Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

876/2006

Reglugerð um starfsábyrgðartryggingu græðara.

1. gr.

Græðara sem skráður er skv. 3. gr. laga nr. 34/2005 um græðara, er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem starfsleyfi hefur hér á landi vegna tjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum hans skv. 4. gr. laga um græðara. Í stað vátryggingar er græðara þó heimilt að leggja fram ábyrgð sem veitt er af viðskiptabanka eða sparisjóði, eða annars konar tryggingu sem veitir sambærilega vernd að mati ráðherra.

2. gr.

Vátryggingin skal taka til tjóns sem leitt getur af gáleysi af starfi græðarans á því fagsviði sem skráning hans nær til. Vátryggingaskyldan fellur niður falli skráning græðarans skv. 3. gr. laga um græðara niður.

3. gr.

Ábyrgð samkvæmt vátryggingunni vegna hvers einstaks tjónsatviks skal nema hið minnsta kr. 1.000.000 og heildarfjárhæð vátryggingabóta innan hvers vátryggingaárs skal nema kr. 5.000.000 að lágmarki.

Fjárhæðir þessar skulu fylgja vísitölu neysluverðs og breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við þróun vísitölunnar. Grunnvísitalan miðast við september 2006, 265,6 stig.

4. gr.

Heimilt er að áskilja eigin áhættu í samningi aðila um ábyrgðartryggingu, en slíkt má ekki skerða rétt þriðja manns til bóta úr hendi vátryggingafélags. Tilhögunar eigin áhættu skal getið í vátryggingaskilmálum, vátryggingaskírteini eða iðgjaldakvittun. Vátryggingafélagið getur endurkrafið þann sem valdið hefur tjóni af stórfelldu gáleysi. Bætur má lækka eða fella niður, ef sá sem fyrir tjóni varð var meðvaldur að tjóni.

5. gr.

Vátryggingafélögum ber að kynna Fjármálaeftirlitinu vátryggingaskilmála starfsábyrgðartryggingar þessarar áður en þeir eru boðnir skráðum græðurum.

6. gr.

Falli ábyrgðartryggingin niður ber vátryggingafélagi að tilkynna Bandalagi íslenskra græðara um niðurfellingu hennar samhliða því sem félagið tilkynnir græðurum sjálfum um lok vátryggingarinnar. Þótt vátryggingin sé úr gildi fallin, ber vátryggingafélagið áfram ábyrgð gagnvart þriðja manni á tjónstilvikum sem verða, þar til 14 dagar eru liðnir frá lokum vátryggingarinnar og/eða dagsetningu tilkynningar til Bandalags íslenskra græðara um lok hennar.

7. gr.

Uppfylli skráður græðari ekki skilyrði reglugerðar þessarar um starfsábyrgðartryggingu skal hann felldur af skrá þeirri sem mælt er fyrir um í 3. gr. laga nr. 34/2005 um græðara og Bandalag íslenskra græðara hefur eftirlit með.

8. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 34/2005 um græðara, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 9. október 2006.

Siv Friðleifsdóttir.

Sólveig Guðmundsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.