Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

851/2017

Reglugerð um líf-, sjúkra- og slysatryggingar samkvæmt lögum nr. 73/2007 um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið og gildistími.

Friðargæsluliðar eru sérstaklega tryggðir samkvæmt reglugerð þessari til viðbótar kjarasamningsbundnum slysatryggingum meðan ráðningarsamningur við þá er í gildi. Skulu slíkar viðbótartryggingar eftir atvikum ná bæði til atvika sem verða í starfi og utan starfs á erlendri grundu. Gilda tryggingarnar allan sólarhringinn frá brottför til þess áfangastaðar sem friðargæsluverkefni er sinnt og heimleið frá áfangastað. Ljúki verkefni ekki með heimferð, að vali hins tryggða, fellur hin sérstaka slysatrygging skv. III. kafla niður við komuna til fyrsta viðkomustaðar á heimleið. Sama gildir fari hinn tryggði í leyfi á meðan á ráðningu stendur utan þess áfangastaðar þar sem hann er ráðinn til að sinna friðargæslu. Velji hinn tryggði að dvelja lengur á áfangastað að verkefni loknu, falla viðbótartryggingar samkvæmt reglugerð þessari úr gildi.

Tryggingar samkvæmt reglugerð þessari taka einnig til starfsmanna utanríkisráðuneytisins og sérfræðinga í skammtímaverkefnum sem ferðast til staða sem íslenska friðargæslan starfar á.

2. gr. Tryggingar við þjálfun.

Einstaklingar sem taka þátt í þjálfun hérlendis á vegum friðargæslunnar eru tryggðir á meðan á henni stendur samkvæmt reglum nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Fari þjálfun fram erlendis eru þeir tryggðir allan sólarhringinn samkvæmt reglum nr. 30/1990.

II. KAFLI Sjúkra- og slysatryggingar.

3. gr. Um sjúkratryggingu.

Um sjúkratryggingu fer samkvæmt lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og reglum nr. 281/2003, um endurgreiðslu kostnaðar vegna veikinda eða slysa erlendis.

4. gr. Um slysatryggingu.

Um slysatryggingu friðargæsluliða fer samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015, um slysatryggingar almannatrygginga.

Starfsmenn utanríkisráðuneytisins og sérfræðingar í skammtímaverkefnum sem ferðast til staða sem íslenska friðargæslan starfar á skulu tryggðir með sambærilegum hætti og fram kemur í 1. mgr. Sú trygging er eigin áhætta ríkissjóðs.

Trygging samkvæmt þessari grein tekur einnig til slysa af völdum ökutækis þegar lögboðin ökutækjatrygging er ekki fyrir hendi.

III. KAFLI Tryggingar vegna slysa er valda dauða eða varanlegri örorku.

5. gr. Almenn ákvæði.

Trygging þessi tekur til slysa er valda dauða eða varanlegri örorku og er eigin áhætta ríkissjóðs.

Sé sá sem er tryggður jafnframt í öðrum störfum hjá ríkinu gildir hvorki slysatrygging samkvæmt reglum nr. 31/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs, um þau störf né önnur sambærileg slysatrygging utan starfs sem ríkið kostar á meðan slysatrygging samkvæmt reglugerð þessari gildir um hinn tryggða.

Matar- eða drykkjareitrun sem leiðir til varanlegrar örorku eða dauða fellur undir bótaskyldu. Bætur greiðast því aðeins að slysið sé aðalorsök þess að sá sem tryggður er, deyr eða missir varanlega starfsorku sína að nokkru eða öllu leyti.

Um trygginguna gilda lög nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, þegar ekki er vikið frá þeim í reglugerð þessari.

6. gr. Aldurstakmörk og takmarkanir á bótaskyldu.

Um aldurstakmörk og takmarkanir á bótaskyldu gilda 6. og 7. gr. reglna nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, sbr. þó ákvæði 3. mgr. 5. gr. um að varanleg örorka eða dauði vegna matar- eða drykkjareitrunar falli undir bótaábyrgð.

7. gr. Ráðstafanir vegna slyss.

Tryggða ber að leita læknis strax eftir að slys hefur borið að höndum, gangast undir nauðsynlegar læknisaðgerðir og fara í öllu að fyrirmælum læknis.

Tilkynna skal slys eins fljótt og unnt er til utanríkisráðuneytisins. Þegar slys ber að höndum, er heimilt að láta trúnaðarlækni skoða þann sem tryggður er.

Þegar læknishjálp lýkur eða þegar unnt er að dæma um afleiðingar slyssins, skal senda læknisvottorð og bótakröfu til embættis ríkislögmanns. Endurgreidd skulu nauðsynleg læknisvottorð sem aflað er skv. reglum þessum.

Deyi sá sem tryggður er af slysförum, skal tilkynna það eins fljótt og auðið er.

8. gr. Bótafjárhæðir.

Sé um bótaskyldu að ræða skal miða við bótafjárhæðir vegna dánarbóta samkvæmt 9. gr. reglna nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi en bótafjárhæðir vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku samkvæmt 10. gr. sömu reglna skulu greiddar með 20% álagi.

Valdi slys dauða þess sem tryggður er innan þriggja ára frá slysdegi, greiðist sú tryggingarfjárhæð sem í gildi er í uppgjörsmánuði samkvæmt 2. mgr. 9. gr. reglna nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Bætur fyrir varanlega örorku sem kunna að hafa verið greiddar vegna sama slyss, skulu framreiknaðar með vísitölu neysluverðs til uppgjörsmánaðar og dragast þannig reiknaðar frá greiðslu.

Ákvæði 1. og 2. mgr. gildir ekki um útreikning bótafjárhæðar vegna friðargæsluliða sem taka þátt í þjálfun til undirbúnings starfa fyrir íslensku friðargæsluna, sbr. 2. gr.

9. gr. Vísitölubinding tryggingarfjárhæða.

Tryggingarfjárhæðir samkvæmt 8. gr. eru vísitölubundnar og taka breytingum í samræmi við 11. gr. reglna nr. 30/1990, um skilmála slysatyggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Vísitölubinding bóta varir þó aldrei lengur en í 3 ár frá slysdegi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið annast mánaðarlega útreikning tryggingarfjárhæðar og sendir utanríkisráðuneytinu og embætti ríkislögmanns.

IV. KAFLI Líftrygging.

10. gr. Um líftryggingu.

Friðargæsluliðar skulu vera tryggðir vegna andláts. Sama gildir um starfsmenn utanríkisráðuneytis og sérfræðinga í skammtímaverkefnum fyrir það tímabil þegar þeir ferðast til og dveljast á stöðum þar sem íslenska friðargæslan starfar.

Bætur vegna andláts hins tryggða skulu vera þær sömu og dánarbætur samkvæmt 9. gr. reglna nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi.

Trygging þessi er eigin áhætta ríkissjóðs og er ekki frádráttarbær vegna greiðslu bóta skv. III. kafla reglugerðar þessarar.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

11. gr. Bótauppgjör.

Embætti ríkislögmanns fjallar um bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 4. gr., III. og IV. kafla en ríkislögmaður annast uppgjör bóta í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Bætur greiðast eftir að læknisvottorð og nauðsynleg sönnunargögn fyrir bótaskyldu hafa borist og unnt er að ákvarða upphæð bótanna. Berist ekki athugasemdir við bótafjárhæðina innan eins mánaðar frá því að bótaþega var skýrt frá henni, telst hún samþykkt.

12. gr. Fyrning.

Kröfur vegna trygginga samkvæmt reglugerð þessari fyrnast á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs er tryggði fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, þó í síðasta lagi á 10 árum frá slysdegi.

13. gr. Skaðabótaábyrgð.

Verði ríkissjóður eða vinnuveitandi skaðabótaskyldir, skulu bætur sem greiddar hafa verið vegna tryggingar samkvæmt reglugerð þessari, koma að fullu til frádráttar skaðabótum er þeim kann að verða gert að greiða.

Eigi hinn tryggði rétt til bóta úr öðrum tryggingum, er þessir aðilar kosta eða lögboðnum tryggingum, skulu bætur vegna þeirra trygginga koma að fullu til frádráttar bótum vegna trygginga samkvæmt reglugerð þessari.

14. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 11. gr. laga nr. 73/2007, um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu, öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 19. september 2017.

Benedikt Jóhannesson.

Gunnar Björnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.