Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

893/2009

Reglugerð um mat og eftirlit í leikskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til innra og ytra mats í leikskólum sem reknir eru af sveitarfélögum og öðrum aðilum. Reglugerðin tekur einnig til skyldu sveitarfélaga til að veita mennta- og menningarmálaráðuneyti þær upplýsingar um skólahald sem óskað er eftir vegna eftirlits með skólastarfi í leikskólum.

2. gr. Markmið mats og eftirlits með leikskólastarfi.

Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í leikskólum er að:

  1. tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár leikskóla,
  2. tryggja að réttindi barna séu virt og að þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum,
  3. veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks leikskóla, viðtökuskóla og foreldra,
  4. auka gæði náms og leikskólastarfs og stuðla að umbótum.

3. gr. Innra mat leikskóla.

Hver leikskóli skal með kerfisbundnu innra mati leggja mat á árangur og gæði skólastarfs. Innra mat skal byggja á fjölbreyttum gögnum sem taka mið af viðfangsefnum hverju sinni og skulu starfsfólk, foreldrar, börn og foreldraráð taka þátt í því eftir því sem við á.

Virkt innra mat skal vera samofið annarri starfsemi leikskóla og skapa forsendur fyrir markvissri skoðun á árangri, leiðum að markmiðum og aukinni ábyrgð leikskóla á eigin starfi. Innra mat skal vera umbótamiðað og ná til allra helstu þátta skólastarfsins.

Leikskólar skulu birta á vefsvæði sínu, eða með öðrum opinberum hætti, upplýsingar um framkvæmd innra mats, helstu niðurstöður og umbótaáætlun. Einnig skal sýnt fram á tengsl innra mats við skólanámskrá, starfsáætlun og stefnu sveitarfélagsins um leikskólahald.

Nánari viðmið um innra mat eru sett í aðalnámskrá leikskóla.

4. gr. Mat og eftirlit sveitarstjórna.

Nefnd skv. 2. mgr. 4. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 skal í umboði sveitarstjórnar hafa eftirlit með því að skólastarf í leikskólum samræmist lögum, reglugerðum og aðalnámskrá leikskóla. Við eftirlit skal stuðst við fjölbreytt gögn, svo sem tölulegar upplýsingar, skólanámskrá, starfsáætlun, stefnu sveitarfélags um leikskólahald og önnur gögn eftir því sem við á. Jafnframt skal nefndin sjá til þess að áætlanir um nauðsynlegar umbætur í kjölfar ytra mats séu gerðar og þeim fylgt eftir.

Komi fram vísbendingar um að leikskóli fari ekki að lögum og sinni ekki lögbundnum skyldum sínum skal nefndin ganga úr skugga um hvort rétt sé og sjá til þess að viðeigandi úrbætur séu gerðar sé þess þörf.

Í skólastefnu sveitarfélaga skal koma fram með hvaða hætti sveitarstjórn stendur að mati í leikskólum.

Sveitarstjórn skal, þegar eftir því er óskað, láta ráðuneyti í té upplýsingar um eftirlit sveitarfélagsins með leikskólahaldi.

5. gr. Eftirlit og ytra mat mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Eftirlit ráðuneytis fer fram með öflun, miðlun og greiningu upplýsinga, ytra mati, innlendum og erlendum könnunum og rannsóknum.

Ráðherra setur fram áætlun um ytra mat til þriggja ára í senn og skal áætlunin birt á vefsvæði ráðuneytisins. Í áætluninni skulu koma fram fyrirhugaðar úttektir og kannanir svo og eftirfylgni eftir því sem kostur er. Áætlunin getur m.a. byggt á úttektum á einstökum þáttum skólastarfs, úttektum á skólum og aðferðum við innra mat, svo og innlendum og erlendum könnunum og rannsóknum.

Ráðuneyti skal gera áætlun fyrir hverja úttekt þar sem fram kemur tilgangur úttektar, úttektaraðferðir, helstu viðmið og áherslur. Ráðuneytið fær óháða sérfræðinga til að sjá um framkvæmd úttekta og fer val á úttektaraðilum samkvæmt verklagsreglum ráðuneytisins. Niðurstöður ytra mats eru sendar viðkomandi sveitarstjórn og birtar á vef ráðuneytisins.

Ef eftirlit ráðuneytisins bendir til þess að þörf sé á umbótum skal sveitarstjórn senda ráðuneytinu umbótaáætlun þar sem fram kemur hvernig brugðist verður við niðurstöðum matsins og jafnframt hvernig sveitarstjórn hyggst fylgja þeim eftir.

6. gr. Upplýsingaskylda sveitarstjórna.

Sveitarstjórnum er skylt að veita ráðuneyti árlega, eða oftar sé þess krafist, upplýsingar um framkvæmd skólahalds í leikskólum í sveitarfélaginu. Jafnframt skal sveitarstjórn miðla upplýsingum um skólastarfið í sveitarfélaginu til foreldra og starfsfólks skóla.

Þær upplýsingar frá sveitarstjórnum sem hér um ræðir eru annars vegar tölulegar upplýsingar sem aflað er árlega og hins vegar upplýsingar sem ráðuneytið aflar eftir þörfum vegna eftirlitsskyldu sinnar, upplýsingagjafar til Alþingis og erlendrar samvinnu.

Tölulegar upplýsingar um leikskólahald sem sveitarstjórnir skulu gera grein fyrir ár hvert eru m.a.:

  1. Leikskólar: Fjöldi og heiti leikskóla í sveitarfélaginu.
  2. Börn: Fjöldi barna í hverjum leikskóla, fjöldi barna í árgangi, fjöldi barna í árgangi sem fá sérkennslu og fyrirkomulag hennar og fjöldi barna með annað móðurmál en íslensku.
  3. Starfsfólk: Fjöldi leikskólakennara í sveitarfélaginu, fjöldi annarra starfsmanna leikskóla en leikskólakennara, fjöldi stöðugilda leikskólakennara, fjöldi stöðugilda þeirra sem hafa aðra háskólamenntun og stöðugildi annarra starfsmanna, starfsheiti, stöðuhlutfall, menntunarstig og aldur.
  4. Innra starf skóla: Starfstími leikskóla, fjöldi skóladaga á ári, daglegur dvalartími barna og daglegur opnunartími leikskóla.

Sveitarstjórn skal, þegar eftir því er óskað, láta mennta- og menningarmálaráðuneyti í té upplýsingar um skólastarf, svo sem stefnu sveitarfélagsins um leikskólahald og framgang hennar, skólanámskrá, sérfræðiþjónustu, foreldraráð, mat og eftirlit leikskóla og sveitarfélags og áætlanir um umbætur.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 20. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla, öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 22. október 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Baldur Guðlaugsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.