Fjármála- og efnahagsráðuneyti

845/2014

Reglugerð um innkaup stofnana á sviði varnar- og öryggismála.

I. KAFLI

Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Tilgangur.

Reglugerð þessi felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála, og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB, eins og hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013 frá 14. júlí 2014 (hér eftir nefnd tilskipunin).

Viðaukar tilskipunarinnar eru birtir sem fylgiskjal við reglugerð þessa.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til samninga opinberra aðila á sviði öryggis- og varnamála, að því er varðar:

 1. afhendingu hergagna þ.m.t. hvers kyns varahluta, íhluta og búnaðar sem tengist þeim,
 2. afhendingu annars viðkvæms öryggis- og varnarbúnaðar þ.m.t. hvers kyns vara­hluta og íhluta sem tengist honum,
 3. verk, vöru og þjónustu sem tengjast þeim gögnum eða búnaði sem um getur í a- og b-lið allan líftíma þeirra,
 4. verkframkvæmd og þjónustu í sérstökum hernaðarlegum tilgangi eða viðkvæma verkframkvæmd eða viðkvæma þjónustu.

Reglugerðin tekur til þeirra opinberu aðila sem taldir eru upp í 3. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007.

Reglugerð þessi tekur ekki til þeirra samninga sem undanskildir eru samkvæmt 20.-22. gr. reglugerðarinnar og samkvæmt 6. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007.

3. gr.

Skilgreiningar.

Merking orða í reglugerð þessari skal vera í samræmi við orðskýringar í 2. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007. Að öðru leyti skal merking eftirfarandi orða vera sem hér segir:

Samningar: Skriflegir samningar fjárhagslegs eðlis, eins og um getur í a-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2004/17/EB og a-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2004/18/EB.

Hergögn: Gögn sem eru sérstaklega hönnuð eða breytt í hernaðarlegum tilgangi og ætluð til notkunar sem vopn, herbúnaður eða stríðstól og -tæki.

Viðkvæmur búnaður, viðkvæm verkframkvæmd og viðkvæm þjónusta: Búnaður, verk og þjónusta sem, af öryggisástæðum, felur í sér, þarfnast og/eða nær yfir trúnaðar­upplýsingar.

Trúnaðargögn: Allar upplýsingar eða efni, án tillits til forms, eðlis eða aðferðar við miðlun þeirra, sem hafa fengið tiltekna öryggisflokkun eða vernd og þarfnast verndar gegn óréttmætri nýtingu, eyðingu, fjarlægingu, birtingu, tapi eða óleyfilegum, ótryggum aðgangi einstaklinga vegna þjóðaröryggis og í samræmi við gildandi lög og reglur, sbr. einkum reglugerð um vernd trúnaðarupplýsinga, öryggisvottanir og öryggis­viðurkenn­ingar nr. 959/2012.

Stjórnvöld: Ríkið, svæðis- eða staðbundin stjórn aðildarríkis eða þriðja ríkis.

Hættuástand: Ástand í aðildarríki eða í öðru ríki þar sem tjónsatburður hefur átt sér stað sem er augljóslega meiri að umfangi en tjónsatburðir í daglegu lífi og sem stofnar lífi og heilsu íbúa verulega í hættu eða takmarkar lífsgæði þeirra, eða hefur veruleg áhrif á verðmæti eigna, eða kallar á aðgerðir til að veita íbúunum nauðsynjar; það skal einnig teljast vera hættuástand ef þess háttar tjónsatburður telst yfirvofandi; vopnuð átök og stríð telst hættuástand samkvæmt reglugerðinni.

Verktaki, birgir og þjónustuveitandi: Einstaklingur eða lögaðili, þar á meðal opinberir aðilar, eða hópur slíkra einstaklinga og/eða aðila sem bjóða fram á markaði framkvæmd verks, vöru og/eða þjónustu.

Fyrirtæki eða rekstraraðili: Samheiti, notað til einföldunar, yfir verktaka, seljanda vöru og veitanda þjónustu.

Undirverktakasamningur: Skriflegur samningur fjárhagslegs eðlis milli hlutskarpasta bjóðanda opinbers samnings og eins eða fleiri fyrirtækja í þeim tilgangi að inna þann samning af hendi og miðar að því að framkvæma verk, afhenda vöru eða veita þjónustu.

Tengt fyrirtæki: Fyrirtæki sem hlutskarpasti bjóðandi getur haft bein eða óbein yfirráð yfir eða fyrirtæki sem getur öðlast yfirráð yfir hlutskarpasta bjóðandanum eða sem er, ásamt honum undir yfirráðum annars fyrirtækis á grundvelli eignarhalds, hlutafjáreignar eða reglna sem gilda um fyrirtækið. Fyrirtæki telst hafa yfirráð yfir öðru fyrirtæki þegar það, beint eða óbeint:

 

-

á meirihluta skráðs hlutafjár í hlutaðeigandi fyrirtæki, eða

 

-

ræður yfir meirihluta atkvæða sem fylgja hlutafjáreign í fyrirtækinu, eða

 

-

hefur rétt til að skipa meira en helming fulltrúa í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækisins.

Líftími: Öll samfelld eða samtengd stig í tilveru vöru, þjónustu eða verkframkvæmdar frá öflun hrávöru eða framleiðslu á aðföngum til eyðingar, rýmingar eða loka þjónustu eða notkunar, þ.m.t. rannsóknir og þróun sem framkvæma þarf, framleiðslu, viðskipti og skilyrði þeirra, flutning, notkun og viðhald.

Rannsóknir og þróun: Öll starfsemi sem felur í sér undirstöðurannsóknir, hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf, þar sem það síðarnefnda getur falið í sér útvegun tæknilegra sýningareintaka, þ.e. búnaðar sem sýnir virkni nýs hugtaks eða nýrrar tækni í viðeigandi eða dæmigerðu umhverfi.

Borgaraleg innkaup: Samningar um innkaup á vörum, verkum eða þjónustu vegna viðhalds eða flutnings sem falla ekki undir 2. gr. og eru ekki ætluð til hernaðar, og gerðir í samræmi við skilyrðin sem sett eru fram í 4. mgr. 23. gr. reglugerðarinnar.

Tilskipunin: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um sam­ræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á til­teknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggis­mála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB.

4. gr.

Blandaðir samningar.

Samningur sem varðar verk, birgðir eða þjónustu, sem fellur innan gildissviðs 2009/81/EB og að hluta til innan gildissviðs tilskipunar 2004/17/EB eða tilskipunar 2004/18/EB, skal gerður í samræmi við reglugerð þessa, að því tilskildu að gerð staks samnings sé réttlætanleg af hlutlægum ástæðum.

Gerð samnings sem varðar verk, birgðir eða þjónustu, sem fellur að hluta innan gildis­sviðs tilskipunar 2009/81/EB, á meðan hinn hlutinn fellur hvorki undir tilskipunina né til­skipun 2004/17/EB eða tilskipun 2004/18/EB, skal ekki falla undir reglugerð þessa.

II. KAFLI

Almennar reglur.

5. gr.

Meginreglur um innkaup.

Gæta skal jafnræðis og gagnsæis við opinber innkaup á sviði varnar- og öryggismála. Óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.

Það telst ekki andstætt jafnræði að áskilja að vara sé afhent, þjónusta veitt eða verk unnið á tilteknum stað, enda byggist slíkur áskilnaður á málefnalegum ástæðum.

6. gr.

Fyrirtæki (rekstraraðili).

Óheimilt er að vísa frá þátttakanda eða bjóðanda með vísan til þess að innlendar reglur áskilji að veitandi þjónustu þurfi að vera annaðhvort einstaklingur eða lögaðili, enda sé þátttakandanum eða bjóðandanum heimilt að veita þá þjónustu sem til stendur að kaupa samkvæmt lögum staðfesturíkis síns. Þegar um er að ræða þjónustusamninga, eða verksamninga ásamt vörusamningum sem fela einnig í sér þjónustu og/eða eftirlit og uppsetningu, er heimilt að krefjast þess af lögaðila að hann tilgreini í tilboði eða þátt­töku­tilkynningu nöfn og starfsmenntun þeirra starfsmanna sem munu sjá um fram­kvæmd samningsins.

Fleiri fyrirtækjum er heimilt að standa að tilboði eða þátttökutilkynningu sameiginlega, enda teljast þau þá bera sameiginlega ábyrgð á efndum samnings. Óheimilt er kaupanda að krefjast þess að slíkur hópur fyrirtækja stofni til sérstaks lögákveðins rekstrarforms nema það sé nauðsynlegt fyrir fullnægjandi framkvæmd samnings. Kaupanda er þó heimilt að krefjast þess að eitt fyrirtæki komi fram fyrir hönd hinna við framkvæmd samnings og standi kaupanda öll skil.

7. gr.

Trúnaðarskylda.

Kaupanda er óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsingar. Til slíkra upplýsinga teljast einkum tækni- og viðskiptaleyndarmál auk þeirra atriða í tilboði sem leynt skulu fara.

Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef annað leiðir af fyrirmælum reglugerðar þessarar, sbr. einkum þau ákvæði sem kveða á um skyldu til að birta opinberlega tilkynningu um gerð samnings, sbr. 37. gr., og upplýsa þátttakendur og bjóðendur um tiltekin atriði, sbr. 42. gr., sem og skyldu til að veita kærunefnd útboðsmála upplýsingar, sbr. 63. gr.

Ákvæði 1. mgr. hefur ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga.

8. gr.

Vernd trúnaðarupplýsinga.

Kaupanda er heimilt að setja skyldur á fyrirtæki, sem miða að því að vernda trún­aðar­upplýsingar sem afhentar eru í útboðs- og samningsferli. Einnig er heimilt að krefjast þess að viðkomandi fyrirtæki sjái til þess að undirverktakar þeirra fari að þess háttar skyldum.

9. gr.

Samningar bundnir við ákveðna hópa.

Heimilt er að takmarka rétt til þátttöku í útboði við verndaða vinnustaði eða miða samn­ing við að framkvæmd hans fari fram samkvæmt áætlun um verndaða vinnustaði þar sem flestir starfsmenn eru fatlaðir þannig að þeir geta ekki sinnt starfi á venjulegum vinnu­markaði vegna starfsorkuskerðingar.

III. KAFLI

Viðmiðunarfjárhæðir, miðlægar innkaupastofnanir og undanþáguákvæði.

10. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir fyrir samninga.

Viðmiðunarfjárhæðir vegna skyldu til útboðs, jafnt innanlands sem og á Evrópska efna­hags­svæðinu, skulu vera sem hér segir:

66.278.416 kr. þegar um er að ræða vöru- og þjónustusamninga,
828.480.200 kr. þegar um er að ræða verksamninga.

Samkvæmt reglugerð þessari skal bjóða út öll innkaup sem eru yfir viðmiðunar­fjárhæðum, samkvæmt 1. mgr., í samræmi við þau innkaupaferli sem nánar er kveðið á um í VI. kafla.

Við innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum skal kaupandi ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Slíkur samanburður skal jafnan gerður bréflega eða með rafrænni aðferð. Við þessi innkaup skal virða jafnræðisreglu 5. gr. svo og ákvæði 25. gr. um tækniforskriftir.

11. gr.

Útreikningur virðis samninga og rammasamninga.

Við útreikning á áætluðu virði samnings skal miða við þá heildarfjárhæð sem kaupandi kemur til með að greiða fyrir innkaup, að frátöldum virðisaukaskatti. Við þennan útreikn­ing skal taka tillit til heildarfjárhæðar, þar á meðal hvers konar valfrjálsra ákvæða og hugsanlegrar endurnýjunar samnings.

Ef kaupandi gerir ráð fyrir því að inna af hendi viðbótargreiðslu (bónus) eða greiða þátt­takendum eða bjóðendum aukalega skal taka tillit til þess við útreikning á áætluðu virði samnings.

Útreikningur skal miðast við þann tíma þegar tilkynning er send til opinberrar birtingar eða þegar kaupandi hefst handa við innkaupaferli við þær aðstæður að ekki er skylt að tilkynna opinberlega um innkaup.

Óheimilt er að skipta upp verki eða innkaupum á vöru og/eða þjónustu í því skyni að innkaup verði undir viðmiðunarfjárhæðum.

12. gr.

Útreikningur virðis verksamninga.

Við útreikning á áætluðu virði verksamnings skal miða við kostnað við verkið auk verð­mætis aðfanga sem kaupandi lætur bjóðanda í té við verkið.

13. gr.

Útreikningur virðis vörusamninga.

Við útreikning á áætluðu virði vörusamnings skal telja kostnað vegna flutnings vöru með í vöruverði. Ef vara er keypt "frí á skipsfjöl" (fob) í erlendri höfn skal þó ekki telja flutn­ing með í vöruverði.

Þegar um er að ræða samninga um fjármögnunarleigu, leigu eða kaupleigu á vörum skal reikna virði með eftirfarandi hætti:

 1. Þegar samningur er tímabundinn til 12 mánaða eða skemur skal miða við heildar­samningsfjárhæð. Þegar samningur er bundinn til lengri tíma skal miðað við heildar­fjárhæð auk virðis varanna við lok samningstímans.
 2. Þegar samningur er ótímabundinn eða óvíst er hver samningstíminn verður skal miða við heildargreiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði.

14. gr.

Útreikningur virðis þjónustusamninga.

Þegar um er að ræða tryggingarþjónustu skal miða virði samnings við fjárhæð iðgjalda og aðra þóknun sem greidd er. Þegar um er að ræða banka- og fjármálaþjónustu skal miða við fjárhæð gjalda, umboðslauna og vaxta auk annarrar þóknunar. Þegar um er að ræða samninga um hönnun skal miðað við fjárhæð gjalda, umboðslauna og aðra þóknun sem greidd er.

Þegar um er að ræða samninga þar sem heildarfjárhæð er ótilgreind skal reikna virði út með eftirfarandi hætti:

 1. Þegar samningur er gerður til 48 mánaða eða skemmri tíma skal miða við áætlaða samningsfjárhæð allan gildistíma samningsins.
 2. Þegar samningur er ótímabundinn eða óvíst er hver samningstíminn verður skal miða við heildargreiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði.

15. gr.

Innkaup sem skipt er upp.

Þar sem innkaupum á verki eða þjónustu er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga, sem gerðir eru samtímis, skal miða við samanlagt virði allra samninganna. Sama á við þegar innkaupum á vöru af sömu tegund er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga sem gerðir eru samtímis. Sé samanlagt virði allra samninganna yfir viðmiðunarfjárhæðum skal líta svo á að verðgildi hvers og eins samnings sé einnig yfir viðmiðunarmörkum.

Þegar heildarvirði samninga sem greinir í 1. mgr. er yfir viðmiðunarfjárhæðum er þrátt fyrir ákvæði málsgreinarinnar heimilt að gera einstaka samninga án útboðs fyrir allt að 20% af samanlagðri heildarfjárhæð samnings.

16. gr.

Útreikningur virðis viðvarandi eða endurnýjanlegra vöru- og þjónustusamninga.

Þegar um er að ræða viðvarandi samninga eða samninga sem endurnýja á innan tiltekins tíma skal reikna áætlað virði út með eftirfarandi hætti:

 1. Annaðhvort með hliðsjón af heildarfjárhæð áþekkra samninga á undangengnu fjárhagsári eða síðustu 12 mánuðum að teknu tilliti til breytinga á magni og verði fyrir næstkomandi 12 mánuði.
 2. Eða með hliðsjón af áætluðum kostnaði fyrir næstu 12 mánuði, eða lengra tímabil ef því er að skipta, frá því að vara eða þjónusta er fyrst innt af hendi.

Óheimilt er að nota sérstakar aðferðir við útreikning í því skyni að komast hjá útboðs­skyldu.

17. gr.

Áætlun virðis rammasamninga.

Þegar um er að ræða rammasamning skal miða virði við heildarfjárhæð allra samninga, án virðisaukaskatts, sem gert er ráð fyrir að gera á gildistíma rammasamnings.

18. gr.

Ríkiskaup.

Á vegum ríkisins er rekin miðlæg innkaupastofnun, Ríkiskaup, sbr. 85. gr. laga um opinber innkaup. Stofnunin annast innkaup fyrir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, rannsakar sameiginlegar þarfir á vörum og þjónustu og beitir sér fyrir samræmdum innkaupum til þarfa ríkisins. Stofnunin lætur í té aðstoð og leiðbeiningar um útboð og innkaup eftir því sem þörf krefur.

Komi upp ágreiningur um ákvörðun við val á tilboðum milli Ríkiskaupa sem umsjónar­aðila útboðs og kaupanda er heimilt að vísa ágreiningnum til fjármála- og efnahags­ráðuneytisins.

Ríkiskaup gera rammasamninga fyrir hönd ríkisins og annast útboð og önnur inn­kaupa­ferli sem fram fara á vegum ríkisstofnana vegna innkaupa sem eru yfir viðmið­unar­fjárhæðum skv. 10. gr. reglugerðar þessarar. Fjármála- og efnahags­ráðuneytið getur þó heimilað einstökum ríkisstofnunum að annast eigin innkaup yfir viðmið­unar­fjárhæðum.

19. gr.

Beiting undanþága.

Ekki má beita eftirfarandi undanþáguheimildum, í 20.-22. gr., í þeim eina tilgangi að sniðganga ákvæði reglugerðar þessarar.

20. gr.

Leynilegir samningar og samningar sem krefjast sérstakra öryggisráðstafana.

Reglugerðin tekur ekki til samninga sem lýstir eru leynilegir eða ef sérstökum öryggis­ráðstöfunum verður að beita við framkvæmd þeirra í samræmi við gildandi lög og stjórn­valds­fyrirmæli eða ef grundvallarhagsmunir ríkisins krefjast þess.

21. gr.

Samningar sem gerðir eru á grundvelli milliríkjasamninga.

Reglugerðin tekur ekki til samninga sem lúta öðrum reglum um opinber innkaup og gerðir eru á grundvelli milliríkjasamnings íslenska ríkisins við eitt eða fleiri ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, um kaup á vörum, verkum eða þjónustu.

Reglugerðin tekur ekki til samninga á grundvelli milliríkjasamnings um setu herliðs þegar í hlut eiga fyrirtæki með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í öðrum ríkjum.

Reglugerðin tekur ekki til samninga sem gerðir eru samkvæmt sérstökum reglum alþjóð­legra stofnana um innkaup þ.m.t. Atlantshafsbandalagsins sem annast sameiginleg innkaup fyrir aðildarþjóðir sem fjármögnuð eru úr sjóðum bandalagsins og/eða með fram­lögum þjóðanna sjálfra.

22. gr.

Sérstakar undanþágur.

Reglugerð þessi gildir ekki um eftirtalið:

 1. Samninga sem lýstir eru leynilegir eða ef sérstökum öryggisráðstöfunum verður að beita við framkvæmd þeirra í samræmi við gildandi lög og stjórnvaldsfyrirmæli eða ef grundvallarhagsmunir ríkisins krefjast þess.
 2. Samninga sem varða öflun trúnaðargagna.
 3. Samninga sem gerðir eru innan ramma samvinnuáætlunar á grundvelli rannsókna og þróunar, gerðir af í það minnsta tveimur aðildarríkjum, í þeim tilgangi að þróa nýja vöru og, eftir atvikum, síðari stig á hluta af eða öllum lífsferli viðkomandi vöru. Við gerð þess háttar samvinnuáætlunar einungis á milli aðildarríkja, skulu aðildarríki upplýsa framkvæmdastjórnina um hlut rannsóknar- og þróunar­kostn­aðar af heildarkostnaði áætlunarinnar, samkomulag um kostnaðar­skiptingu auk fyrirhugaðs hluta hvers aðildarríkis í kaupum, ef einhver er.
 4. Samninga sem gerðir eru í öðru landi, þ.m.t. vegna borgaralegra innkaupa, sem eru framkvæmdir þegar herafli er staðsettur utan yfirráðasvæðis Evrópu­sambands­ins, þar sem rekstrarþarfir valda því að samningar eru gerðir við rekstrar­aðila sem staðsettir eru á rekstrarsvæðinu.
 5. Þjónustusamninga vegna kaupa eða leigu, gegn hvers konar fjárhagslegu endur­gjaldi, á jörð, byggingum sem þegar hafa verið reistar eða öðrum fast­eignum eða réttindum yfir þeim.
 6. Samninga sem gerðir eru af ríkisstjórn við aðra ríkisstjórn að því er varðar:
  1. afhendingu hergagna eða viðkvæms búnaðar,
  2. verk eða þjónustu sem tengist beint þess háttar búnaði, eða
  3. verk og þjónustu í sérstökum hernaðarlegum tilgangi eða viðkvæm verk og viðkvæma þjónustu.
 7. Gerðardóma og sáttameðferðir.
 8. Fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða aðilaskipti að verðbréfum eða öðrum sambærilegum gögnum og þjónustu seðlabanka.
 9. Vinnusamninga.
 10. Rannsókn og þróun á þjónustu, að frátöldum samningum þar sem kaupendur bera allan kostnað af þjónustunni og hafa einkarétt á að njóta góðs af árangrinum í starfsemi sinni.
 11. Samninga sem gerðir eru af Atlantshafsbandalaginu eða öðrum stofnunum banda­lagsins.

IV. KAFLI

Reglur um þjónustusamninga.

23. gr.

Þjónustusamningar sem eru skráðir í I. og II. viðauka.

Til þjónustusamninga teljast samningar sem ekki eru verk- eða vörusamningar og hafa að markmiði veitingu þjónustu sem tilgreind er í I. og II. viðauka tilskipunarinnar.

Þjónustusamningar þar sem markmiðið er að veita þjónustu, sem fellur undir gildissvið reglugerðar þessarar og eru skráðar í I. viðauka tilskipunarinnar skulu gerðir í samræmi við 24.-62. gr.

Þjónustusamningar þar sem markmiðið er að veita þjónustu, sem fellur undir gildissvið reglugerðar þessarar og tilgreind er í II. viðauka tilskipunarinnar, skulu einungis heyra undir 25. gr. og 37. gr.

Samningar, sem varða bæði þjónustu sem fellur undir gildissvið reglugerðar þessarar og er tilgreind í I. og II. viðauka tilskipunarinnar, skulu gerðir í samræmi við 24.-62. gr. þegar verðmæti þjónustunnar, sem tilgreind er í I. viðauka tilskipunarinnar, er meira en verðmæti þjónustunnar sem tilgreind er í II. viðauka tilskipunarinnar. Í öðrum tilvikum skulu samningar gerðir skv. 25. gr. og 37. gr.

V. KAFLI

Reglur um útboðsgögn.

24. gr.

Almennir skilmálar.

Útboðsgögn skulu innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til að bjóðanda sé unnt að gera tilboð, sbr. 38. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007.

Tilboðsblað skal vera hluti útboðsgagna og skal það vera þannig úr garði gert að tilboð séu sett fram á sama hátt og þannig samanburðarhæf.

25. gr.

Tækniforskriftir.

Tækniforskriftir eins og þær eru nánar skilgreindar í 1. lið III. viðauka tilskipunarinnar skulu koma fram í útboðsgögnum, svo sem útboðsauglýsingu, útboðsskilmálum eða fylgi­gögnum með þeim.

Tækniforskriftir skulu veita bjóðendum jöfn tækifæri. Þær mega ekki leiða til ómál­efna­legra hindrana á samkeppni við opinber innkaup.

Að svo miklu leyti sem annað kemur ekki fram í óundanþægum innlendum reglum, sem eru í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, skal kveða á um tækniforskriftir á einhvern eftirgreindan hátt:

 1. Með tækniforskrift eins og það hugtak er skilgreint í III. viðauka tilskipunarinnar ásamt tilvísun til einhvers af eftirfarandi í þeirri forgangsröð sem hér greinir:
  1. innlendra staðla sem fela í sér innleiðingu á evrópskum stöðlum,
  2. evrópsks tæknisamþykkis,
  3. sameiginlegra tækniforskrifta,
  4. alþjóðlegra staðla,
  5. annarra tæknilegra tilvísunarkerfa sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót.
  6. tækniforskrifta sem almennt eru viðurkenndar í iðnaði.
  7. innlendra varnarmálastaðla sem skilgreindir eru í 3. lið III. viðauka til­skipunarinnar og forskrifta varnarbúnaðar sem eru sambærilegar þeim stöðlum.
 2. Ef framangreind gögn eru ekki fyrir hendi er heimilt að vísa til íslenskra staðla, íslensks tæknisamþykkis eða íslenskra tækniforskrifta sem tengjast hönnun, útreikningi og framkvæmd verks og notkun vöru. Hverri tilvísun skal fylgja orðalagið "eða jafngildur" eða sambærilegt orðalag.
 3. Með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar, þar á meðal kröfum til eiginleika sem tengjast umhverfinu. Slík viðmið verða þó að vera nægilega nákvæm til að gera bjóðendum kleift að gera sér grein fyrir efni samnings og gera kaupanda mögulegt að gera upp á milli tilboða.
 4. Með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar, sbr. b-lið, þó þannig að tækni­forskriftir sem fjallað er um í a-lið séu notaðar til að kanna hvort kröfum um þessi atriði sé fullnægt.
 5. Með því að vísa til forskrifta, sbr. a-lið, um suma eiginleika og með því að vísa til frammistöðu eða krafna til hagnýtingar, sbr. b-lið, um aðra.

Ef kaupandi nýtir heimild í a-lið 3. mgr. getur hann ekki vísað frá tilboði á þeim grundvelli að vara eða þjónusta sem boðin er fram sé í ósamræmi við tækniforskriftir, enda sýni bjóðandi fram á, með einhverjum viðeigandi hætti, að lausnir hans fullnægi með sambærilegum hætti þeim kröfum sem leitast er við að fullnægja með hlutaðeigandi tækniforskriftum. Sönnun með viðeigandi hætti í framangreindum skilningi gæti falist í tæknilegri lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.

Ef kaupandi nýtir sér heimild í 3. mgr. til að slá föstum tækniforskriftum með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar getur hann ekki vísað frá tilboði í verk eða þjónustu sem er í samræmi við innlenda staðla sem innleiða evrópska staðla eða í samræmi við evrópskt tæknisamþykki, sameiginlegar tækniforskriftir, alþjóðlegan staðal eða önnur tæknileg tilvísunarkerfi sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót, enda fjalli þessar forskriftir um þá virkni eða kröfur um hagnýtingu sem kaupandi hefur slegið fastri. Í tilboði sínu verður bjóðandi að sýna fram á það með viðeigandi hætti, þannig að kaupandi telji það fullnægjandi, að verk, vara eða þjónusta sem er í samræmi við staðal fullnægi kröfum kaupanda um frammistöðu og hagnýtingu. Sönnun með viðeigandi hætti í framangreindum skilningi gæti falist í tæknilegri lýsingu framleiðanda eða próf­unar­skýrslu frá viðurkenndri stofnun.

Ef kaupandi gerir kröfu um eiginleika sem tengjast umhverfinu með tilliti til virkni eða krafna til hagnýtingar, sbr. b-lið 3. mgr., getur hann notast við sérstakar tækniforskriftir, eða hluta slíkra forskrifta, sem skilgreindar eru með evrópskum, alþjóðlegum eða inn­lendum umhverfismerkjum eða öðrum umhverfismerkingum, enda sé eftirfarandi skil­yrðum fullnægt:

 1. Að þessar forskriftir séu til þess fallnar að skilgreina eiginleika vöru eða þjónustu sem er efni samnings.
 2. Að þær kröfur sem liggja til grundvallar umhverfismerki byggist á vísindalegum upplýsingum.
 3. Að umhverfismerking sé veitt á grundvelli málsmeðferðar sem allir sem eiga hagsmuna að gæta, svo sem ríkisstofnanir, neytendur, framleiðendur, dreifendur og umhverfissamtök, geta tekið þátt í.
 4. Að umhverfismerking sé aðgengileg öllum hlutaðeigandi aðilum.

Kaupandi getur kveðið svo á að gert sé ráð fyrir að vara og þjónusta sem hefur umhverfismerkingu fullnægi tækniforskrift sem fram kemur í útboðsskilmálum. Kaupandi verður þó einnig að taka til greina aðra sönnun um að þessum kröfum sé fullnægt, svo sem tæknilega lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.

Með viðurkenndum stofnunum í skilningi þessarar greinar er átt við rannsóknar- og kvörðunarstofur og vottunar- og eftirlitsstofnanir sem fullnægja þeim evrópsku stöðlum sem við eiga. Kaupandi skal taka til greina vottorð frá viðurkenndri stofnun í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Tækniforskriftir skulu ekki vísa til sérstakrar gerðar, framleiðanda, sérstakrar vinnslu, vörumerkja, einkaleyfa, tegundar, uppruna eða framleiðslu með þeim afleiðingum að hlutur ákveðinna fyrirtækja er gerður betri en annarra eða ákveðin fyrirtæki eru útilokuð frá þátttöku í opinberum innkaupum, enda helgist slík tilvísun ekki beinlínis af efni samn­ings. Í undantekningartilvikum er tilvísun sem þessi heimil þegar lýsing á efni samn­ings er ekki möguleg skv. 3. og 4. mgr., enda fylgi slíkri tilvísun orðalagið "eða jafn­gildur" eða sambærilegt orðalag.

26. gr.

Frávikstilboð.

Ef kaupandi hyggst meta tilboð á grundvelli fjárhagslegrar hagkvæmni, en ekki eingöngu verðs, er kaupanda heimilt að leyfa bjóðendum að gera frávikstilboð.

Kaupandi skal taka fram í útboðsauglýsingu hvort frávikstilboð eru heimil. Að öðrum kosti eru frávikstilboð óheimil.

Aðeins frávikstilboð sem fullnægja lágmarkskröfum kaupanda samkvæmt útboðsgögnum er heimilt að taka til umfjöllunar.

Þegar um er að ræða vöru og þjónustukaup er kaupanda sem hefur leyft frávikstilboð óheimilt að hafna frávikstilboði á þeirri forsendu einni að samningur, ef hann yrði gerður, yrði þjónustusamningur í stað vörusamnings eða vörusamningur í stað þjónustu­samnings.

27. gr.

Skilyrði sem tengjast framkvæmd samnings.

Kaupanda er heimilt að kveða á um sérstök skilyrði, einkum sem miða að því að tryggja öryggi trúnaðarupplýsinga og afhendingaröryggi, eða sem varða félagsleg og umhverfisleg atriði, sem tengjast framkvæmd samnings, enda séu þessi skilyrði í sam­ræmi við reglur EES-samningsins og hafi verið tilgreind í útboðsauglýsingu eða útboðs­skilmálum.

28. gr.

Undirverktakastarfsemi.

Hlutskarpasta bjóðandanum skal frjálst að velja þá undirverktaka sem hann gerir undirverktakasamning við, sem ekki fellur undir þau skilyrði sem um getur í 3. og 4. mgr. Óheimilt er að skylda bjóðanda til að mismuna hugsanlegum undirverktökum á grundvelli þjóðernis.

Kaupandi getur farið fram á að bjóðandi tilgreini í tilboði sínu þá hlutdeild samningsins sem fyrirhugað er að fela þriðja aðila í undirverktöku og fyrirhugaðan undirverktaka, auk inntaks samninga við undirverktaka. Kaupandi getur jafnframt farið fram á að bjóðandi tilgreini um allar breytingar á vettvangi undirverktaka á framkvæmdatíma samnings.

Kaupandi getur krafist þess að hlutskarpasti bjóðandinn beiti ákvæðum sem sett eru fram í VIII. kafla gagnvart öllum eða tilteknum undirverktakasamningum sem bjóðandi fyrirhugar að gera við þriðja aðila.

Kaupandi getur krafist þess að hlutskarpasti bjóðandinn veiti undirverktaka hluta samn­ings. Kaupandi sem gerir þess háttar undirverktakasamninga, skal gefa lágmarks­hlutfall upp sem verðmætabil, sem nær yfir lágmarks- og hámarks­hlutfall. Hámarks­hlutfall má ekki vera hærra en 30% af verðmæti samnings. Þess háttar bil skal vera í réttu hlutfalli við markmið og verðmæti samnings og það hvers eðlis viðkomandi atvinnugrein er, þ.m.t. samkeppnisstig á þeim markaði og viðeigandi tæknilega getu iðnaðar. Það hlutfall undirverktakastarfsemi sem fellur innan verðmætabils sem kaupandi gefur upp, telst uppfylla skilyrði sem sett eru fram um undirverktöku í þessari málsgrein. Bjóðendur geta lagt til að fela undirverktaka hluta af því verðmæti samnings sem er umfram það bil sem kaupandi krefst. Kaupandi skal biðja bjóðendur að tilgreina í tilboði hvaða hlut eða hluta tilboðs fyrirhugað er að fela undirverktaka til að uppfylla skilyrðin sem um getur í fyrstu undirgrein. Kaupandi getur farið fram á að bjóðandi tilgreini einnig hvaða hlut eða hluta tilboðs þeirra, umfram lágmarkshlutfall sem krafist er, þeir fyrirhuga að fela undirverktaka, auk þeirra undirverktaka sem þeir hafa þegar tilgreint. Hlutskarpasti bjóðandinn skal gera undirverktakasamninga í samræmi við það hlutfall sem kaupandi setur skilyrði um að sé falið undirverktökum í samræmi við ákvæði VIII. kafla.

Kaupandi getur aðeins hafnað þeim undirverktökum sem valdir eru af bjóðanda, í útboðsferlinu við gerð meginsamningsins, eða af hlutskarpasta bjóðandanum við fram­kvæmd samnings, ef sú höfnun byggist á grundvelli viðmiðana sem beitt er við val á bjóð­endum í meginsamningi. Kaupandi skal leggja fram skrifleg rök fyrir höfnun á undir­verktaka.

Skilyrðin sem um getur í 2.-5. mgr. skulu tilgreind í útboðsauglýsingu.

Ákvæði 1.-5. mgr. skulu ekki hafa áhrif á ábyrgð rekstraraðilans sem er aðalverktaki.

29. gr.

Öryggi upplýsinga.

Ef samningar krefjast eða fela í sér trúnaðarupplýsingar skal kaupandi tilgreina í útboðs­gögnum eða öðrum fylgigögnum nauðsynlegar ráðstafanir og skilyrði til að tryggja öryggi þess háttar upplýsinga á tilskildu stigi.

Í þessu skyni getur kaupandi krafist þess að tilboð feli m.a. í sér eftirfarandi atriði:

 1. Skuldbindingu bjóðenda og undirverktaka, sem þegar eru tilgreindir, um að tryggja með viðeigandi hætti trúnaðarkvöð allra trúnaðarupplýsinga sem þeir búa yfir eða koma til með að búa yfir á samningstímanum og eftir riftun eða gerð samningsins, í samræmi við gildandi lög og reglur.
 2. Skuldbindingu bjóðanda um að fá skuldbindinguna, sem kveðið er á um í a-lið, frá öðrum undirverktökum sem hann mun semja við á samningstímanum.
 3. Fullnægjandi upplýsingar um undirverktaka sem þegar eru tilgreindir, í því skyni að kaupandi geti ákvarðað hvort undirverktaki búi yfir þeirri getu sem krafist er til að vernda með viðeigandi hætti trúnaðarupplýsingar sem þeir hafa aðgang að eða sem þeim er skylt að framleiða við framkvæmd undirverktakastarfsemi sinnar.
 4. Skuldbindingu bjóðanda um að veita þær upplýsingar, sem krafist er samkvæmt c-lið, um alla nýja undirverktaka áður en undirverktakasamningur er gerður.

Öryggisvottanir og öryggisviðurkenningar skulu vera útgefin í samræmi við IV. kafla reglugerðar um vernd trúnaðarupplýsinga, öryggisvottanir og öryggisviðurkenningar nr. 959/2012. Þó skal viðurkenna öryggisvottanir og öryggisviðurkenningar sem teljast jafngildar þeim sem gefnar eru út í samræmi við áðurnefnda reglugerð.

30. gr.

Afhendingaröryggi.

Kaupandi skal tilgreina skilyrði um afhendingaröryggi í útboðsgögnum eða öðrum fylgi­gögnum.

Í þessu skyni getur kaupandi krafist þess að tilboð feli m.a. í sér eftirfarandi atriði:

 1. Vottun eða skjalfestingu sem sýnir með fullnægjandi hætti fram á að bjóðandi geti uppfyllt skyldur sínar varðandi útflutning, flutning og umflutning vara sem tengjast samningnum, þ.m.t. öll fylgiskjöl frá hlutaðeigandi ríkjum.
 2. Upplýsingar um allar takmarkanir sem kaupandi gerir varðandi birtingu upp­lýsinga, flutning eða notkun vara og þjónustu eða allar afleiðingar af notkun við­kom­andi vara og þjónustu, sem myndi leiða af útflutningseftirliti eða öryggis­fyrirkomulagi.
 3. Vottun eða skjalfestingu sem sýnir að stofnun eða fyrirtæki og staðsetning aðfangakeðju bjóðanda geri honum kleift að uppfylla kröfur kaupanda varðandi afhendingaröryggi, sem sett eru fram í útboðsgögnunum, og skuldbindingu um að tryggja að mögulegar breytingar á aðfangakeðju á samningstímanum komi ekki í veg fyrir að hann geti uppfyllt þessi skilyrði.
 4. Skuldbindingu bjóðanda um að koma á og/eða viðhalda getu sem krafist er til að uppfylla viðbótarþarfir sem krafist er af kaupanda vegna neyðarástands, í samræmi við samþykkta skilmála og skuldbindingar.
 5. Öll fylgiskjöl sem fengin eru frá innlendum yfirvöldum bjóðanda að því er varðar uppfyllingu viðbótarþarfa sem krafist er af kaupanda vegna neyðarástands.
 6. Skuldbindingu bjóðanda að annast viðhald, nútímavæðingu eða aðlögun birgða sem falla undir samninginn.
 7. Skuldbindingu bjóðanda að upplýsa kaupanda tímanlega um allar breytingar á skipulagi, aðfangakeðju eða áætlanagerð sem getur haft áhrif á skuldbindingu hans gagnvart viðkomandi kaupanda.
 8. Skuldbindingu bjóðanda um að veita kaupanda, í samræmi við skilmála og skilyrði sem samningsaðilarnir skulu samþykkja, allar tiltækar aðferðir sem nauðsynlegar eru við framleiðslu aukahluta, íhluta, samsetninga og sérhæfðs prófunarbúnaðar, þ.m.t. tækniteikningar, leyfi og notkunarleiðbeiningar, ef ekki er lengur hægt að útvega þessar birgðir.

Óheimilt er að krefjast þess að bjóðandi útvegi skuldbindingu frá aðildarríki sem hefur áhrif á frelsi viðkomandi ríkis til beita eigin reglum og viðmiðunum um flutningsleyfi.

31. gr.

Skyldur sem tengjast sköttum, umhverfisvernd, réttindum launþega og vinnuvernd.

Kaupanda er heimilt að upplýsa í útboðsskilmálum hjá hvaða stofnun eða stofnunum þátttakendur eða bjóðendur geta aflað sér upplýsinga um skyldur sínar varðandi skatta, umhverfisvernd, réttindi launþega og vinnuvernd og önnur skilyrði fyrir starfsemi á Íslandi eða því sveitarfélagi þar sem verk á að vinnast eða þjónustu á að inna af hendi á samningstímanum.

Kaupandi sem veitt hefur þær upplýsingar sem greinir í 1. mgr. skal óska eftir því við þátttakendur eða bjóðendur að þeir taki fram að þeir hafi tekið tillit til skyldna sinna varðandi réttindi launþega, vinnuvernd og önnur skilyrði fyrir starfsemi á Íslandi eða því sveitarfélagi þar sem verk á að vinnast eða þjónustu á að inna af hendi þegar þeir gerðu tilboð sitt.

Ákvæði 1. mgr. er ekki því til fyrirstöðu að beitt sé ákvæðum 57. gr. um óeðlilega lág tilboð.

VI. KAFLI

Innkaupaferli.

32. gr.

Meginreglan um lokað útboð eða samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu.

Innkaup sem eru yfir viðmiðunarfjárhæðum reglugerðar þessarar skulu gerð á grundvelli lokaðs útboðs eða samningskaupa að undangenginni opinberri birtingar útboðs­auglýsingar.

Innkaup á grundvelli samkeppnisviðræðna eru aðeins heimil skv. þeim skilyrðum sem fram koma í 34. gr.

Við sérstakar aðstæður skv. 35. gr. geta innkaup farið fram með samningskaupum án undangenginnar útboðsauglýsingar.

33. gr.

Samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu.

Við samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu skal kaupandi ræða við þátt­takendur um þau tilboð sem þeir hafa lagt fram með það fyrir augum að laga þau að þeim kröfum sem gerðar eru í tilkynningu, tækniforskriftum og öðrum útboðsgögnum, ef um þau er að ræða, og velja hagkvæmasta tilboð í samræmi við ákvæði 55. gr.

Meðan á viðræðum stendur skal kaupandi tryggja að jafnræðis sé gætt milli þátttakenda, sérstaklega að þátttakendum sé ekki mismunað með því að veita upplýsingar sem gera stöðu ákveðinna þátttakenda betri en annarra.

Kaupandi getur ákveðið að samningskaupaferlið muni fara fram í fleiri áföngum til þess að fækka þátttakendum. Slík fækkun skal grundvallast á forsendum fyrir vali tilboðs sem settar hafa verið fram í útboðsauglýsingu eða útboðsskilmálum. Taka skal fram í útboðs­auglýsingu eða útboðsskilmálum að þessi háttur kunni að vera hafður á.

34. gr.

Samkeppnisviðræður.

Þegar um er að ræða sérlega flókna samninga og kaupandi telur að notkun lokaðs útboðs eða samningskaupa að undangenginni útboðsauglýsingu sé því til fyrirstöðu að unnt sé að gera samning er heimilt að beita ákvæðum þessarar greinar. Um "sérlega flókinn samning" í skilningi þessarar greinar er að ræða þegar ekki er mögulegt með hlutlægum hætti að skilgreina þau tæknilegu atriði sem fullnægt geta þörfum eða markmiðum kaupanda, sbr. 25. gr., og/eða kaupandi getur ekki skilgreint lagalega eða fjárhagslega gerð framkvæmdar. Ákvörðun um gerð samnings skal eingöngu tekin á grundvelli forsendna fyrir vali fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs.

Kaupandi skal birta opinberlega útboðsauglýsingu þar sem fram koma þarfir og kröfur kaupanda, en þessi atriði skal skilgreina nánar í auglýsingunni sjálfri og/eða skýringar­gögnum.

Kaupandi hefur viðræður við þátttakendur, sem valdir hafa verið til þátttöku í samræmi við ákvæði 43.-52. gr., með það fyrir augum að slá föstu með hvaða hætti þörfum hans verður best fullnægt. Í þessum viðræðum er heimilt að ræða öll atriði væntanlegs samnings við útvalda þátttakendur.

Meðan á viðræðum stendur skal kaupandi tryggja að jafnræðis sé gætt meðal þátt­takenda, sérstaklega að þátttakendum sé ekki mismunað með því að veita upp­lýsingar sem gera stöðu sumra þátttakenda betri en annarra. Kaupanda er óheimilt að upplýsa þátttakanda um lausnir eða aðrar trúnaðarupplýsingar sem annar þátttakandi hefur sett fram, án samþykkis viðkomandi.

Kaupandi getur ákveðið að ferlið muni fara fram í fleiri áföngum til þess að fækka þeim lausnum sem fjallað er um. Slík fækkun lausna skal grundvallast á forsendum fyrir vali tilboðs sem settar hafa verið fram í útboðsauglýsingu eða skýringargögnum. Taka skal fram í tilkynningu eða skýringargögnum að þessi háttur kunni að vera hafður á.

Kaupandi skal halda viðræðum áfram þar til hann hefur afmarkað þá lausn eða þær lausnir sem geta fullnægt þörfum hans, eftir atvikum eftir að hafa borið þær saman, ef það reynist nauðsynlegt.

Þegar kaupandi hefur lýst því yfir að viðræðum sé lokið og tilkynnt það þátttakendum skal hann gefa þátttakendum kost á að leggja fram endanleg tilboð með hliðsjón af þeirri lausn eða lausnum sem kynntar hafa verið og skýrðar meðan á viðræðum stóð. Þessi tilboð skulu hafa að geyma öll þau atriði sem nauðsynleg eru til að hrinda samningi í framkvæmd. Heimilt er þátttakendum að skýra, skilgreina og laga til tilboð sín eftir beiðni kaupanda. Slíkar skýringar, skilgreiningar og lagfæringar eða viðbótarupplýsingar mega þó ekki fela í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs, eða tilkynningu til bjóðenda um að gera tilboð, þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.

Kaupandi skal meta tilboð á grundvelli þeirra forsendna fyrir vali tilboðs sem fram komu í upphaflegri útboðsauglýsingu eða skýringargögnum og skal velja hagkvæmasta tilboð í samræmi við ákvæði 55. gr. Kaupanda er heimilt að óska eftir því að sá þátttakandi sem átt hefur hagkvæmasta boð skýri atriði í tilboði sínu eða staðfesti tilteknar skuldbindingar sem þar hafa komið fram, enda leiði það ekki til þess að grundvallarþáttum í tilboðinu, eða útboðsauglýsingu, sé breytt þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.

Kaupanda er heimilt að kveða á um verðlaun eða greiða þátttakendum fyrir þátttöku sína í viðræðum.

35. gr.

Samningskaup án undangenginnar útboðsauglýsingar.

Samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar eru heimil í eftirfarandi tilvikum án tillits til þess hvort um er að ræða innkaup á verki, vöru eða þjónustu:

 1. Þegar engin tilboð, engin gild tilboð eða engar tilkynningar um þátttöku berast vegna lokaðs útboðs, samningskaupa að undangenginni útboðsauglýsingu eða samkeppnisviðræðna, enda sé í endanlegum samningi ekki vikið í verulegum atriðum frá upphaflegum skilmálum.
 2. Þegar um er að ræða ófullnægjandi tilboð, sem lögð eru fram í tengslum við lokuð útboð, samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu eða sam­keppnis­viðræður, eða tilboð sem eru óviðunandi samkvæmt innlendum ákvæðum, sem samrýmast 6., 26., 28.-31. gr. og 43.-57. gr., að því tilskildu að upphaf­legum skilmálum samningsins sé ekki breytt í veigamiklum atriðum og engum öðrum en upphaflegum bjóðendum, sem uppfylla skilyrði 45.-52. gr., er boðið að taka þátt í samningskaupunum.
 3. Þegar innkaup eru algerlega nauðsynleg vegna brýnnar nauðsynjar sem stafar af ófyrirsjáanlegum atburðum og ekki er unnt að standa við fresti í lokuðu útboði eða samningskaupum að undangenginni útboðsauglýsingu skv. 33. gr. Þær aðstæður sem vísað er til sem brýnnar nauðsynjar mega ekki undir neinum kringumstæðum vera á ábyrgð kaupanda.
 4. Þegar aðeins eitt fyrirtæki kemur til greina af tæknilegum eða listrænum ástæðum eða sökum þess að um lögverndaðan einkarétt er að ræða.

Þegar um er að ræða innkaup á vörum eru samningskaup án opinberrar birtingar útboðs­auglýsingar heimil í eftirfarandi tilvikum:

 1. Þegar um er að ræða vörur sem eingöngu eru framleiddar vegna rannsókna, tilrauna, athugana eða þróunar. Þetta nær þó ekki til fjöldaframleiðslu sem ætlað er að skila hagnaði eða endurheimta rannsóknar- og þróunarkostnað.
 2. Þegar um er að ræða viðbótarvörur sem annaðhvort er ætlað að koma að hluta til í stað venjulegra birgða eða búnaðar eða eru aukning á venjulegum birgðum eða búnaði og val á nýjum bjóðanda mundi skuldbinda kaupanda til að kaupa efni sem hefðu aðra tæknilega eiginleika og samræmdust illa eldri tæknibúnaði eða leiddu til óeðlilega mikilla tæknilegra erfiðleika við rekstur og viðhald. Slíkir samningar, svo og endurnýjaðir samningar, skulu að jafnaði ekki gilda lengur en í fimm ár.
 3. Þegar um er að ræða vörur sem skráðar eru og keyptar í kauphöll.
 4. Þegar um er að ræða vörur sem eru á sérlega góðum kjörum, annaðhvort frá seljanda sem er að hætta starfsemi eða frá skiptastjóra þrotabús eða fyrirtæki sem er í greiðslustöðvun eða nauðasamningum.

Þegar um er að ræða innkaup á verki eða þjónustu eru samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar heimil í eftirfarandi tilvikum: 

 1. Þegar um er að ræða viðbótarverk eða viðbótarþjónustu sem ekki var gert ráð fyrir í áður umsömdu verki og nauðsynlegt er, vegna áður ófyrirsjáanlegra aðstæðna, að sami aðili sjái um, enda sé ekki unnt að skilja verkið eða þjón­ust­una frá áður umsömdu verki af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum án stór­felldra vandkvæða fyrir kaupanda. Sama á við ef viðbótarverk eða viðbótar­þjónusta er óhjákvæmileg til að ljúka áður umsömdu verki eða þjónustu. Saman­lagt verðgildi samninga um viðbótarverk eða viðbótarþjónustu skal ekki nema hærri fjárhæð en helmingi af upphaflegri samningsfjárhæð.
 2. Þegar um er að ræða nýtt verk eða þjónustu sem felur í sér endurtekningu á sambærilegu verki eða þjónustu og sami kaupandi hefur áður samið um við fyrirtæki í lokuðu útboði, samningskaupum að undangenginni útboðsauglýsingu eða samkeppnisviðræðum, enda séu þessi verk eða þjónusta í samræmi við þá upprunalegu áætlun sem upphaflegi samningurinn kvað á um. Þegar útboð fer fram á grundvelli upprunalegrar áætlunar skal taka fram að þessari aðferð við innkaup kunni að verða beitt og skal taka mið af áætluðum kostnaði við þessi verk eða þjónustu þegar viðmiðunarfjárhæð er reiknuð út, sbr. III. kafla reglugerðarinnar. Þessari innkaupsaðferð má aðeins beita innan fimm ára frá því að upphaflegur samningur var gerður.
 3. Að því er varðar annars konar þjónustu, tengda rannsóknum og þróun, en þá sem getið er um 22. gr. reglugerðarinnar.

Samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar eru heimil vegna samninga sem varða veitingu á loft- og sjóflutningaþjónustu til her- eða öryggissveita aðildarríkis, sem staðsettur er eða fyrirhugað er að staðsetja erlendis, ef kaupandi þarf að fá þess háttar þjónustu frá rekstraraðilum sem ábyrgjast aðeins gildistíma tilboða sinna í svo skamman tíma að ekki er hægt að standa við frest í samræmi við lokað útboð eða samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, að meðtöldum styttum fresti sem um getur í 39. gr.

Rökstuðningur um nauðsyn þess að beita samningskaupum án opinberrar útboðs­auglýsingar skal kom fram í tilkynningu um val á tilboði í samræmi við 37. gr. reglu­gerðar þessarar.

36. gr.

Rammasamningar.

Rammasamninga skal gera í samræmi við þau innkaupaferli sem mælt er fyrir um í reglugerð þessari. Val á samningsaðilum í rammasamningsútboði skal grundvallast á forsendum fyrir vali tilboðs, sbr. 55. gr. Í rammasamningi er heimilt að ákveða að kaupendur séu ekki skuldbundnir til að skipta eingöngu við aðila rammasamnings við þau innkaup sem samningur tekur til, enda séu slík frávik tilgreind í útboðsgögnum.

Við einstök innkaup á grundvelli rammasamnings skal fylgja ákvæðum 5. og 6. mgr. Aðeins er heimilt að gera einstaka samninga á grundvelli rammasamnings við þau fyrirtæki sem upphaflega voru aðilar rammasamnings. Við gerð einstakra samninga á grundvelli rammasamnings er óheimilt að gera verulegar breytingar á skilmálum rammasamnings, einkum þegar um er að ræða rammasamning sem um ræðir í 5. mgr.

Gildistími rammasamnings má ekki vera lengri en sjö ár nema í undantekningartilvikum sem helgast af málefnalegum ástæðum, einkum þeim sem tengjast áætlaðri endingu afhentrar vöru, búnaðar eða kerfa, eða annarra tæknilegra erfiðleika sem gætu orðið ef skipt er um birgi. Í þess háttar undantekningartilvikum skal kaupandi leggja fram við­eigandi ástæður fyrir þessum tilvikum í tilkynningunni sem um getur í 37. gr.

Kaupanda er óheimilt að misnota rammasamning eða nota hann til að koma í veg fyrir, takmarka eða hindra samkeppni.

Ef rammasamningur er gerður við eitt fyrirtæki skulu einstakir samningar á grundvelli rammasamnings rúmast innan skilmála rammasamningsins. Við gerð einstakra samninga er kaupanda heimilt að ráðfæra sig skriflega við rammasamningshafa og óska eftir viðbótum við tilboð hans ef það er nauðsynlegt.

Ef rammasamningur er gerður við fleiri en eitt fyrirtæki skulu rammasamningshafar vera a.m.k. þrír, enda séu fyrir hendi nægilega mörg fyrirtæki í rammasamningsútboði sem fullnægja hæfisskilyrðum og/eða tilboð sem fullnægja skilmálum ramma­samn­ings­útboðsins. Ef skilmálar rammasamnings eru ákveðnir er heimilt að gera einstaka samn­inga við rammasamningshafa í samræmi við ákvæði rammasamnings. Ef skilmálar rammasamnings eru að einhverju leyti óákveðnir skal fara fram örútboð milli ramma­samn­ings­hafa, eftir atvikum eftir að skilmálar eða tæknilegar kröfur hafa verið skýrðar nánar, allt í samræmi við eftirfarandi reglur: 

 1. Við gerð hvers einstaks samnings skal kaupandi ráðfæra sig skriflega við þá rammasamningshafa sem efnt gætu samninginn.
 2. Kaupandi skal ákveða tilboðsfrest sem er nægilega langur til að ramma­samn­ings­hafar geti gert tilboð vegna þess samnings sem um er að ræða. Við mat á lengd frests skal taka tillit til hversu flókið efni samningsins er svo og sendingar­tíma.
 3. Tilboð rammasamningshafa skulu vera skrifleg og efni þeirra skal vera trún­aðar­mál þar til tilboðsfrestur hefur runnið út.
 4. Kaupandi skal velja á milli tilboða rammasamningshafa á grundvelli valforsendna sem fram hafa komið í skilmálum rammasamnings.

VII. KAFLI

Framkvæmd opinberra innkaupa.

37. gr.

Tilkynningar.

Kaupandi sem hyggst gera samning eða rammasamning á grundvelli lokaðs útboðs eða á grundvelli samningskaupa, að undangenginni birtingu útboðsauglýsingar eða á grundvelli samkeppnisviðræðna skal láta vita af fyrirætlun sinni með útboðsauglýsingu.

Kaupandi sem hefur gert samning eða rammasamning, skal senda almenna tilkynningu um niðurstöður útboðs eigi síðar en 48 dögum eftir að tilboð er valið eða ramma­samn­ingur gerður.

Þegar um er að ræða rammasamning, sem er gerður í samræmi við 36. gr., ber kaup­anda ekki skylda til að senda tilkynningu um niðurstöður vals fyrir hvern samning sem er grundvallaður á þeim rammasamningi.

Heimilt er að halda eftir tilteknum upplýsingum um gerð samnings eða rammasamnings ef birting slíkra upplýsinga kynni að hindra framkvæmd laga eða ganga á annan hátt gegn almannahagsmunum, einkum varnar- og/eða öryggishagsmunum, eða gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni opinberra eða einkarekinna fyrirtækja eða réttmæta sam­keppni þeirra á milli.

Form tilkynninga og aðferð við birtingu skal vera í samræmi við 32. gr. tilskipunarinnar.

38. gr.

Frestur til að skila tilboðum.

Frestur til að skila tilboðum skal vera nægjanlega langur til að bjóðendur geti undirbúið tilboð.

39. gr.

Frestir í lokuðu útboði, samkeppnisviðræðum og samningskaupum.

Frestur til að skila þátttökubeiðnum í forvali vegna lokaðs útboðs, samkeppnisviðræðna eða samningskaupa að undangenginni opinberri birtingu útboðsauglýsingar skal vera minnst fimmtán almanaksdagar. Frestur reiknast frá deginum eftir að útboðsauglýsing er birt að meðtöldum opnunardegi.

Þeim sem valdir hafa verið í forvali vegna lokaðs útboðs skal gefa minnst tíu almanaksdaga frest til að leggja fram tilboð. Frestur reiknast frá þeim degi þegar útboðs­gögn eru send út að meðtöldum opnunardegi. Allir almanaksdagar eru taldir með.

40. gr.

Hraðútboð.

Ef nauðsynlegt er að hraða útboði af ástæðum sem kaupanda verður ekki um kennt er heimilt að víkja frá þeim frestum sem greinir í 39. gr. Frestur til að skila tilboðum skal þó aldrei vera skemmri en sjö almanaksdagar frá birtingu auglýsingar.

41. gr.

Boð um að leggja fram tilboð, taka þátt í viðræðum eða ganga til samninga.

Í lokuðu útboði, samkeppnisviðræðum og samningskaupum, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, skal kaupandi bjóða völdum þátttakendum, samtímis og skriflega, að leggja fram tilboð sín eða ganga til samninga eða, þegar um er að ræða sam­keppnis­viðræður, að taka þátt í viðræðunum.

Boð til þátttakenda skal hafa að geyma annaðhvort afrit af nauðsynlegum útboðsgögnum eða vísun í aðgang að útboðsgögnum með rafrænum aðferðum.

42. gr.

Tilkynning og rökstuðningur fyrir ákvörðun.

Kaupandi skal eins fljótt og hægt er upplýsa þátttakendur og bjóðendur um ákvarðanir um gerð samnings eða rammasamnings. Í tilkynningu skal koma fram, eftir því sem við á, rökstuðningur fyrir ákvörðun um að gera engan samning þrátt fyrir samkeppnisútboð eða hefja að nýju útboðsferli. Þennan rökstuðning skal kaupandi veita skriflega ef þess er óskað.

Eftir beiðni skal kaupandi, eins fljótt og mögulegt er, veita rökstuðning fyrir ákvörðun sinni sem hér segir:

 1. Upplýsa ber þátttakanda, sem ekki hefur verið valinn til að gera tilboð, um ástæður þess að umsókn hans var hafnað.
 2. Upplýsa ber bjóðanda um ástæður þess að tilboði hans var hafnað einkum í þeim tilvikum þegar tilboð telst ekki fullnægja kröfum um tækniforskriftir, virkni eða hagnýtingu, sbr. 25. gr., eða þegar tilboð telst ekki fullnægja skilyrðum um öryggi upplýsinga eða afhendingar, sbr. 29. og 30. gr.
 3. Upplýsa skal bjóðanda, sem lagt hefur fram gilt tilboð, um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi og nafn bjóðanda sem var valinn eða ramma­samn­ings­hafa.

Beiðni um rökstuðning skv. 2. mgr. skal bera fram innan 14 daga frá því að bjóðanda var tilkynnt ákvörðun og skal rökstuðningur liggja fyrir eigi síðar en fimmtán dögum eftir að beiðni um það barst kaupanda eða umsjónarmanni útboðs.

Í rökstuðningi skal þó ekki upplýsa um atriði sem vísað er til í 1. mgr. varðandi gerð samnings ef upplýsingagjöf gæti torveldað löggæslu og eftirlit eða að öðru leyti gengið gegn almannahagsmunum einkum varnar- og/eða öryggishagsmunum. Sama á einnig við ef upplýsingagjöf gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni opinberra eða einka­rekinna fyrirtækja eða réttmæta samkeppni þeirra á milli.

43. gr.

Form tilboða og annarra samskipta kaupanda og bjóðenda.

Öll samskipti og upplýsingagjöf sem vísað er til í þessari grein má fara fram með pósti, símbréfi, rafrænum aðferðum skv. 4. og 5. mgr., símleiðis við þær aðstæður sem um ræðir í 6. mgr. eða með samsetningu þessara miðla, allt eftir ákvörðun kaupanda.

Þær samskiptaaðferðir sem kaupandi velur skulu vera almennt aðgengilegar og ekki hindra aðgang fyrirtækis að útboði.

Samskipti, miðlun og geymsla upplýsinga skal fara fram með þeim hætti að tryggt sé að gögn séu óbreytt frá upprunalegri gerð. Auk þess skal tryggt að nafnleynd tilboða eða tilkynninga um þátttöku sé ekki rofin og kaupandi geti aðeins kynnt sér efni tilboða eða þátttökutilkynninga eftir að tilboðsfrestur eða frestur til að leggja fram þátttöku­tilkynningu er liðinn.

Sá búnaður sem notaður er við rafræn samskipti, svo og tæknilegir eiginleikar búnaðar, skal vera almennt aðgengilegur og samhæfður við þá upplýsinga- og miðlunartækni sem er í almennri notkun. Búnaðurinn má ekki vera þess eðlis að hann leiði til mismununar fyrirtækja.

Eftirfarandi reglur gilda um tæki sem notuð eru fyrir rafræna sendingu og móttöku tilboða og þátttökutilkynninga:

 1. Upplýsingar um skilyrði fyrir rafrænni sendingu tilboða og þátttökutilkynninga, þar á meðal upplýsingar um dulkóðun, skulu vera aðgengilegar öllum áhugasömum aðilum. Þessi tæki skulu einnig fullnægja þeim kröfum sem fram koma í VIII. viðauka tilskipunarinnar.
 2. Heimilt er í samræmi við lög um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, að gera kröfu um að tilboði fylgi fullgild rafræn undirskrift.
 3. Áður en tilboðsfrestur eða frestur til að skila þátttökutilkynningu rennur út skulu bjóðendur eða þátttakendur leggja fram þau gögn sem greinir í 46.-51. gr. og 53. gr. ef þau eru ekki til í rafrænu formi.

Eftirfarandi reglur gilda um sendingu þátttökutilkynningar:

 1. Tilkynningu um þátttöku í útboði má gera skriflega eða símleiðis.
 2. Ef tilkynning um þátttöku er gerð símleiðis skal senda skriflega staðfestingu áður en frestur fyrir móttöku tilkynningar er liðinn.
 3. Kaupandi getur krafist að þátttökutilkynning sem berst með símbréfi eða rafrænum hætti sé staðfest þegar slíkt er nauðsynlegt til þess að fyrir liggi lögfull sönnun að þessu leyti. Allar slíkar kröfur, ásamt frestum til að senda staðfestingu með pósti eða rafrænum hætti, skulu koma fram í útboðsauglýsingu.

44. gr.

Tilboð sem koma til greina.

Við ákvörðun kaupanda um gerð samnings skal eingöngu litið til gildra tilboða, þar á meðal gildra frávikstilboða, frá fyrirtækjum, sem ekki hefur verið vísað frá skv. 46. og 47. gr., sem fullnægja kröfum um fjárhagslega stöðu og faglega og tæknilega getu og önnur atriði, sbr. 48.-53. gr., og valin hafa verið til að gera tilboð í samræmi við reglur 45. gr. ef um forval hefur verið að ræða.

45. gr.

Forval við lokuð útboð, samkeppnisviðræður og samningskaup.

Við lokað útboð, samkeppnisviðræður og samningskaup að undangenginni opinberri aug­lýsingu skal velja þátttakendur með forvali í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

Auglýsa skal tilkynningu um forval með áberandi hætti þannig að öll fyrirtæki þar sem áhugi er fyrir hendi geti tekið þátt í forvali. Í auglýsingu skulu koma fram nægilega miklar upplýsingar til að fyrirtæki geti tekið afstöðu til þess hvort þau hyggjast taka þátt í forvali og eftirfarandi útboði.

Í forvali er heimilt að takmarka fjölda þeirra sem valdir eru til að taka þátt í lokuðu útboði, samkeppnisviðræðum eða samningskaupum, enda hafi nægilega margir þátt­takendur tekið þátt í forvali. Í tilkynningu um forval skulu koma fram þau mál­efna­legu og óhlutdrægu skilyrði eða reglur sem leggja á til grundvallar við val þátt­tak­enda í forvali, lágmarksfjölda þeirra svo og hámarksfjölda þeirra ef það á við.

Í forvali vegna lokaðs útboðs, samningskaupa eftir opinbera birtingu útboðsauglýsingar og samkeppnisviðræðna skulu þátttakendur sem valdir eru til að leggja fram tilboð ekki vera færri en þrír. Fjöldi þátttakenda sem valdir eru skal ætíð vera nægilegur til að tryggja raunverulega samkeppni.

Kaupandi skal gefa a.m.k. jafnmörgum þátttakendum kost á að taka þátt og svarar til þess lágmarksfjölda sem hann hefur áður tiltekið. Ef ekki er fyrir hendi nægjanlegur fjöldi þátttakenda sem fullnægir skilyrðum forvals til að vera valinn, eða ekki er fyrir hendi nægjanlegur fjöldi þátttakenda sem fullnægir kröfum um getu, er kaupanda heimilt að halda útboðsferli áfram með því að gefa þeim sem fullnægðu þessum kröfum kost á að taka þátt og leggja fram tilboð. Ekki er heimilt að gefa fyrirtækjum sem ekki tóku þátt í forvali kost á að taka þátt á þessu stigi. Sama á við um þá þátttakendur sem ekki fullnægðu kröfum um hæfi.

Þegar kaupendur nýta sér heimildir til að fækka tilboðum eða fjölda þátttakenda í samkeppnisviðræðum eða samningskaupum að undangenginni opinberri birtingu tilkynn­ingar, sbr. 33. og 34. gr., skal ákvörðun um slíkt grundvallast á valforsendum sem fram hafa komið í útboðsauglýsingu, skilmálum eða skýringargögnum. Á lokastigi slíkra inn­kaupa skal fjöldi þátttakenda vera nægilega mikill til að tryggja raunhæfa samkeppni að svo miklu leyti sem um nægilegan fjölda tilboða eða hæfra þátttakenda er að ræða.

46. gr.

Persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda.

Þátttakandi eða bjóðandi sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi fyrir eitt af eftirtöldum afbrotum skal útilokaður frá gerð opinbers samnings:

 1. þátttöku í skipulögðum brotasamtökum,
 2. spillingu,
 3. sviksemi,
 4. hryðjuverk eða afbrot tengd hryðjuverkastarfsemi,
 5. peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.

Eftir því sem við á skulu kaupendur óska eftir því að þátttakendur eða bjóðendur leggi fram gögn um þau atriði sem greinir í a-e-lið. Hafi kaupandi efasemdir um persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda er honum heimilt að beina fyrirspurn til þar til bærra yfirvalda í því skyni að fá nauðsynlegar upplýsingar um þessi atriði. Ef upplýsingar varða þátttakanda eða bjóðanda frá öðru ríki er heimilt að óska eftir samvinnu við þar til bær yfirvöld í viðkomandi ríki. Með hliðsjón af lögum þess ríkis skal fyrirspurn beinast að einstaklingum og/eða lögaðilum, þar á meðal, ef við á, forstjórum fyrirtækja og hvers konar einstaklingum sem hafa heimild til fyrirsvars, ákvörðunartöku eða stjórnunar við­komandi þátttakanda eða bjóðanda.

Heimilt er að útiloka fyrirtæki frá opinberum samningi sem eitthvað af eftirfarandi á við:

 1. Bú fyrirtækis er undir gjaldþrotaskiptum eða félagi hefur verið slitið, það hefur fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
 2. Óskað hefur verið gjaldþrotaskipta eða slita á fyrirtæki, það hefur leitað heimildar til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
 3. Fyrirtæki hefur með endanlegum dómi eða úrskurði verið fundið sekt um refsivert brot í starfi, t.d. brot á gildandi löggjöf um útflutning varnar- og/eða öryggis­búnaðar.
 4. Fyrirtæki hefur sýnt alvarlega vanrækslu í starfi sem kaupanda er unnt að sýna fram á, svo sem brot á skuldbindingum varðandi öryggi upplýsinga eða afhend­ingar­öryggi á gildistíma fyrri samnings.
 5. Sýnt er fram á að fyrirtæki búi ekki yfir þeim áreiðanleika sem þarf til að öryggi kaupanda eða aðildarríkis sé ekki stofnað í hættu.
 6. Fyrirtæki er í vanskilum með lífeyrissjóðsiðgjöld eða sambærileg lögákveðin gjöld.
 7. Fyrirtæki er í vanskilum með opinber gjöld eða sambærileg lögákveðin gjöld.
 8. Fyrirtæki hefur gefið rangar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega getu sína eða hefur ekki lagt slíkar upplýsingar fram.

Við mat á því hvort a-h-liður á við um fyrirtæki skal litið til þess hvort um sé að ræða sömu rekstrareiningu, með sömu eða nær sömu eigendur í sömu eða nær sömu atvinnu­starfsemi á sama markaði, án tillits til þess hvort fyrirtækið hafi skipt um kenni­tölu eða verið stofnað að nýju. Í þessu skyni er heimilt að kanna viðskiptasögu stjórn­enda og helstu eigenda.

Ef fyrirtæki er krafið um sönnun um þau atriði sem greinir í 1. mgr. eða a-, b-, c-, e- eða g-lið 2. mgr. skal eftirfarandi metið sem fullnægjandi sönnun:

 1. Að því er varðar skilyrði 1. mgr. og a-, b- og c-liðar 2. mgr., framlagning sakavottorðs, vottorðs dómstóls eða, ef þessi vottorð eru ekki tiltæk, sambærilegs vottorðs frá stjórnvaldi eða dómstóli í uppruna- eða heimaríki viðkomandi fyrirtækis sem sýnir að umræddum skilyrðum sé fullnægt.
 2. Að því er varðar f- og g-lið 2. mgr., vottorð gefið út af þar til bæru stjórnvaldi í viðkomandi ríki.

Ef heimaríki fyrirtækis gefur ekki út skjöl eða vottorð sem þessi, eða slík skjöl og vottorð ná ekki yfir öll þau tilvik sem greinir í 1. mgr. og a-, b- og c-lið 2. mgr., skal þess í stað meta fullgildan eið eða drengskaparheit sem bjóðandi hefur unnið um umrædd atriði fyrir dómara eða yfirvaldi, lögbókanda eða þar til bæru fagfélagi í heimaríki sínu.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið skal útbúa skrá yfir þau innlendu stjórnvöld og stofnanir sem bær eru til að gefa út þau skjöl, vottorð eða yfirlýsingar sem um ræðir í 3. mgr. og senda hana Eftirlitsstofnun EFTA. Slík tilkynning skal ekki fara í bága við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

47. gr.

Starfsréttindi.

Þess má krefjast að innlent fyrirtæki sýni fram á að það sé skráð í fyrirtækjaskrá. Þegar um er að ræða fyrirtæki frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildar­ríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu má krefjast þess að fyrirtæki sýni fram á fullnægjandi skráningu í heimaríki sínu með eiði eða vottorði skv. VII. viðauka A tilskipunarinnar þegar um er að ræða verksamninga, VII. viðauka B til­skip­unar­innar þegar um er að ræða vörusamninga og VII. viðauka C tilskipunarinnar þegar um er að ræða þjónustusamninga.

Þegar um er að ræða gerð þjónustusamninga og bjóðendur eða þátttakendur þurfa að hafa sérstakt leyfi eða vera meðlimir í tilteknum samtökum til að mega veita hlutaðeigandi þjónustu í heimaríki sínu er heimilt að krefjast þess að þeir sýni fram á að þeir hafi viðeigandi leyfi eða séu félagar í viðeigandi samtökum.

48. gr.

Fjárhagsstaða bjóðanda.

Fjárhagsstaða fyrirtækis skal vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Ekki skal krefjast frekari gagna um sönnun á fjárhagslegri getu en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi fyrirhugaðra innkaupa. Að jafnaði getur fyrirtæki fært sönnur á fjárhagslega getu sína með því að leggja fram ein eða fleiri eftirfarandi gagna: 

 1. Viðeigandi upplýsingar frá bönkum eða, þar sem það á við, gögn um verk­trygg­ingu eða aðra tryggingu fyrir skaðleysi kaupanda af hugsanlegum van­efndum fyrirtækis.
 2. Endurskoðaða ársreikninga fyrri ára eða útdrátt úr þeim ef krafist er birtingar efnahagsreiknings samkvæmt lögum staðfesturíkis fyrirtækis.
 3. Yfirlýsingu um heildarveltu fyrirtækis og, eftir því sem við á, hlutdeild þeirrar vöru, þjónustu eða verks sem fellur undir samning, vegna þriggja undangenginna fjár­hags­ára, þó þannig að taka ber tillit til þess hvenær fyrirtæki var stofnsett eða hvenær það hóf starfsemi og að hvaða marki þessar upplýsingar eru aðgengi­legar.

Fyrirtæki getur, eftir því sem við á og vegna gerðar tiltekins samnings, byggt á fjárhagslegri getu annarra aðila án tillits til lagalegra tengsla fyrirtækisins við þessa aðila. Ef þetta er gert skal fyrirtæki sýna kaupanda fram á að það muni hafa nauðsynlega fjármuni til ráðstöfunar, t.d. með þeim hætti að hlutaðeigandi fyrirtæki stofni sam­eigin­lega sérstakt félag í þessu skyni.

Með sömu skilyrðum og greinir í 6. gr. geta fleiri fyrirtæki sem standa að þátt­töku­tilkynningu eða tilboði byggt sameiginlega á fjárhagslegri getu þeirra.

Í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum skal koma fram hvaða gagna skv. 1. mgr. krafist er að fyrirtæki leggi fram eða kunni á síðari stigum að verða beðið um að leggja fram. Einnig skal tilgreina önnur gögn um fjárhagslega getu ef því er að skipta.

Þegar bjóðandi er ófær um að leggja fram þau gögn sem greinir í 1. mgr. er honum heimilt að sýna fram á fjárhagslega getu sína með öðrum gögnum sem kaupandi telur fullnægjandi.

49. gr.

Tæknileg og fagleg geta.

Tæknileg geta fyrirtækis skal vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Eftir því sem nauðsynlegt er vegna eðlis, umfangs, mikilvægis eða ætlaðrar notkunar verks, þjónustu eða vöru getur fyrirtæki fært sönnur á tæknilega getu sína með eftirfarandi gögnum:

  1. Með lista yfir þau verk sem fyrirtæki hefur annast síðastliðin fimm ár ásamt vottorðum um fullnægjandi efndir stærstu verksamninga þegar um er að ræða innkaup á verki. Í þessum vottorðum skal koma fram virði, dag­setning og staðsetning verks ásamt upplýsingum um hvort verk var unnið fagmannlega og lokið með fullnægjandi hætti. Þar sem við á skal það stjórn­vald sem gefur út vottorð senda það milliliðalaust til kaupanda.
  2. Með lista yfir helstu vörusendingar eða þjónustu sem veitt hefur verið síðastliðin þrjú ár ásamt upplýsingum um virði vöru eða þjónustu, við­takendur, hvort sem þeir eru opinberir eða einkaaðilar, þegar um er að ræða innkaup á þjónustu og vörum. Þegar viðtakandi vöru eða þjónustu hefur verið opinber aðili skal sönnun um afhendingu vörunnar eða þjón­ust­unnar gefin með vottorði sem viðkomandi kaupandi gefur út eða stað­festir með áritun sinni. Þegar viðtakandi vöru eða þjónustu hefur verið einka­aðili skal sönnun um afhendingu vörunnar eða þjónustunnar gefin með vottorði viðkomandi einkaaðila eða, ef þetta er ekki unnt, yfirlýsingu fyrir­tækisins sjálfs.
 1. Með tilvísun til þeirra tæknimanna eða tæknilegu aðila, hvort sem þeir heyra beinlínis undir fyrirtæki eða ekki, sem koma munu að framkvæmd samnings, einkum þeirra sem bera ábyrgð á gæðaeftirliti og framkvæmd verks þegar um er að ræða verksamninga.
 2. Með lýsingu á tæknibúnaði, aðferðum til að tryggja gæði og aðstöðu til athugana og rannsókna, auk innri reglna varðandi hugverkaréttindi.
 3. Með skoðun kaupanda á framleiðslugetu seljanda vöru eða tæknilegri getu veitanda þjónustu ásamt skoðun á rannsóknaraðstöðu og gæðaeftirliti bjóðanda ef nauðsyn ber til. Þar til bær opinber aðili í staðfesturíki fyrirtækis getur annast umrædda skoðun fyrir hönd kaupanda í samræmi við þær reglur sem gilda um slíkan aðila.
 4. Þegar um er að ræða verksamninga, þjónustusamninga eða vörusamninga sem ná yfir ísetningu og uppsetningu eða þjónustu: með upplýsingum um menntun og starfsréttindi þjónustuveitanda eða verktaka og/eða starfsmanna fyrirtækis, einkum þeirra sem bera munu ábyrgð á viðkomandi þjónustu eða vinnu við verk.
 5. Þegar um er að ræða verksamninga og þjónustusamninga í þeim tilvikum þar sem það á við: með upplýsingum um þær umhverfisstjórnunaraðgerðir sem fyrirtæki getur beitt við framkvæmd samnings.
 6. Með yfirlýsingu um meðalfjölda starfsmanna og fjölda manna í stjórnunarstöðum hjá þjónustuveitanda eða verktaka síðastliðin þrjú ár.
 7. Með yfirlýsingu um þau verkfæri, efni, tæknibúnað, starfsmannafjölda, verk­kunnáttu og verksmiðju og/eða upprunastöðu birgða sem þjónustuveitandi eða verktaki hefur aðgang að til framkvæmdar samnings, mæta viðbótarþörfum sem krafist er vegna hættuástands eða inna af hendi viðhald, nútímavæðingu eða aðlögun vara sem falla undir samninginn.
 8. Þegar um er að ræða vöru: með sýnishornum, lýsingum eða ljósmyndum þannig að unnt sé að staðreyna að vara sé fullnægjandi eða með vottun frá opinberri gæðaeftirlitsstofnun eða viðurkenndri stofnun um að vara sé í samræmi við þær tækniforskriftir eða staðla sem vísað hefur verið til.
 9. Þegar um er að ræða samninga sem fela í sér, hafa í för með sér og/eða hafa að geyma trúnaðarupplýsingar, með staðfestingu á getu til að vinna, geyma og senda þess háttar upplýsingar, samkvæmt kröfum kaupanda.

Fyrirtæki getur, eftir því sem við á og vegna gerðar tiltekins samnings, byggt á tæknilegri getu annarra aðila án tillits til lagalegra tengsla fyrirtækisins við þessa aðila. Ef þetta er gert skal fyrirtæki sýna kaupanda fram á að það muni hafa aðgang að nauðsynlegri tækni fyrir framkvæmd samningsins, t.d. með þeim hætti að hlutaðeigandi fyrirtæki stofni sameiginlega sérstakt félag í þessu skyni.

Með sömu skilyrðum og greinir í 6. gr. geta fleiri fyrirtæki sem standa að þátttöku­tilkynn­ingu eða tilboði byggt sameiginlega á tæknilegri getu þeirra.

Þegar um er að ræða vörusamninga sem fela í sér ísetningu og uppsetningu, veitingu þjónustu og/eða framkvæmd verks er heimilt að meta sérstaklega getu fyrirtækis til þess að veita þjónustuna, sjá um uppsetninguna eða vinna verkið, einkum með hliðsjón af hæfni, skilvirkni, reynslu og áreiðanleika.

Í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum skal koma fram hvaða gagna skv. 1. mgr. krafist er að fyrirtæki leggi fram eða kunni á síðari stigum að verða beðið um að leggja fram. Fara má fram á að umrædd gögn uppfylli viðeigandi kröfur um öryggisvottun.

Ef fyrirtæki getur ekki, af einhverri gildri ástæðu, lagt fram þau gögn sem kaupandi krefst, er heimilt að sýna fram á tæknilega og/eða faglega getu með öðrum gögnum sem talin eru fullnægjandi að mati kaupanda.

50. gr.

Gæðastaðlar.

Þar sem kaupandi krefst þess að gefið sé út vottorð af óháðum aðila til staðfestingar á því að fyrirtæki fullnægi ákveðnum gæðavottunarstöðlum skal vísað til evrópskra gæðavottunarkerfa sem grundvallast á viðeigandi evrópskum stöðlum, enda hafi þessir staðlar verið staðfestir af stofnun sem fullnægir skilyrðum evrópskra staðla til slíkrar staðfestingar. Kaupendur skulu taka gild sambærileg vottorð sem gefin eru út af stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og ríkjum stofnsamnings EFTA. Þeir skulu einnig taka gild önnur gögn, sem fyrirtæki leggur fram, sem veita sambærilega sönnun fyrir því að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar með tilliti til gæðakrafna.

51. gr.

Umhverfisstjórnunarstaðlar.

Þar sem kaupandi krefst þess að gefið sé út vottorð af óháðum aðila til staðfestingar á því að fyrirtæki fullnægi ákveðnum umhverfisstjórnunarstöðlum, sbr. f-lið 1. mgr. 49. gr., skal vísað til umhverfisstjórnunarkerfis Bandalagsins (EMAS) eða til umhverfis­stjórn­unar­staðla sem grundvallast á viðeigandi evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum, sem staðfestir hafa verið af stofnunum sem samræmast reglum EES-samn­ings­ins, eða viðeigandi evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum um vottun. Kaupendur skulu taka gild sambærileg vottorð sem gefin eru út af stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og ríkjum stofnsamnings EFTA. Þeir skulu einnig taka gild önnur gögn, sem fyrirtæki leggur fram, sem veita sambærilega sönnun fyrir því að full­nægj­andi ráðstafanir hafi verið gerðar með tilliti til umhverfisstjórnunar.

52. gr.

Framlagning viðbótargagna og upplýsinga.

Kaupanda er heimilt að gefa fyrirtæki færi á því að auka við framkomin gögn skv. 46.-51. gr. eða skýra þau á hvaða stigi útboðs sem er.

53. gr.

Opinberir listar um viðurkennd fyrirtæki og vottorð opinberra
og einkaréttarlegra stofnana.

Fyrirtæki, sem skráð eru á opinberum listum yfir viðurkennda verktaka, seljendur eða þjónustuveitendur eða vottuð sem slík af opinberum eða einkaréttarlegum stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða ríkjum stofnsamnings EFTA, geta, með staðfestri skráningu á viðkomandi lista eða vottorði, fært sönnur á að eftirfarandi skil­yrðum sé fullnægt, enda sé ekki annað leitt í ljós:

 1. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum 1. mgr. og a-d-liðar og h-liðar 2. mgr. 46. gr.
 2. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum 47. gr.
 3. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum b- og c-liðar 1. mgr. 48. gr.
 4. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum i. liðar a-liðar og b-g-liðar 1. mgr. 49. gr. svo og h-liðar sömu málsgreinar að því er varðar verktaka.
 5. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum ii. liðar a-liðar og b-e-liðar og i-liðar 1. mgr. 49. gr. að því er varðar seljendur vöru.
 6. Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum ii. liðar a-liðar, b-e-liðar og g-liðar 1. mgr. 49. gr. að því er varðar veitendur þjónustu.

Óheimilt er að vefengja upplýsingar sem skráning á lista eða vottorð ber með sér án sérstakrar ástæðu. Að því er varðar greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda og skatta má þó hvenær sem er krefjast viðbótarvottorðs af skráðu fyrirtæki.

Kaupendur skulu beita 1. og 2. mgr. til hagsbóta þeim fyrirtækjum sem staðfestu hafa í einhverju ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríversl­unar­samtaka Evrópu og skráð eru á lista þar.

54. gr.

Forsendur kaupanda fyrir vali tilboðs.

Forsendur fyrir vali tilboðs skulu annaðhvort miðast eingöngu við lægsta verð eða fjárhagslega hagkvæmni frá sjónarhóli kaupanda. Forsendur sem liggja til grundvallar mati á fjárhagslegri hagkvæmni skulu tengjast efni samnings, t.d. gæðum, verði, tækni­legum eiginleikum, útliti, notkunareiginleikum, umhverfislegum eiginleikum, rekstrar­kostnaði, rekstrarhagkvæmni, viðhaldsþjónustu, afhendingardegi og afhendingar­tímabili, lokum framkvæmdar samnings, afhendingaröryggi eða rekstrar­samhæfi og rekstrarlegir eiginleikar.

Í útboðsauglýsingu, útboðsgögnum eða skýringargögnum, eða þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, skal tilgreina forsendur fyrir vali tilboðs eins nákvæmlega og framast er unnt. Í forsendum má ekki vísa til annarra atriða en staðreynd verða á grundvelli gagna sem bjóðendur leggja fram eða með öðrum hlutlægum hætti.

Í þeim gögnum sem greinir í 2. mgr. skal tilgreina hlutfallslegt vægi hvers viðmiðs sem vísað er til sem forsendu fyrir vali tilboðs. Þetta vægi má setja fram sem ákveðið bil með hæfilegum hámarksvikmörkum. Ef ómögulegt er að tilgreina tiltekið vægi forsendna af ástæðum sem hægt er að sýna fram á skal raða forsendum í röð eftir mikilvægi.

55. gr.

Mat á hagkvæmasta boði.

Við val á tilboði skal gengið út frá hagkvæmasta boði. Hagkvæmasta tilboð er það boð sem er lægst að fjárhæð eða það boð sem fullnægir þörfum kaupanda best samkvæmt þeim forsendum sem settar hafa verið fram í útboðsgögnum, sbr. 54. gr.

Óheimilt er að meta tilboð á grundvelli annarra forsendna en fram koma í útboðsgögnum, sbr. 54. gr.

Heimilt er að velja fleiri en eitt tilboð sé kaupum skipt í fleiri sjálfstæða hluta í útboðs­gögnum.

56. gr.

Rafræn uppboð.

Kaupanda er heimilt að kaupa inn með rafrænu uppboði samkvæmt nánari ákvæðum 70. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007.

57. gr.

Óeðlilega lág tilboð.

Þegar tilboð virðist óeðlilega lágt með hliðsjón af vöru, verki eða þjónustu sem kaupa á skal kaupandi, áður en hann getur vísað þessu tilboði frá, óska eftir nákvæmri, skriflegri lýsingu á þeim efnisþáttum tilboðsins sem hann telur skipta máli.

Þessar upplýsingar geta einkum varðað:

 1. hagkvæmni byggingaraðferðar, framleiðsluferlis eða þjónustu,
 2. tæknilegar lausnir, sem hafa verið valdar, og/eða hvers konar óvenjulega hag­stæðar aðstæður bjóðanda við framkvæmd verks, afhendingu vöru eða veit­ingu þjónustu,
 3. frumleika í tillögum bjóðanda varðandi verk, vöru eða þjónustu,
 4. samræmi við gildandi ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði á staðnum þar sem framkvæmd verks, afhending vöru eða veiting þjónustu fer fram,
 5. laun, önnur starfskjör og aðbúnað starfsfólks,
 6. möguleika bjóðanda á því að fá ríkisaðstoð.

Kaupandi skal sannreyna efnisþætti tilboðs með viðræðum við bjóðanda, að teknu tilliti til þeirra gagna sem hafa verið lögð fram.

Komist kaupandi að þeirri niðurstöðu að tilboð sé óeðlilega lágt vegna þess að bjóðandi hafi hlotið ríkisaðstoð verður boði hans því aðeins hafnað að bjóðanda hafi ekki tekist, innan hæfilegs frests sem ákveðinn var eftir að bjóðanda var gefinn kostur á að tjá sig, að sýna fram á að ríkisstyrkur hafi verið löglega veittur. Ef kaupandi vísar tilboði frá við þessar aðstæður skal hann tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um þá ákvörðun.

Kaupanda er skylt að rökstyðja ákvörðun um að hafna tilboði á þeim grundvelli að það sé óeðlilega lágt. Upplýsingar sem kaupandi fær samkvæmt þessari grein skal fara með sem trúnaðarmál.

VIII. KAFLI

Reglur um undirverktakastarfsemi.

58. gr.

Gildissvið.

Hlutskarpasti bjóðandi skal fara eftir þeim reglum sem settar eru fram í 59.-61. gr. þegar gerður er undirverktakasamningur við þriðja aðila, sbr. einnig 28. gr. um undir­verktaka­starfsemi.

Fyrirtækjahópar, sem hafa verið myndaðir með það fyrir augum að fá samning, eða fyrirtæki í tengslum við þá skulu, að því er varðar 1. mgr., ekki teljast til þriðju aðila.

Bjóðandinn skal láta tæmandi skrá yfir þess háttar fyrirtæki fylgja tilboði sínu. Skrána skal uppfæra í samræmi við síðari breytingar á tengslum milli fyrirtækjanna.

59. gr.

Meginreglur.

Hlutskarpasti bjóðandinn skal starfa á gagnsæjan hátt og meðhöndla alla mögulega undir­verktaka jafnt og án mismununar.

60. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir og reglur um auglýsingar.

Ef hlutskarpasti bjóðandinn gerir undirverktakasamning sem metinn er að verðmæti, án virðisaukaskatts, ekki lægri en viðmiðunarfjárhæð sem mælt er fyrir um í 10. gr., skal hann tilkynna um fyrirætlan sína.

Tilkynningar um undirverktakasamninga skulu fela í sér upplýsingar sem um getur í V. viðauka tilskipunarinnar.

Ekki skal krafist tilkynningar um undirverktakasamning ef undirverktakasamningur upp­fyllir skilyrði 35. gr.

Við gerð undirverktakasamninga sem eru lægri að verðmæti, án virðisaukaskatts, en viðmiðunarfjárhæðir sem mælt er fyrir um í 10. gr., skal að öðru leyti fara eftir almennum meginreglum sem gilda um opinber innkaup einkum hvað varðar gagnsæi og samkeppni.

Ákvæði 11. gr. gilda um útreikning á áætluðu verðmæti undirverktakasamninga.

61. gr.

Viðmiðanir um hæfismiðað val á undirverktökum.

Í tilkynningu um undirverktakasamning, skal hlutskarpasti bjóðandinn upplýsa um viðmiðanir við hæfismiðað val sem kaupandi setur fram, auk allra annarra viðmiðana sem það mun beita við hæfismiðað val á undirverktökum. Allar þessar viðmiðanir skulu vera hlutlægar, án mismununar og í samræmi við þær viðmiðanir sem kaupandi beitir við val á bjóðendum í meginsamninginn. Sú geta sem krafist er skal vera tengd, með beinum hætti, viðfangsefni undirverktakasamnings, og hæfnisstig sem krafist er skal vera í réttu hlutfalli við hann.

Þess skal ekki krafist að hlutskarpasta bjóðandanum, sem verður fyrir valinu, sé skylt að skipta samningi á undirverktaka ef hann sýnir fram á, með fullnægjandi hætti að mati kaupanda, að enginn þeirra undirverktaka, sem taka þátt í samkeppninni, eða framlögð tilboð þeirra uppfylli viðmiðin sem sett eru fram í tilkynningu um undirverktakasamning og koma þar með í veg fyrir að hlutskarpasti bjóðandinn uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í meginsamningnum.

62. gr.

Sértæk regla um undirverktakasamninga.

Þegar hlutskarpasti bjóðandinn er samningsstofnun eða samningsyfirvald skal við gerð undirverktakasamninga fara eftir ákvæðum um meginsamninga sem mælt er um í I. til VII. kafla.

IX. KAFLI

Kærunefnd útboðsmála, óvirkni samninga og tilkynning og rökstuðningur ákvarðana.

63. gr.

Kærunefnd útboðsmála og óvirkni samninga.

Fara skal eftir ákvæðum XIV. kafli laga um opinber innkaup nr. 84/2007 vegna kæru­mála sem varða ætluð brot gegn reglugerð þessari og hvað viðkemur kærunefnd útboðs­mála.

Jafnframt skal fara eftir ákvæðum XV. kafla laga um opinber innkaup vegna gildi samn­inga, óvirkni, annarra viðurlaga og skaðabóta.

64. gr.

Tilkynning og rökstuðningur höfnunar tilboðs og annarra ákvarðana.

Kaupandi skal tilkynna þátttakendum eða bjóðendum um ákvarðanir um gerð ramma­samnings eða val tilboðs eins fljótt og mögulegt er. Í tilkynningu skal koma fram, eftir því sem við á, rökstuðningur fyrir ákvörðun um að gera ekki rammasamning, taka engu tilboði þrátt fyrir útboð eða hefja að nýju útboð. Þennan rökstuðning skal kaupandi veita skrif­lega ef þess er óskað.

Í tilkynningu um ákvörðun um val tilboðs skv. 1. mgr. skal koma fram nafn þess bjóðanda sem var valinn og upplýsingar um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi með hliðsjón af valforsendum útboðsgagna. Í slíkri tilkynningu skal einnig koma fram yfirlýsing um nákvæman biðtíma samningsgerðar skv. 65. gr.

Eftir beiðni skal kaupandi, eins fljótt og mögulegt er, veita rökstuðning fyrir ákvörðun sinni sem hér segir:

 1. Upplýsa ber þátttakanda, sem ekki hefur verið valinn til að gera tilboð, um ástæður þess að umsókn hans var hafnað.
 2. Upplýsa ber bjóðanda um ástæður þess að tilboði hans var hafnað. Ef tilboði hefur verið hafnað með vísan til þess að tilboð var í ósamræmi við tækniforskriftir, sbr. 4. og 5. mgr. 25. gr., skal rökstyðja hvers vegna tilboð telst ekki fullnægja kröfum tækniforskrifta eða hvers vegna það er ófullnægjandi með tilliti til krafna um virkni og hagnýtingu.
 3. Upplýsa skal bjóðanda, sem lagt hefur fram gilt tilboð, um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi og nafn bjóðanda sem var valinn eða ramma­samn­ings­hafa.

Beiðni um rökstuðning skv. 3. mgr. skal bera fram innan 14 daga frá því að bjóðanda var tilkynnt ákvörðun og skal rökstuðningur liggja fyrir eigi síðar en fimmtán dögum eftir að beiðni um það barst kaupanda eða umsjónarmanni útboðs. Í rökstuðningi skal þó ekki upplýsa um atriði sem vísað er til í 1. mgr. varðandi val tilboðs eða gerð rammasamnings ef upplýsingagjöf gæti torveldað löggæslu. Sama á við ef upplýsingagjöf gengur að öðru leyti gegn almannahagsmunum eða myndi skaða lögmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja, einkarekinna eða opinberra, eða samkeppni milli þeirra.

Tilkynningu skv. 1. og 2. mgr. skal senda öllum fyrirtækjum sem ekki hefur verið hafnað eða vísað frá innkaupaferli með endanlegri ákvörðun. Ákvörðun um útilokun telst ekki endanleg fyrr en hún hefur verið tilkynnt bjóðanda og frestir til að bera hana undir kærunefnd útboðsmála eru runnir út eða hún hefur verið staðfest af nefndinni.

65. gr.

Biðtími samningsgerðar og samþykkt tilboðs.

Óheimilt er að gera samning í kjölfar ákvörðunar um val tilboðs fyrr en að liðnum tíu daga biðtíma frá deginum eftir að tilkynning skv. 1. og 2. mgr. 64. gr. telst birt. Biðtíma telst þó ætíð lokið þegar liðnir eru fimmtán dagar frá deginum eftir sendingu tilkynningar að telja. Um birtingu rafrænna tilkynninga, þar á meðal tilkynninga með símbréfi, fer eftir fyrirmælum 39. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 51/2003.

Biðtími skv. 1. mgr. gildir ekki í eftirfarandi tilvikum:

 1. Við gerð samnings sem heimilt er að gera án undangenginnar útboðsauglýsingar.
 2. Við gerð samnings þar sem endanlega liggur fyrir að aðeins einn bjóðandi eða þátttakandi er fyrir hendi.
 3. Við gerð samnings á grundvelli rammasamnings skv. 36. gr.

Tilboð skal samþykkja endanlega með skriflegum hætti innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda. Þegar kaupanda er ekki unnt að taka afstöðu til tilboða innan tilboðsfrests er heimilt að óska eftir því að bjóðendur framlengi tilboð sín í stuttan tíma. Skilyrði er að fyrir liggi samþykki allra þátttakenda eða málefnalegar ástæður réttlæti framlengingu. Með sama skilyrði er heimilt að óska eftir því, eftir að tilboðsfrestur hefur runnið út, að bjóðendur lýsi því yfir að tilboð þeirra séu að nýju gild, þó aðeins í mjög stuttan tíma. Þegar samningur hefur verið lýstur óvirkur í samræmi við ákvæði XV. kafla um opinber innkaup nr. 84/2007, er heimilt að samþykkja það tilboð sem hefði með réttu átt að velja án tillits til tilboðsfrests.

Heimilt er að gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins eftir að tilboð hefur verið samþykkt, en ekki skal þá breyta grundvallarþáttum tilboðs þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.

Þegar kominn er á samningur skv. 1. mgr. skal það tilkynnt öllum bjóðendum án tafar.

X. KAFLI

Skýrslur, Eftirlitsstofnun EFTA o.fl.

66. gr.

Skýrslur um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið skal útbúa skýrslu í samræmi við 66. gr. til­skip­unar­innar og senda hana Eftirlitsstofnun EFTA.

67. gr.

Rannsókn Eftirlitsstofnunar EFTA.

Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að grípa til þeirrar málsmeðferðar sem kveðið er á um í 2.-4. mgr. ef stofnunin telur, áður en samningur hefur verið gerður, að við framkvæmd innkaupaferlis sem fellur undir tilskipunina eins og hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn hafi verið framið alvarlegt brot gegn reglum EES-samningsins um opinber innkaup. Ráðherra skal vera í fyrirsvari fyrir íslenska ríkið við þessa málsmeðferð. Í þágu þessarar málsmeðferðar er ráðherra heimilt að stöðva um stundarsakir útboð eða annað innkaupaferli eftir að tilkynning Eftirlitsstofnunar EFTA hefur borist.

Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnir íslenska ríkinu um ástæður fyrir því að stofnunin telur að alvarlegt brot hafi verið framið og fer fram á að það verði leiðrétt með viðeigandi hætti. Eigi síðar en 21 degi eftir að tilkynningin berst skal ráðuneytið senda eftirlitsstofnuninni staðfestingu á því að bætt hafi verið úr brotinu, rökstudda greinargerð um ástæður þess að engar úrbætur hafi verið gerðar eða tilkynningu um að innkaupaferli og gerð samnings hafi verið stöðvuð um stundarsakir, hvort heldur er fyrir atbeina ráðherra eða kærunefndar útboðsmála.

Greinargerð um ástæður þess að engar úrbætur hafi verið gerðar getur grundvallast á því að brot sé þegar til umfjöllunar hjá kærunefnd útboðsmála eða dómstólum eða þá að úrlausn kærunefndar hafi verið borin undir dómstóla. Við þessar aðstæður skal ráðu­neytið tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um niðurstöðu slíks máls um leið og hún verður kunn.

Þegar tilkynnt hefur verið um stöðvun innkaupaferlis um stundarsakir, sbr. 2. mgr., skal ráðuneytið tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um það þegar stöðvun er aflétt eða innkaupaferli vegna sömu innkaupa, að hluta eða í heild, er hafið á ný. Í þessari tilkynningu skal greint frá því að úrbætur hafi verið gerðar eða færðar fram ástæður fyrir því hvers vegna það hefur ekki verið gert.

68. gr.

Endurskoðun viðmiðunarfjárhæða.

Við ákvörðun viðmiðunarfjárhæða, samkvæmt 10. gr., skal taka tillit til breytinga sem kunna að hafa verið gerðar skv. 78. gr. tilskipunarinnar, enda hafi hlutaðeigandi gerðir verið teknar upp í EES-samninginn. Endurskoða skal viðmiðunarfjárhæðir á tveggja ára fresti, í fyrsta sinn 31. janúar 2016.

69. gr.

Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 5. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 með síðari breytingum og er til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samnings­yfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjón­ustu­samningum á sviði varnar- og öryggismála, og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB.

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013 er birt í EES-viðbæti við Stjórnar­tíðindi ESB nr. 67, frá 28. nóvember 2013, bls. 36. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 37, frá 26. júní 2013, bls. 256.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 1. september 2014.

F. h. r.

Sigurður H. Helgason.

Hrafn Hlynsson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica