Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

810/2003

Reglugerð um sólarlampa.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um alla notkun sólarlampa jafnt í fegrunarskyni og í lækningaskyni.

2. gr.

Í þessari reglugerð gilda eftirfarandi skilgreiningar:
Geislagjafi: Sá hluti sólarlampa, þar sem útfjólubláir geislar eru framleiddir.

Sólarlampi: Tæki, sem framleiðir útfjólubláa geisla til geislunar á fólk.

UV-flokkun sólarlampa: Sólarlampar eru flokkaðir í fjóra flokka, UV-1, UV-2, UV-3 og UV-4 eftir magni og eiginleikum útfjólublárrar geislunar eins og nánar er skilgreint í íslenskum staðli ÍST EN 60335 - 2 – 27:1997 Öryggi heimilistækja og ámóta raftækja - 2. hluti: Sérstakar kröfur vegna tækja til að meðhöndla húð með útfjólubláum eða innrauðum geislum.

Útfjólublá geislun, UV geislun: Ójónandi geislun sem samanstendur af rafsegulbylgjum með bylgjulengd 100-400 nm (1 nm = 10-9 m).

II. KAFLI Almennar reglur.

3. gr.

Sólarlampar sem notaðir eru á Íslandi skulu uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar. Öryggiskröfur sem ekki er fjallað um í þessari reglugerð og varða geislavarnir skulu einnig vera uppfylltar eins og þær eru tilgreindar í staðli ÍST EN 60335 - 2 – 27:1997, Öryggi heimilistækja og ámóta raftækja - 2. hluti: Sérstakar kröfur vegna tækja til að meðhöndla húð með útfjólubláum eða innrauðum geislum.

4. gr.

Í sólarlömpum er aðeins heimilt að nota geislagjafa (perur og andlitsljós) í samræmi við UV-flokkun sólarlampans þannig að UV-flokkun sólarlampans haldist óbreytt.

5. gr.

Með hverjum sólarlampa skulu fylgja hlífðargleraugu sem uppfylla viðeigandi kröfur samkvæmt staðli ÍST EN 60335 - 2 – 27:1997. Á sólbaðsstofum eða annars staðar þar sem sólarlampar eru notaðir skulu hlífðargleraugu til verndar augum vera til staðar fyrir hvern viðskiptavin eða sjúkling.

6. gr.

Með hverjum sólarlampa skulu fylgja notkunarreglur og leiðbeiningar á íslensku, þar sem fram koma upplýsingar um ráðlagða lengd og tíðni sólbaða. Einnig skulu fylgja upplýsingar um viðhald á sólarlampanum þar sem fram kemur m.a. að aðeins skuli nota viðeigandi geislagjafa (perur).

Leiðbeiningar Geislavarna ríkisins um útfjólubláa geislun og sólarlampa, sem eru í viðauka l með reglugerð þessari, skulu fylgja hverjum lampa. Einnig skal umsögn landlæknisembættisins varðandi sólbekki og ljósalampa, sem eru í viðauka 2 með reglugerð þessari fylgja. Viðaukar 1 og 2 skulu birtir orðréttir með hverjum sólbekk og ljósalampa.

7. gr.

Á hverjum sólarlampa skulu, á áberandi stað, vera eftirfarandi upplýsingar á íslensku: "Aðvörun: Útfjólublá geislun getur valdið skaða á augum og húð. Hún getur flýtt öldrun húðar og leitt til húðkrabbameins. Notið ætíð hlífðargleraugu. Sum lyf og snyrtivörur geta valdið auknu næmi fyrir útfjólubláum geislum og því valdið bruna í húð. Ef lyf eru notuð er ráðlegt að hafa samráð við lækni áður en farið er í ljós. Lesið vandlega notkunarreglur og "Leiðbeiningar um útfjólubláa geislun og sólarlampa.""

8. gr.

Á hverjum sólarlampa skal vera merking þar sem fram kemur UV-flokkur sólarlampans, t.d. "UV-flokkur 3" ef sólarlampinn með viðeigandi perum er í UV-flokki 3.

Sólarlampar í UV-flokki 4 skulu að auki merktir með eftirfarandi: "Aðvörun – Notist aðeins að læknisráði".

Sólarlampar með birtu flatar meiri en 100 000 cd/m2 skulu merktir með eftirfarandi: "Aðvörun – Mjög sterk birta. Horfið ekki í ljósið".

9. gr.

Á hverjum sólarlampa skal vera tímarofi sem stöðvar geislun á útfjólubláu ljósi eftir innstilltan tíma og er með lengstu stillingu: 60 mínútur fyrir ljósalampa í UV-flokki 1, UV-flokki 2 og UV-flokki 3 en 30 mínútur fyrir ljósalampa í UV-flokki 4.

III. KAFLI Sólarlampar sem notaðir eru í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum.

10. gr.

Notkun sólarlampa, í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, er háð leyfi Geislavarna ríkisins nema um sé að ræða sólarlampa í flokki UV-3. Á sólbaðsstofum eða annars staðar þar sem gjald er tekið fyrir afnot af sólarlampa í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, er eingöngu heimilt að nota sólarlampa í flokknum UV-3.

11. gr.

Sá sem selur eða veitir öðrum aðgang að sólarlampa í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum skal geta lagt fram leyfisbréf frá Geislavörnum ríkisins, sbr. 10. gr. eða fullnægjandi gögn sem staðfesta að sólarlampinn með þeim geislagjafa sem í honum er sé í flokki UV-3 sé þess óskað.

IV. KAFLI Sólarlampar sem notaðir eru í læknisfræðilegum tilgangi.

12. gr.

Notkun sólarlampa í læknisfræðilegum tilgangi, annars staðar en þar sem húðlæknir ber ábyrgð á notkuninni, er háð leyfi frá Geislavörnum ríkisins. Undanþegin þessu er einkanotkun á heimili samkvæmt skriflegum ráðleggingum húðlæknis.

13. gr.

Þess skal gætt að geislun á sjúklinga, sérstaklega augu, sé eins lítil og unnt er að teknu tilliti til markmiðs geislunar og með skynsamlegu tilliti til aðstæðna. Í því skyni skal koma upp virku gæðaeftirliti. Það skal vera í samræmi við umfang starfseminnar og ná jafnt til notkunar sólarlampanna og vinnuaðferða. Geislunarmælingar í því skyni að tryggja réttan geislaskammt UV-geislunar skulu gerðar reglulega. Niðurstöður gæðaeftirlits skulu skjalfestar.

V. KAFLI Eftirlit og viðurlög.

14. gr.

Eigendur sólarlampa bera ábyrgð á því að ákvæði þessarar reglugerðar séu uppfyllt.

15. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða fésektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum sbr. 22. gr. laga nr. 44/2002 um geislavarnir.

Um mál sem rísa kunna út af brotum á reglugerð þessari fer að hætti opinberra mála.

VI. KAFLI Gildistaka.

16. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. mgr. 9. gr. og 21. gr. laga nr. 44/2002 um geislavarnir, öðlast þegar gildi.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um innflutning á geislatækjum, er framleiða útfjólubláa geisla, nr. 517/1993.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 20. október 2003.

Jón Kristjánsson.

Davíð Á. Gunnarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.