Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

890/2019

Reglugerð um samráðsnefnd um fiskeldi.

1. gr. Samráðsnefnd um fiskeldi.

Samráðsnefnd um fiskeldi starfar á grundvelli laga um fiskeldi og er stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis.

Í reglugerð þessari þar sem vísað er til samráðsnefndar er átt við samráðsnefnd um fiskeldi.

2. gr. Hlutverk samráðsnefndar.

Samráðsnefndin er stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis og skal taka til umfjöllunar hvaðeina sem málaflokkinn snertir.

Hlutverk samráðsnefndarinnar er að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á, áhættu vegna sjúkdóma og sníkjudýra, aðra rekstraráhættu í fiskeldisstarfsemi og framkvæmd eftirlits með starfsemi fiskeldisfyrirtækja.

Samráðsnefndin veitir Hafrannsóknastofnun ráðgefandi álit um tillögu að áhættumati erfðablöndunar í samræmi við 6. gr. a laga um fiskeldi.

3. gr. Skipun samráðsnefndar.

Sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra skipar samráðsnefnd um fiskeldi til fjögurra ára í senn.

Í samráðsnefndinni eiga sæti sex fulltrúar. Einn fulltrúi skal skipaður án tilnefningar og er hann formaður, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar, einn samkvæmt tilnefningu samtaka fiskeldisfyrirtækja, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og einn samkvæmt tilnefningu umhverfis- og auðlindaráðherra. Fulltrúar til vara skulu skipaðir með sama hætti.

4. gr. Starf samráðsnefndar.

Samráðsnefndin skal funda svo oft sem þurfa þykir.

Formaður kveður samráðsnefndina saman til fundar með a.m.k. einnar viku fyrirvara ef mögulegt er og skal dagskrá og fylgiskjöl fylgja fundarboði. Formaður stýrir fundum samráðsnefndarinnar.

Samráðsnefndin veitir Hafrannsóknastofnun ráðgefandi álit um tillögu að áhættumati erfðablöndunar í samræmi við 6. gr. a laga um fiskeldi. Boða skal til fundar eigi síðar en einni viku eftir að tillaga Hafrannsóknastofnunar berst nefndinni til umfjöllunar og skal nefndin skila ráðgefandi áliti innan fjögurra vikna frá því að tillagan berst.

Berist ósk frá stjórnvöldum um að nefndin taki til umfjöllunar málefni er varða fiskeldi skal nefndin taka þau til meðferðar og afgreiða þau innan fjögurra vikna.

Samráðsnefndinni er heimilt að eigin frumkvæði að taka til umfjöllunar önnur málefni er varða fiskeldi.

Samráðsnefndin skal leitast við að komast að einróma samkomulagi um afgreiðslu og efnislega niðurstöðu erinda.

Samráðsnefndin skal rita fundargerðir þar sem m.a. er fjallað um þau dagskrármál sem tekin eru fyrir á fundum og afgreiðslu þeirra. Fundargerðir skulu jafnan lagðar fram til samþykktar í lok hvers fundar.

5. gr. Kostnaður af störfum samráðsnefndar.

Kostnaður af störfum samráðsnefndar greiðist úr ríkissjóði en hver þeirra sem tilnefnir fulltrúa ber kostnað af störfum þess fulltrúa.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu.

Samráðsnefndin skal árlega leggja fram áætlun um kostnað vegna starfa nefndarinnar og skal ráðherra samþykkja þá áætlun.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 11. október 2019.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Jóhann Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.