Viðskiptaráðuneyti

792/2003

Reglugerð um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. - Brottfallin

I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

Reglugerð þessi gildir um starfsemi verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða, rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja samkvæmt lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.


II. KAFLI
Útvistun verkefna rekstrarfélags.
2. gr.

Fjármálaeftirlitið skal því aðeins samþykkja útvistun verkefna rekstrarfélags skv. 18. gr. laga nr. 30/2003, að:

1. Útvistunin hindri ekki að mati Fjármálaeftirlitsins eftirlit með rekstrarfélaginu eða komi í veg fyrir að verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður sé rekinn með hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina eða hluta að leiðarljósi.
2. Rekstraraðili sem annast fjárfestingar verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs í samræmi við fjárfestingarstefnu skv. 17. gr. laga nr. 30/2003, sé fjármálafyrirtæki sem heimild hefur til eignastýringar eða samsvarandi fyrirtæki með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu.
3. Tryggt sé að fjármálafyrirtæki sem hefur staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins og annast fjárfestingar verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs búi að mati Fjármálaeftirlitsins við sambærilegt eftirlit og verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir og samstarf Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda heimaríkis sjóðsins sé tryggt með fullnægjandi hætti.
4. Ráðstafanir hafi verið gerðar sem geri rekstrarfélaginu kleift að hafa á hverjum tíma skilvirkt eftirlit með starfsemi rekstraraðilans.
5. Rekstrarfélagið geti hvenær sem er gefið frekari fyrirmæli til rekstraraðilans og sagt umsvifalaust upp samningi við hann um útvistun, ef það þjónar hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina eða hluta í sjóðnum.
6. Rekstraraðilinn sem útvista á verkefnum til, sé hæfur til að annast þau verkefni sem honum eru falin.


III. KAFLI
Innlausn.
3. gr.
Orðskýringar.

Í kafla þessum merkir:

1. Kaupgengi hlutdeildarskírteina eða hluta: Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina eða hluta.
2. Sölugengi hlutdeildarskírteina eða hluta: Söluverð hlutdeildarskírteina eða hluta.
3. Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina eða hluta: Markaðsvirði samanlagðra eigna verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs að frádregnum skuldum hans við innlausn samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 30/2003.
4. Markaðsvirði: Skráð eða áætlað andvirði fjármálagerninga á markaði á hverjum tíma.


4. gr.
Mat á eignum.

Mat á eignum verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar skal á hverjum tíma endurspegla raunverulegt virði þeirra að teknu tilliti til markaðsaðstæðna.

Fjármálagerningar í eigu verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar sem skráðir eru á skipulegum verðbréfamarkaði skulu metnir samkvæmt dagslokagengi viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar.

Virði annarra fjármálagerninga verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar en um ræðir í 2. mgr. skal háð mati rekstrarfélags, undir eftirliti vörslufélags og endurskoðanda, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna hverju sinni.

Rekstrarfélag skal halda skrá yfir mat eigna skv. 3. mgr. á hverjum tíma þar sem fram koma forsendur við mat á eignum.


5. gr.
Niðurfærslureikningur.

Fyrir hvern verðbréfasjóð, fjárfestingarsjóð eða einstaka sjóðsdeild skal mynda niðurfærslureikning vegna fjármálagerninga skv. 3. mgr. 4. gr. í því skyni að gengi hlutdeildarskírteina eða hluta endurspegli sem best verðmæti eigna hlutaðeigandi sjóðs eða deildar á hverjum tíma.


6. gr.
Upplýsingar um gengi.

Kaupgengi, innlausnarvirði og sölugengi hlutdeildarskírteina eða hluta verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar skal reiknað út daglega.

Ávallt skulu liggja fyrir upplýsingar um kaupgengi, innlausnarvirði og sölugengi hlutdeildarskírteina eða hluta verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar, svo og upplýsingar um umsýslu- og stjórnunarkostnað hlutaðeigandi sjóðs eða sjóðsdeildar til reiðu fyrir eigendur hlutdeildarskírteina eða hluta.


IV. KAFLI
Fjárfestingarheimildir.
7. gr.
Peningamarkaðssjóðir.

Verðbréfasjóður, fjárfestingarsjóður eða sjóðsdeild getur því aðeins átt viðskipti með peningamarkaðsskjöl sem ekki eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. 7. tölul. 30. gr. laga nr. 30/2003, ef útgáfa eða útgefandi þessara skjala sætir eftirliti lögbærra aðila í þeim tilgangi að vernda fjárfesta og sparifé og að því tilskyldu að:

1. ríkisstjórn eða svæðis- eða staðaryfirvöld eða seðlabanki ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins, Seðlabanki Evrópu, Evrópusambandið eða Fjárfestingarbanki Evrópu, þriðja land eða, ef um sambandsríki er að ræða, eitt ríkjanna í sambandinu eða opinber eða alþjóðleg stofnun, sem eitt eða fleiri aðildarríkjanna eiga aðild að, gefi þau út eða ábyrgist þau, eða
2. fyrirtæki gefi þau út og viðskipti eiga sér stað með hluti þess á skipulegum verðbréfamarkaði, eða
3. fyrirtæki sem sætir opinberu eftirliti lögbærra aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sambærilegu eftirliti, gefi þau út eða ábyrgist þau, eða
4. aðrir aðilar sem Fjármálaeftirlitið hefur viðurkennt gefi þau út eða ábyrgist þau, að því tilskyldu að
a) fjárfesting í slíkum skjölum heyri undir fjárfestavernd sem jafngildir þeirri vernd sem kveðið er á um á skipulegum verðbréfamarkaði og
b) útgefandi fjármálagerninganna:
i. hafi eigið fé sem nemi að minnsta kosti 10 milljónum evra;
ii. birti ársreikninga sína í samræmi við tilskipanir um ársreikninga og
iii. er annaðhvort aðili innan félagasamstæðu, með eitt eða fleiri skráð félög, og helgar sig fjármögnun samstæðunnar eða er aðili sem helgar sig fjármögnun verðbréfunar með stoð í lánasamningi við fjármálafyrirtæki.


8. gr.
Viðskipti með afleiður.

Viðskipti með afleiður mega ekki verða til þess að verðbréfasjóðurinn, fjárfestingarsjóðurinn eða sjóðsdeild víki frá fjárfestingarstefnu sinni eins og hún er sett fram í reglum sjóðsins og útboðslýsingu.

Notkun afleiða má ekki leiða til þess að samanlögð áhætta undirliggjandi eigna fari yfir leyfileg mörk skv. 35. gr. og 3. tölul. 54. gr. laga nr. 30/2003.

Ef verðbréf eða peningamarkaðsskjal felur í sér afleiðu skal tekið mið af því þegar kröfur samkvæmt þessari grein eru uppfylltar.


9. gr.
Vísitölusjóðir.

Verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði eða sjóðsdeild skv. 36. gr. laga nr. 30/2003, ber að endurspegla viðkomandi vísitölu í sömu hlutföllum og hún er samsett á hverjum tíma, sbr. þó 2. mgr. Þessi grein tekur ekki til sjóða sem miða að því að endurspegla árangur vísitölu og stefna að því að gera betur en vísitalan.

Nú verða breytingar á vísitölu þannig að nýir fjármálagerningar eru teknir í vísitöluna og fyrirliggjandi fjármálagerningar felldir brott, og er þá verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði eða einstökum deildum hans heimilt að víkja tímabundið frá skilyrðum 1. málsl. 1. mgr. vegna markaðsaðstæðna, þ.e. ef seljanleiki fjármálagerninganna er lítill eða kostnaður við viðskipti með undirliggjandi fjármálagerninga óhæfilega hár.

Verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður samkvæmt þessari grein er ekki bundin af takmörkunum 3. mgr. 35. gr. og 3. tölul. 54. gr. laganna.


10. gr.
Sjóðasjóðir.

Vernd eigenda hlutdeildarskírteina eða hluta í öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu skv. 3. tölul. 30. gr. laga nr. 30/2003 skal vera sambærileg og í verðbréfasjóðum einkum er varðar innlausnarrétt, vörslufyrirtæki, lán, lántökur og skortsölu.


11. gr.
Traust verðbréf.

Verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður sem hefur heimild til að fjárfesta allt að 100% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum skv. 37. gr. laga nr. 30/2003 skal taka skýrt fram í reglum sjóðsins þau ríki, sveitarstjórnir eða alþjóðastofnanir sem gefa út eða ábyrgjast verðbréf og/eða peningamarkaðsskjöl sem sjóðurinn hyggst fjárfesta í meira en 35% eigna sinna.


V. KAFLI
Markaðssetning utan heimalands.
12. gr.
Gildissvið.

Kafli þessi tekur til erlendra verðbréfasjóða sem hafa staðfestingu samkvæmt tilskipun 85/611/EBE, með síðari breytingum, (UCITS) og hyggjast hefja markaðssetningu hlutdeildarskírteina eða hluta sinna til almennings hér á landi.

Kafli þessi tekur einnig til annarra erlendra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, með staðfestu innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hyggjast hefja markaðssetningu hlutdeildarskírteina eða hluta sinna til almennings hér á landi og uppfylla eftirtalin skilyrði:

1. Hafa að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu.
2. Lúta eftirliti lögbærra aðila samkvæmt lögum heimaríkis viðkomandi sjóðs.

Ekki er heimilt að markaðssetja til almennings hérlendis aðra erlenda sjóði um sameiginlega fjárfestingu en um er getið í þessari grein.


13. gr.
Undanþága.

Undanþegnir ákvæðum þessa kafla eru verðbréfasjóðir og aðrir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu sem hyggjast eingöngu markaðssetja hlutdeildarskírteini eða hluti sína til tilgreinds afmarkaðs hóps aðila, án almennrar auglýsingar eða kynningar, enda sé hópurinn ekki stærri en 25 aðilar, eða til fagfjárfesta.

Markaðssetning merkir í reglugerð þessari tilboð eða hvatningu, með auglýsingum eða annarri kynningu, um kaup á hlutdeildarskírteinum eða hlutum í verðbréfasjóði eða öðrum sjóði um sameiginlega fjárfestingu.


14. gr.
Verðbréfasjóðir (UCITS).

Erlendur verðbréfasjóður (UCITS) með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins getur markaðssett hlutdeildarskírteini sín eða hluti hér á landi tveimur mánuðum eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða starfsemi frá verðbréfasjóðnum skv. 43. gr. laga nr. 30/2003.

Lýsing á framkvæmd fyrirhugaðrar markaðssetningar hlutdeildarskírteina eða hluta verðbréfasjóðsins skv. 5. tölul. 43. gr. laga nr. 30/2003, skal hafa að geyma upplýsingar um hverjir muni annast sölu og hafa lögformlega heimild til innlausnar fyrir hönd verðbréfasjóðsins og hver væntanlegur markhópur fjárfesta verður.

Í upplýsingum skv. 6. tölul. 43. gr. laga nr. 30/2003, skulu m.a. koma fram upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir sjóðsins til að tryggja rétt viðskiptamanna ef sjóðurinn hyggst hætta starfsemi eða markaðssetningu hérlendis.


15. gr.
Aðrir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu (Non-UCITS).

Aðrir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu en verðbréfasjóðir sem hyggjast hefja markaðssetningu hlutdeildarskírteina eða hluta sinna hér á landi skulu sækja um heimild til Fjármálaeftirlitsins, sbr. þó 13. gr., og samhliða senda Fjármálaeftirlitinu eftirtalin gögn:

1. Reglur eða samþykktir sjóðsins.
2. Útboðslýsingu. Útboðslýsing skal hafa að geyma upplýsingar skv. 5. tölul. þessarar greinar.
3. Endurskoðaðan ársreikning næstliðins árs, sé hann fyrirliggjandi, og síðari hálfsársuppgjör.
4. Lýsingu á framkvæmd fyrirhugaðrar markaðssetningar hlutdeildarskírteina eða hluta sjóðsins. Skal lýsingin hafa að geyma upplýsingar um hverjir muni annast sölu og hafa lögformlega heimild til innlausnar fyrir hönd sjóðsins og hver væntanlegur markhópur fjárfesta verður.
5. Upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir sjóðsins til að tryggja rétt eigenda hlutdeildarskírteina eða hluta til útgreiðslu hagnaðar, innlausnar og þeirra upplýsinga sem fyrirtækinu er skylt að miðla, þ.m.t. ef sjóðurinn hyggst hætta starfsemi eða markaðssetningu hérlendis.
6. Yfirlýsingu frá lögbæru yfirvaldi heimaríkis sjóðsins þar sem fram komi að sjóðurinn og rekstrarfélag hans hafi staðfestingu eða starfsleyfi í samræmi við löggjöf heimaríkisins og lúti eftirliti þess, þ.m.t. vegna athafna þess hérlendis.
7. Yfirlýsingu frá lögbæru yfirvaldi heimaríkis sjóðsins þess efnis að það sé reiðubúið að veita sambærilegum íslenskum sjóðum heimild til markaðssetningar í viðkomandi ríki. Ríki sem falla undir svæði A í viðauka I í reglum nr. 530/2003, um eiginfjárhlutfall lánastofnana, eru undanþegin þessum tölulið.

Breytingar á áður tilkynntum atriðum samkvæmt þessari grein skulu þegar tilkynntar Fjármálaeftirlitinu.

Fjármálaeftirlitið getur hafnað því að sjóður samkvæmt þessari grein hefji markaðssetningu hér á landi ef hann uppfyllir ekki þau skilyrði sem gerð eru til sjóða samkvæmt þessum kafla. Fjármálaeftirlitið skal rökstyðja synjun skriflega til sjóðsins áður en frestur skv. 4. mgr. rennur út.

Sjóðum samkvæmt þessari grein er heimilt að hefja starfsemi eða markaðssetningu hérlendis tveimur mánuðum eftir að skilyrði 1.-7. tl. 1. mgr. þessarar greinar hafa verið uppfyllt.


16. gr.
Upplýsingar á íslensku.

Upplýsingar sem sendar eru Fjármálaeftirlitinu skv. 14. og 15. gr. skulu vera á íslensku, nema það heimili annað sérstaklega.

Skjöl og aðrar upplýsingar sem verðbréfasjóði eða öðrum sjóði um sameiginlega fjárfestingu er skylt að gera opinberar í heimaríki sínu skulu einnig birtar opinberlega hér á landi í íslenskri þýðingu, nema Fjármálaeftirlitið heimili annað sérstaklega. Upplýsingar um eftirfarandi atriði skulu þó ávallt vera aðgengilegar fjárfestum og liggja frammi þýddar á íslensku:

1. Ávöxtun á undanförnum þremur árum.
2. Fjárfestingarstefna og eignasamsetning sjóðsins.
3. Kostnaður við stjórnun sjóðsins, kaup og sölu verðbréfa og við flutning milli verðbréfasjóða.
4. Hvernig staðið er að kaupum og innlausn hlutdeildarskírteina og hluta sem og tímamörk innlausnar.
5. Útgreiðsla hagnaðar.


17. gr.
Heiti sjóða.

Verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu er heimilt að nota sama heiti og þeir nota í heimaríki sínu vegna markaðssetningar hlutdeildarskírteina og hluta sinna hér á landi. Sé heitið villandi eða feli í sér hættu á ruglingi er Fjármálaeftirlitinu þó heimilt að krefjast þess að nafn verðbréfasjóðs eða annars sjóðs um sameiginlega fjárfestingu verði auðkennt sérstaklega til skýringar.


18. gr.
Markaðssetningu hætt að kröfu Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að verðbréfasjóður eða annar sjóður um sameiginlega fjárfestingu hætti markaðssetningu hlutdeildarskírteina eða hluta hér á landi ef:

1. Ráðstafanir sjóðsins til að tryggja rétt viðskiptamanna til útgreiðslu hagnaðar, innlausnar og þeirra upplýsinga sem skylt er að miðla teljast ekki nægilegar.
2. Sjóðurinn brýtur ítrekað eða með alvarlegum hætti gegn ákvæðum laga eða reglugerðar þessarar.
3. Ef sjóðurinn fylgir ekki áætlun um fyrirhugaða markaðssetningu.
4. Ef staðfesting eða eftirlit með sjóðnum, sbr. 6. tl. 1. mgr. 15. gr., er afturkallað.
5. Ef möguleikar íslenskra sjóða, sbr. 7. tl. 1. mgr. 15. gr., til markaðssetningar í viðkomandi landi breytast eða falla niður.


VI. KAFLI
Upplýsingagjöf.
19. gr.
Ársreikningar og árshlutauppgjör.

Um sérgreindar upplýsingar um verðbréfasjóð, fjárfestingarsjóð eða sérhverja deild fer samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.


20. gr.
Upplýsingar í útboðslýsingu.

Rekstrarfélag skal gefa út útboðslýsingu vegna hvers verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs, eða sérhverrar deildar þeirra, sem það annast rekstur á. Ákvæði þessa kafla gilda um fjárfestingarsjóði sem gefa út hlutabréf eftir því sem við getur átt.

Í útboðslýsingu skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar til að fjárfestum sé kleift að meta kosti fjárfestinga í viðkomandi sjóði.

Í útboðslýsingu skulu að lágmarki koma fram eftirfarandi upplýsingar:

Upplýsingar um verðbréfasjóð eða fjárfestingarsjóð:

1. Heiti.
2. Stofndagur.
3. Hvort sjóður sé deildaskiptur.
4. Hvar fá megi reglur og reglulegar skýrslur um starfsemi sjóðsins.
5. Stutt lýsing á skattareglum og skattalegri meðferð sem gilda um hlutdeildarskírteini eða hluti í sjóðnum og upplýsingar um kostnað og annan frádrátt frá tekjum eða hagnaði af fjármálagerningum í eigu sjóðsins sem eigendur sjóðsins fá í sinn hlut.
6. Birtingartími ársreiknings og árshlutauppgjörs og hvenær arður eða annar hagnaður af starfsemi sjóðsins verði greiddur út til eigenda.
7. Upplýsingar um tegundir og helstu einkenni hlutdeildarskírteina eða hluta, meðal annars:
7.1. eðli þeirra réttinda sem hlutdeildarskírteini eða hlutir veita,
7.2. skilríki sem veita sönnun fyrir eignarrétti að hlutdeildarskírteinum eða hlutum og / eða færslum á skrá eða reikning,
7.3. einkenni hlutdeildarskírteina eða hluta,
7.4. atkvæðisréttur eigenda hlutdeildarskírteina eða hluta ef við á,
7.5. við hverjar aðstæður megi ákveða að loka sjóðnum og hvernig að því skuli staðið, einkum með tilliti til réttar eigenda hans.
8. Þar sem við á skal tilgreina á hvaða skipulegum verðbréfamörkuðum hlutdeildarskírteinin eða hlutirnir eru eða munu verða skráðir eða ganga kaupum og sölum.
9. Tilhögun og skilyrði fyrir útgáfu og sölu hlutdeildarskírteina eða hluta.
10. Tilhögun og skilyrði fyrir endurkaupum eða innlausn hlutdeildarskírteina eða hluta og við hverjar aðstæður megi fresta endurkaupum eða innlausn.
11. Reglur um útreikning og ráðstöfun tekna.
12. Fjárfestingarmarkmið verðbréfasjóðsins, þar á meðal fjárhagslegur tilgangur (þ.e. uppsöfnunar- eða tekjusjóður), fjárfestingarstefna (t.d. sérhæfing eftir landssvæðum eða atvinnugreinum), takmarkanir á þeirri fjárfestingarstefnu og tilgreining aðferða og, samninga eða lántökuheimilda sem heimilt er að nota við rekstur sjóðsins.
13. Reglur um mat eigna.
14. Ákvörðun um sölu- eða útgáfuverð og endurkaups- eða innlausnarverð hlutdeildarskírteina eða hluta, meðal annars:
14.1. hvernig og hve oft verð eru reiknuð,
14.2. upplýsingar um gjöld af sölu, útgáfu, endurkaup eða innlausn skírteina eða hluta,
14.3. hvernig og hvar og hve oft verð eru birt.
15. Upplýsingar um þóknun sem sjóðurinn greiðir rekstrarfélagi, vörslufyrirtæki eða þriðja aðila, ef við á, hvers eðlis hún er, upphæð hennar og endurgreiðslu sjóðsins á kostnaði til þeirra.

Upplýsingar um rekstrarfélag:

1. Heiti, rekstrarform, skráð skrifstofa og aðalskrifstofa.
2. Stofndagur.
3. Aðrir sjóðir sem rekstrarfélagið annast rekstur á.
4. Nöfn og staða stjórnar, varastjórnar og framkvæmdastjóra rekstrarfélagsins. Upplýsingar um helstu störf þeirra utan rekstrarfélags, ef þau skipta máli hvað rekstrarfélagið snertir.
5. Nöfn og heimilisföng löggiltra endurskoðenda rekstrarfélagsins.
6. Hlutafé og hve mikið hefur verið greitt.

Upplýsingar um vörslufyrirtæki:

1. Heiti og félagsform.
2. Skráð skrifstofa.
3. Meginstarfsemi.

Aðrar upplýsingar:

1. Tilgreind skal sú starfsemi sem rekstrarfélaginu hefur verið heimilað að úthýsa.
2. Upplýsingar um aðila utan rekstrarfélags sem veita ráðgjöf samkvæmt samningi sem greitt er fyrir af eignum sjóðsins:
2.1. Heiti fyrirtækisins eða nafn ráðgjafans.
2.2. Þau ákvæði samningsins sem máli skipta og kunna að varða eigendur sjóðsins, að öðru leyti en hvað varðar þóknun.
2.3. Önnur starfsemi sem máli skiptir.
3. Vekja skal athygli á heimild og nefnd þau ríki, sveitarstjórnir og/eða alþjóðastofnanir sem gefa út eða ábyrgjast verðbréf sem sjóðurinn hefur fjárfest í eða hyggst fjárfesta í fyrir meira en 35% eigna sinna.
4. Fyrri árangur sjóðsins.
5. Lýsing á dæmigerðum fjárfesti sem sjóðurinn er ætlaður fyrir.
6. Hugsanlegur kostnaður, nema útgjöld vegna 14. tl. upplýsinga um verðbréfasjóð og fjárfestingarsjóð, og skal greina á milli þeirra sem eigendur hlutdeildarskírteina eða hluta greiða og þeirra sem greidd eru af eignum sjóðsins.
7. Upplýsingar skv. 48. gr. laga nr. 30/2003.

Reglur verðbréfasjóðs og fjárfestingarsjóðs skulu vera hluti útboðslýsingar og fylgja henni. Upplýsingar sem fram koma í reglunum þarf ekki að taka sérstaklega fram í útboðslýsingu.


21. gr.
Upplýsingar í útdrætti úr útboðslýsingu.

Rekstrarfélag skal gefa út útdrátt úr útboðslýsingu vegna hvers verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sérhverrar deildar þeirra, sem það annast rekstur á.

Í útdrætti skal draga fram meginatriði útboðslýsingar. Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram:

Stutt kynning á sjóðnum:

1. Hvenær sjóðurinn var stofnaður og í hvaða aðildarríki hefur hann verið skráður.
2. Hvort sjóðurinn sé rekinn í einni deild eða fleirum.
3. Rekstrarfélag.
4. Áætlaður líftími sjóðsins, ef við á.
5. Vörslufyrirtæki.
6. Endurskoðendur.
7. Fjármálasamstæða sem stendur að baki sjóðnum, t.d. banki.

Upplýsingar um fjárfestingar:

1. Stutt skilgreining á markmiðum sjóðsins.
2. Fjárfestingarstefna og stutt greinargerð um áhættustig sjóðsins,
3. Fyrri árangur sjóðsins og viðvörun um að ekki megi álykta út frá henni um árangur hans í framtíðinni.
4. Lýsing á dæmigerðum fjárfesti sem sjóðurinn er ætlaður fyrir.

Fjárhagslegar upplýsingar:

1. Skattalegar upplýsingar.
2. Kaup- og söluþóknun.
3. Annar hugsanlegur kostnaður og skal greina á milli kostnaðar sem eigendur hlutdeildarskírteina eða hluta greiða og kostnaðar sem greiddur eru af eignum sjóðsins.

Viðskiptaupplýsingar:

1. Hvernig hlutdeildarskírteini eða hlutir eru keypt.
2. Hvernig hlutdeildarskírteini eða hlutir eru seld.
3. Þegar um er að ræða sjóð með aðgreindar deildir skal greina frá því hvernig unnt er að flytja sig úr einni deild í aðra og hvaða kostnaður fylgi því.
4. Hvenær og hvernig arði af hlutdeildarskírteinum eða hlutum er úthlutað, ef við á.
5. Hversu oft, hvenær og hvernig gengi er birt eða gert opinbert.

Viðbótarupplýsingar:

1. Ábending um að unnt sé að fá útboðslýsingu, ársreikning og hlutaársreikning án endurgjalds, fyrir og eftir samningsgerð, sé þess óskað.
2. Lögbært yfirvald sjóðsins.
3. Ábending um tengilið þar sem fá má frekari skýringar ef þörf krefur.
4. Útgáfudagur útboðslýsingar.


22. gr.
Form útboðslýsingar.

Bæði útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu geta verið skriflegt skjal eða á varanlegum miðli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.


23. gr.
Kynning og uppfærsla útboðslýsingar.

Útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu skulu send Fjármálaeftirlitinu. Verði breytingar á efnisatriðum útboðslýsingar eða útdráttar úr útboðslýsingu skulu þær sendar Fjármálaeftirlitinu og kynntar eigendum hlutdeildarskírteina eða hluta með opinberum hætti.

Helstu atriði útboðslýsingar og útdráttar úr útboðslýsingu skulu að jafnaði endurnýjuð eigi sjaldnar en árlega.


VIII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
24. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 18. gr., 28. gr., 46. gr., 47. gr. og 67. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglugerð nr. 550/1989, um varðveislu verðbréfa verðbréfasjóðs, reglugerð nr. 362/1993, um framkvæmd útreiknings á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs, með síðari breytingum, reglugerð nr. 369/1993, um starfsemi og markaðssetningu erlendra verðbréfasjóða á Íslandi, reglur nr. 695/2001, um ársreikninga verðbréfasjóða, reglur nr. 686/2001, um útboðslýsingar verðbréfasjóða og reglur nr. 331/2003, um vísitölusjóði.

Verðbréfasjóðir og aðrir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu sem reglugerð þessi tekur til og þegar bjóða fram þjónustu sína hér á landi skulu fullnægja ákvæðum V. kafla eigi síðar en 1. janúar 2004.


Viðskiptaráðuneytinu, 20. október 2003.

F. h. r.
Kristján Skarphéðinsson.
Benedikt Árnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica