Sjávarútvegsráðuneyti

829/2005

Reglugerð um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu.

I. KAFLI

Almenn ákvæði

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um alþjóðaverslun með tegundir úr hafi sem heyra undir samninginn um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu, sem gerður var í Washington 3. mars 1973 (CITES). Markmið samningsins, þessarar reglugerðar og reglugerðar nr. 993/2004 er að vernda tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu með því að stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þær.


2. gr.

Stjórnvöld.

Sjávarútvegsráðuneytið fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Fiskistofa veitir leyfi, annast eftirlit og aðra framkvæmd reglugerðarinnar. Hafrannsóknastofnunin er umsagnaraðili og vísindalegt stjórnvald varðandi tegundir úr hafi.Umhverfisráðuneytið fer með yfirstjórn mála er varðar aðrar lífverur en tegundir í hafi.Tollyfirvöld annast skoðun á eintökum og gögnum sem þeim fylgja við inn- og útflutning, skv. reglugerð þessari.


3. gr.

Skilgreiningar.

Merking orða og orðasambanda í reglugerð þessari er sem hér segir:

Samningurinn: Samningur um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES), sem gerður var í Washington 3. mars 1973 ásamt breytingum á honum sem gerðar voru í Bonn 22. júní 1979 og viðaukum við hann, ásamt þeim fyrirvörum sem Ísland hefur gert við samninginn.Endurútflutningur: Útflutningur á sérhverju eintaki sem áður hefur verið flutt inn.Aðflutningur úr sjó: Innflutningur á eintaki af sérhverri tegund sem tekin hefur verið úr sjó utan lögsögu ríkja.Persónubundnar eigur eða heimilismunir: Eintök, hlutar og afurðir af þeim tegundum samningsins sem eru í eigu einstaklings sem eru eða er ætlað að vera hluti af venjulegum munum hans og eigum sbr. eftirfarandi;a. er eign eða borið af einstaklingi án viðskiptalegs tilgangs;
b. aflað hefur verið á löglegan hátt;
c. er þegar innflutningur, útflutningur eða endurútflutningur á sér stað;
i. borið á eða af viðkomandi einstaklingi eða er í farangri hans;
ii. hluti af búslóð viðkomandi einstaklings.Tegund:

Tegund, undirtegund eða landfræðilega aðskilið afbrigði hennar.Tegund samningsins: Tegund, undirtegund eða landfræðilega aðskilið afbrigði tegundar sem tilgreind er í I.-III. viðauka samningsins.Eintak: Sérhvert dýr eða planta, hvort sem er lifandi eða dauð og hlutar eða afurðir þeirra;


i. Fyrir dýrategundir sem tilgreindar eru í I. og II. viðauka; sérhver auðþekkjanlegur hluti dýrsins, afleiða hans eða afurð. Fyrir dýrategundir sem tilgreindar eru í III. viðauka; sérhver auðþekkjanlegur hluti dýrsins sem tilgreindur er í III. viðauka, afleiða hans eða afurð; og
ii. Fyrir plöntutegundir sem tilgreindar eru í I. og II. viðauka; sérhver auðþekkjanlegur hluti plöntunnar, afleiða hans eða afurð. Fyrir plöntutegundir sem tilgreindar eru í III. viðauka; sérhver auðþekkjanlegur hluti plöntunnar sem tilgreindur er í III. viðauka, afleiða hans eða afurð.Leyfisveitandi:

Fiskistofa.Viðskipti: Innflutningur, útflutningur, endurútflutningur og aðflutningur úr sjó á tegundum sem eru í I.-III. viðauka samningsins.Umsagnaraðili: Hafrannsóknastofnunin.Vísindalegt stjórnvald: Vísindastofnun sem tilgreind hefur verið til skrifstofu samningsins sbr. 9. gr. hans og er bær til þess að veita umsögn um innflutnings-, útflutnings- og endurútflutningsleyfi, vottorð vegna aðflutnings úr sjó, og vísindalega ráðgjöf varðandi greiningu eintaks, verndarstöðu þess, aðstæður fyrir lifandi eintak á ákvörðunarstað og önnur atriði sem verslun með eintakið getur haft áhrif á. Þær íslensku stofnanir sem tilkynntar hafa verið til skrifstofu samningsins í þessu skyni eru Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknastofnunin.


4. gr.

Leyfi og vottorð.

Innflutningur, útflutningur, endurútflutningur og aðflutningur úr sjó á eintökum þeirra tegunda sem reglugerð þessi nær til, sbr. I.-III. viðauka, er háður leyfi eða vottorði eftir því sem nánar greinir í köflum II-IV. Inn- eða útflytjandi skal leggja fram með umsókn um inn- eða útflutningsleyfi upplýsingar, sbr. fylgiskjal B.Innflutnings-, útflutnings- og endurútflutningsleyfi og vottorð um aðflutning úr sjó skulu gefin út í samræmi við reglur samningsins. Leyfi og vottorð samkvæmt reglugerð þessari skulu bera heiti samningsins, nafn og stimpil leyfisveitanda og sérstakt eftirlitsnúmer auk þess sem þau skulu innihalda upplýsingar, sbr. fylgiskjal B. Leyfi til innflutnings, útflutnings og endurútflutnings gildir í sex mánuði frá útgáfudegi, en vottorð um aðflutning úr sjó gilda í eitt ár frá útgáfudegi.Hvert afrit leyfis eða vottorðs skal vera greinilega merkt sem afrit og ekkert slíkt afrit má nota í stað frumrits, nema að því marki sem staðfest áritun á því segir til um.Sérstakt leyfi eða vottorð þarf fyrir hverja sendingu eintaka, nema í þeim tilfellum sem falla undir 13. gr.Leyfisveitandi skal ógilda og varðveita frumrit útflutningsleyfis eða endurútflutningsleyfis og samsvarandi innflutningsleyfi sem framvísað er vegna innflutnings.Þar sem við á og mögulegt er leyfisveitanda heimilt að festa merki á sérhvert eintak til auðkenningar. Merkið skal vera óafmáanlegt s.s. blýinnsigli og örmerki og hannað þannig að það fyrirbyggi að svo miklu leyti sem unnt er að óviðkomandi aðilar geti gert eftirlíkingu af því.Ávallt skal setja leyfi og vottorði þau skilyrði að lifandi einstaklingar sem fluttir eru eða eru í geymslu meðan á milliflutningi eða umfermingu stendur, skuli undirbúa, flytja og annast á þann hátt að sem minnst hætta sé á meiðslum, heilsutjóni eða illri meðferð sbr. reglur alþjóða flugmálasamtakanna IATA, um flutning á lifandi dýrum (Life animals regulation).Tekið skal gjald fyrir útgáfu leyfa á grundvelli þessarar reglugerðar í samræmi við gjaldskrá sem birt skal í B-deild Stjórnartíðinda og skal gjaldið miðast við þann kostnað sem hlýst af meðferð, afgreiðslu og útgáfu leyfis.


5. gr.

Fyrirvarar.

Fara skal með verslun með tegundir sem skráðar eru í I. viðauka og Ísland hefur gert fyrirvara við, sbr. 23. gr. samningsins eða mótmælt sbr. 15. gr. samningsins, sbr. fylgiskjal A, eins og tegund sé skráð í II. viðauka.Fara skal með verslun með tegundir sem skráðar eru í II. eða III. viðauka og Ísland hefur gert fyrirvara við sbr. 23. gr. samningsins eða mótmælt sbr. 15. gr. samningsins, sbr. fylgiskjal A, eins og viðkomandi tegund sé ekki skráð í viðauka samningsins.


II. KAFLI

Innflutningur.

6. gr.

Innflutningsleyfi.

Ávallt skal sækja um innflutningsleyfi fyrir eintök af tegundum sem tilgreindar eru í I. viðauka samningsins áður en til innflutnings kemur.


7. gr.

I. viðauki.

Leyfi til innflutnings á eintökum þeirra tegunda sem taldar eru upp í I. viðauka skal aðeins gefa út að eftirfarandi skilyrðum hafi verið fullnægt:


1. Sótt hafi verið um útflutningsleyfi eða endurútflutningsleyfi í útflutningslandinu.
2. Fyrir liggi umsögn vísindalegs stjórnvalds hér á landi um að innflutningur muni ekki stefna viðkomandi tegund í útrýmingarhættu, fyrirhugaður viðtakandi lifandi eintaks hafi viðeigandi aðbúnað til þess að hýsa viðkomandi tegund og ekki séu aðrar ástæður varðandi verndun tegundarinnar sem mæla gegn útgáfu innflutningsleyfisins.
3. Ekkert bendi til þess að nota eigi eintakið fyrst og fremst í viðskiptalegum tilgangi.


8. gr.

II. viðauki.

Innflutningur á eintökum þeirra tegunda sem taldar eru upp í II. viðauka er aðeins heimill ef framvísað er útflutningsleyfi eða endurútflutningsvottorði.


9. gr.

III. viðauki.

Innflutningur á eintökum þeirra tegunda sem taldar eru upp í III. viðauka er aðeins heimill ef framvísað er upprunavottorði. Innflutningur frá ríki sem hefur tilgreint viðkomandi tegund í III. viðauka er aðeins heimill ef framvísað er útflutningsleyfi. Þegar um endurútflutning er að ræða er innflutningur heimill gegn framvísun vottorðs frá endurútflutningslandinu um að eintakið hafi verið skráð þar í landi eða sé endurútflutt. Slíkt vottorð gildir sem viðurkenning þess að ákvæðum samningsins hafi verið fylgt varðandi viðkomandi eintak.


III. KAFLI

Útflutningur og endurútflutningur.

10. gr.

I. viðauki.

Leyfi til útflutnings á eintökum þeirra tegunda sem taldar eru upp í I. viðauka og Ísland hefur ekki gert fyrirvara við skal því aðeins gefa út að eftirfarandi skilyrðum hafi verið fullnægt:


1. Veitt hafi verið innflutningsleyfi í innflutningslandi.
2. Fyrir liggi umsögn viðeigandi vísindalegs stjórnvalds um að útflutningur muni ekki stefna viðkomandi tegund í útrýmingarhættu.
3. Eintaksins hafi verið aflað samkvæmt gildandi reglum um verndun þeirrar tegundar sem um ræðir.
4. Gögn liggi fyrir um að aðbúnaður og flutningur á lifandi eintökum verði með þeim hætti að sem minnst hætta verði á meiðslum, heilsutjóni eða illri meðferð; og
5. Ekki sé um aðra þætti að ræða sem varða verndun tegundarinnar sem mæla gegn útgáfu útflutningsleyfisins.


11. gr.

II. viðauki.

Leyfi til útflutnings á eintökum þeirra tegunda sem taldar eru upp í II. viðauka og Ísland hefur ekki gert fyrirvara við skal því aðeins gefa út að eftirfarandi skilyrðum hafi verið fullnægt:


1. Sótt hafi verið um innflutningsleyfi í innflutningslandi, ef útflutningurinn er til lands sem gerir slíka kröfu í samræmi við 14. gr. samningsins.
2. Fyrir liggi umsögn viðeigandi vísindalegs stjórnvalds um að útflutningur muni ekki stefna viðkomandi tegund í útrýmingarhættu.
3. Leyfisveitandi hafi fullvissað sig, í samráði við umsagnaraðila eftir því sem við á, að eintakið hafi ekki verið tekið í blóra við lög um verndun þeirrar tegundar sem um ræðir.
4. Gögn liggi fyrir um að aðbúnaður og flutningur á lifandi eintökum verði með þeim hætti að sem minnst hætta verði á meiðslum, heilsutjóni eða illri meðferð.Fiskistofa skal reglulega senda umsagnaraðila og vísindalegu stjórnvaldi upplýsingar um útgefin útflutningsleyfi vegna eintaka af tegund í II. viðauka. Tollayfirvöld skulu jafnframt senda Fiskistofu og umsagnaraðilum reglulega upplýsingar um útflutning slíkra eintaka. Telji vísindalegt stjórnvald að takmarka beri útflutning á eintökum ákveðinnar tegundar til þess að viðhalda tegundinni á útbreiðslusvæði hennar, í samræmi við hlutverk hennar í þeim vistkerfum sem hún tilheyrir, og vel yfir þeim mörkum þar sem komið gæti til álita að fella hana undir I. viðauka, skal vísindalega stjórnvaldið vinna tillögur og tilmæli til Fiskistofu varðandi aðgerðir til þess að takmarka veitingu leyfa til útflutnings á eintökum af þeirri tegund.Leyfi til endurútflutnings má aðeins gefa út hafi eintakið verið flutt inn til landsins í samræmi við ákvæði samningsins og gögn liggi fyrir um að aðbúnaður og flutningur á lifandi eintökum verði með þeim hætti að sem minnst hætta verði á meiðslum, heilsutjóni eða illri meðferð.


12. gr.

III. viðauki.

Fyrir eintök þeirra tegunda sem Ísland hefur tilgreint í III. viðauka samningsins skal sækja um útflutningsleyfi. Leyfið má aðeins gefa út þegar fullnægt hefur verið eftirfarandi skilyrðum:


1. Eintakið hafi verið tekið í samræmi við gildandi reglur um verndun þeirrar tegundar sem um ræðir.
2. Gögn liggi fyrir um að aðbúnaður og flutningur á lifandi eintökum verði með þeim hætti að sem minnst hætta verði á meiðslum, heilsutjóni eða illri meðferð.Þegar um endurútflutning er að ræða skal vottorð, sem umsjónarstjórnvald upprunalands eða endurútflutningslandsins gefur um að eintakið hafi verið skráð í því landi eða sé endurútflutt, viðurkennt af innflutningslandinu sem sönnun þess að ákvæðum þessa samnings hafi verið fylgt með tilliti til þess eintaks sem í hlut á.


IV. KAFLI

Aðflutningur úr sjó.

13. gr.

Vottorð.

Heimilt er að veita vottorð um aðflutning úr sjó fyrir tiltekinn fjölda eintaka eða magn tegundar sem gildir í allt að eitt ár.


14. gr.

I. viðauki.

Vottorð um aðflutning úr sjó á eintökum þeirra tegunda sem taldar eru upp í I. viðauka og Ísland hefur ekki gert fyrirvara við má aðeins gefa út hafi eftirfarandi skilyrðum um innflutning verið fullnægt:


1. Fyrir liggi umsögn vísindalegs stjórnvalds hér á landi um að innflutningur muni ekki stefna tegundinni sem í hlut á í útrýmingarhættu.
2. Fyrirhugaður viðtakandi lifandi eintaks hafi viðeigandi útbúnað til þess að hýsa og sjá um það.
3. Ekki standi til að nota eintakið fyrst og fremst í viðskiptalegum tilgangi.


15. gr.

II. viðauki.

Vottorð um aðflutning úr sjó á eintökum þeirra tegunda sem taldar eru upp í II. viðauka og Ísland hefur ekki gert fyrirvara við, má aðeins gefa út eftir að fyrir liggur umsögn vísindalegs stjórnvalds hér á landi um að innflutningur muni ekki stefna tegundinni sem við á í útrýmingarhættu. Jafnframt skal setja aðflutningi þau skilyrði að sérhvert lifandi eintak verið meðhöndlað þannig að sem minnst hætta verði á meiðslum, heilsutjóni eða illri meðferð.


V. KAFLI

Undantekningar.

16. gr.

Persónubundnir munir.

Ákvæði II.-IV. kafla gilda ekki um dauð eintök, hluta og afurðir tegunda, sem taldar eru í I. og II. viðauka, sem teljast persónubundar eigur eða heimilismunir sem aflað hefur verið í því landi sem eigandinn hefur búsetu og fluttir eru inn, út eða endurútfluttir. Undanþága þessi á þó ekki við:


1. Í þeim tilvikum þegar eintaka tegundar sem tilgreind er í I. viðauka var aflað af eigandanum utan þess lands sem hann hefur venjulega búsetu í og þau eru flutt inn til þess lands; eða
2. Þegar um er að ræða eintök af tegundum sem tilgreindar eru í II. viðauka:
a. eigandinn hefur aflað þeirra utan þess lands sem hann hefur venjulega búsetu í og í landi þar sem brottflutningur úr náttúrulegu umhverfi átti sér stað;
b. þau eru flutt inn til þess lands sem eigandinn hefur venjulega búsetu í; og
c. landið þar sem brottflutningur úr náttúrulegu umhverfi átti sér stað krefst þess að útflutningsleyfi séu gefin út áður en útflutningur slíkra eintaka fer fram.Ekki þarf innflutnings-, útflutnings- eða endurútflutningsleyfi fyrir dauð eintök, hluta eða afurðir neðangreindra tegunda sem teljast persónulegar eigur eða heimilismunir, ef um er að ræða eftirfarandi eintök:1. styrjukavíar (tegundir af ættbálki Acipenseriformes), að hámarki 250 grömm á mann;
2. hristur (rainsticks) úr afurðum af ætt Cactaceae, að hámarki þrjár á mann;
3. krókódílar, að hámarki fjögur eintök á mann;
4. skeljar af tegundinni Queen conch (Strombus gigas), að hámarki þrjú eintök á mann.


17. gr.

Undanþágur.

Ákvæði II.-IV. kafla gilda ekki um flutning eða umskipun eintaka í eða gegnum lögsögu Íslands á meðan eintökin eru í vörslu tollyfirvalda.Ákvæði II.-IV. kafla gilda ekki um eintök sem aflað hefur verið áður en ákvæði samningsins tóku gildi hvað varðar viðkomandi tegund eða eintak.Fara skal með eintök dýrategunda, sem tilgreindar eru í I. viðauka og alin í vörslu manna í viðskiptaskyni og eintök plöntutegunda sem tilgreindar eru í I. viðauka og hefur verið fjölgað á tæknilegan hátt, samkvæmt ákvæðum þeim sem við eiga um einstaklinga tegunda sem taldar eru upp í II. viðauka.Leyfa, sem fjallað er um í II.-IV. kafla, skal ekki krafist þegar um er að ræða lán sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, gjafir og skipti milli vísindamanna og viðurkenndra vísindastofnana sem skráðar hafa verið á lista samningsins yfir vísindamenn og vísindastofnanir, plöntueintök í grasasöfnum og önnur varðveitt, þurrkuð eða uppsett safneintök og lifandi efni plantna sem bera merki sem gefið er út eða viðurkennt af leyfisveitanda.Leyfisveitandi getur heimilað flutning eintaka sem um getur í 2. og 4. mgr. þessarar greinar og eru hluti af ferðadýragarði, fjölleikahúsi, dýra- eða plöntusýningu eða annarri farandsýningu án leyfa eða vottorða gegn því að viðkomandi útflytjandi eða innflytjandi skrái allar upplýsingar um eintökin hjá leyfisveitanda og sérhvert lifandi eintak verði flutt og meðhöndlað þannig að sem minnst hætta verði á meiðslum, heilsutjóni eða illri meðferð.


VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

18. gr.

Tollstöðvar.

Innflutningur og útflutningur á lifandi dýrum og plöntum hér á landi skal fara í gegnum tollstöðina á Keflavíkurflugvelli eða um eftirfarandi hafnir: Reykjavíkurhöfn, Keflavíkurhöfn, Hafnarfjarðarhöfn, Akureyrarhöfn eða Seyðisfjarðarhöfn.Sérhverju eintaki tegundar sem tilgreind er í viðaukum samningsins skal fylgja vottorð/leyfi. Við innflutning eintaks skulu tollverðir halda eftir frumriti vottorðs/leyfis og koma því til Fiskistofu. Þegar eintök eru flutt út skal varan tollskoðuð og kvittað á vottorð/leyfi.Allar tollstöðvar sem settar eru á stofn skv. 1. mgr. skulu hafa yfir að ráða nægilega fjölmennu og hæfu starfsliði. Tryggja skal að fyrir hendi sé aðstaða sem samræmist lögum um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, nr. 85/2000, lögum um dýravernd og reglugerð þessari hvað varðar flutning og aðstöðu lifandi dýra og að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar fyrir lifandi plöntur, þar sem þörf krefur.Tryggja skal að almenningi séu kynnt framkvæmdaákvæði reglugerðar þessarar á tollstöðvum.


19. gr.

Þvingunarúrræði.

Leyfisveitanda er heimilt að gera upptæk til ríkissjóðs eintök dýra eða plantna og afurða þeirra sem hafa verið flutt eða reynt hefur verið að flytja ólöglega inn eða á annan hátt verið farið með andstætt ákvæðum reglugerðar þessarar, án tillits til þess hver er eigandi þeirra eða til eignarhafta sem á þeim hvíla. Leita skal aðstoðar lögreglu eftir því sem þörf er á við framkvæmd þessa ákvæðis.Lifandi eintök sem gerð eru upptæk skulu endursend til upprunastaðar eða komið fyrir í viðurkenndum almenningsdýragarði, og ber eigandi þeirra kostnaðinn.


20. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Tilraun til brota gegn reglugerð þessari varðar refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um hlutdeild í brotum.Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Nú er brot framið í starfsemi lögaðila og verður honum þá gerð fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga. Einnig er lögaðili ábyrgur fyrir greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda sé brot framið í starfi hans hjá lögaðilanum.


21. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 4. gr. laga um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, nr. 85/2000, öðlast þegar gildi.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 12. september 2005.


Árni M. Mathiesen.
Vilhjálmur Egilsson.


CITES viðaukarnir eru hér prentaðir í heild. Tegundir sem falla undir þessa reglugerð eru merktar með undirstrikun, aðrar tegundir í viðaukunum skal fara með samkvæmt reglugerð umhverfisráðuneytis nr. 993/2004.


VIÐAUKAR I, II og III

Skýringar.


1. Til tegunda sem tilgreindar eru í þessum viðaukum er vísað sem hér segir:
a) með heiti viðkomandi tegundar; eða
b) sem allra þeirra tegunda sem tilheyra stærri flokkunareiningu eða tilgreindum hluta hennar.
2. Skammstöfunin „spp.“ táknar allar tegundir í flokkunareiningu sem er ofar tegund.
3. Tilvitnanir í flokkunareiningar ofar tegund eru einungis til fróðleiks og veita upplýsingar um stöðu viðkomandi lífveru eða lífvera í flokkunarkerfinu. Almenn heiti tilgreind á eftir vísindalegu heiti tegunda eru eingöngu til upplýsingar.
4. Eftirfarandi skammstafanir eru hafðar um þær flokkunareiningar plantna sem eru smærri en tegund:
a) „ssp.“ táknar undirtegund og
b) „var(s).“ táknar afbrigði.
5. Þar sem engar þeirra tegunda eða stærri flokkunareininga í plönturíkinu í I. viðauka eru merktar þannig að farið skuli með blendinga þeirra samkvæmt ákvæðum 3. gr. samningsins þýðir það að versla má með blendinga einnar eða fleiri þessara tegunda eða stærri flokkunareininga sem fjölgað er við tilbúnar aðstæður ef vottorð liggur fyrir um að um fjölgun við tilbúnar aðstæður sé að ræða, og að fræ þessara blendinga og frjókorn (þar á meðal frjókekkir), afskorin blóm, ungplöntur eða vefjarækt sem fengin er með ræktun í glasi (in vitro), í föstu efni eða vökva, og flutt eru í dauðhreinsuðum ílátum heyra ekki undir ákvæði samningsins.
6. Land sem tilgreint er í III. viðauka á eftir tegundarheiti á við það land sem tilnefndi viðkomandi tegund í viðaukann.
7. Í samræmi við iii-lið b-liðar 1. gr. samningsins merkir táknið (#) sem stendur ásamt tölu við heiti tegundar eða stærri flokkunareiningar sem tilgreind er í II. viðauka hluta lífveru eða afurðir hennar sem tilgreindar eru í tengslum við umrædda tegund að því er samninginn varðar sem hér segir:
#1 Táknar alla plöntuhluta og afurðir af þeim nema:
a) fræ, gró og frjókorn (þar á meðal frjókekki);
b) ungplöntur eða vefjarækt sem fengin er með ræktun í glasi (in vitro), í föstu efni eða vökva, flutt í dauðhreinsuðum ílátum; og
c) afskorin blóm af plöntum sem fjölgað er við tilbúnar aðstæður.
#2 Táknar alla plöntuhluta og afurðir af þeim nema:
a) fræ og frjókorn;
b) ungplöntur eða vefjarækt sem fengin er með ræktun í glasi (in vitro), í föstu efni eða vökva, flutt í dauðhreinsuðum ílátum;
c) afskorin blóm af plöntum sem fjölgað er við tilbúnar aðstæður; og
d) efnaafleiður og lyf.
#3 Táknar heilar eða sneiddar rætur og rótarhluta nema framleiðslu eða afurðir á borð við duft, töflur, seyði, heilsudrykki, te og sælgæti.
#4 Táknar alla plöntuhluta og afurðir af þeim nema:
a) fræ, nema fræ mexíkóskra kaktusa sem upprunnir eru í Mexíkó, og frjókorn;
b) ungplöntur eða vefjarækt sem fengin er með ræktun í glasi (in vitro), í föstu efni eða vökva, flutt í dauðhreinsuðum ílátum;
c) afskorin blóm af plöntum sem fjölgað er við tilbúnar aðstæður;
d) ávexti og hluta þeirra og afurðir af þeim sem eru af náttúrulegum plöntum eða plöntum sem fjölgað er við tilbúnar aðstæður; og
e) aðskilda stöngulliði (þófa) og plöntuhluta og afurðir af þeim sem eru af náttúrulegum plöntum eða plöntum af ættkvíslinni Opuntia og undirættkvíslinni Opuntia sem fjölgað er við tilbúnar aðstæður.
#5 Táknar trjáboli, sagaðan við og viðarspón.
#6 Táknar trjáboli, sagaðan við, viðarspón og krossvið.
#7 Táknar trjáboli, viðarspæni og óunnið kurlað efni.
#8 Táknar alla plöntuhluta og afurðir af þeim nema:
a) fræ og frjókorn (þar á meðal frjókekki);
b) ungplöntur eða vefjarækt sem fengin er með ræktun í glasi (in vitro), í föstu efni eða vökva, flutt í dauðhreinsuðum ílátum;
c) afskorin blóm af plöntum sem fjölgað er við tilbúnar aðstæður; og
d) ávexti og hluta þeirra og afurðir af þeim sem eru af plöntum af ættkvíslinni Vanilla sem fjölgað er við tilbúnar aðstæður
#9 Táknar alla plöntuhluta og afurðir af þeim nema þá sem eru merktir „Framleitt úr efni úr Hoodia spp sem fengið er úr skipulagðri ræktun og framleiðslu sem stjórnað er í samvinnu við CITES stjórnvöld í Botswana/Namibíu/Suður Afríku samkvæmt samningi no BW/NA/ZA xxxxx“ og
#10 Táknar alla plöntuhluta og afurðir af þeim nema:
a) fræ og frjókorn;
b) fullunninn lyf.

Fylgiskjal A.
Fyrirvarar Íslands við samninginn.


Ísland gerði eftirfarandi fyrirvara við tegundir í viðaukum samningsins þegar samningurinn var fullgiltur árið 2000.

Samkvæmt a-lið 2. tölul. 23. gr. samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu eru gerðir fyrirvarar að því er eftirfarandi tegundir í I. og II. viðauka varðar:

Steypireyður (Balaenoptera musculus) í I. viðauka.

Langreyður (Balaenoptera physalus) í I. viðauka.

Sandreyður (Balaenoptera borealis) í I. viðauka.

Hnúfubakur (Megaptera novaengliae) í I. viðauka.

Búrhvalur (Physeter macrocephalus/(catodon)) í I. viðauka.

Andanefja (Hyperoodon ampullatus) í I. viðauka.

Hrefna/Hrafnreyður (Balaenoptera acutorostrata), Vestur-Grænlandsstofn skráður í II. viðauka, aðrir stofnar skráðir í I. viðauka.

Suðurskauta hrefna (Balaenoptera bonaerensis) í I. viðauka.

Marsvín/Grindhvalur (Globicephala melas) í II. viðauka.

Háhyrningur (Orcinus orca) í II. viðauka.

Hnýðingur (Lagenorhyncus albirostris) í II. viðauka.

Leiftur (Lagenorhyncus acutus) í II. viðauka.

Hnísa (Phocoena phocoena) í II. viðauka.

Höfrungur/Léttir (Delphinus delphis) í II. viðauka.

Stökkull (Tursiops truncatus) í II. viðauka.

Hvalháfur (Rhincodon typus) í II. viðauka.

Barði (Cetorhinus maximus) í II. viðauka.

Hvítur hákarl (Carcharodon carcharias) í II.viðauka.


Fylgiskjal B.

Upplýsingar sem tilgreina skal í leyfi sbr. 3. mgr. 4. gr.


1. Innflytjandi, nafn og heimilisfang.
2. Innflutningsland.
3. Útflytjandi, nafn og heimilisfang.
4. Sérstakar aðstæður, ef um þær er að ræða, t.d. um aðbúnað og meðferð lifandi dýra.
5. Tilgangur viðskiptanna.
6. Tegundir - vísindaheiti og almennt heiti dýrs eða plöntu.
7. Lýsing á eintaki.
8. Viðaukanr. og uppruni.
9. Magn/fjöldi - einingar meðtaldar.
10. Upprunaland, útflutningsvottorð og leyfisnúmer.
11. Útflutningsland/endurútflutningur.
12. Dagsetning leyfis.Þetta vefsvæði byggir á Eplica