Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Breytingareglugerð

809/2022

Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 54/2003 um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð.

1. gr.

7. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Fiskistofa hefur eftirlit með framkvæmd mælinga skv. reglugerð þessari.

Skipstjóri skips sem vinnur afla um borð skal a.m.k. 12 klukkustundum áður skip leggst að bryggju tilkynna Fiskistofu um löndunarhöfn, löndunardag, fyrirhugaðan löndunartíma og um áætlað magn hverrar afurðar. Tilkynna þarf til Fiskistofu um allar breytingar á framangreindum upplýsingum. Áður en skip leggst að bryggju skal skipstjóri tilkynna viðkomandi löndunarhöfn á því formi sem Fiskistofa ákveður, um áætlaðan fjölda eininga t.d. kassa og/eða pakkninga sem landað er af hverri afurð og þunga umbúða hverrar einingar. Í tilkynningunni skal einnig geta þess hvort einstakar afurðir, aðrar en millilögð flök, eru íshúðaðar sérstaklega. Þessar upplýsingar skal skipstjóri einnig senda Fiskistofu ásamt upplýsingum um nýtingarmælingar í viðkomandi veiðiferð áður en skip leggst að bryggju. Tilgreina skal þá daga sem vinnsla skv. 1. gr. er ekki í gangi. Ef einungis hluta aflans verður landað skal það koma fram í tilkynningum, sbr. þessa mgr. Enn fremur komi fram hvaða afurðum verði landað, hvenær þær voru framleiddar og viðeigandi nýtingarmælingar. Einungis er heimilt að landa hluta af tiltekinni afurð skips sem vinnur afla um borð, ef allri framleiðslu viðkomandi vinnsludaga er landað, ásamt tilheyrandi nýtingarsýnum.

Fiskistofa getur ákveðið með hvaða hætti tilkynningar og upplýsingar skuli sendar og er óheimilt að senda tilkynningar og upplýsingar með öðrum hætti en Fiskistofa hefur ákveðið. Berist tilkynningar og upplýsingar, sbr. þessa grein, ekki innan tilskilins frests, eða með röngum upplýsingum um löndunarhöfn, löndunardag eða löndunartíma þannig að ekki reynist unnt að viðhafa eftirlit skulu afurðir skips reiknast til afla samkvæmt grunnstuðlum sem ákveðnir eru af ráðuneytinu.

2. gr.

1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 7. gr. laga nr. 54/1992, um vinnslu afla um borð í skipum, ákvæðum VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og ákvæðum IV. kafla laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

3. gr.

1. málsl. 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. og 3. gr. laga nr. 54/1992, um vinnslu afla um borð í skipum, 30. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og 16. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, til að öðlast gildi 15. febrúar 2003 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. og 3. gr. laga nr. 54/1992, um vinnslu afla um borð í skipum, 30. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og 16. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Matvælaráðuneytinu, 22. júní 2022.

F. h. r.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.

Guðmundur Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.