Fjármálaráðuneyti

807/2010

Reglugerð um einkennisbúninga, merki tollgæslunnar o.fl.

I. KAFLI

Gildissvið og skýringar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um einkennisbúninga, einkennismerki, einkennismerkingar og löggæsluskilríki tollgæslunnar. Einkennisbúninga, merki og löggæsluskilríki tollgæslunnar er einungis heimilt að nota í þágu tollstarfseminnar, sbr. þó 21. gr.

Með einkennisbúningum tollgæslunnar er í reglugerðinni átt við þann einkennda fatnað sem tollstjóri hefur samþykkt til notkunar hjá tollgæslunni.

Með einkennismerkjum tollgæslunnar er átt við tollmerki, tollgæslufána, tollskjöld, armmerki, húfumerki, merkingarnar "TOLLGÆSLAN" og "CUSTOMS", einkennishnappa og stöðueinkenni.

Með löggæsluskilríkjum tollgæslunnar er átt við skilríki tollvarða, tollstjóra, aðstoðar­tollstjóra og löglærðra fulltrúa hans til sönnunar á því að þeir séu handhafar tollgæslu­valds.

II. KAFLI

Einkennismerki tollgæslunnar.

2. gr.

Tollmerkið.

Tollmerkið, einkennismerki tollyfirvalda, skal vera myndað úr bókstafnum T og skjaldarmerki Íslands, felldu yfir legg bókstafsins þannig að einungis sjáist efsti og neðsti hluti hans.

Þegar tollmerkið er prentað í lit skal bókstafurinn T vera grár og skjaldarmerkið í tilskildum litum, sjá mynd. Tollmerkið úr málmi skal vera gyllt. Þegar tollmerkið er ísaumað skal bókstafurinn vera gylltur og skjaldarmerkið í tilskildum litum.

Tollmerki

3. gr.

Tollgæslufáni.

Tollgæslufáninn er tjúgufáni með silfurlitu upphafstéi (T) í efra stangarreit miðjum, sjá mynd.

Tollgæslufáni

4. gr.

Tollskjöldur.

Tollskjöldurinn er sporöskjulaga úr gylltri málmblöndu með tollmerkinu í miðju á svörtum kringlóttum fleti. Á skildinum er upphleypt skreyting sem táknar á íslenskt stuðlaberg. Á skildinum eru áletranirnar "TOLLGÆSLAN," "CUSTOMS" OG "DOUANES" ásamt einkennisnúmeri handhafa skjaldarins, sjá mynd.

Tollskjöldur

5. gr.

Armmerki.

Armmerki skal vera skjaldlaga, bogadregið að neðan, úr svörtu klæði, 8 sm á hæð og 6,8 sm í þvermál. Á því skal vera tollmerkið, ísaumað, 3,5 sm á hæð. Utan um tollmerkið skal vera ísaumuð með gylltum þræði 1 mm breið rönd og önnur rönd, 2 mm breið, skal vera 2 mm frá jaðri armmerkisins. Í bilinu á milli randanna, sem skal vera 1 sm að breidd, skal vera ísaumað með gylltum þræði fyrir ofan tollmerkið orðið "TOLLGÆSLAN" með stafagerðinni Arial, 7 mm á hæð, og orðið "CUSTOMS" með sama letri í boganum fyrir neðan.

6. gr.

Húfumerki.

Húfumerki á einkennishúfu 1 skal vera tollmerkið úr gylltum málmi, 2,5 sm á hæð, á 5 sm háum skjaldlaga grunni úr svörtu klæði.

Húfumerki á einkennishúfu 2 skal vera ísaumað tollmerki, 4,5 sm á hæð og 4,0 sm í þvermál. Fyrir neðan tollmerkið skal áletrunin "TOLLGÆSLAN" vera ísaumað. Húfa 2 skal bera ísaumaða áletrunina "CUSTOMS" að aftan. Húfa 3 skal vera ómerkt.

7. gr.

Merkingarnar "TOLLGÆSLAN" og "CUSTOMS".

Merkingarnar "TOLLGÆSLAN" og "CUSTOMS", með stafagerðinni Arial, skulu vera á einkennisfatnaði tollgæslunnar, en þó ekki á viðhafnarbúningi. Merkingar þessar skulu nánar útfærðar í verklagsreglum.

8. gr.

Einkennishnappar.

Einkennishnappar á búningum tollgæslunnar skulu vera hringlaga, úr gylltum málmi, með upphleyptri mynd af tollmerkinu. Þeir skulu annars vegar vera 16 mm í þvermál og hins vegar 22 mm í þvermál. Festing hnappanna skal vera með tvennum hætti, annars vegar saumaðir og hins vegar pressaðir (smella).

9. gr.

Stöðueinkenni.

Einkenni sem sýna starfsstig skulu vera á einkennisfatnaði tollgæslunnar.

Um stöðueinkenni fer eftir 22. gr.

10. gr.

Einkennisnúmer tollvarða.

Tollverðir, sem hafa lokið prófi frá Tollskóla ríkisins, svo og tollverðir sem stunda þar nám, skulu fá úthlutað fjögurra stafa einkennisnúmeri. Tveir fyrstu stafir númersins ráðast af byrjunarári í tollgæslunni en tveir þeir síðari segja til um röðun þeirra sem ráðnir eru á sama ári. Ef tveir eða fleiri hefja störf á sama tíma skal sá sem eldri er fá lægra númer. Tollstjóri ákveður númer annarra starfsmanna eftir því sem við á.

Einkennisnúmer sem ekki eru á skildi skulu vera ísaumuð með gylltum þræði í svartan efnisbút sem skal vera 25 mm á hæð og 47 mm í þvermál. Tölustafirnir skulu vera að gerðinni Arial, 12 mm á hæð.

III. KAFLI

Einkennisfatnaður tollgæslunnar.

11. gr.

Almenn ákvæði.

Að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um gerð, útlit, útfærslu, úthlutun og notkun einkennisfatnaðar tollgæslunnar í reglugerð þessari, skal það gert í verklagsreglum sem settar eru samkvæmt 27. gr.

Einkennisfatnaður tollgæslunnar skal henta bæði körlum og konum.

Konur sem gegna tollvarðastörfum á meðgöngutíma, skulu eiga kost á að fá skokk og síðbuxur við hæfi samkvæmt nánari ákvörðun tollstjóra.

12. gr.

Skylda til að eiga einkennisbúning tiltækan.

Þeim sem úthlutað er einkennisfatnaði samkvæmt reglugerð þessari er skylt að eiga hann tiltækan.

13. gr.

Klæðaburður.

Tollverðir skulu vera einkennisklæddir við störf, með þeirri undantekningu að samkvæmt ákvörðun eða með samþykki yfirmanns geta þeir starfað óeinkennisklæddir þegar eðli verkefnisins er slíkt að það sé æskilegt.

Tollstjóri, aðstoðartollstjóri og forstöðumaður tollasviðs geta að jafnaði verið óeinkennis­klæddir við dagleg störf, en skulu vera einkennisklæddir við sérstakar athafnir og hátíðleg tækifæri, þegar það telst vera viðeigandi.

14. gr.

Viðhafnarbúningur.

Viðhafnarbúningur tollgæslunnar (einkennisfatnaður 1) er síður, tvíhnepptur jakki með axlarsprotum og buxur úr svörtu efni, hvít skyrta, svart bindi, svartir sokkar, svartir lágir skór, hvítir hanskar og svartur, einhnepptur, regnfrakki. Einkennishúfa skal vera með uppistandandi gjörð, svörtu gljáaleðurskyggni með hökuól og kringlóttum, hvítum kolli. Á einkennishúfunni skal vera tollmerki úr málmi.

15. gr.

Almennur tollgæslufatnaður.

Almennur tollgæslufatnaður (einkennisfatnaður 2) er mittisjakki með axlarsprotum og buxur úr svörtu, slitsterku efni, skyrta og pólóbolur, samkvæmt nánari ákvörðun í verklagsreglum, svart bindi, svört peysa, svartir sokkar, svartir lágir skór og svartir hanskar. Einkennishúfa skal vera svört derhúfa úr sterku efni með merki tollgæslunnar.

16. gr.

Sérstakur vinnufatnaður.

Sérstakur vinnufatnaður tollvarða er svartur galli (einkennisfatnaður 3) sem saman­stendur af síðri úlpu og háum buxum úr slitsterku, lipru, vatns- og vindheldu efni með góðri útöndun (tex efni). Ennfremur kuldahúfa og kuldaskór.

17. gr.

Annar fatnaður og búnaður.

Tollverðir skulu, samkvæmt nánari ákvörðun tollstjóra, fá annan fatnað og búnað sem þörf er á vegna starfa þeirra, svo sem vinnusloppa, samfestinga, öryggishjálma, öryggis­skó, öryggisgleraugu, vinnuvettlinga, endurskinsvesti, stígvél og tækjabelti með tilheyr­andi búnaði.

Um einkennismerkingar á fatnað og annan búnað, sem grein þessi tekur til, skal fjallað í verklagsreglum.

18. gr.

Útvegun og úthlutun einkennisfatnaðar.

Tollstjóri skal útvega einkennisfatnað og annan nauðsynlegan búnað samkvæmt reglu­gerð þessari. Skal hann annast útboð í samráði við Ríkiskaup þegar um meiri háttar innkaup á einkennisfatnaði er að ræða.

Úthluta skal einkennisfatnaði og öðrum búnaði samkvæmt því sem ákveðið er í verklags­reglum. Haldin skal skrá yfir afhentan einkennisfatnað og annan búnað.

19. gr.

Viðhald einkennisfatnaðar.

Einkennisfatnaði sem reglugerð þessi tekur til skal vel við haldið.

Starfsmenn skulu sjálfir bera kostnað af venjulegu viðhaldi einkennisfatnaðar, en þó skal embætti tollstjóra bera kostnað af tveimur fatahreinsunum á ári og öðrum hreinsunum sem tollstjóri metur af sérstökum ástæðum að embættinu beri að greiða.

Meiriháttar tjón á einkennisfatnaði, sem rekja má til starfans, skal bætt með nýjum einkennisfatnaði.

20. gr.

Eignarheimild og skil á einkennisfatnaði við starfslok.

Einkennisfatnaður sem starfsmaður hefur fengið afhentan samkvæmt reglugerð þessari og notað lengur en í tvö ár skal teljast hans eign. Tilheyrandi einkennum og búnaði ber honum þó að skila við starfslok.

Starfsmenn sem láta af störfum eftir að hafa starfað skemur en í tvö ár skulu skila einkennisfatnaði, búnaði og einkennum, sem þeir hafa fengið afhentan vegna tollgæslu­starfs.

Heimilt er að undanþiggja skilaskyldu tiltekinn hluta einkennisfatnaðar.

21. gr.

Lán einkennisbúninga og búnaðar.

Tollstjóra er heimilt við sérstök undantekningartilvik að lána einkennisbúninga og annan búnað sem tengist starfsemi tollgæslunnar.

Tollstjóri getur samþykkt útleigu á einkennisfatnaði vegna framleiðslu kvikmynda, sjónvarps­þátta eða af sambærilegu tilefni, enda telji hann ekkert því til fyrirstöðu.

Ökutæki tollgæslunnar skulu ekki lánuð samkvæmt þessari grein en tollstjóra er heimilt að leggja til ökutæki með áhöfn vegna kvikmyndagerðar eða framleiðslu sjónvarpsþátta, ef hann svo kýs og gegn þeim skilyrðum sem hann metur nauðsynleg.

IV. KAFLI

Stöðueinkenni.

22. gr.

Tollstjóri: Axlarsprotar á jakka 1 skulu vera úr gylltu mynstruðu efni og á þeim fjórar tollstjörnur úr gylltum málmi sem myndaðar skulu úr fimmarma stjörnu, 18 mm í þvermál, með táknmynd af auga í miðju. Á hvoru kragahorni á jakka 1 skal vera gyllt skjaldarmerki Íslands úr málmi. Á smeygum sem gerðir skulu úr gylltum, ómynstruðum vefnaði skulu þessi stöðueinkenni ísaumuð með svörtum tvinna. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera fjórir borðar, 20 mm breiðir með 5 mm bili á milli. Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól úr mynstruðu efni, 14 mm breið. Ofan á skyggninu, meðfram brún þess, skulu vera ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, hvor um sig 13,5 x 2 sm sem komi saman á miðju skyggni. Á gjörð á einkennishúfu 1 skulu vera fjórir mynstraðir 7 mm breiðir borðar með 5 mm bili á milli.

Aðstoðartollstjóri: Axlarsprotar á jakka 1 skulu vera úr gylltu mynstruðu efni og á þeim þrjár tollstjörnur, sbr. 1. mgr. Á hvoru kragahorni á jakka 1 skal vera gyllt skjaldarmerki Íslands úr málmi. Á smeygum sem gerðir skulu úr gylltum, ómynstruðum vefnaði skulu þessi stöðueinkenni ísaumuð með svörtum tvinna. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera þrír borðar, 20 mm breiðir með 5 mm bili á milli. Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól úr mynstruðu efni, 14 mm breið. Ofan á skyggninu, meðfram brún þess, skulu vera ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, hvor um sig, 13,5 x 2 sm, sem komi saman á miðju skyggni. Á gjörð á einkennishúfu 1 skulu vera þrír mynstraðir 7 mm breiðir borðar með 5 mm bili á milli.

Forstöðumaður tollasviðs: Axlarsprotar á jakka 1 skulu vera úr gylltu mynstruðu efni og á þeim tvær tollstjörnur, sbr. 1. mgr. Á hvoru kragahorni á jakka 1 skal vera gyllt skjaldarmerki Íslands úr málmi. Á smeygum sem gerðir skulu úr gylltum, ómynstruðum vefnaði skulu þessi stöðueinkenni ísaumuð með svörtum tvinna. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera tveir borðar, 20 mm breiðir með 5 mm bili á milli. Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól úr mynstruðu efni, 14 mm breið. Ofan á skyggninu, meðfram brún þess, skulu vera ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, hvor um sig, 13,5 x 2 sm, sem komi saman á miðju skyggni. Á gjörð á einkennishúfu 1 skulu vera tveir mynstraðir 7 mm breiðir borðar með 5 mm bili á milli.

Yfirtollverðir: Á axlarsprotum jakka 1 skulu vera á milli gylltu borðanna þrjár fimmarma stjörnur. Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skulu vera þversum tvær einkennisrendur, 6 mm breiðar, nær axlarbrún og ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær kraga og á milli þeirra fyrir miðju þrjár fimmarma stjörnur, ísaumaðar með gylltum tvinna. Á hvoru kragahorni skal vera eitt gyllt tollmerki. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera þrír borðar, 10 mm breiðir. Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól, 14 mm breið. Ofan á skyggninu skulu ísaumaðir tveir gylltir laufborðar, 7 x 1,8 sm. Á gjörð á einkennishúfu 1 skulu vera þrír mynstraðir 7 mm breiðir borðar með 5 mm bili á milli.

Aðstoðaryfirtollverðir: Á axlarsprotum jakka 1 skulu vera á milli gylltu borðanna tvær fimmarma stjörnur. Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skulu vera þversum tvær einkennisrendur, 6 mm breiðar, nær axlarbrún og ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær kraga og á milli þeirra fyrir miðju tvær fimmarma stjörnur, ísaumaðar með gylltum tvinna. Á hvoru kragahorni skal vera eitt gyllt tollmerki. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skulu vera tveir borðar, 10 mm breiðir. Á einkennishúfu 1 og 2 skal vera gyllt ól, 14 mm breið. Fyrir ofan skyggnisól á einkennishúfu 1 skulu vera tveir mynstraðir 7 mm breiðir borðar með 5 mm bili á milli.

Aðalvarðstjórar og tollfulltrúar: Á axlarsprotum jakka 1 skal vera á milli gylltu borðanna ein fimmarma stjarna. Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skulu vera þversum tvær einkennisrendur, 6 mm breiðar, nær axlarbrún og ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær kraga og á milli þeirra fyrir miðju ein fimmarma stjarna, ísaumuð með gylltum tvinna. Á hvoru kragahorni skal vera eitt gyllt tollmerki. Á hvorri jakkaermi, ofan við ermahnappa, skal vera einn borði, 10 mm breiður.

Varðstjórar og tollsérfræðingar: Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skulu vera þversum tvær einkennisrendur, 6 mm breiðar, nær axlarbrún og ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær kraga, ísaumaðar með gylltum tvinna.

Tollverðir sem lokið hafa tollskóla: Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skal vera þversum ein einkennisrönd, 6 mm og önnur, 3 mm breið, nær kraga, ísaumaðar með gylltum tvinna.

Tollverðir sem ekki hafa lokið skóla: Á smeygum sem gerðir skulu úr svörtu efni skal vera þversum ein einkennisrönd, 3 mm breið, nær axlarbrún og önnur, 3 mm breið, nær kraga, ísaumaðar með gylltum tvinna.

V. KAFLI

Löggæsluskilríki tollgæslunnar.

23. gr.

Útgáfa löggæsluskilríkjanna.

Tollstjóri gefur út löggæsluskilríki til handa þeim sem um ræðir í 4. mgr. 1. gr. og þurfa slíkra skilríkja með vegna starfa sinna.

Á löggæsluskilríkjunum skulu vera einkennismerki tollgæslunnar og áritanirnar "Tollgæslan" og "Customs". Þar skal vera brjóstmynd af skírteinishafa og upplýsingar um nafn hans og kennitölu, stöðuheiti, einkennisnúmer, ef skilríkishafi er tollvörður, og útgáfudag skilríkisins. Þá skal skilríkið vera undirritað af tollstjóra. Að öðru leyti ákveður tollstjóri útlit löggæsluskilríkja.

24. gr.

Notkun löggæsluskilríkjanna.

Með framvísun löggæsluskilríkja gera óeinkennisklæddir handhafar tollgæsluvalds grein fyrir því að þeir séu handhafar slíks valds, ef það er nauðsynlegt við framkvæmd tollgæslustarfa.

Skulu óeinkennisklæddir handhafar tollgæsluvalds jafnan hafa löggæsluskilríkin með­ferðis við skyldustörf, enda geti þeir þurft að gera grein fyrir því að þeir séu hand­hafar tollgæsluvalds.

25. gr.

Eignarheimild og skil á löggæsluskilríkjunum við starfslok.

Löggæsluskilríki tollgæslunnar eru eign embættis tollstjóra.

Þegar starfsmenn, sem fengið hafa afhent löggæsluskilríki láta af störfum, skulu þeir skila löggæsluskilríkjum sínum.

VI. KAFLI

Einkennismerkingar tollgæslubifreiða.

26. gr.

Einkennismerkingar tollgæslubifreiða skulu vera tollmerkið, endurskinsrendur og orðið "Tollgæslan". Ákveða má að tollgæslubifreiðar séu jafnframt merktar orðinu "Customs".

Tollstjóri skal ákveða nánari útfærslu á einkennismerkingum tollgæslubifreiða.

VII. KAFLI

Verklagsreglur o.fl.

27. gr.

Tollstjóri getur sett nánari fyrirmæli um notkun einkennisbúninga tollgæslunnar.

Tollstjóri skal, að höfðu samráði við Tollvarðafélag Íslands, setja verklagsreglur um gerð og útfærslu einkennisfatnaðar, klæðaburð, þ.m.t. um leyfilega samsetningu einkennis­klæðnaðar og samræmi í klæðaburði, og úthlutun einkennisfatnaðar og búnaðar, bæði reglulega úthlutun einkennisfatnaðar og um úthlutun til þeirra sem gegna afleysinga­störfum. Þar má ákveða að úthlutun falli niður þegar tollverðir eru í launalausu leyfi eða í fæðingarorlofi.

Tollstjóri skal í verklagsreglum kveða nánar á um skilgreiningu á litum sem nota skuli í einkennismerkjum og einkennisfatnaði tollgæslunnar.

Tollstjóri getur kveðið nánar á um gerð og notkun löggæsluskilríkja tollgæslunnar.

Heimilt er að úthluta tollvörðum fatabeiðnum í stað reglubundinnar úthlutunar einkennis­fatnaðar ef þeir þurfa, samkvæmt ákvörðun yfirmanns, að vinna óeinkennis­klæddir. Tollstjóri ákveður fjárhæð slíkrar úthlutunar og getur sett henni nánari skilyrði.

VIII. KAFLI

Gildistaka.

28. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimildum í 2. mgr. 149. gr. og 193. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um einkennisbúninga, merki og búnað toll­gæslunnar nr. 905 frá 28. nóvember 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.

Eftir gildistöku reglugerðar þessarar er samkvæmt ákvörðun tollstjóra heimilt að nota áfram einkennisfatnað samkvæmt reglugerð nr. 905/2001.

Fjármálaráðuneytinu, 8. október 2010.

F. h. r.

Sigurður Guðmundsson.

Ögmundur Hrafn Magnússon.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica