Fara beint í efnið

Prentað þann 20. apríl 2024

Stofnreglugerð

877/2019

Reglugerð um viðbótartryggingar varðandi salmonellu vegna sendinga af kjúklingakjöti, hænueggjum og kalkúnakjöti.

1. gr.

Tilgangur reglugerðar þessarar er að koma á viðbótartryggingum (samkvæmt 2. mgr. 8. gr. reglugerðar (EB) nr. 853/2004 sem innleidd er með reglugerð nr. 104/2010) vegna salmonellu í sendingum til Íslands af kjúklingakjöti, hænueggjum og kalkúnakjöti.

2. gr.

Sýnatökur af kjöti sem um getur í 1. gr. og örverufræðilegar prófanir á þeim sýnum skulu gerðar í samræmi við 3. og 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 1688/2005.

Sýnatökur í upprunahópi eggja sem um getur í 1. gr. og örverufræðilegar prófanir á þeim sýnum skulu gerðar í samræmi við 4. og 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 1688/2005.

Sendingum af kjöti sem um getur í 1. gr., skulu fylgja viðskiptaskjöl sem eru í samræmi við þá fyrirmynd sem sett er fram í IV. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1688/2005.

Sendingum af eggjum sem um getur í 1. gr. skulu fylgja vottorð sem eru í samræmi við þá fyrirmynd sem sett er fram í V. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1688/2005.

3. gr.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, með síðari breytingum.

4. gr.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a - 30. gr. e og 31. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 31. gr. a laga nr. 93/1995, um matvæli og með vísan til ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) nr. 001/19/COL, dagsettri 16. janúar 2019, þar sem heimilaðar voru viðbótartryggingar í tilviki Íslands, sbr. reglur um viðbótartryggingar vegna salmonellu sem er að finna í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 frá 29. apríl 2004, um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2007. Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2020.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 19. september 2019.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kristján Skarphéðinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.