Fara beint í efnið

Prentað þann 29. apríl 2024

Stofnreglugerð

850/2023

Reglugerð um línuívilnun.

1. gr.

Frá og með upphafi viðkomandi fiskveiðiárs, má við línuveiðar dagróðrabáta með línu, sem beitt er í landi, landa 20% umfram þann afla í þorski, ýsu, steinbít, keilu, löngu og gullkarfa sem reiknast til aflamarks þeirra, í einstökum róðrum. Einnig er heimilt við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem stokkuð er upp í landi, að landa 15% umfram þann afla í þorski, ýsu, steinbít, keilu, löngu og gullkarfa sem reiknast til aflamarks þeirra, í einstökum róðrum. Heimild þessi er bundin eftirfarandi skilyrðum:

  1. Að línan sé beitt í landi og ekki séu önnur veiðarfæri eða hlutar þeirra um borð í bátnum.
  2. Að línan sé stokkuð upp í landi með þeirri aðferð sem lýst er í 2. gr. og ekki séu önnur veiðarfæri eða hlutar þeirra um borð í bátnum.
  3. Að bátur komi til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að haldið var til veiða.
  4. Að sjálfvirkt tilkynningakerfi bátsins sé virkt.
  5. Að útgerðaraðili tilkynni um fyrirhugaðar línuveiðar til Fiskistofu, skv. 4. gr.
  6. Að við skráningu afla í löndunarhöfn, í aflaupplýsingakerfið Gafl, komi fram, að veiðarfæri í tilteknum róðri hafi verið landbeitt lína eða lína stokkuð upp í landi samkvæmt upplýsingum útgerðaraðila.

2. gr.

Þegar lína er stokkuð upp í landi skal verkferill vera eftirfarandi:

  1. Lína fer eftir rörum í uppstokkara með burstum um borð í bátnum.
  2. Beita er þar þvegin af.
  3. Þeir krókar sem eru heilir og rata rétta leið raðast á stokk, en línan sjálf fer í kassa ásamt þeim krókum sem ekki eru í lagi.
  4. Sá hluti línunnar, þar sem taumar hafa slitnað af, fer beint í kassann.
  5. Kassar eru síðan hífðir í land í körum og á þann stað sem uppstokkun fer fram.
  6. Uppstokkun fer þannig fram að kassanum er komið fyrir í sérstakt sæti og stokkurinn festur við stærri rekka.
  7. Hver krókur fyrir sig er færður handvirkt inn á þann rekka.
  8. Krókar eru réttir eða bætt á línuna og greitt úr flækjum eða hnútum.
  9. Þegar stokkurinn er tómur er línan flutt aftur á stokkinn sem hún var á og hann lagður í kassa.

3. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skal hámark ráðstöfunar línuívilnunar miðað við það magn sem tilgreint er í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni sem gildir fyrir viðkomandi fiskveiðiár og almanaksár.

4. gr.

Útgerðaraðili skal tilkynna Fiskistofu fyrir fram um upphaf þess tíma sem línuveiðar skv. 1. gr. eru fyrirhugaðar. Fiskistofa ákveður nánar hvernig tilkynningunni skuli háttað. Tilkynningin gildir þar til útgerðaraðilinn tilkynnir um annað.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda 1. september 2023. Jafnframt fellur reglugerð nr. 974/2022, um línuívilnun úr gildi 1. september 2023.

Matvælaráðuneytinu, 14. ágúst 2023.

Svandís Svavarsdóttir.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.