé sá flutningskostnaður, sem atvinnurekandi kann að hafa endurgreitt launþega, talinn að fullu til tekna skv. síðasta málslið A-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 4. gr. laga nr. 11/1975. Á sama hátt skulu þeir gjaldendur, sem hafa húsnæðisaðstöðu á vinnustað á vegum atvinnurekenda njóta frádráttar frá tekjum vegna greiddra fargjalda í samræmi við tilhögun vinnu á hverjum stað, þó eigi hærri en svarar til einnar ferðar fram og til baka fyrir hverja unna viku.

       Þeir sem þurfa að fara langferðir vegna atvinnu sinnar mega og draga ferðakostnað frá tekjum sínum. Skattstjóri metur í hverju tilviki hvort um langferð sé að ræða og skal hann við það mat hafa til hliðsjónar vegalengd ferðar og lengd dvalartíma gjaldanda frá heimili sínu. Að jafnaði kemur þó frádráttur vegna langferða ekki til greina fyrir fleiri en þrjár slíkar ferðir fram og til baka á hverju ári. Auk fargjalds má taka tillit til fæðis á ferðalaginu og gistikostnaðar. Gjaldanda ber að gera fulla grein fyrir kostnaðinum og skal þess gætt, að ekki sé veittur hærri frádráttur en skattstjóri telur nauðsynlegan vegna ferðarinnar.

 

2. gr.

       B-liður 35. gr. reglugerðarinnar orðist svo

       Námskostnað, sem stofnað er til eftir tuttugu ára aldur, má draga frá tekjum næstu 5 ár eftir að námi er lokið enda geri nemandi árlega meðan nám stendur yfir fullnægjandi grein á framtali sínu fyrir því hvernig fjár var aflað til greiðslu hans og annarra útgjalda með sama hætti og öðrum framteljendum ber að gera grein fyrir fjáröflun til útgjalda sinna. Leggja skal og fram vottorð frá viðkomandi skólum og önnur nauðsynleg sönnunargögn, eftir því sem við á.

       Nemandi skal árlega gera grein fyrir fjáröflun og kostnaði við námið á sérstöku eyðublaði, sem skattyfirvöld láta í té. Skal það fyrst sent með framtali nemandans fyrsta árið eftir að hann nær 20 ára aldri og ætið síðan meðan á námi stendur. Einnig skal nemandi, sem óskar eftir að njóta frádráttar skv. þessum lið, senda með fyrsta framtali sínu eftir að námi er lokið afrit eða ljósrit af prófskírteini og sundurliðað heildaryfirlit yfir námskostnaðinn og fjáröflun til greiðslu hans og annarra útgjalda á námsárunum, svo og gera grein fyrir námsferli sínum, þ. e. hvaða nám hann hafi stundað, við hvaða skóla, hvenær og hve lengi og hvaða prófi hann hafi lokið. Skattstjóri úrskurðar síðan heildarupphæð frádráttar og má þá hafa hliðsjón af almennum námsfrádrætti skv. A-lið þessarar gr., sem leyfður var við hliðstætt nám á sama stað og tíma.

       Frá heildarupphæð frádráttar skv. þessum stafl. skal draga þann námsfrádrátt, sem færður hefur verið til frádráttar á framtölum skattþegns skv. A-lið og honum hefur að gagni komið til skattlækkunar og enn fremur þann frádrátt sem foreldri hefur notið skv. 49. gr. A. 2. Það, sem þá verður eftir má skattþegn draga frá tekjum næstu 5 ár þó aldrei meira en 1/5 hluta hvert ár.

       Nemanda er heimilt, enda sendi hann ósk um það með fyrsta framtali eftir að hann hefur náð 20 ára aldri, að vera undanþegin skyldu til þess að gera árlega grein fyrir námskostnaði á þar til gerðum eyðublöðum frá skattyfirvöldum, svo og að skila heildarskilagrein, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. B-liðar þessarar greinar, og er hann þá bundinn af þeirri ósk sinni allan námstímann og við endanlegt uppgjör á námskostnaði að námi loknu. Ef nemandi sendir ekki fyrrgreinda ósk með fyrsta framtali sínu og ekki heldur útfyllt eyðublað um námskostnað skv. 2. mgr. skal skattstjóri líta svo á að nemandi óski að nota undanþáguheimild þessarar málsgreinar.

       Þegar nemandi, sem óskað hefur þess að falla undir ákvæði 4. mgr., hefur lokið námi skal hann senda afrit eða ljósrit af prófskírteini með framtali sínu og skal skattstjóri þá ákvarða námskostnað hans þann tíma, sem námið stóð yfir skv. mati ríkisskattstjóra á kostnaði við viðkomandi nám, að fengnum upplýsingum frá lánasjóði ísl. námsmanna og öðrum aðilum um eðlilegan árlegan meðalnámskostnað og eðlilega tímalengd við hverja námsbraut.

       Eigi skal leyfa skattþegni námskostnað vegna fleiri ára en sem nemur eðlilegum námstíma skv. upplýsingum viðkomandi skóla en taka skal tillit til tafa frá námi vegna veikinda eða vegna þess að nemandi hvarf frá námi um tíma, við ákvörðun námskostnaðar í námsbraut hans. Sé námstími styttri en eðlilegur námstími miðast námskostnaður við raunverulegan námstíma. Sé námstími lengri en eðlilegur námstími skal leggja saman fullan námskostnað allra námsáranna og reikna síðan hlutfall eðlilegs námstíma.

       Þeir nemendur, sem fram til ársins 1975 hafa sent eyðublað um námskostnað með framtölum sínum en óska eftir að falla undir ákvæði 4. og 5. mgr. B-liðar þessarar gr. skulu senda skattstjóra umsókn þar um með framtali 1976 og eru þeir þá bundnir af þeirri ósk sinni allan námstímann og við endanlegt uppgjör á námskostnaði að námi loknu. Sama gildir um þá nemendur sem senda eyðublöð um námskostnað skv. 2. mgr. á árinu 1976 og síðar en óska þess síðar, að námskostnaður þeirra verði ákvarðaður skv. 5. og 6. mgr. B-liðar þessarar greinar.

       Heildarnámskostnað skv. úrskurði skattstjóra skv. ákvörðunarreglu í 5., 6. og 7. mgr. B-liðar þessarar gr. má skattþegn draga frá tekjum sínum á næstu 5 árum eftir að námi er lokið þó aldrei meira en 1/5 hluta hvert ár.

 

3. gr.

            100. gr. reglugerðarinnar, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 383 1974, orðist svo: Lögreglustjórar eða gjaldheimtur sbr. lög nr. 68/1962 skulu innheimta tekju- og eignarskatt.

            Á þann hátt, er hér segir skal innheimta fyrirfram upp í væntanlega skatta yfirstandandi árs hjá hverjum gjaldanda fjárhæð, er nemi 60% - sextíu af hundraði - þeirra skatta, sem honum bar að greiða næstliðið ár:

1.    Með fimm jöfnum greiðslum, er falla í gjalddaga 1. febrúar, 1. mars, 1. apríl 1. maí og 1. júní, skal innheimta til greiðslu upp í skatta yfirstandandi árs hjá hverjum gjaldanda fjárhæð er nemi 60% -- sextíu af hundraði - þeirra skatta, sem honum bar að greiða næstliðið ár. Nú hafa tekjur gjaldanda á gjaldárinu verið a. m. k. 30% lægri en á næsta ári áður, eða ástæður hans hafa versnað með öðrum hætti svo mjög, að vænta megi þess að mun lægri skattar verði lagðir á hann en árið áður, og getur hann þá krafist lækkunar á greiðslum skv. þessum tl.  Skattstjóri ákveður lækkunina.

            Nú verður ljóst, þegar álagningu lýkur, að gjaldandi hefur þegar greitt meira en álögðum sköttum nemur, og skal þá endurgreiða það, sem ofgreitt var, ásamt 1/2 % vöxtum fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði, sem féð var í vörslum innheimtumanns.

2.       Álagða skatta, að frádregnu því, sem greiða ber skv. 1. tl. ber gjaldanda að greiða með fimm sem næst jöfnum greiðslum þann 1. ágúst, 1. sept., 1. okt., 1. nóv. og 1. des.

3.    Vangreiðsla að hluta skv. þessari grein veldur því, að skattar gjaldandans á gjaldárinu falla í eindaga 15 dögum eftir gjalddagann, þó ekki fyrr en 15. næsta mánaðar eftir að álagningu er lokið.

            Sé skattur hækkaður svo seint, að tilkynning um það hefur eigi náð innheimtumanni fyrir 1. ágúst eða 1. dag næsta mánaðar eftir álagningu fari hún seinna fram telst sú skatthækkun í gjalddaga fallin 10 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina, og skal hún tilkynnt í ábyrgðarpósti.

            Taka má skatt lögtaki ásamt dráttarvöxtum hjá gjaldanda sjálfum eða öðrum þeim, sem bera ábyrgð á greiðslu hans, sbr. 102.-108. gr. og 1. mgr. 109. gr.

            Kæra frestar ekki greiðsluskyldu né leysir undan neinum þeim viðurlögum, sem lögð eru við vangreiðslu skatts, en ef skattur er lækkaður eða felldur niður, skal endurgreiðsla þegar fara fram, sbr. 98. gr. Dráttarvexti má einnig endurgreiða.

 

4. gr.

       Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimildum í 46. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 8. gr. laga nr. 60/1973 og 55. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 21. gr. laga nr. 7/1972, öðlast gildi þegar í stað.

 

Fjármálaráðuneytið, 12. janúar 1976.

 

Matthías Á. Mathiesen.

 

Þorsteinn Geirsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica