Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. jan. 2015

870/2007

Reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmiðið með reglugerð þessari er að setja samræmdan regluramma um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu í þeim tilgangi að efla öryggi og skilvirkni.

2. gr. Gildissvið.

Gildissvið reglugerðar þessarar tekur til flugleiðsöguþjónustu sem veitt er hér á landi, í lofthelgi Íslands og í því loftrými sem Íslandi hefur verið falin þjónusta í samkvæmt skuldbindingum og samningum á sviði þjóðaréttar.

Gildissvið loftrýmisreglugerðarinnar, sjá fylgiskjal IV, er nánar skilgreint í 1. mgr. sbr. 3. mgr. 1. gr. loftrýmisreglugerðarinnar.

II. KAFLI Skipulag loftrýmisumdæma, eftirlit o.fl.

4. gr. Eftirlitsstjórnvald.

Tilnefnt eftirlitsstjórnvald er Samgöngustofa skv. reglugerð þessari.

Samgöngustofa skal tryggja viðeigandi eftirlit, einkum að því er varðar öruggan og skilvirkan rekstur veitenda flugleiðsöguþjónustu innan þess loftrýmis sem er á ábyrgð íslenska ríkisins.

4. gr. a Áætlun um frammistöðu og markmið.

Samgöngustofa skal gera drög að frammistöðuáætlun í samráði við veitendur flugleiðsöguþjónustu, loftrýmisnotendur, rekstraraðila flugvalla og samræmingaraðila flugvalla. Áætlunin skal staðfest af ráðherra. Áætlunin skal fela í sér landsbundin markmið og skal tryggja samræmi við svæðisbundin frammistöðumarkmið á ICAO NAT svæðinu.

Áætlunin skal einnig fela í sér viðeigandi hvatakerfi.

5. gr. Viðurkenndar stofnanir.

Samgöngustofu er heimilt að ákveða að úthluta, að fullu eða að hluta til, skoðunum og könnunum skv. 4. gr., til viðurkenndra stofnana sem uppfylla kröfurnar í viðauka I við þjónustureglugerðina.

Nú viðurkennir Samgöngustofa stofnun til að annast skoðanir og kannanir á veitendum flugleiðsöguþjónustu og skal slík viðurkenning vera til þriggja ára að hámarki. Samgöngustofa getur afturkallað viðurkenningu sína uppfylli stofnun ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru skv. viðauka I við þjónustureglugerðina.

6. gr. Samningur um eftirlit með flugleiðsögu.

Nái loftrýmisumdæmi yfir loftrými á ábyrgð fleiri en eins ríkis skal Samgöngustofa gera samning um eftirlit með veitendum flugleiðsöguþjónstu, við eftirlitsstjórnvöld viðkomandi ríkja. Einnig er Samgöngustofu heimilt að gera samninga um eftirlit vegna veitenda flugleiðsöguþjónustu sem veitir þjónustu í öðru ríki en því þar sem aðalrekstur hans fer fram.

7. gr. Tilnefning þjónustuveitanda.

Samgöngustofa skal tilnefna þjónustuveitanda, í samráði við innanríkisráðuneytið, sem veittur er einkaréttur á veitingu flugumferðarþjónustu, þjónustupakka eða einnar tegundar flugleiðsöguþjónustu, innan tiltekinna loftrýmisumdæma að því er varðar loftrými á ábyrgð íslenska ríkisins, skv. 1. mgr. 8. gr. þjónustureglugerðarinnar.

Samgöngustofu er heimilt að tilnefna þjónustuveitanda, í samráði við innanríkisráðuneytið, sem hefur einkarétt á því að láta í té öll veðurfræðileg gögn eða hluta af þeim í öllu eða hluta af loftrýminu sem er á ábyrgð íslenska ríkisins, að teknu tilliti til öryggisráðstafana, skv. 1. mgr. 9. gr. þjónustureglugerðarinnar.

Ef um er að ræða starfrænt loftrýmisumdæmi sem nær yfir loftrými fleiri en eins ríkis skulu hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld tilnefna sameiginlega einn eða fleiri veitendur flugleiðsöguþjónustu, a.m.k. einum mánuði áður en loftrýmisumdæminu er komið á fót.

8. gr. Tilnefning.

Tilnefning þjónustuveitanda skv. 7. gr. skal veitt að hámarki til 7 ára í senn. Tilnefning er háð eftirfarandi skilyrðum:

  1. Þjónustuaðili hafi gilt starfsleyfi fyrir þeirri þjónustu sem hann hyggst veita, samkvæmt gildandi reglugerð um starfsleyfi fyrir flugleiðsöguþjónustu;
  2. Aðgangur loftrýmisnotenda sé tryggður til þjónustunnar án mismununar, einkum að því er varðar öryggi; og
  3. Önnur skilyrði sem Samgöngustofa kann að setja.

9. gr. Samstarf milli þjónustuveitenda.

Veitendur flugleiðsöguþjónustu mega nýta sér þjónustu annarra þjónustuveitenda sem hafa starfsleyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Veitendur flugleiðsöguþjónustu skulu gera samstarfið formlegt með skriflegum samningi eða ígildi hans, þar sem tilgreindar eru skyldur og verkefni sem hver þjónustuveitandi hefur með höndum og sem gerir þjónustuveitendum kleift að skiptast á rekstrargögnum að því er varðar almenna flugumferð. Tilkynna skal slíkt samstarf til Samgöngustofu með hæfilegum fyrirvara.

Þegar um er að ræða veitingu flugumferðarþjónustu skal liggja fyrir samþykki frá hlutaðeigandi ríkjum. Þegar um er að ræða veðurþjónustu skal liggja fyrir samþykki hlutaðeigandi ríkja ef þau hafa tilnefnt þjónustuveitanda sem fær einkarétt í samræmi við ákvæði 7. gr. reglugerðar þessarar.

10. gr. Gagnsæi reikningsskila.

Veitendur flugleiðsöguþjónustu skulu semja ársreikning og leggja hann fram til endurskoðunar og birtingar, hvernig sem eignarhaldi þeirra og rekstrarformi að lögum er háttað. Ársreikningurinn skal saminn í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, sbr. lög um ársreikninga nr. 3/2006. Þar sem ekki reynist unnt að ná fullu samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, vegna réttarstöðu þjónustuveitandans, skal hann kappkosta að ná eins miklu samræmi og mögulegt er.

Þegar veitendur flugleiðsöguþjónustu bjóða þjónustupakka skulu þeir tilgreina viðeigandi kostnað og tekjur af flugleiðsöguþjónustu, sundurliðaðar í samræmi við meginreglur Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu um ákvörðun kostnaðargrunns fyrir leiðargjald og útreikning á gjaldskráreiningum. Þeir skulu einnig, eftir því sem við á, halda annarri þjónustu en flugleiðsöguþjónustu aðskildri í undirreikningi ársreiknings, á sama hátt og krafist yrði af þeim ef þjónustan sem um er að ræða væri veitt af aðskildum fyrirtækjum.

11. gr. Tilnefnt stjórnvald með gagnsæum reikningsskilum.

Tilnefnt eftirlitsstjórnvald um gagnsæi reikningsskila er Samgöngustofa.

Ársreikningaskrá er tilnefnt eftirlitsstjórnvald varðandi þau félög er skylt er að beita alþjóðlegum reikningsskilum við gerð samstæðureiknings og ársreiknings, sbr. 90. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006 og félögum sem nýta sér heimild til að beita alþjóðlegum reikningsskilum skv. 92. gr. sömu laga.

12. gr. Gjaldtökukerfi.

Í samræmi við meginreglur 15. og 16. gr. þjónustureglugerðarinnar skal gjaldtökukerfi fyrir flugleiðsöguþjónustu stuðla að auknu gagnsæi í ákvörðunum, álagningu og gjaldtöku af hálfu loftrýmisnotenda og stuðla að kostnaðarhagkvæmni við veitingu flugleiðsöguþjónustu og skilvirkni flugs en samtímis að viðhalda hámarksöryggisstigi. Þetta kerfi skal vera í samræmi við 15. gr. Chicago-samningsins frá 1944 og leiðargjaldakerfi Evrópustofnunar um öryggi í flugleiðsögu eða við samninginn um sameiginlega greiðslu kostnaðar af tiltekinni flugleiðsöguþjónustu á Íslandi, eftir því sem við á.

13. gr. Samráð við notendur þjónustu.

Þjónustuveitandi flugleiðsöguþjónustu skal hafa árlega samráð við notendur þjónustunnar um gjaldtöku vegna þjónustunnar.

14. gr. Birting ársskýrslu og úttektir.

Veitendur flugleiðsöguþjónustu skulu birta ársskýrslu sína sem skal vera háð reglubundnu eftirliti óháðs úttektaraðila.

15. gr. Samráðsvettvangur vegna flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu.

Samgöngustofa skal koma á fót samráðsvettvangi með hagsmunaaðilum til að tryggja viðeigandi þátttöku þeirra í innleiðingu reglna er varða samevrópska loftrýmið. Slíkir hagsmunaaðilar geta verið fulltrúar veitenda flugleiðsöguþjónustu, loftrýmisnotenda, rekstraraðila flugvalla, framleiðsluiðnaðar og fagmenntaðra starfsmanna veitenda flugleiðsöguþjónustu.

III. KAFLI Grunnkröfur og rekstrarsamhæfi.

16. gr. Grunnkröfur.

Evrópska netið fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar (EATMN), eins og það er skilgreint i 1. viðauka rekstrarsamhæfisreglugerðarinnar, kerfi þess, kerfishlutar og tilheyrandi verklagsreglur skulu uppfylla grunnkröfurnar sem settar eru fram í II. viðauka við rekstrarsamhæfisreglugerðina.

17. gr. Framkvæmdarreglur um rekstrarsamhæfi.

Kerfi, hlutar þeirra og tilheyrandi verklagsreglur skulu vera í samræmi við viðkomandi reglugerðir um innleiðingu rekstrarsamhæfis allan endingartímann.

18. gr. EB-samræmisyfirlýsing eða yfirlýsing um nothæfi kerfishluta.

Kerfishlutum skal fylgja EB-yfirlýsing um samræmi eða nothæfi. Í III. viðauka rekstrarsamhæfisreglugerðarinnar eru talin upp einstök atriði þessarar yfirlýsingar.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skal tryggja og lýsa yfir með EB-yfirlýsingu um samræmi eða nothæfi að hann hafi beitt ákvæðunum sem mælt er fyrir um í grunnkröfunum og í viðkomandi reglugerðum um innleiðingu rekstrarsamhæfis.

Gengið skal út frá því að grunnkröfurnar og viðkomandi reglugerðir um innleiðingu rekstrarsamhæfis séu uppfylltar að því er varðar þá kerfishluta sem EB-yfirlýsing um samræmi eða nothæfi fylgir.

19. gr. Sannprófanir kerfa.

Kerfi skulu gangast undir EB-sannprófun, af hálfu þess sem veitir flugleiðsöguþjónustu, í samræmi við viðkomandi reglugerðir og reglur um rekstrarsamhæfi í því skyni að tryggja að þau uppfylli grunnkröfurnar í þessari reglugerð og reglugerðar um innleiðingu rekstrarsamhæfis þegar þau eru felld inn í evrópska netið fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar.

Áður en kerfi er tekið í notkun skal sá sem veitir flugleiðsöguþjónustu útbúa EB-yfirlýsingu um sannprófun, sem staðfestir samræmi og leggja fyrir Samgöngustofu ásamt tækniskjölum.

Í IV. viðauka rekstrarsamhæfisreglugerðarinnar eru talin upp einstök atriði þessarar yfirlýsingar og tækniskjalanna. Samgöngustofu er heimilt að krefjast viðbótarupplýsinga sem nauðsynlegar eru til að hafa eftirlit með slíku samræmi.

EB-yfirlýsingin um sannprófun skal vera með fyrirvara um hvers kyns mat sem nauðsynlegt kann að vera fyrir Samgöngustofu að framkvæma af öðrum ástæðum en rekstrarsamhæfi.

20. gr. Eftirlit með sannprófun á samræmi.

Ef Samgöngustofa kemst að raun um að:

  1. kerfishluti, sem fylgir EB-yfirlýsingu um samræmi eða nothæfi eða
  2. kerfi, sem fylgir EB-yfirlýsingu um sannprófun,

uppfyllir ekki grunnkröfurnar og/eða viðkomandi reglugerðir um innleiðingu rekstrarsamhæfis skal hún, að teknu tilliti til nauðsynjar þess að tryggja öryggi og samfellu í rekstri, grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að takmarka notkunarsvið kerfishlutarins eða kerfisins, sem um er að ræða, eða banna að aðilar, sem heyra undir eftirlit hennar, noti þau.

Samgöngustofa skal þegar í stað tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA allar slíkar ráðstafanir og greina frá ástæðum fyrir þeim í samræmi við 2. mgr. 7. gr. rekstrarsamhæfisreglugerðarinnar.

21. gr. Tilkynntir aðilar.

Tilkynna skal til Eftirlitsstofnunar EFTA þá aðila sem tilnefndir eru til að inna af hendi verkefni er lúta að mati á samræmi eða nothæfi og sannprófun skv. 5. og 6. gr. rekstrarsamhæfisreglugerðar og gefa upp verksvið hvers aðila og úthlutuðu kenninúmeri. Beita skal viðmiði sem kveðið er á um í V. viðauka rekstrarsamhæfisreglugerðarinnar við mat á aðilum. Tilkynna ber þá aðila sem standast framangreind viðmið. Heimilt er að tilkynna viðurkenndar stofnanir, sbr. 1. mgr. 5. gr. þessarar reglugerðar, sem aðila enda uppfylli þær viðmiðanir V. viðauka rekstrarsamhæfisreglugerðarinnar.

IV. KAFLI Niðurlagsákvæði.

22. gr. Málskotsréttur.

Ákvarðanir Samgöngustofu sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.

23. gr. Refsingar.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

24. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirtaldar reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 um setningu rammaákvæða um að koma á samevrópsku flugumferðarsvæði (rammareglugerðin), sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal II, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2006 sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal I;
  2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 550/2004 frá 10. mars 2004 um að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu á samevrópska flugumferðarsvæðinu (þjónustureglugerðin), sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal III, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2006 sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal I;
  3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 551/2004 frá 10. mars 2004 um skipulag og notkun loftrýmis á samevrópska flugumferðarsvæðinu (loftrýmisreglugerðin), sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal I, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2006 sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal I;
  4. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar (rekstrarsamhæfisreglugerðin) sem er meðfylgjandi og er merkt fylgiskjal V, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2006 sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal I;
  5. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1070/2009 frá 21. október 2009 um breytingu á reglugerðum (EB) nr. 549/2004, (EB) nr. 550/2004, (EB) nr. 551/2004 og (EB) nr. 552/2004 til að bæta frammistöðu og sjálfbærni evrópska flugkerfisins, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 228 frá 13. desember 2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 4 frá 23. janúar 2014, bls. 558;
  6. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 176/2011 frá 24. febrúar 2011 um upplýsingar sem á að leggja fram áður en starfrænu loftrýmisumdæmi er komið á fót eða því breytt, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2013 frá 3. maí 2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 28 frá 16. maí 2013, bls. 354;
  7. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1206/2011 frá 22. nóvember 2011 um kröfur um auðkenningu loftfars í tengslum við kögun í samevrópska loftrýminu, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2013 frá 3. maí 2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37 frá 27. júní 2013.

25. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 57. gr. a., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða. I.

Frá og með 20. október 2005 skulu grunnkröfurnar gilda um kerfi og kerfishluta evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar sem tekin eru í notkun, ef það er ekki tilgreint með öðrum hætti í viðkomandi reglugerðum um innleiðingu rekstrarsamhæfis.

Frá og með 20. apríl 2011 skulu kerfi og kerfishlutar evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar sem nú eru í notkun uppfylla grunnkröfurnar, ef það er ekki tilgreint með öðrum hætti í viðkomandi reglugerðum um rekstrarsamhæfi.

Ef kerfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar hafa verið pöntuð eða bindandi samningar þess efnis hafa verið undirritaðir:

- fyrir gildistökudag þessarar reglugerðar eða eftir því sem við á,
- fyrir gildistökudag einnar eða fleiri viðkomandi reglugerða um rekstrarsamhæfi,

þannig að ekki sé hægt að tryggja að grunnkröfurnar og/eða viðkomandi reglugerðir um rekstrarsamhæfi séu uppfylltar innan tímamarkanna, sem um getur í 1. mgr., skal Samgöngustofa veita Eftirlitsstofnun EFTA ítarlegar upplýsingar um grunnkröfurnar og/eða reglugerðirnar um innleiðingu rekstrarsamhæfis ef bent hefur verið á að óvissa ríki um hvort reglurnar hafi verið uppfylltar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.