Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 21. apríl 2010

804/1999

Reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri

I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.

1. gr. Markmið.

1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr og takmarka mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri.

1.2 Einnig er það markmið að stuðla að almennri vatnsvernd.

2. gr. Gildissvið.

2.1 Reglugerð þessi gildir um notkun áburðar í landbúnaði og köfnunarefnissambanda í öðrum atvinnurekstri, eftirlit með notkun þeirra, mælingar á næringarefnum í umhverfinu, einkum í yfirborðsvatni, skilgreiningu og kortlagningu viðkvæmra vatnasvæða, starfsreglur um góða búskaparhætti o.fl. sem tengist notkun köfnunarefnissambanda í landbúnaði. Reglugerðin gildir um atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögunni. Reglugerðin gildir einnig um athafnir einstaklinga eins og við getur átt.

3. gr. Skilgreiningar.

3.1 Aðgerðaáætlun er áætlun um aðgerðir til að hindra eða draga úr mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda.

3.2 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

3.3 Áburðargjöf er dreifing áburðar á yfirborð lands, dæling hans í jarðveg eða þegar hann er lagður undir yfirborð lands eða honum blandað saman við yfirborðslög.

3.4 Áburður er efni sem inniheldur köfnunarefnissamband eða köfnunarefnissambönd sem borin eru m.a. á land til þess að auka gróðurvöxt og getur t.d. verið tilbúinn áburður, búfjáráburður, seyra frá fiskeldisstöðvum og hreinsunarstöðvum.

3.5 Ármynni eru árósar á mörkum ferskvatns og strandsjávar.

3.6 Búfjárskarn er úrgangur, s.s. skítur, hland og mykja, frá búfjárhaldi.

3.7 Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins og einnig faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

3.8 Ferskvatn (ósalt vatn) er vatn sem hefur lítinn saltstyrk og er yfirleitt hæft til töku og vinnslu sem neysluvatn.

3.9 Grunnvatn er vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar.

3.10 Köfnunarefnismengun er bein eða óbein losun á köfnunarefnissamböndum í vatn og vatnasvið þannig að það geti valdið óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun vatns.

3.11 Köfnunarefnissamband er efni sem inniheldur köfnunarefni, þó ekki köfnunarefnissameindir í loftkenndu formi.

3.12 Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

3.13 Næringarefnaauðgun er röskun á búsvæðum og jafnvægi í vistkerfi vatns sem má rekja til ofauðgunar næringarsalta í vatni, einkum efnasambanda köfnunarefnis og fosfórs. Ofauðgun lýsir sér oft sem aukning í frumframleiðni.

3.14 Strandsjór er sjór sem nær frá fjörumörkum og ferskvatnsmörkum í vatnsföllum að mengunarlögsögu.

3.15 Tilbúinn áburður er verksmiðjuframleiddur áburður.

3.16 Vatn er grunnvatn og yfirborðsvatn.

3.17 Viðkvæm vatnasvæði eru í reglugerð þessari vatnasvæði sem gætu orðið fyrir áhrifum vegna nítratmengunar sé ekki gripið til verndaraðgerða, sbr. 1. mgr. 9. gr., eða vatnasvæði sem hafa orðið fyrir áhrifum vegna nítratmengunar.

3.18 Viðtaki er svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir.

3.19 Yfirborðsvatn er kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar, straumvötn, stöðuvötn og jöklar, svo og strandsvæði og strandsjór.

II. KAFLI Umsjón.

4. gr. Hlutverk Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.

4.1 Heilbrigðisnefndum, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, og Hollustuvernd ríkisins ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

III. KAFLI Meginreglur.

5. gr. Ráðstafanir til að draga úr köfnunarefnismengun.

5.1 Gera skal viðeigandi ráðstafanir til að draga úr hættu á að vatn mengist og koma í veg fyrir mengun í vatni af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði eða af öðrum orsökum.

5.2 Losun úrgangs frá búfjárframleiðslu í yfirborðsvatn er óheimil.

5.3 Um losun efna og skólps frá landbúnaði í fráveitur og viðtaka fer samkvæmt reglugerð um varnir gegn mengun vatns.

6. gr. Söfnun, geymsla og notkun áburðar.

6.1 Taka skal mið af starfsreglum um góða búskaparhætti, sbr. 14. gr., við geymslu og dreifingu tilbúins áburðar.

6.2 Við gripahús, þ.m.t. loðdýra-, svína- og alifuglabú, skulu vera vandaðar og þéttar hauggeymslur. Stærð hauggeymslu þarf að miða við að hægt sé að nýta hauginn sem áburð á skynsamlegan hátt þegar jörðin getur tekið við honum eða taka a. m. k. sex mánaða haug.

6.3 Við staðsetningu og frágang á hauggeymslum skal taka mið af vatnsverndarsvæðum, fjarlægðarmörkum fyrir vatnsból og starfsreglum um góða búskaparhætti, sbr. 14. gr. Að öðru leyti skal farið að fyrirmælum heilbrigðisnefndar um gerð og staðsetningu hauggeymslna og áburðargeymslna.

6.4 Taka skal mið af starfsreglum um góða búskaparhætti, sbr. 14. gr., varðandi notkun búfjáráburðar. Magn búfjáráburðar sem dreift er skal taka mið af áburðargildi hans og áburðarþörf gróðurs. Á ógróið land skal miða við venjulega túnskammta, sbr. starfsreglur um góða búskaparhætti.

6.5 Taka skal tillit til nálægrar starfsemi, íbúðarhúsa og orlofshverfa við dreifingu búfjáráburðar m.a. með því að virða hæfileg fjarlægðarmörk og miða við hagstæðar vindáttir við dreifingu.

7. gr. Starfsleyfisskyld búfjárframleiðsla.

7.1 Í starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu skulu vera ákvæði um söfnun og geymslu búfjárskarns og dreifingu búfjáráburðar sem taki mið af starfsreglum um góða búskaparhætti, sbr. 14. gr. Við það skal miðað að dreifing búfjáráburðar fari að jafnaði fram á tímabilinu 15. mars til 1. nóvember ár hvert og að jafnaði sé ekki dreift á frosna jörð.

7.2 Í umsókn um starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu geri fyrirtækið grein fyrir söfnun og geymslu búfjárskarns og dreifingu búfjáráburðar. Einnig ráðstafanir fyrirtækisins til vatnsverndar og til að draga úr óþægindum m.a. vegna lyktarvandamála vegna geymslu búfjárskarns og dreifingar búfjáráburðar. Áætlanir fyrirtækisins taki mið af starfsreglum um góða búskaparhætti, sbr. 14. gr.

7.3 Fyrirtækið geri grein fyrir því landrými sem til ráðstöfunar er til dreifingar búfjáráburðar og hvernig sé tryggður annar farvegur til förgunar ef landrými er ekki nægjanlegt fyrir áburðardreifingu þar sem tekið sé mið af starfsreglum um góða búskaparhætti hvað varðar áburðarmagn.

7.4 Með umsókn um starfsleyfi skal einnig skila inn upplýsingum þar sem gerð er grein fyrir magni köfnunarefnis í hverju tonni mykju, gróðurfari á mismunandi dreifingarlandi og upplýsingum um fyrirhugað magn áburðar sem dreifa á á hvert svæði og annað sem máli kann að skipta í ákvörðun um magn til dreifingar.

8. gr. Mælingar á nítrati o.fl.

8.1 Heilbrigðisnefndir skulu láta mæla nítratstyrk í ferskvatni sem nýtt er sem neysluvatn. Hollustuvernd ríkisins skal sjá um að vöktun sé framkvæmd sem hér segir:

1. mæla nítratstyrk a.m.k. mánaðarlega í eitt ár á völdum sýnatökustöðum í yfirborðsvatni sem nýtt er sem neysluvatn, sbr. reglugerð nr. 319/1995 um neysluvatn og/eða á öðrum sýnatökustöðum sem eru dæmigerðir fyrir yfirborðsvatn. Ef nauðsynlegt reynist, t.d. vegna flóða, ber að mæla nítratstyrk oftar.

2. mæla reglulega í eitt ár á völdum sýnatökustöðum í grunnvatni sem er dæmigert fyrir vatnafar svæðisins. Leggja skal áherslu á vatn sem nýtt er sem neysluvatn, sbr. tilvitnaða reglugerð.

8.2 Endurtaka skal mælingar á nítratstyrk samkvæmt 1. mgr. á a.m.k. fjögurra ára fresti nema á sýnatökustöðum þar sem styrkurinn í öllum eldri sýnum reyndist vera undir 25 mg/l enda hafi ekkert komið í ljós sem bendir til þess að nítratmagn muni aukast og er þá nóg að endurtaka mælinguna á átta ára fresti.

8.3 Hollustuvernd ríkisins sér um að mælingar á vatnsgæðum m.t.t. næringarástands í fersku yfirborðsvatni, vatni í ármynnum og í strandsjó séu framkvæmdar fjórða hvert ár.

8.4 Nota skal mælingaraðferðir sem mælt er fyrir um í IV. viðauka með reglugerðinni.

9. gr. Skilgreining og kortlagning vatnasvæða.

9.1 Viðkomandi heilbrigðisnefnd skilgreinir og kortleggur sérstaklega vatnasvæði sem talin eru viðkvæm og hafa lítið viðnám gegn köfnunarefnismengun, eru menguð eða gætu mengast af völdum köfnunarefnis, sbr. viðmiðanir í I. viðauka, ef ekki er gripið til sérstakra aðgerða til verndar.

9.2 Viðkomandi heilbrigðisnefnd sendir Hollustuvernd ríkisins yfirlit og kort yfir vatnasvæði samkvæmt 1. mgr. Stofnunin metur í ljósi aðsendra upplýsinga hvort um viðkvæmt vatnasvæði er að ræða og gefur út lista yfir þau. Viðkvæm vatnasvæði skal tilgreina í skipulagsáætlunum. Við gæðaflokkun og kortlagningu skal fara eftir ákvæðum reglugerðar um varnir gegn mengun vatns eftir því sem við á.

9.3 Við gerð skipulagsáætlana skal byggja á gögnum heilbrigðisnefndar og lista, sbr. 1. og 2. mgr., og skal Hollustuvernd ríkisins kynna hlutaðeigandi sveitarfélögum, landbúnaðarráðuneyti og Skipulagsstofnun efni listans.

9.4 Hafi aðgerðaáætlun, sbr. 4. kafla, verið samin fyrir allt landið og sé unnið samkvæmt henni er ekki nauðsynlegt að kortleggja tiltekin viðkvæm vatnasvæði samkvæmt þessari reglugerð.

10. gr. Endurskoðun skilgreininga.

10.1 Eigi sjaldnar en fjórða hvert ár skal heilbrigðisnefnd endurskoða skilgreiningar og kortlagningar samkvæmt 9. gr. með tilliti til breyttra aðstæðna.

10.2 Í kjölfar endurskoðunar heilbrigðisnefndar endurskoðar Hollustuvernd ríkisins lista yfir viðkvæm vatnasvæði, sbr. 9. gr.

IV. KAFLI Aðgerðaáætlanir.

11. gr. Almennar reglur.

11.1 Hollustuvernd ríkisins skal í samráði við heilbrigðisnefndir semja aðgerðaáætlun eða aðgerðaáætlanir vegna viðkvæmra vatnasvæða sem hafa verið kortlögð, sbr. 9. gr. Heimilt er að semja aðgerðaáætlun fyrir landið allt, fyrir tiltekin viðkvæm vatnasvæði eða hluta þeirra.

11.2 Aðgerðaáætlun tekur mið af tiltækum vísindagögnum, upplýsingum og tækni, einkum um magn köfnunarefnis frá landbúnaði eða frá öðrum upptökum og umhverfisaðstæðum á viðkomandi svæðum.

11.3 Stofnuninni er heimilt að óska eftir tilteknum upplýsingum og gögnum frá heilbrigðisnefndum ef nauðsynlegt reynist til þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til efnis áætlunarinnar.

11.4 Aðgerðaáætlanir byggjast á ákvæðum þessarar og annarra reglugerða um vatnsvernd og skilyrðum viðkomandi heilbrigðisnefndar og Hollustuverndar ríkisins.

11.5 Aðgerðaáætlanir og viðbótarráðstafanir skal endurskoða á a.m.k. fjögurra ára fresti.

12. gr. Efni, birting og framkvæmd aðgerðaáætlana.

12.1 Í aðgerðaáætlunum skulu vera bindandi ráðstafanir í samræmi við III. viðauka reglugerðarinnar og í samræmi við starfsreglur um góða búskaparhætti í samræmi við II. viðauka reglugerðarinnar.

12.2 Ráðherra skal birta aðgerðaáætlanir sem auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda og skal þeim hrundið í framkvæmd innan fjögurra ára frá birtingu.

13. gr. Viðbótarráðstafanir.

13.1 Nú er fyrirsjáanlegt að ráðstafanir í samræmi við reglugerðina duga ekki til þess að ná markmiðum hennar og skal þá innan marka aðgerðaáætlana gera þær viðbótarráðstafanir og aðgerðir sem nauðsynlegar eru. Við ákvörðun viðbótarráðstafana skal hafa hliðsjón af fyrirsjáanlegum árangri og kostnaði miðað við aðrar mögulegar verndaraðgerðir.

V. KAFLI Góðir búskaparhættir.

14. gr. Starfsreglur.

14.1 Til að stuðla að vernd vatns gegn köfnunarefnismengun af völdum notkunar áburðar í landbúnaði gefur Hollustuvernd ríkisins út starfsreglur um góða búskaparhætti í samráði við landbúnaðarráðuneyti og viðkomandi stofnanir þess.

14.2 Í starfsreglunum skulu vera a. m. k. ákvæði um þau atriði sem tilgreind eru í II. viðauka A með reglugerð þessari. Hollustuvernd ríkisins skal í samráði við landbúnaðarráðuneyti koma starfsreglunum á framfæri við bændur.

14.3 Ef þörf er á skal Hollustuvernd ríkisins í samráði við Bændasamtök Íslands og landbúnaðarráðuneyti setja upp áætlun um þjálfun og upplýsingar til bænda til að hvetja til að farið verði eftir starfsreglum um góða búskaparhætti.

VI. KAFLI Ýmis ákvæði.

15. gr. Rannsóknaráætlanir.

15.1 Hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd í samráði við Hollustuvernd ríkisins metur árangurinn af aðgerðaáætlun fyrir viðkvæm vatnasvæði samkvæmt reglugerðinni og semur rannsóknaráætlun ef þörf er á.

15.2 Viðkomandi heilbrigðisnefnd ber ábyrgð á framkvæmd mælinga samkvæmt rannsóknaráætlun, sbr. 1. mgr., og ber m.a. að mæla styrk næringarefna í yfirborðsvatni og nítrat í grunnvatni og sendir upplýsingar til Hollustuverndar ríkisins.

16. gr. Leiðbeiningar vegna mengunarvarnaeftirlits.

16.1 Hollustuvernd ríkisins í samráði við heilbrigðisnefndir skal semja sérstakar leiðbeiningar um mengunarvarnaeftirlit samkvæmt reglugerð þessari.

17. gr. Yfirlitsskýrsla.

17.1 Hollustuvernd ríkisins gefur á fjögurra ára fresti út yfirlitsskýrslu samkvæmt V. viðauka um stöðu og ástand mála hvað næringarefnaauðgun í fersku vatni, ármynni, strandsjó og strandsvæði varðar.

VII. KAFLI Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.

18. gr. Aðgangur að upplýsingum.

18.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

19. gr. Þagnarskylda eftirlitsaðila.

19.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

19.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

20. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.

20.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunavarnaeftirlit þegar við á. Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.

21. gr. Viðurlög.

21.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

21.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

VIII. KAFLI Lagastoð, gildistaka o.fl.

22. gr.

22.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og samkvæmt 9. gr. laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.

22.2 Reglugerðin er einnig sett með hliðsjón af 13. tölul. a XX. viðauka EES-samningsins, (tilskipun 91/676/EBE).

22.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. skal innan 10 ára frá gildistöku reglugerðar þessarar koma upp hauggeymslum af réttri stærð á búum þar sem slíkar hauggeymslur eru ekki til við gildistöku þessarar reglugerðar.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 2. ml. 2. mgr. 6. gr. hafa kúabú frest til 1. júlí 2015 til að koma upp hauggeymslum af réttri stærð.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.